03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5158 í B-deild Alþingistíðinda. (4536)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Frsm. minni hl. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Till. þessi til þál. um vistunarvanda öryrkja var til þess fram borin að skjót lausn yrði fundin á vanda tiltölulega fárra sjúklinga, sem eru svo illa farnir af völdum slysa eða annarra áfalla, bæði andlega og líkamlega, að sjúkrastofnanir geta ekki sinnt þeim með því starfsfólki sem þar er og þeirri aðstöðu sem þeim er búin. Vandi aðstandenda þessara sjúklinga er í öllum tilvikum gjörsamlega óbærilegur og heimilislífi jafnvel stefnt í voða víða vegna þess álags sem það er að hafa þessa sjúklinga ýmist inni á heimilum eða hafa af þeim stöðugar áhyggjur og óttast um hvað um þá verður í framtíðinni.

Meiri hl. hv. allshn. hefur orðið sammála um að afgreiða till. með rökstuddri dagskrá, eins og segir með leyfi forseta:

„Í trausti þess að heilbr.- og trmrn. og félmrn. taki á þessu máli í samræmi við þá samþykkt stjórnarnefndar um málefni þroskaheftra og öryrkja að stofna beri sérstaka sjúkradeild til vistunar og þjálfunar þeirra sem vegna slysa hafa fatlast svo andlega að jafna megi til meðfæddrar þroskaskerðingar, að staðið verði við fjárframlag úr Framkvæmdasjóði fatlaðra svo að markmiði ályktunarinnar verði náð á þessu ári“ o. s. frv.

Í bréfi heilbr.- og trmrn. til allshn. kemur fram að þessa till. til ályktunar í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra, sem þá sat, bar fram fulltrúi ráðuneytisins og var hún samþykkt, og segir svo í bréfi frá hæstv. ráðh. heilbrigðismála að ályktunin hafi verið send ráðuneytinu og þar með verði að telja að stjórnvöld hafi þegar tekið á þessu vandamáli og lausn sé í sjónmáli. Minni hl. nefndarinnar er þessu gjörsamlega ósammála og hafnar þessari afgreiðslu öldungis.

Í grg. með áðurnefndri samþykkt stjórnarnefndarinnar kemur fram að hún telur æskilegt að umrædd sjúkradeild yrði stofnuð við Kópavogshælið og þar yrði gert ráð fyrir vistun 6–10 sjúklinga, en 10 vistmenn hælisins yrðu þess í stað vistaðir á sambýlum. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða sambýli? Ég hygg að við vitum bæði að þau sambýli eru ekki til. Minni hl. telur í öðru lagi fráleitt að vista þessa sjúklinga á Kópavogshælinu og vísar til þess hversu sú ráðstöfun bryti gjörsamlega í bága við þá stefnumörkun sem löggjafinn hefur þegar markað með lögum um málefni þroskaheftra og síðan með lögum um málefni fatlaðra á undanförnum árum. Auk þess er um algjörlega óraunhæfa lausn að ræða þar sem Kópavogshælið er yfirfullt. Ég vildi heyra hvað starfslið þess segir um hina nýju vistmenn sem þangað eiga að koma. Ég er hrædd um að menn settu upp undarlegan svip. Þar er stefnt að að fækka vistmönnum vegna þess að heimilið er ofsetið. Það er allt of margt fólk á þessari stofnun og það eru engar horfur á að sambýlisrými verði á boðstólum fyrir tíu vistmenn á þessu ári þó vissulega sé verið að byggja á vegum Styrktarfélags vangefinna sambýli sem taka væntanlega á móti um 15 vistmönnum, en þar er m. a. gert ráð fyrir að mjög illa fötluð börn fái rými.

Við vitum líka að framlögum úr Framkvæmdasjóði fattaðra hefur verið úthlutað fyrir árið 1984 og þar er ekkert fé eftir. Ég vildi þess vegna í öðru lagi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hvaðan á að koma fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til að leysa vanda þeirra sjúklinga sem við höfum gert hér að umtalsefni?

Stendur til að veita sérstaka aukafjárveitingu í sjóðinn? Annars er tómt mál að tala um þetta.

Það er því alveg augljóst að markmiði þáltill. verður ekki náð á þessu ári á þann hátt sem segir í bréfi ráðuneytisins.

Minni hl. nefndarinnar gerir sér grein fyrir að með þeim niðurskurði sem stjórnvöld hafa gert á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra um tugi milljóna á þessu ári er allt fé hans þegar bundið, ekki bara í ár heldur jafnvel á næstu árum, í verkefnum um land allt sem nú er verið að vinna og byrjað var á í trausti þess að samkv. lögum um málefni fatlaðra yrði veitt fé. En sú hefur orðið raunin á, eins og með svo marga aðra lagasetningu á hinu háa Alþingi, að þó að ákvæði séu um fjárveitingar til ákveðinna mála, eins og hér var um að ræða til velferðarmála fatlaðra, hefur fjárveiting ekki verið í samræmi við það og gífurlegur niðurskurður átt sér stað í fjárframlögum. Það segir sig sjálft að það er ákaflega erfitt fyrir stjórnarnefnd um málefni fatlaðra að gera áætlanir fram í tímann um uppbyggingu stofnana fyrir fatlaða um allt land ef ekki má treysta því að það fé komi sem þegar hefur verið lofað með löggjöf.

Vitaskuld verður fjárveitingavaldið hverju sinni að ákveða upphæðir til hinna ýmsu mála, en það er erfitt að skilja þessi mál öðruvísi en svo að Alþingi Íslendinga hafi tekið ákvörðun um að velferðarmál fatlaðra og aldraðra yrði látin sitja í fyrirrúmi á næstu árum vegna þess öngþveitis sem ljóst var að orðið var í þeim málaflokkum. Á einungis 2–3 árum hefur verið gjörsamlega snúið af þessari braut og þess vegna er það næstum því móðgun við þá sem unnið hafa að þessum málum að bjóða upp á þau rök að Framkvæmdasjóður fatlaðra muni leysa vanda þessara sjúklinga, sem þáltill. gerir ráð fyrir, á þessu ári. Það vita allir að þetta er algjörlega út í hött. Það fé er ekki til.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa lýst sig sammála því sjónarmiði sem minni hl. hefur gert að sínu og fram kemur í þáltill., en í áliti þeirra á þáltill. segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar telur heppilegast að leysa vanda þessa fólks með því að koma upp sérstakri deild í nágrenni og tengslum við stofnun sem þegar sinnir endurhæfingu og hjúkrun, auk þess að efla stuðning við hjúkrun og endurhæfingu í heimabyggð þeirra sem í hlut eiga.“

Við minnihlutamenn erum sammála þessu og bendum á að endurhæfingardeild Sjálfsbjargar í Hátúni hefur til að mynda leyst þennan vanda þrátt fyrir erfið skilyrði og gert það með miklum sóma. Aðstöðu mætti efla þar, en slíkt kostar að sjálfsögðu fé og það fé verðum við að finna. Til þess var þessi þáltill. fram borin. Það er líka ljóst að Reykjalundur hefur reynt að taka við sjúklingum af þessu tagi. Heilsuverndarstöðin í Reykjavík hefur reynt þetta líka. En þessi mál eru í ólestri þangað til tekin hefur verið ákvörðun um að gera þeim einhver skil.

Í áliti dr. med. Ásgeirs B. Ellertssonar um þáltill. segir svo, með leyfi forseta:

„Ég hallast helst að því að viðkomandi einstaklingar fái þá hjúkrun sem með þarf í heimabyggð á hjúkrunarheimilum, hjúkrunardeildum eða sjúkradeildum svæðissjúkrahúsa. Með þessu móti varðveitast best fjölskyldu-, vináttu- og önnur félagsleg tengsl viðkomandi einstaklinga og blöndun við aðra sjúklingahópa verður eðlileg. Hjúkrunarþyngd þessa fólks er mikil, en dreifist á fleiri hendur með þessu fyrirkomulagi“.

Við talsmenn minni hl., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og ég, höfum báðar unnið að þessum málum um árabil og okkur er fullkunnugt um hver staða uppbyggingar stofnana fyrir fatlaða er í landinu í dag. Við töldum að þegar lögin um málefni þroskaheftra og síðar lögin um málefni fatlaðra voru sett væri það vilji hins háa Alþingis að byggja upp heildarskipulag þessara mála á landsvísu. Ég hygg að við höfum báðar unnið að því með því að leggja ekki alla áherslu á þessi mál á Reykjavíkursvæðinu, þó að við séum héðan af svæðinu, heldur með því að reyna að taka tillit til landsbyggðarinnar með þá stefnumörkun fyrir augum að landsmenn, hvernig sem fyrir þeim er komið, eigi þann mannlega rétt, sem við öll viljum krefjast, að geta notið þeirrar þjónustu sem þeir þurfa á að halda í sínu heimahéraði. Þannig reyndi stjórnarnefndin um málefni þroskaheftra að vinna og við í svæðisnefndinni fyrir þroskahefta á Reykjavíkursvæðinu tókum fullt tillit til þess. Þannig var reynt að jafna fjárveitingum svo að allir landshlutar nytu nokkurs góðs af. Þessi vinna hefur svo sannarlega borið árangur vegna þess að nú er verið að byggja og koma á fót stofnunum í öllum landshlutum nema á Reykjanessvæðinu, þó að að því sé verið að vinna nú, en vissulega voru stofnanir þar fyrir. Það hlýtur að vera von allra, sem þessi málefni bera fyrir brjósti, að þessar stofnanir fái fé til þess að þær verði fullbúnar og geti hafið störf.

Kópavogshælið er ekki staðurinn til að taka við þeim sjúklingum sem hér er um að ræða. Það þarf varla að minna menn á að öll hugmyndafræði sem þessi vinna hefur byggst á á undanförnum árum er sú, að þeir sem fæddir eru þroskaheftir fái að lifa sínu lífi meðal annars fólks en ekki lokaðir inni á stórri stofnun, né heldur aðrir þeir sjúklingar sem síðar hafa orðið jafnþroskaheftir af völdum slysa eða annarra áfalla. Kópavogshælið þarf á því að halda að þar sé fækkað vistmönnum og hluta af hælinu verði breytt í sambýlisform, þannig að hægt sé að gera þá stofnun nýtískulegri en hún var um langt árabil. Það starf er þegar hafið. Það er því gersamlega tómt mál að vísa til bréfs rn.

Hæstv. ráðh. fullyrðir með bréfi, sem dagsett er 9. janúar 1984, að stjórnvöld hafi þegar tekið á þessu vandamáli og að lausn þess sé í sjónmáli. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hver er sú lausn? Hvenær er hún væntanleg? Við getum ekki talið það lausn að samþykkt hafi verið ályktun sem ráðuneytisfulltrúinn bar upp í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og gekk síðan með á fund ráðh. síns. Síst af öllu viljum við styðja þá grg. sem með henni fylgir og leggjum því eindregið til að hv. þm. samþykki þáltill. eins og hún liggur fyrir og með þeim rökstuðningi sem fram kemur þar í grg. og sem fram kom við framsögu í máli hv. þm. Helga Seljan. Það getur ekki verið ofverk hins háa Alþingis að leysa vanda jafnvel innan við 20 þeirra samborgara okkar sem bágast eiga og verst eru á sig komnir með aðgerðum hér og nú.

Það er enginn að biðja um þá einu lausn, sem mönnum dettur almennt í hug þegar einhvern vanda þarf að leysa, að byggja hús. Það þarf ekkert hús að byggja. Það þarf að veita fé í deild hér á Reykjavíkursvæðinu innan þeirra sjúkrastofnana sem fyrir eru og jafnframt að veita fé til aukins starfsliðs á stofnunum annars staðar á landinu, þannig að þetta fólk, sem þarf mann með sér allan sólarhringinn, fái þá þjónustu í nágrenni við sína nánustu, eins og hver einasta lifandi manneskja í þessu landi gerir kröfu til, að fá að vera þar sem hún á heima, ef þess er nokkur kostur, ella fái hún þjónustu þar sem best fer um hana þrátt fyrir það ásigkomulag sem kann að vera nær óbærilegt.

Ég vil ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðh.: Hvenær eigum við von á lausn á málum þessa fólks og hvernig verða þær? Ég vænti þess að ég fái svar við því áður en menn treysta sér til að greiða atkv. með ályktun meiri hl. n.