03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5161 í B-deild Alþingistíðinda. (4537)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég skal vera fyrstur manna til þess að viðurkenna, sem ég reyndar gerði í framsögu fyrir þessu máli, að málið er engan veginn auðleyst. Það þarf þess vegna vandlega athugun á því með hvaða hætti er best að koma þessu fyrir. Við tillögumenn bentum á ýmsar leiðir í því efni, en því miður hefur meiri hl. allshn. séð ástæðu til að benda á enn aðra leið sem mér þykir vægast sagt nokkuð undarleg og vanhugsuð svo ekki sé meira sagt.

Ég hef lítt við það að bæta sem hv. frsm. minni hl. n. kom inn á áðan. Ég hlýt að harma afstöðu meiri hl. allshn. Ég vona að sú afstaða sé byggð á ónógri athugun þessa máls og á hugsanlegri lausn þess og einnig upplýsingum sem ekki standast um þá hugsanlegu lausn sem ég hef ekki trú á að geti staðist og get því miður ekki trúað heldur á sem slíka sem lausn fyrir þetta fólk.

Án þess að ég sé að gera nokkuð lítið úr meirihlutafulltrúunum, allra síst framsögumanni, sem hefur haft afskipti af málum mjög svipuðum þessum á margan veg, þá veit ég að þeir nefndarfulltrúar sem skila minnihlutaáliti hér eru svo gerkunnugir þessum málum að Alþingi má sannarlega treysta áliti þeirra í þessu efni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var t. d. lengi formaður þeirrar stjórnarnefndar sem byggði upp frumstarf varðandi Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra og ég leyfi mér að fullyrða að hún vann sem formaður þeirrar stjórnarnefndar frábært starf. Ég fullyrði að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hefði aldrei dottið í hug í þeirri stjórnarnefnd að standa að samþykkt þeirri sem hér er vitnað til að stjórnarnefndin sem sat á síðari hluta síðasta árs hafi gert og allur rökstuðningur meiri hl. allshn. er byggður á. Ég tel að eftir þá reynslu sem hún sem formaður þessarar nefndar hafði af því hvað erfitt var að leysa þessi mál í heild hefði hún aldrei getað samþykkt einhverja patentlausn af þessu tagi, sem ekki er heldur til í virkileikanum, ég hef enga trú á því.

Hv. frsm. minni hl., Guðrún Helgadóttir, á sæti í svæðisstjórn Reykjavíkur, þar sem þessi mál brenna mjög á fólki, og veit einnig um þau miklu vandamál sem þar steðja að og ástand þessara mála hér, sem er þó mun betra að mörgu leyti en víða annars staðar, þó ekkert skuli dregið úr því hvað hér er um mikinn vanda að ræða einnig.

Ég segi bara fyrir hönd þessa fólks, sem ég þekki nokkuð til, þessa fámenna hóps, að ég vildi sannarlega sjá Alþingi bera gæfu til þess að samþykkja eitthvað raunhæft í þessu máli en ekki það sem meiri hl. leggur til.

Ég lýsi því hiklaust yfir að ég efa ekki góðan vilja hæstv. ráðh. til að leysa þetta mál, en auðleyst er það ekki, og ég hugsa að honum sé það alveg jafnvel ljóst og mér að auðfengin lausn á þessu er ekki á þann hátt sem hér er vitnað til, þ. e. tilvísun á yfirfullt Kópavogshæli, þetta mikla vandamál sem Kópavogshælið óneitanlega hefur verið vegna þess hversu það hefur verið ofsetið af vistmönnum. Það má aldeilis bregða snarlega við og það er þá ekki mikill fjárhagsvandi ríkissjóðs ef myndarlega verður þar á tekið í öllum greinum svo að málefni þess stóra hælis megi leysa í einu vettvangi á þessu ári. Þetta er svo óhófleg bjartsýni að ég botna ekkert í henni sem fyrrv. stjórnarmaður í stjórnarnefnd um málefni öryrkja og þroskaheftra, þar sem vandi okkar var ævinlega sá að skipta allt of litlu til allt of margra verkefna.

Ég skoða þetta hreinlega sem slys hjá fyrrv. stjórnarnefnd, sem þarna hefur gerst, og ég veit að núv. stjórnarnefnd um málefni fatlaðra hefur ekki tekið afstöðu til þessa máls á þessum grunni. Ég hefði talið miklu eðlilegra að álits hennar væri leitað til þess að vita hvað sú nefnd sem nú starfar og þarf að standa að skiptingu fjárframlaga og þarf að standa að frambúðarlausn þessara mála ásamt rn. hefði sagt um þetta mál.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það heldur að meiri hl. allshn. hefur verið í góðri trú, en ég er hræddur um að sú góða trú muni skammt duga þessu illa setta fólki og það veit ég af ærinni reynslu, m. a. af setu í téðri stjórnarnefnd um málefni öryrkja og þroskaheftra eins og hún hét áður.

Afgreiðsla þessa máls nú minnir mig því miður á það þegar meiri hl. allshn. vísaði á sínum tíma frá hér á Alþingi till. okkar nokkurra þm. um vistheimili fyrir þroskahefta á landsbyggðinni. Menn gerðu það þá í góðri trú þess að það væri rétt að allir skyldu vera á einu stóru hæli syðra. Meiri hl. allshn. vitnaði þá til svipaðs álits frá svipuðum aðila, sem gleggst átti að þekkja til þessara mála þá. Alþingi staðfesti þetta meirihlutaálit um að það væri óhæfa að reisa vistheimili fyrir þroskahefta úti á landsbyggðinni. Ég er viss um að við hæstv. heilbrmrh. getum verið sammála um að þarna hafi heldur betur verið illa að málum staðið, við sem þekkjum til þess báðir tveir að síðan hafa risið vistheimili í þeim landshlutum sem við bárum þá fyrir brjósti fyrir þroskahefta. Ef mig misminnir ekki er trúlega verið núna á þessum dögum að vígja Bræðratungu, vistheimili fyrir þroskahefta á Ísafirði, sem á að vera þjónustumiðstöð fyrir það fólk í þeim landshluta, en fyrir tólf árum þótti slíkt óhæfa hér á hv. Alþingi. Þegar litið er til þróunar þeirra mála frá þessum tíma held ég að fáir mundu vilja taka undir slíkt sjónarmið sem þá réði vilja meiri hl. Alþingis.

Hér er að vísu vitnað til rn. um lausn. Því er full ástæða til að ítreka spurningar hv. 10. landsk. þm. til hæstv. ráðh. um þessa lausn. Ég er alveg sannfærður um að þrátt fyrir það veit hæstv. ráðh. örugglega um annmarka þess að koma framkvæmdinni í þann farveg sem meirihlutaálitið byggir á, þ. e. að vista þessa einstaklinga á Kópavogshælinu. Ég veit að honum er alveg fullljóst hvílíkir annmarkar eru þar á af fjöldamörgum ástæðum. Ég ætla ekki að fara út í þær ástæður, en við vitum það sjálfsagt báðir jafnvel hvað þær eru ærnar, m. a. með tilliti til eðlis þeirrar örorku sem hér er um að ræða varðandi marga þá aðila sem við erum þarna að flytja till. um. Ég hefði gjarnan viljað sjá hæstv. ráðh. finna þessu máli annan farveg og heppilegri farveg, sem hlýtur að vera unnt að finna þó ég viðurkenni að það sé hvergi nærri auðvelt, og ég vildi skora á hæstv. ráðh. að leita allra annarra tiltækra leiða en þeirrar að velja einmitt Kópavogshælið, þetta að mörgu leyti vandræðabarn vegna þess hvernig að þeim málum hefur verið staðið og vegna þess hversu það hefur verið ofsetið, velja það einmitt til að sinna þessu verkefni. Hæstv. ráðh. veit mætavel að þar er síst á bætandi.