03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5170 í B-deild Alþingistíðinda. (4556)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Herra forseti. Frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi, sbr. brbl. frá 27. maí s. l., 8. mál þessa hv. löggjafarþings, hefur legið æðilengi óafgreitt hjá sjútvn. þessarar hv. deildar. Fljótlega eftir að mál þetta var lagt fram hér í Ed. tók sjútvn. málið til umfjöllunar og sendi frv. til umsagnar hagsmunaaðila eins og vani er. Síðustu umsagnir voru komnar inn um mánaðamótin nóv.–des. s. l. Um það leyti voru komin á borð sjútvn. þingsins önnur veigamikil mál sem tóku upp starfstíma nefndanna nær eingöngu fram að jólaleyfi, en það var hvernig skyldi staðið að stjórnun fiskveiða árið 1984 sem öllum er í fersku minni.

Fljótlega kom það upp í n. að skoðanir voru skiptar. Minni hl. n. gagnrýndi einkum tvo efnisþætti frv., þ. e. í fyrsta lagi 1. og 2. gr. þess, sem fjallar um kostnaðarhlut útgerðar, og í öðru lagi 3. gr., sem fjallar um gengismun og ráðstöfun hans.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að fiskkaupandi greiði sérstakan kostnaðarhlut til útgerðar, er nemi 29% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins á hverjum tíma. Þessi kostnaðarhlutdeild kemur ekki til skipta á skipum sem eru yfir 240 brúttórúmlestir, en 4% af þessum kostnaðarhlut koma til skipta á fiskiskipum sem eru minni en 240 brúttórúmlestir. Með þessari ráðstöfun er lagt til að hinn svokallaði olíusjóður og olíugjald, sem áður var í lögum, falli niður. Þarna er um að ræða einföldun sem ætti að vera til góðs og draga úr hinu illa séða sjóðakerfi þessarar atvinnugreinar.

3. gr. frv. fjallar um gengismun af þeim birgðum sem sjávarútvegurinn átti þegar gengisbreytingin var gerð s. l. vor. Áætlaður gengismunur af heildarbirgðum sjávarútvegsins var þá talinn 552 millj. kr. Ráðstöfun hans skyldi verða á þann hátt sem fram hefur komið á sérstöku þskj. sem svar frá sjútvrh. vegna sérstakrar fsp. þar um fyrr í vetur og mun ég því ekki fara nánar út í það hér.

Í viðræðum við sjútvn. kom það fram hjá forsvarsmönnum skreiðarverkenda að hlutur þeirrar greinar væri mjög erfiður vegna mikillar sölutregðu og verðlækkana á skreið. Lögðu þeir mikla áherslu á að skreiðarverkendur fengju til sín a. m. k. ákveðinn hluta af þeim gengismun sem áætlað var að taka af skreiðinni skv. frv.

Skv. síðustu upplýsingum skreiðarframleiðenda frá 9. apríl s. l. vantar 290 millj. til þess að endar nái saman skv. þeirra útreikningum, en 200 millj. er talið að vanti skv. áætlun Þjóðhagsstofnunar frá sama tíma. Hvor talan sem notuð er gefur til kynna að um verulegan vanda er að ræða í þessari atvinnugrein og stafar hann einkum af hinni miklu sölutregðu sem verið hefur á stærsta skreiðarmarkaðinum, í Nígeríu, og þar af leiðandi miklum fjármagnskostnaði sem hefur myndast vegna birgðavandans. Menn gera sér vissar vonir um að úr sé að rætast um sölu á þeim birgðum sem í landinu eru, en of snemmt er að fullyrða nokkuð um það. Þessu mun þó fylgja allverulegur greiðslufrestur og jafnvel verðlækkun.

Hagsmunanefnd skreiðarframleiðenda hefur lagt fram nokkrar hugmyndir um hvernig megi leysa þennan vanda: Nú þegar verði greidd framleiðendum innistæða í skreiðardeildinni, sem hún á í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, og nemur sú upphæð um 85–90 millj. kr. Útflutningsgjald af skreið verði lækkað í 2.5% og er áætlað að það gæfi um 60 millj. Gengismunargjald lækki um 70 millj. frá því sem áður var ákveðið. Útlán Seðlabankans verði hækkuð um 10% sem gæfi um 60 millj. kr. Samtals gæfi þetta um 275 millj. upp í það gat sem talið er að hafi myndast í greininni. — En lítum nokkru nánar á þessar tillögur.

Í fyrsta lagi er farið fram á að losa um þær 85–90 millj. sem deildin á í Verðjöfnunarsjóði. Þetta eru peningar sem framleiðendur eiga og eiga einmitt að hjálpa til þegar illa gengur í viðkomandi vinnslugrein. Þess vegna hef ég verið meðmæltur því að þessir fjármunir verði greiddir framleiðendum skreiðarinnar sem fyrst. Þessa ráðstöfun þarf stjórn Verðjöfnunarsjóðs að samþykkja og mér er kunnugt um að hæstv. sjútvrh. vinnur að lausn þessa máls.

Í öðru lagi er þess farið á leit að útflutningsgjald af skreið verði lækkað úr 5.5%, eins og það er á flestallri sjávarvöruframleiðslu, í 2.5%. Nýverið var samþykkt skv. sérstöku frv. lækkun á útflutningsgjaldi af saltfiski úr 5.5% í 4% vegna erfiðleika í þeirri grein. Jafnframt var samþykkt með sérstakri brtt. frá sjútvn. Nd. að einnig skyldi útflutningsgjald af skreið lækka í 4%. Áætlað er skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar að þessi lækkun gefi skreiðarframleiðendum 27–28 millj.

Skreiðarframleiðendur fara einnig fram á að lán út á skreiðarbirgðir verði hækkuð um 10% frá Seðlabankanum. Þeir áætla að þetta muni gefa, eins og ég sagði áðan, um 60 millj. Meiri hl. n. mælir með því að þetta verði kannað og mælist til þess við hæstv. sjútvrh. að þetta mál nái fram að ganga. Ef þeir þrír liðir sem hér hefur verið minnst á ná fram að ganga má ætla að nýtt fjármagn sem til þessarar greinar kemur væri um 172–173 millj.

Skreiðarframleiðendur fara einnig fram á að fá lækkun á áætluðum gengismun um 70 millj. Þetta getur meiri hl. sjútvn. ekki fallist á. Strax á s. l. vori, í kjölfar gengisfellingarinnar þá, var þeim gengismun sem áætlað var að inn kæmi ráðstafað og ekki er enn þá útséð um hvernig þær upphæðir skila sér.

Skreiðarframleiðendur halda því fram að gengismunur af skreið verði meiri en áætlað var, einkum vegna meiri birgða en gert var ráð fyrir. Óskandi er að svo verði, en hins vegar má ekki gleyma því að stór hluti skreiðarinnar er óseldur enn þá og verð ekki þekkt og svo er einnig erfitt að segja til um rýrnun sem orðið hefur á þeim skreiðarbirgðum sem í landinu liggja.

Um upptöku gengismunar má deila og í þeim efnum sýnist sitt hverjum. Sú aðferð sem nú er notuð við ráðstöfun gengismunar er sú sama og notuð hefur verið um áraraðir af öllum ríkisstjórnum allra flokka allt frá því að gengisbreytingaskeiðið fór að hrjá okkar þjóð. Í þessum málum hefur sjávarútvegurinn notið annarrar meðferðar af hendi löggjafans en t. d. útflutningsiðnaðurinn. Ég ætla ekki að fara út í sérstakar umr. um þau efni hér og nú, en þarna þyrfti að kanna mál vel og marka skýrar línur í meðferð gengismunar í sjávarútveginum. En vonandi tekst að sigla fram hjá slíkum vandamálum á komandi árum með breyttri efnahagsstefnu og stórfelldar gengisbreytingar heyri fortíðinni til.

Eins og ég sagði áðan náði sjútvn. þessarar hv. deildar ekki 'samstöðu um það frv. sem hér til umr. Meiri hl. n. leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Á sérstöku þskj. 583 leggur meiri hl. n. til að viðbót komi við 1. gr. frv. sem verði 2. mgr. Þessi brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Frá og með 1. febr. 1984 skulu þó 2% af þeim 29%, sem um getur í 1. mgr., koma til hlutaskipta og aflaverðlauna til skipverja á fiskiskipum, sem eru yfir 240 brúttórúmlestir, en 27% ekki, og 6% skulu koma til hlutaskipta og aflaverðlauna til skipverja á fiskiskipum, sem eru 240 brúttórúmlestir og minni, en 23% ekki.“

Brtt. þessi er flutt vegna ábendingar sjútvrn. til að taka af öll tvímæli um hvernig túlka beri kostnaðarhlutdeildina sem 1. mgr. 1. gr. frv. fjallar um. Með fiskverðsákvörðuninni 1. febr. s. l. er kostnaðarhlutdeildin lækkuð um 2%, þannig að til skipta kemur 2% meira eftir 1. febr. en áður var. Kostnaðarhlutdeild á fiskiskipum yfir 240 brúttórúmlestir verður því 27% í stað 29 áður og á fiskiskipum undir 240 brúttórúmlestum verður kostnaðarhlutdeildin 23% í stað 25% áður.

Herra forseti. Þá læt ég máli mínu lokið og tel mig hafa skýrt álit meiri hl. sjútvn. hv. Ed. í þessu máli.