07.11.1983
Neðri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

11. mál, launamál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en verð þó að koma að fáeinum atriðum sem hér hafa verið nefnd.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ítrekaði það hér í ræðu sem hann flutti tvisvar að ég viðurkenndi ekki að skipastóllinn væri of stór. Það er alrangt. Ég hef hvað eftir annað viðurkennt að fiskiskipastóllinn er of stór eins og nú er ástatt. Hins vegar rakti ég í ræðu minni hvernig tillögur hafa verið um veiðar og lagði áherslu á þá skoðun mína, að ef loðnuveiðar væru hér í kringum milljón lestir eins og spáð var fyrir 4–5 árum og þorskaflinn í kringum 450 þús. lestir eins og einnig var lagt til bæði að hausti 1980 og aftur 1981, þá hygg ég að skipastóllinn væri ekki of stór. Og ég lagði áherslu á mikilvægi þess að við sækjum fiskinn á fullkomnum bátum og fiskiskipum með þeirri bestu tækni sem fáanleg er.

Hitt er svo annað mál, að þeir hlutir hafa gerst að grundvöllur fyrir rekstri þessa fiskiskipastóls er ekki lengur fyrir hendi og því nauðsynlegt að grípa til ráðstafana í samræmi við það. Ég vil einnig leiðrétta það sem kom fram í ræðu hv. þm. að upplýsingar þær sem við fórum báðir með úr Dagblaðinu/Vísi frá 20. sept. 1982, næðu eingöngu til þess hausts. Að sjálfsögðu er það rétt. En ég vil vekja athygli á að 26. ágúst sama ár var sett bann við innflutningi fiskiskipa svo að ekki var um neinar slíkar heimildir að ræða eftir þann tíma. En af því að hv. þm. Svavar Gestsson minntist einnig á það atriði þá get ég upplýst að eftir fund sem ég átti með fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna haustið eða sumarið 1982 lagði ég til að ekki yrði aðeins bannaður innflutningur á fiskiskipum, heldur einnig smíði hér á landi. Því að sjálfsögðu skiptir engu máli fyrir fiskistofnana hvort þeir eru veiddir á of mörgum skipum smíðuðum innanlands eða erlendum skipum. En á þetta var ekki fallist af ástæðum sem út af fyrir sig eru skiljanlegar. Íslenskar skipasmíðastöðvar þurftu verkefni. Um þetta náðist því ekki samkomulag. En þetta var m.a. skoðun fulltrúa þessara samtaka sem á umræddum fundi mættu, að banna ætti allar viðbætur við fiskiskipastólinn. Og það er fróðlegt og kapítuli út af fyrir sig að því miður hafa íslenskar skipasmíðastöðvar ekki getað staðist samkeppni í verði við erlendar af ýmsum ástæðum, m.a. mikilli niðurgreiðslu á erlendar skipasmíðar. En þetta hefur orðið til þess að íslensk skip eru því miður ekki samkeppnisfær þótt að gæðum séu þau fullkomlega eins góð og skip smíðuð erlendis. Þetta hefur vitanlega orðið til að eigendur íslenskra fiskiskipa eru margir hverjir í stórum meiri fjárhagserfiðleikum með rekstur sinna skipa en þeir sem fengið hafa ódýrari erlend skip. En um þetta ætla ég út af fyrir sig ekki að fara fleiri orðum.

Hv. þm. Svavar Gestsson kom að nokkrum þeim atriðum sem ég svaraði í fyrri ræðu minni og krafðist viðbótarupplýsinga. Hv. þm. gerði m.a. að umræðuefni þær upplýsingar sem ég kom með um að ágóði verslunarinnar væri ekki eins mikill og af væri látið vegna þess að samdráttur hefði orðið í veltu. Þessara upplýsinga var aflað af mínum efnahagsráðunaut frá verðlagsstjóra án þess, svo að ég viti til, að nafn hv. þm. hafi verið nefnt í því sambandi. En þessar fullyrðingar hafa hvað eftir annað komið fram og ég hef hér á minnisblaði með mér það sem haft er eftir verðlagsstjóra, að of mikið sé gert úr hagnaði verslunarinnar að hans dómi vegna þess að veltan hefur dregist saman. Annars er það athyglisvert að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði hér að töluverðu umræðuefni og hneykslaðist mjög á því að ég væri nú orðinn talsmaður þessarar voðalegu verslunarstéttar, að því er manni skildist, þessara milliliða í þjóðfélaginu. Það er satt að segja undarlegt að heyra slíka fordóma nú 1983. Ég hélt að þetta væri áratuga gamalt. Verslunarstéttin er að sjálfsögðu nauðsynleg í nútíma þjóðfélagi og er þar um að ræða atvinnugrein sem m.a. þeir Alþb.- menn hafa farið með í sinni ráðherratíð og verið mjög vel af látið. Mér hefur stundum verið sagt að enginn viðskrh. hafi verið betri við verslunina en einn fyrrv. Alþb.-ráðh., enda er þarna um ákaflega mikilvæga atvinnugrein að ræða sem alls ekki er verðugt að gera lítið úr. En ég var alls ekki að gerast málsvari hennar út af fyrir sig. Ég var aðeins að flytja svar við spurningu sem fyrir mig var lögð.

Hv. þm. Svavar Gestsson taldi að ég hefði verið með hótanir í sinn garð þegar ég stakk upp á því að við skoðuðum fundargerðir ríkisstj. Ég skil það svo að hann telji að þar komi eitthvað fram sem telja megi hótun í hans garð eða hans flokks, eitthvað illt hlýtur það að vera. Það var alls ekki meining mín, heldur eingöngu það að eftir ýmsum leiðum mætti vitanlega upplýsa hið rétta í því máli sem var til umr. Það er rétt hjá hv. þm. að ég var ekki við í lokaumr. um efnahagsráðstafanirnar fyrir 1981, en þær fóru fram í margar vikur áður en til þeirra kom eins og hv. þm. veit. Og reyndar voru slíkar umr. svo að segja allt árið 1981 og leiddu því miður ekki til meira en þess sem varð í lok ágúst það ár.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann telur mig vera að skorast undan ábyrgð á því sem hefur gerst, langt frá því. Vissulega á ég og Framsfl. þátt í því sem hefur gerst og það á Alþb. líka. Og það væri kannske verðugt fyrir hv. þm. að skoða það og viðurkenna einu sinni að verðbólgan var í lok síðasta stjórntímabils orðin 130%. Aðgerðir og aðgerðaleysi eru vitanlega þáttur í því. Það var hægt að koma í veg fyrir þetta, en því miður var það ekki gert.

Hv. þm. gerði kaupmáttarskerðinguna að umræðuefni og las upp úr töflum frá Þjóðhagsstofnun sem hann bað um með bréfi frá 11. maí ef ég man rétt. Ég fékk þær töflur einnig og las einnig upp úr þeim. En ég bað einnig Þjóðhagsstofnun um viðbótarupplýsingar og fékk þær 9. júní. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa það sem þar kemur fram um kaupmáttar- eða lífskjaraskerðingu. Þar segir:

„Í tilefni af staðhæfingum í fjölmiðlum að undanförnu um að kaupmáttur launa undir lok þessa árs verði hinn sami og fyrir 30 árum, og lífskjörin þannig færð 30 ár aftur í tímann, á sama tíma og þjóðartekur á mann hafi tvöfaldast, sjá t.d. fréttabréf ASÍ frá 6. júní 1983 og Þjóðviljann í dag, 9. júní 1983, er rétt að benda á eftirfarandi atriði:

1. Kaupmáttarmælingar sem byggja á einum kauptaxta yfir svo langt tímabil hljóta ætíð að vera hæpnar. Þannig kann mikilvægi eins taxta í launamyndun að hafa breyst. Auk þess getur þessi eini taxti hafa breyst með öðrum hætti en aðrir kauptaxtar og loks, sem e.t.v. skiptir ekki minnstu máli, getur taxtinn hafa breyst með öðrum hætti en aðrir þættir tekjumyndunar.

2. Kaupmáttarreikningar á grundvelli verðvísitölu sem byggist á föstum grunni, þar sem mikilvægi einstakra útgjaldaflokka stendur óbreytt árum saman, orkar tvímælis þegar bornar eru saman tölur yfir áratuga bil.

3. Almennasti og líklega raunhæfasti mælikvarði á lífskjör einstaklinga og heimila sem völ er á er þróun einkaneysluútgjalda á mann. Samkv. síðustu áætlunum er talið að einkaneysla á mann verði á árinu 1983 2.6 sinnum meiri en á árinu 1952, þ.e. 160% meiri. En 125% meiri en á árinu 1953. Einkaneysla er þá reiknuð til fasts verðs með keðjuvísitölu sem tekur tillit til breytinga á samsetningu neysluútgjalda. Annar raunhæfur mælikvarði á lífskjör eru ráðstöfunartekjur heimilanna eftir skatta og tilfærslur hins opinbera. Fullnægjandi tölur um þessa stærð ná aðeins aftur til ársins 1960, en skeyta má framan við þær tölur tölum um breytingar ráðstöfunartekna alþýðustétta á 6. áratugnum samkv. athugun sem birtist í tímariti Framkvæmdabankans, Úr þjóðarbúskapnum, 13. hefti 1964. Þá fæst sú niðurstaða að ætla megi að á árinu 1983 verði raungildi ráðstöfunartekna á mann um þrefalt hærri en 1952 miðað við verðbreytingar einkaneyslu. Þjóðartekjur á mann á föstu verðlagi á þessu tímabili hafa aukist um 170%. þ.e. 2.7-faldast. Lífskjör og ráðstöfunartekjur heimilanna hafa því fylgt breytingu þjóðartekna í stórum dráttum yfir þessi 30 ár. Hér eru einungis borin saman tvö ár, en þessi niðurstaða stæði óhögguð þótt tekin yrðu önnur ár eða nokkurra ára meðaltöl við upphaf 6. og 9. áratugar.

4. Enn er þess að geta að verulegur hluti einkaneysluútgjalda í hátekjuríkjum eins og Íslandi fer til kaupa á varanlegum neyslugæðum sem safnast upp í eigu heimilanna. Gagnsemi þeirra varir yfirleitt mun lengur en árið sem þau eru keypt og færð til einkaneysluútgjalda. Stofn heimilanna af slíkum munum er nú án alls efa miklu meiri en var fyrir 30 árum og lífskjörin væntanlega þeim mun betri.

5. Loks er þess að gæta, þegar gerður er samanburður á lífskjörum manna yfir svo langt árabil, að á þessum þremur áratugum hefur samneysla aukist og opinberri þjónustu fleygt fram, t.d. á sviði menntamála og heilbrigðismála, og lífskjör almennings batnað enn frekar af þeim sökum.“

Hér er sem sagt af fræðimönnum dregin saman niðurstaða úr þeim töflum sem hér hefur verið lesið upp úr og niðurstaðan er einhlít. Það eru u. þ. b. hátt í þrefalt betri lífskjör nú en voru fyrir 30 árum.

Hv. þm. vildi fá að vita hvort verkföll væru enn takmörkuð eftir 31. jan. n. k. Verkföll í okkar þjóðfélagi eins og öllum þjóðfélögum eru takmörkuð að ýmsu leyti. Að sjálfsögðu er ekki heimilt að stofna til verkfalla til að knýja fram samninga um hluti sem bannaðir eru með lögum og vitanlega mætti nefna fjölmargt sem ekki er heimilt að semja um og lög banna. Ef það frv. sem hér liggur fyrir verður samþykkt er ekki heimilt að binda laun með vísitölu í tvö ár, þ.e. til loka maí 1985. Þar er að sjálfsögðu ekki heimilt að stofna til verkfalla til að semja um vísitölubindingu frekar en, eins og ég hef sagt, um ýmsa aðra þætti sem bannaðir eru með lögum. Það er út af fyrir sig ekkert einsdæmi að bannað sé að binda launagreiðslur við vísitölu. Svo er í ýmsum öðrum löndum, t.d. í Vestur-Þýskalandi og ég hygg í Finnlandi eftir að samkomulag var um að afnema slíkt 1967 eða 1968.

Hér hefur verið mikið rætt um samningsréttinn og talið að þetta væru hin gerræðislegustu lög að því leyti. Út af fyrir sig mætti lengi velta vöngum yfir samningsréttinum. T. d. mætti spyrja hvers virði sá samningsréttur sé sem að nafninu til er hafður í heiðri, en síðan taka stjórnvöld sig til aftur og aftur og breyta þeim samningum sem gerðir eru. Tölfróðir menn segja að samningum hafi verið breytt 14 sinnum á undanförnum 4 árum. Sá samningsréttur sem leiðir til slíks er satt að segja að ýmsu leyti vafasamur og virðist þá ekki vera nýttur eins og skyldi ef stjórnvöld finna sig knúin til að breyta slíkum samningum með lögum. Er það ekki líka brot á samningsrétti að breyta samningum með lögum eftir á? Hér var og er um neyðartilfelli að ræða. Íslenski þjóðarbú var komið fram á bjargbrún með verðbólgu sem var yfir 130% og reyndar nálgaðist 144–150% og því var aðeins mjög tímabundið ákveðið að festa grunnkaup eins og lög þessi sem hér eru til umr. gera ráð fyrir. Þessi ríkisstj. hefur hins vegar lýst því yfir að hún ætlar ekki að fylgja fyrra fordæmi og breyta þeim samningum sem vafalaust verða gerðir eftir að þetta ákvæði laganna fellur úr gildi og ætlast til þess að aðilar vinnumarkaðarins nýti þá samningsréttinn af fullri ábyrgð og semji um kaup og kjör innan þess ramma sem þjóðarbúið þolir eða atvinnuvegirnir geta staðið undir.

Hv. þm. taldi að vafasamt væri hvort meiri hl. væri fyrir þessum lögum hér í hinu háa Alþingi. Ég tel nauðsynlegt að á það reyni og því ætla ég ekki að lengja þessar umr. Rétt er að koma málinu til nefndar. Ég hef hvað eftir annað lýst því yfir að í meðferð í nefnd kemur vel til greina að endurskoða þetta ákvæði Ég hef lýst því yfir að megintilgangur ríkisstj. er að ná verðbólgu niður í um það bil 30% í árslok. Betri upplýsingar um það munu liggja fyrir eftir örfáa daga og fær nefnd að sjálfsögðu aðgang að þeim og þá getum við metið hvort ástæða er til að halda umræddu ákvæði.