03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5179 í B-deild Alþingistíðinda. (4561)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil bera það af mér að ég hafi persónulega verið að bera það á formann sjútvn. Ed., hv. þm. Valdimar Indriðason, að hann hafi tafið þetta mál. Það er langt frá því að ég hafi sagt það. Aftur á móti var ég að benda á það, og ég veit að hv. þm. ber ekki á móti því, að vitaskuld var það flokkurinn hans og ríkisstjórnin... (Gripið fram í.) Nú, af hverju var málið ekki tekið fyrir? (Gripið fram í: Það veist þú best sjálfur.) Ég veit ekki um annað en að það lá og lá, og ég vona að aðrir þm. í nefndinni geti staðfest það og m. a. s. hv. 11. landsk. þm. Hann er nú farinn, er ekki viðstaddur.

Það er ekki rétt að ég hafi verið að gagnrýna einhvern persónulega út af þessu. Þetta var bara mín gagnrýni á það hver var pólitík Sjálfstfl. fyrir ári og hvernig hann kemur fram núna. Það var það sem ég var að segja.

Því var ekki vel tekið að ég skyldi nefna Grundarfjörð hér og fund sem við héldum í Grundarfirði. Ég ætla að undirstrika að það hljóta að vera jafnábyrg orð sem við segjum á fundi vestur í Grundarfirði og við segjum hér. Þetta sagði ég áðan. Ég skal alveg viðurkenna að hv. þm. sagði að unnið væri að þessum málum, en hann nefndi líka dagsetningu, hvenær væri líklegt að þetta kæmi. Við vorum allir bjartsýnir. Ég stóð meira að segja upp aftur til að þakka hv. þm. fyrir að hann skyldi hafa lýst þessu yfir á þessum fundi. Svona var þetta.

Ég sé ekki beinlínis sérstaka ástæðu til að fara að deila um þetta frekar, en ég tek ekki þessa yfirlýsingu mína að einu eða neinu leyti til baka. Í þessu tilfelli held ég að eðlilegast sé og auðveldast að fletta upp á Mogganum eða spyrja Grundfirðinga eða aðra þm. sem þar voru staddir.

Ég undirstrika það sem ég sagði um Sjálfstfl. í sambandi við undirbúning þessa máls og framgang þessa máls. Það er til 2. umr. í deildinni þegar brbl. eru að verða næstum ársgömul. Það fer þvert ofan í það sem þessi flokkur boðaði á síðasta ári. Sú kenning þeirra að það skyldi ekki taka gengismun af skreið fer þvert ofan í það sem í þessu frv. er ætlast til. (Gripið fram í.) Það sýnir kannske að það má ekki mikið mark taka á yfirlýsingum Sjálfstfl. Það er alveg rétt. Hann hagar seglum eftir vindi og er með þessa stefnu í þessum málum þegar það hentar honum.