03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5183 í B-deild Alþingistíðinda. (4567)

136. mál, hafnalög

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þetta mál er búið að vera til rækilegrar athugunar í samgn. og ég þakka formanni n. sérstaklega fyrir góða forustu í þessu máli og fyrir það hvað hann hefur verið ötull að leita upplýsinga og vinna að málinu þannig að samkomulag yrði í n. og að þau lög sem frá okkur færu væru sem best búin við þær aðstæður sem nú blasa við okkur. Ég tel þó ástæðu til að benda á að í vinnu n. hefur orðið nokkur stefnubreyting frá því sem frv. gerði ráð fyrir. Og það er eingöngu þannig, að það er horfið nokkuð frá því að minnka verksvið Hafnamálastofnunarinnar og í vissum þáttum, eins og t. d. í sambandi við 5. gr. frv., er bætt inn í málsgr. þar sem gert er ráð fyrir að stofnunin hafi yfir að ráða sérhæfðum tækjum. Ég er ekki með brtt. í ræðustólnum og tel ekki ástæðu til að fjalla beinlínis um brtt. frá liði til liðs, en í öðrum greinum kemur einnig fram sá vilji n. að halda starfssviði Hafnamálastofnunar nokkuð óbreyttu, það yrði ekki skert eins mikið og frv. í upphafi gerði ráð fyrir.

Ég vil einnig taka undir það sem formaður n. nefndi áðan og undirstrika að í n. var rætt þó nokkuð mikið um þann þátt hafnamála sem nú blasir við, þ. e. þá þróun sem á sér stað í gámaflutningum og það að í auknum mæli eru vörur fluttar frá framleiðsluhöfnunum, þ. e. sjávarútvegsbæjunum, til stærri hafna. Þar af leiðandi er það að eiga sér stað að tekjur þessara hafna eru að minnka. Við komumst ekki það langt að gera sérstakar brtt. um þennan þátt, en ég ætla að ástæða sé til að undirstrika að það má alveg gera ráð fyrir að þarna þurfi að gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja að eðlileg framþróun geti átt sér stað í flutningatækni, að þær hafnir sem missa tekjur af þeim sökum fái þær að einhverju leyti bættar og að það gerist ekki að hver höfn á landinu fari að hamast við að byggja sig upp til að þjóna þeirri nýjú tækni sem nú er að ryðja sér til rúms.

Ég vil svo endurtaka það að ég þakka formanni fyrir mjög góða forustu og skipulagningu í starfi n.