03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5184 í B-deild Alþingistíðinda. (4568)

136. mál, hafnalög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til formanns fyrir ötula forustu í nefndarstörfum þar sem hann hefur leitast við að ná sem víðtækustu samkomulagi um brtt. á frv. til hafnalaga sem hér er til umr. Það er ljóst samkv. þessum brtt. að þær leggja meiri áherslu á hlutverk Hafnamálastofnunar en gert var í frv. Og það er viðurkennt að stofnunin þurfi á sérhæfðum tækjum að halda. Var rætt í n. að þar þyrfti m. a. að vera til staðar dýpkunarskip og fleiri tæki sem erfitt er að ætlast til að einstaklingar eigi eða reki þar sem markaðurinn er mjög þröngur og erfitt að hafa þau gangandi þar sem verkefni eru smá og dreifð víðs vegar um land. Ég fagna þessum breytingum og vænti þess að þær verði til góðs.

Það var og rætt nokkuð um þá nýju flutningatækni sem ryður sér nú til rúms og hefur þær afleiðingar að hinar minni hafnir missa af flutningum. Gámavæðingin svokallaða hefur það í för með sér að flutningarnir fara yfir á hendur þeirra hafna sem hafa aðstöðu til að taka á móti og áskipa gámum. Hitt er annað, að það er mjög erfitt að finna lausn á því hvernig höfnum sem ekki hafa þessa aðstöðu verði tryggðar tekjur áfram. Það er mikill vandi vegna þess að hætta er á að ef gripið yrði inn í þá þróun sem hér er um að ræða verði fjötrar lagðir á framfarir og tækni, sem alls ekki má ske. En það þarf að ræða frekar seinna hvernig minni höfnum verða tryggðar tekjur. Ég ætla ekki að fara yfir þær brtt. lið fyrir lið sem hafa verið gerðar, en ég tel þær til mikilla bóta og þakka einmitt þá forustu sem við höfum hlítt í samgn.