03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5184 í B-deild Alþingistíðinda. (4569)

136. mál, hafnalög

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Einn þáttur þessa merka frv. var ekkert ræddur í n.

Í frv. er ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til, samþykkt. með þessum lögum, að samgrn. skuli taka upp viðræður við hreppsnefndir Neshrepps utan Ennis og Ölfushrepps sem og bæjarstjórnir Keflavíkur og Njarðvíkur um afhendingu mannvirkja landshafnanna á Rifi, Þorlákshöfn og Keflavík. Ég taldi ástæðu til, þó að svo hafi farið að þessi þáttur frv. hafi lítið sem ekkert verið ræddur í n., að koma hér upp og lýsa því yfir að ég er alveg sammála þessu ákvæði og tel nauðsynlegt að það mál verði tekið til ákveðinnar afgreiðslu sem fyrst þannig að það hvíli ekki á þessum höfnum of langan tíma. Mér er kunnugt um að hreppsnefndin í Neshreppi er samþykk því að hefja viðræður og er að mínu mati að öllu leyti tilbúin að taka við höfninni eftir þeim grunni sem hér er lýst yfir, þ. e. að hafnirnar verði afhentar þessum sveitarfélögum, en ríkissjóður taki á sig áhvílandi skuldir.