03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5185 í B-deild Alþingistíðinda. (4572)

310. mál, menntaskólar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Eina athugasemdin sem ég geri við bæði þau frv. um fullorðinsfræðslu sem hér eru á dagskrá, frv. til l. um breytingu á lögum um menntaskóla annars vegar og frv. til laga um heimild til að stofna fjölbrautaskóla hins vegar, ef ég má ræða þessi hliðstæðu mál saman, er sú að nemendum í kvöldskóla skuli vera gert að greiða þriðjung launakostnaðar við kennsluna. Ég sé enga ástæðu til, síður en svo, að nemendur á fullorðinsaldri búi við aðrar aðstæður að þessu leyti en nemendur hér á landi almennt og hef þennan fyrirvara á málinu. Þetta er atriði sem að mínu mati þarf að athuga vendilega við skoðun á heildarskipan fullorðinsfræðslu hér á landi.

Ég vil nota þetta tækifæri til að ítreka nauðsyn þess að stjórnvöld flýti því að koma almennilegum skikk á skipan fullorðinsfræðslu og endurmenntunarmála. Fullorðinsfræðsla er mikið réttindamál, og ekki síst fyrir konur sem almennt hafa töluvert minni menntun en karlar. Fyrir því liggja fjölmargar ástæður, en þar vega e. t. v. þyngst hefðbundin viðhorf til þess hvert skuli vera lífsstarf og hlutverk kvenna í þjóðfélaginu. Aðgangur að fræðslu og endurmenntun á fullorðinsárum er því einn mikilvægur þáttur í frelsisbaráttu kvenna og mér finnst ekki annað sanngjarnt en þær njóti þar sömu aðstæðna og börnin sem þær eru eða hafa lokið við að ala upp.

Ég vil því beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. hvort hún sé tilbúin til, við gerð reglugerðar um starfsemi þessa, að beita sér fyrir því að kostnaðarhluti nemenda verði minnkaður frá því sem nú er og frv. kveður á um. Í frv. er reyndar kveðið svo á að kostnaðarhluti nemenda skuli vera allt að þriðjungi launakostnaðar þannig að ráðh. hefur þarna svigrúm við framkvæmd laganna. Og í framhaldi af því langar mig einnig til að spyrja ráðh. hvort hún sé tilbúin til að stefna að því í áföngum að afnema þennan kostnaðarhluta nemenda með öllu. Ég tel mikilvægt að heyra sjónarmið ráðh. í þessum efnum við afgreiðslu málsins. Að öðru leyti er ég eins og ljóst má vera af máli mínu, fyllilega samþykk efni þessara frv. beggja og fagna því að þau eru hér fram komin.