03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5186 í B-deild Alþingistíðinda. (4573)

310. mál, menntaskólar

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég tek undir það með öðrum að ég fagna því frv. sem hér er flutt og að búið sé að ákvarða stöðu fullorðinsfræðslu í landinu. Hins vegar kemst ég ekki hjá að minnast á það að þarna verður skólastigum í landinu verulega mismunað. Ég ætla að láta liggja milli hluta þann 1/3 sem síðasti ræðumaður var að tala um að yrði greiddur af nemendum. Auðvitað er það liður sem þarf að kanna. Það eiga allir rétt á fræðslu hvar sem þeir búa á landinu og við hvaða aðstæður sem er. En ég vil minnast á þetta vegna þess aðstöðumunar sem skapast þarna á milli menntaskólastigs og fjölbrautastigs. Þið fyrirgefið að ég ræði bæði málin hér í einu. Gert er ráð fyrir að nemandinn greiði 1/3 launakostnaðar, sveitarfélagið 1/3 og ríkið 1/3 þegar um fjölbrautaskóla er að ræða en þegar um menntaskóla er að ræða tekur ríkið að sér allt nema hlut nemandans. Þarna verður því verulegt misræmi. Og það er ekki eingöngu í þessu eina dæmi heldur veldur það vissum vandræðum hjá þeim sveitarfélögum sem reka fjölbrautaskólana að á viðkomandi sveitarfélagi lendir verulegur aukakostnaður. Ég held að ég muni það rétt að t. d. á Akranesi, þar sem er mjög vel rekinn og myndarlegur skóli, varð Akranesbær að greiða á s. l. ári vegna þess arna rúmar 4 millj. kr. Við höfum ekki farið þá leið sem ég kalla neyðarleið þó heimil sé, að innheimta námsvistargjöld fyrir það fólk sem kemur bæði úr Vesturlandskjördæmi og víðar af landinu. Ég kalla það neyðarleið að þurfa að gera það. Þess vegna langaði mig af þessu tilefni að spyrja hæstv. menntmrh. hvað liði skólakostnaðarlögunum. Eigum við von á breytingu á þessu innan tíðar?