07.11.1983
Neðri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

11. mál, launamál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera hér smáathugasemd. Það kom fram í máli hv. 10. þm. Reykv., sem ég hafði reyndar spurt um í fyrri ræðu minni í dag, að það er ekki aðeins hann heldur hann og nokkrir aðrir hv. þm. Sjálfstfl. sem hafa einsett sér að beygja Framsfl. í þessu máli og koma í veg fyrir það að þessi lög, brbl., um að svipta verkalýðshreyfinguna rétti til frjálsra kjarasamninga, verði staðfest á hv. Alþingi. Ég fagna því og ég vona að þeir standi við þessa yfirlýsingu sína.

Það er þá líka rétt, sem ég hélt hér fram fyrr í dag, að þessi lög hafa ekki meiri hluta á hv. Alþingi. Það er íhugunarefni núna á sjöunda mánuði laganna að þá fyrst skuli þessi niðurstaða liggja fyrir. Ég vona að hv. 10. þm. Reykv. skilji það að okkur þm. stjórnarandstöðunnar hefur ekki verið gefinn kostur á því fyrr en núna í nóv. að ræða um þetta mál og þessi lög, sem voru sett með því að beita brbl.-valdinu í maí í vor. Þessi lög eru búin að vera hér í gildi með stjórnskipulegum hætti síðan 26. og 27. maí í vor. Þegar málin eru rædd núna í byrjun nóv. kemur það í ljós að þau hafa líklega ekki og höfðu þá ekki meiri hluta á Alþingi.

Það er athyglisvert fyrir hv. Alþingi að velta því nú fyrir sér hvernig hefur verið komið fram við löggjafarvaldið í þessu efni, því að það hefur aftur og aftur verið fullyrt af hæstv. ríkisstj. að hún hefði meiri hluta í málinu. Hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hafa hvað eftir annað sagt að það væri hafið yfir allan efa að þeir hefðu meiri hluta á bak við sig í þessu máli. Nú kemur það í ljós að hv. 10. þm. Reykv. og nokkrir aðrir hv. þm., eins og hann orðaði það, eru að undirbúa það að snúa Framsókn niður í þessu máli, beygja Framsókn og koma í veg fyrir það að þessi gerræðislög, sem Framsfl. knúði fram s.l. vor, nái fram að ganga. Spurningin er þá um tvennt: Tekst þeim að beygja Framsókn og lætur Framsókn beygja sig í þessu máli? Eða hangir hún eins og hundur á roði á þessu kappsmáli sínu áfram, að svipta verkalýðshreyfinguna í landinu mannréttindum eins og gert var hér s.l. vor? Er Framsókn það svo heilagt mál að hún leggi allt undir í þessu efni eða lætur hún sér segjast, þannig að hv. 10. þm. Reykv. og nokkrir aðrir þm. Sjálfstfl. geti fengið ríkisstj. ofan af þessari gerræðislegu lagasetningu.

Þetta er auðvitað geysilega þýðingarmikið atriði að fá fram og það sýnir hvað umr. eru gagnlegar, þó þær hafi tekið sinn tíma, að þessi niðurstaða skuli nú liggja fyrir, þannig að alþjóð veit og sér hvernig á þessum málum hefur verið tekið. Því hér er í verkum sama ríkisstj. og neitaði stjórnarandstöðinni um það að kalla þingið saman í sumar. Nú skilur maður betur en áður hvað það var sem olli því að ríkisstj. var ekki tilbúin til þess að kalla þingið saman. Það var vegna þess að hún var ekki viss um að hún hefði meiri hluta á bak við sig í þessari lagasetningu sem Framsfl. teymdi Íhaldið út í framan af þessu sumri.

Þetta skiptir miklu máli. Þetta er ekki þras um fortíðina eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson benti á hér áðan. Hér er verið að tala um stjórnskipun lýðveldisins, hér er verið að tala um grundvallaratriði. Hitt er svo alveg rétt, að vandamál þjóðarinnar og efnahagslífsins um þessar mundir eru auðvitað svo stór að við þyrftum að geta sameinast um að taka á þeim. Og á það á ríkisstj. að leggja höfuðáherslu en ekki að efna til stríðs. Eins og formaður Landssambands ísl. verslunarmanna hefur bent á þá er verkalýðshreyfingin í landinu reiðubúin til þess að taka þátt í því að glíma við þau vandamál sem uppi eru í landinu núna. En hún er í fjötrum þessara brbl. sem nú eru að falla hér á Alþingi vegna þess að þau virðast ekki hafa meiri hluta.