03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5189 í B-deild Alþingistíðinda. (4585)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég hlýt að láta hér nokkurt sérálit í ljósi þar eð ég mun ekki sitja hér þingfundi á morgun af óviðráðanlegum ástæðum.

Grunnhugsunin um alla banka undir sama rn. er fyllilega réttmæt. Sú breyting sem hér er lögð til er hins vegar þess eðlis að hún ætti að koma inn í allsherjarendurskoðun bankamála en ekki vera gripin ein út úr án allrar skoðunar annarra þátta. Það er auðvitað aðalatriði þessa máls. Rökstuðningur í greinargerð um örari fjölgun útibúa hjá bönkum sem viðskrh. hefur ekki haft yfir að segja er mjög úr lausu lofti gripinn, svo ekki sé meira sagt. Sama er að segja um tengslin við einstakar atvinnugreinar. Þau eru hvergi nærri jafneinskorðuð við neinn sérstakan banka eins og áður var, hvergi nærri eins. Sé ég nú að hæstv. fjmrh. hugsar um Útvegsbankann sinn. (Gripið fram í.) Nei, okkur líður nefnilega vel þar og einmitt þess vegna sjáum við ekki ástæðu til að breyta þessari skipan. En tengsl Búnaðarbankans og Stofnlánadeildar landbúnaðarins, bæði stjórnunarleg og viðskiptaleg, eru slík í dag að ég tel ófært að afgreiða þessa breytingu án þess að breyta lögum um Stofnlánadeildina, stjórn hennar og málefni almennt og tryggja þar ákveðin lágmarksatriði bæði varðandi framtíðaraðbúnað og stjórnarform deildarinnar í heild. Ekkert hefur komið fram um það hér og meðan ekkert liggur fyrir um það meginmál hvernig þau tengsl eigi að vera og hver framtíðarstjórn eigi að vera þar á, sem skiptir auðvitað langmestu máli í þessu efni, þ. e. hvernig fer um Stofnlánadeildina, þá tel ég þetta frv. hvergi tímabært. Ég er andvígur því þrátt fyrir réttmæti grunntilgangsins. Aðalatriðið er það að framtíðarskipan Stofnlánadeildar landbúnaðarins er algerlega í vindinum og ekkert hefur komið fram um það með hvaða hætti þau skipti sem nú verða eigi að gerast og þau skil sem þarna verða gerð á milli Búnaðarbankans og Stofnlánadeildarinnar, sem ég er hreint ekki að segja að sé neitt heilög. En það verður að hugsa fyrir málinu áður en það er flutt, þannig að menn viti svona nokkurn veginn hvað þeir ætla að gera við þennan mikilvæga þátt, sem er Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Mér sýnist á öllu að það hafi engri hugsun verið að því eytt af hálfu frumvarpssmiða hvernig ætti að haga því máli, þar sé allt á huldu og því sé vítavert að leggja frv. fram án þess að gera sér grein fyrir því hver skuli vera framtíðarskipan Stofnlánadeildarinnar og hvernig þar skuli staðið að málum í framtíðinni.