04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5351 í B-deild Alþingistíðinda. (4620)

310. mál, menntaskólar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Hér er til umr. brtt. á þskj. 756 frá hv. þm. sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Eins og fram hefur komið á hv. þm. setu í menntmn. þessarar deildar. Það efni sem brtt. fjallar um var ekki mikið rætt í nefndinni. Þó bar þá hluti á góma.

Ég vil halda því fram að sú lagasetning sem er hér á ferðinni, þ. e. frv. sjálft sé engin breyting frá því sem verið hefur. Eins og raunar margoft hefur komið fram er þar aðeins verið að staðfesta þá reglu, það vinnulag sem við hefur verið haft.

Hins vegar vil ég ekki láta undir höfuð leggjast að minna á það sem stendur í frv. varðandi námskeiðagjöldin, að þau skuli miðast við að standa undir allt að þriðjungi kennslulauna, og það er gert ráð fyrir því að setja reglugerð í þessu sambandi. Þegar í frv. stendur „allt að“ þá er ekkert sem bannar það að hafa þessa kostnaðarþátttöku verulega lægri. Þetta er kannske ekki meginmálið í þessu sambandi heldur hitt: hvar er fé í sameiginlegum sjóðum okkar til að standa undir þeim kostnaðarauka sem af þessu mundi óhjákvæmilega leiða? Sjálfur hef ég staðið að því að samþykkja fjárlög fyrir þetta ár og m. a. af þeim sökum er mér ómögulegt að gera slíkar kostnaðarbreytingar á miðju fjárlagaári sem þessi brtt. mundi óhjákvæmilega hafa í för með sér.

Ég vil svo aftur taka undir fjölmargt í ummælum hv. þm. varðandi endurmenntunina, varðandi fullorðinsfræðsluna. En þá komum við að því sem hér hefur áður verið vikið að. Við þurfum að ýta á það að framhaldsskólinn verði tekinn til afgreiðslu, ef svo má að orði komast, ekki síst að því er varðar skólakostnaðinn. Þar með mundu þessi mál vafalaust koma til umfjöllunar. Ég vonast til að hæstv. menntmrh. hraði þeirri málsmeðferð.

Ég get því ekki mælt með því að deildin samþykki þessa brtt. Ég ætla ekkert að víkja orðum að því að hún sé of seint fram komin, það er eðlilegur gangur mála að brtt. komi fram allt til lokaumfjöllunar, en ég verð þó að segja að það hefði farið betur á því að brtt. hefði komið fram strax við 2. umr. En sem sagt, ég get ekki mælt með því að þessi brtt. verði samþykkt.