04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5351 í B-deild Alþingistíðinda. (4621)

310. mál, menntaskólar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Þar sem ég tók ekki til máls við 1. og 2. umr. málsins en fram er komin brtt. við frv., þá þykir mér rétt að gera hér örstutta grein fyrir mínum sjónarmiðum til þessa máls. Ég hef haft mikinn hug á því að fullorðinsfræðsla hér á landi yrði efld og ég hef beðið eftir því með nokkurri óþreyju, eins og raunar fleiri þm., að fram væri lagt hér í þinginu frv. um framhaldsskóla þar sem gerð væri tillaga um fyrirkomulag fullorðinsfræðslu í kerfi okkar. Ég vil minna á að í framhaldsskólafrv., sem ég lagði fram sem menntmrh., voru mjög ítarleg ákvæði um rekstur fullorðinsfræðslu innan framhaldsskólakerfisins. Auðvitað hefði verið eðlilegast að Alþingi hefði afgreitt þessi mál í heild sinni, framhaldsskólamálin, og þar með um leið fullorðinsfræðslumálin.

Ég vil nota þetta tækifæri, vegna þess að hæstv. menntmrh. er hér nærstaddur, til að spyrjast fyrir um það hvort ekki megi vænta þess að fljótlega verði lagt fyrir Alþingi frv. um framhaldsskóla. Ég hygg að einhver fyrirheit hafi verið gefin um það fyrr á þessum vetri og er jafnvel ekki frá því að framhaldsskólafrv. hafi verið á lista þeim sem ríkisstj. lagði fram í upphafi þings um mál sem hún ætlaði að flytja hér. Þó má vera að það sé misminni. Ekki geri ég mér miklar vonir um að framhaldsskólafrv. yrði afgreitt hér í þinginu á þessum vetri, en þætti forvitnilegt að vita hvort það yrði lagt fram áður en þinginu lýkur. Ef svo er ekki, þá er kannske eðlilegt að spurt sé: Hvað dvelur orminn langa? Því að auðvitað eru æði margir orðnir mjög langeygir eftir því að sett verði löggjöf um þetta efni. Það hefur dregist úr hömlu.

Í sambandi við fullorðinsfræðsluna hefur mér fundist mikilvægast að efla hana, koma henni á sem víðast. Og staðreyndin er sú, að í tíð tveggja seinustu ríkisstjórna, eða þriggja öllu heldur ef talin er með sú sem starfaði hér í eina tvo mánuði, hefur orðið mjög veruleg aukning á fullorðinsfræðslustarfsemi um allt land. Í raun og veru má segja að á árunum 1979, 1980, 1981 og 1982 verði stökkbreyting í þessum efnum. Þetta hefur mér fundist það mikilvægasta í þessu sambandi.

Mér hefur hins vegar ekki fundist það neitt óeðlilegt að nemendur sem stunduðu nám í kvöldskólum af þessu tagi, öldungadeildum svokölluðum, greiddu eitthvert innritunargjald til að festa þá við námið og hafa það alveg á hreinu hverjir ætluðu að stunda nám og hverjir væru ekki við nám. Til þess þarf venjulega að kosta einhverju til af hálfu nemenda, með greiðslu gjalds í einhverju formi, því að staðreyndin er sú, að ef ekki eru greidd gjöld í sambandi við fullorðinsfræðslu, þá sýnir reynslan að kennslan verður ákaflega losaraleg. Það er erfitt fyrir skólann að átta sig á því hvað margir eru raunverulega við nám og hvað margir ganga að þessu bara með hangandi hendi, mæta þar stöku sinnum o. s. frv. Það vill verða losarabragur á slíkri fræðslu, sem fer fram með afbrigðilegum hætti og þar sem nemandi er ekki í reglubundnu námi, nema nemendum sé ætlað að leggja fram visst framlag af sinni hálfu sem innritunargjald og að þeir eigi þá nokkuð í húfi að stunda það nám sem þeir hafa skráð sig til.

Hitt er allt annað mál, að það getur auðvitað verið álitaefni hversu hátt þetta gjald á að vera, hvort það á að vera 1/3 af kennslukostnaði í skólunum eins og verið hefur nú um margra ára skeið eða hvort það á að vera eitthvað lægra gjald. Ég hygg að þetta gjald geti nú ekki í sjálfu sér talist mjög hátt. Það er einungis launakostnaðurinn sem nemendur greiða, en stór hluti kennslukostnaðarins er auðvitað fólginn í rekstrarkostnaði skólans og ýmsu sem því tengist. Ég vil hins vegar ekkert útiloka það að 1/3 launakostnaðar sé of hátt gjald fyrir marga nemendur og vissulega getur það verið til endurskoðunar að hafa þetta gjald eitthvað lægra, og þá er það rétt sem seinasti ræðumaður benti á að hér er um heimild að ræða til að leggja þetta gjald á, sem nemi allt að þriðjungi beins kennslukostnaðar. Það er sem sagt möguleiki að hafa gjaldið lægra. Mér finnst vel koma til greina að að því verði stefnt að lækka gjaldið, en ég er alls ekki hlynntur því að fella það algerlega niður. Ég get ekki fallist á það. Ég held að það séu full rök fyrir því að gjald sé greitt.

Það er áreiðanlega erfitt fyrir margan manninn að stunda kvöldskóla með vinnu. Og það eru mörg útgjöld því samhliða, f. d. hugsanlega barnagæsla og margt fleira, þannig að í mörgum tilvikum er um erfiðleika að ræða hjá fólki, ekki bara vegna þess að það þurfi að greiða þetta innritunargjald heldur af mörgum öðrum ástæðum. Og þá vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að tryggja þessu fólki einhverja námsaðstoð, t. d. í formi styrkja eða lána. Ég held að það væri full þörf á því og kæmi mjög sterklega til greina að koma slíku skipulagi á að þeir sem þurfa þess sannarlega með að fá námsaðstoð til að geta stundað þetta nám fái hana, annaðhvort í gegnum Lánasjóð ísl. námsmanna eða þá í gegnum það kerfi sem heitir aðstoð við námsmenn og er sérstakur fjárlagaliður sem menntmrn. fer með og útdeilir fé af. Það er vafalaust alveg laukrétt, sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sagði hér áðan, að margir nemendur í öldungadeildum þurfa á aðstoð að halda. Það kemur því sterklega til greina að hafa þetta gjald eitthvað lægra og vænti ég þess að menntmrn. taki það til nánari athugunar. En einnig er vafalaust þörf á því, og til þess hvet ég mjög eindregið, að þeir nemendur sem stunda námið reglulega og skila námsárangri, því að það verður auðvitað að tryggja að menn fái ekki aðstoð fyrir nám sem ekkert er, njóti stuðnings af hálfu opinberra aðila.

Með hliðsjón af því sem ég hef nú sagt treysti ég mér nú ekki til að styðja þá brtt. sem Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, hv. 11. þm. Reykv., hefur borið hér fram.