04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5355 í B-deild Alþingistíðinda. (4623)

310. mál, menntaskólar

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Velferðarríki er að mörgu leyti dálítið skrýtið apparat. Hérna uppi í holtinu sem stundum er kallað Grjótaþorp, kannske að nokkru leyti rangnefni því að það var upphaflega aðeins mjög lítill hluti þess svæðis sem þarna var, stendur lítið rautt hús. Það er núna Garðastræti 15. Í þessu húsi bjó kona og við hana er þetta hús kennt. Þessi kona er orðin að sögupersónu í Íslandssögunni. Um hana hafa verið skrifaðar bækur og jafnvel kvikmyndaðar. Þessi kona rak eitt lítið velferðarríki með dálítið sérstökum hætti. Hún hafði kostgangara. Og hjá henni gilti það lögmál að þeir borguðu sem gátu og hinir borguðu ekki. Ég er ekki viss um að Una hafi tafist til hinnar hagsýnu húsmóður en hún var a. m. k. mjög elskuð húsmóðir.

Það sem fram hefur komið í þessari umr. geri ég að nokkru leyti að mínu máli. Ég get ekki gagnrýnt þá framkvæmd að taka gjald af þeim sem nám stunda í öldungadeildum, þ. e. að þeir standi að hluta til undir þeim kostnaði, þegar við höldum opnum möguleika til að aðstoða það fólk sem ekki getur staðið undir þessum kostnaði eftir þeim leiðum sem velferðarríkið býður upp á. Auðvitað væri æskilegast að allir ættu þess kost að mennta sig án þess að þurfa að leggja fram greiðslu í peningum fyrir að njóta þeirrar uppfræðslu. En við vitum að það er þó tekið endanlega úr þeirra vasa með öðrum hætti þegar til greiðslunnar kemur. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram eru komnar, að þetta er annars vegar ekki hátt gjald og hins vegar er mögulegt að fá gjaldið lækkað og fá aðstoð til að greiða það, tel ég þessa till. ekki tímabæra nú. En kostnaðarlaust nám er náttúrlega keppikefli út af fyrir sig í ljósi hinna frægu orða Bismarcks að framtíðin er þeirrar þjóðar sem besta á skólana.