04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5357 í B-deild Alþingistíðinda. (4625)

310. mál, menntaskólar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni þeirra ummæla sem féllu hér áðan hjá hv. 11. þm. Reykv. Hún minnti á það atvik er við hæstv. fjmrh. áttum hér nokkur orðaskipti í vetur. Ég hygg að við séum alveg sammála um það að kjör láglaunafólks í þessu þjóðfélagi eru nú með þeim hætti að það hefur minna en ekkert aflögu. Um það er ekki nokkur minnsti ágreiningur. Og fjmrh. var meira að segja sammála þessu, ef ég man rétt, þegar við vorum að ræða þessar ákveðnu launatölur sem þá komu hér til umr. En það breytir hins vegar ekki meginmáli minnar ræðu, að mikill hluti þess fólks sem stundar þetta nám er í vinnu og vill nokkuð á sig leggja til að stunda þetta nám og ég minnist þess ekki að hafa heyrt mikla eða yfirleitt nokkra gagnrýni á þessi námsgjöld. Ég minnist þess ekki. Það hefur ekki verið nein umr. um það í þjóðfélaginu né heldur hér á Alþingi. Ég held þess vegna að hér sé verið að gera mikið veður út af máli sem er í rauninni ekkert vandamál. En auðvitað þarf að endurskoða öll þessi fullorðinsfræðslumál eins og ég minnti á hér áðan. En ég minni á það að hv. 11. þm. Reykv. vék ekki að því einu orði hvaðan ætti að taka fé, hvort það ætti að koma frá öðrum þáttum menntakerfisins eða hvaðan það ætti yfirleitt að koma. Og ég tel að sú skylda hvíli á tillögumönnum, þegar þeir gera tillögur í þessa átt, að leggja til samtímis hvernig skuli fjármagna þessar aðgerðir.

Varðandi þessa umr. og orðaskipti okkar um jafnréttismálin og tilurð Samtaka um kvennalista, þá er mér það allt saman fullkomlega ljóst. Ég hef hins vegar vissar efasemdir um það að málflutningur af því tagi sem hv. þm., fulltrúar Samtaka um kvennalista á hinu háa Alþingi, viðhafa í málum hér sé alltaf jafnréttinu til mikils framdráttar. Ég hef vissar efasemdir um það. Ég held að að þeim málum verði kannske betur unnið í stærra samhengi og ég held satt best að segja að stjórnmálaflokkarnir sem hafa skoðanir á fleiri málum en jafnréttismálum séu á ýmsan hátt betur til þess fallnir og verði meira ágengt í að vinna jafnréttishugmyndum stuðning heldur en sá málflutningur. Þótt ég efist ekki um þann góða hug og vilja sem þar er að baki þá held ég að þetta leiði hina áhugasömustu fulltrúa stundum út á svolítið hæpnar og vafasamar brautir sem ekki séu þessum ágæta jafnréttismálstað alltaf til framdráttar. Og satt best að segja held ég að sá stundum öfgafulli málflutningur sem stundaður er á þessum vettvangi sé hinni raunverulegu jafnréttisbaráttu ekki til góðs.