04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5358 í B-deild Alþingistíðinda. (4629)

310. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég lýsi nokkurri undrun á þeim umr. sem hér hafa farið fram, svo rækilega sem þessi starfsemi hefur sannað gildi sitt við því verði sem hún er látin í té, þessi þjónusta. Frá upphafi þessarar starfsemi hefur gjöldum verið hagað svo sem hér er um rætt. Þess má geta að núna á þessari önn er gjald nemenda í öldungadeild 1700 kr. og yfir því hefur síður en svo verið kvartað. Hins vegar hefur þetta leitt til þess að fjöldi manna, karta og kvenna, og í miklu stærri stíl kvenna, hefur á þennan hátt hlotið menntun sem þetta fólk hefði annars verið án. Mikill og vaxandi fjöldi stúdenta útskrifast úr öldungadeildum. Það munu vera um 100 manns a. m. k. á ári og það hefur verið vaxandi krafa að það fyrirkomulag sem verið hefur verði lagfært. Um það snýst þetta mál.

Ég verð að segja að það eru mér vonbrigði að um þetta komi fram óraunhæfar tillögur sem síst eru tímabærar nú, eins og á stendur um fjárhag þjóðarinnar. Hér er einnig um efnislegt meginreglumál að tefla, einmitt þetta, að þeir sem öðruvísi stendur á um en um unglinga standi undir hluta námskostnaðar síns sjálfir. Það hefur reynst vel að því er þessa starfsemi varðar. Mönnum hefur verið alvara með því námi sem þeir stunda í öldungadeild og leggja mikið á sig og mikil námsafrek hafa þar verið unnin.

Ég held að Alþingi ætti að kappkosta að afgreiða þetta litla mál, sem hefur mikla þýðingu, og lögfesta þessa starfsemi. Ég tel of langt að bíða þess að Alþingi lögfesti ýmsar aðrar reglur um framhaldsskóla, eins og spurt var raunar um hér í dag. Það var spurt um frv. um framhaldsskóla. Ég svaraði þeirri spurningu í frumræðu minni fyrir þessu máli og einnig síðar í 1. umr. Að því er varðar kostnaðarskiptingu, þá var það atriði sem flækti framgang framhaldsskólafrv. á sinni tíð. Ég hafði vissulega í huga að lögfesta efnisatriði þess frv. þá er ég tók við ráðherradómi, en síðan hef ég athugað þetta mál allmiklu betur og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri framkvæmanlegt nú fremur en fyrri daginn að koma því máli í heilu lagi í gegnum þingið. Þess vegna tek ég þann kostinn að taka þetta atriði, sem ég tel mjög nauðsynlegt að lögfesta, út úr og gerði um það sérstakt frv. En að því er varðar löggjöf um framhaldsskóla að öðru leyti, þá þykir mér það að athuguðu máli ekkert sáluhjálparatriði að hafa það endilega í einu allsherjarfrv. Aðalatriðið er að það séu til skýrar og greinilegar og framkvæmanlegar lagareglur um þessa starfsemi í þjóðfélaginu og að við byggjum í því sambandi á þeirri reynslu sem fengist hefur í því kerfi sem starfrækt hefur verið.

Ég vil að öðru leyti þakka, herra forseti, þann efnislega stuðning sem þetta frv. hefur nú að mestu leyti fengið þrátt fyrir það að fram komi brtt. Það er ekkert að undra þótt fram komi brtt. um málin, en ég vil sérstaklega taka fram að efni hennar tel ég muni ekki verða þessu máli til framdráttar.