04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5360 í B-deild Alþingistíðinda. (4635)

311. mál, fjölbrautaskólar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Það er mikið til siðs hér á þessu þingi að spyrja hagsýnar konur hvernig eigi að greiða eitt og annað og það væri æskilegt að sá siður væri í heiðri hafður varðandi hagsýna karla hér á þessu þingi.

Mér finnst eðlilegt og geri ráð fyrir því, þó að það hafi nú reyndar ekki komið fram í framsögu minni hér áðan, að verði brtt. samþykkt þá skiptist kostnaðurinn jafnt á sveitarfélög og ríki. Að öðru leyti get ég vísað til þess að hér á þessu þingi höfum við Kvennalistakonur flutt margs konar brtt., sem mættu horfa til sparnaðar í ríkisfjármálum, og ef menn vilja beinharða till. núna um það hvar mætti yfirleitt taka fé til þess að standa undir þeim kostnaði, sem þetta hefur í för með sér fyrir ríkið, þá mætti mér að meinalausu fella niður útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur.