04.05.1984
Neðri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5393 í B-deild Alþingistíðinda. (4675)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir til umr. staðfestir að ríkisstj. ræður ekki við stjórn efnahagsmála. Það staðfestir að hún hefur í raun og sannleika gefist upp á að stjórna efnahagsmálunum. Hún hefur ekki náð samstöðu um nemar raunhæfar lausnir. Þetta mál kom þannig til að ríkisstj. uppgötvaði að það væri rétt sem stjórnarandstaðan hafði sagt, að það væri halli á fjárlögunum í raun og sannleika. Nú er talað um það sem lausn á þessum vanda að taka lán til að fjármagna þennan halla. Það er ekki raunveruleg úrlausn að taka 2 þús. millj. kr. lán og rúmlega það til að mæta þessum vanda. Það er að viðurkenna að ekki hafi tekist að taka á málinu. Ég tel að með þessu frv. sé uppgjöf, raunveruleg uppgjöf ríkisstj. innsigluð. Það er ekkert eftir af þeim stefnumálum sem hún setti sér í upphafi, nema að það hafi verið sérstök stefna ríkisstj. að skerða lífskjörin í landinu og láta þar við sitja. Hún hefur vikið frá öllum helstu stefnumálum sínum. Hún sagði skýrt og skorinort: Það á ekki að auka erlendar skuldir. Það á ekki að velta vandanum á undan sér. En þetta frv. felur það í sér öllu öðru fremur að auka erlendar skuldir og halda áfram að velta vandanum á undan sér. Að þessu leytinu er þessi ríkisstj. orðin nákvæmlega eins og aðrar ríkisstj. sem við höfum haft á undanförnum árum. Ríkisstj. hefur gefist upp. Hún getur auðvitað hangið áfram ef hana lystir. Hún getur tórt til leiðinda og ama fyrir þjóðina og reyndar fyrir þingið. En hún er í raun og sannleika samkvæmt þessu búin að vera. Það er leiðari í Dagblaðinu-Vísi í gær sem hét „Þrotinn lífskraftur“. Það var ágæt yfirskrift yfir það frv. og þær athafnir sem lýsa sér í þessu frv. sem hér liggur fyrir. Ég held að það megi segja meira og reyndar vitna þá í ljóðið sem mér sýndist að hafi gefið tilefni til þessara orða. Þar er talað um þrotinn sálarkraft. Ríkisstj. staðfestir með þessu frv. að henni er ekki bara þrotinn lífskraftur heldur sálarkraftur líka.

Harðasti áfellisdómur, sem hefur verið felldur yfir þessari ríkisstj., birtist í ræðu varaformanns Sjálfstfl. sem hann hélt í gærkvöld á fundi á vegum Sjálfstfl. á Seltjarnarnesi. Frá þessum aðila, varaformanni Sjálfstfl., kemur harðasti áfellisdómur sem í raun og sannteika hefur verið felldur yfir ríkisstj. Hann segir að efnahagsaðgerðir ríkisstj. séu lítil mús og það eru vissulega orð að sönnu. En það felst kannske enn þá meira í því að velja orðið mús sem lýsingu á efnahagsaðgerðum ríkisstj. Músin er nefnilega nagdýr. Ríkisstj. er að naga undan rótum sjálfrar sín með því frv. sem hér hefur verið flutt.

Varaformaður Sjálfstfl. segir það skýrt og skorinort að ráðstafanir ríkisstj. samkvæmt þessu frv. séu rangar. Hann segir í raun og sannleika að ríkisstj. hafi brugðist bogalistin og ríkisstj. hafi brugðist og hann vill nýjan stjórnarsáttmála eða nýja stjórn ef á að halda áfram á þessari braut. Í þessu sambandi velur hann flokki sínum, Sjálfstfl., þá lýsingu að hann sé buxnalaus. „Buxnalausi flokkurinn“ verður lýsingin á Sjálfstfl. Og það er kannske ekki nema von vegna þess að öll þau markmið sem ríkisstj. setti sér hafa brugðist. En reyndar ekki bara í þessu máli. Fjmrh. vildi t. d. afnema skattfríðindi nokkurra framsóknarfyrirtækja. Sjálfstfl. guggnaði á því að láta reyna á það af hræðslu við stjórnarsamstarfið og stólana. Þetta var sussað niður. Þetta misrétti í skattamálum átti að halda áfram til þess að ríkisstj. gæti setið. Þetta var mikil niðurlæging fyrir Sjálfstfl. Þarna hröpuðu buxurnar um eitt þrep niður á við.

En það má nefna fleira. Fjmrh. vildi framfylgja lögum um söluskatt og þess háttar í svokölluðu „Mangó-máli“, varðandi mangósopann. Það þýddi sem sagt að leggja ætti slík gjöld í samræmi við lög á þessar afurðir. Framsfl. svaraði með því að leggja fram frv. um lagabreytingu, en ríkisstj. hrökk í kút og setti nefnd í það hvernig ætti að komast fram hjá því að framfylgja lögum í landinu. Þarna kom líka fram að Framsfl. setti Sjálfstæðismönnunum stólinn fyrir dyrnar þrátt fyrir það að vitað er að þessar afurðir eru seldar á uppsprengdu verði. Ekki hefur fengist nein viðhlítandi skýring á því hvernig verðlagningu á þessari vöru sé háttað og það er reyndar upplýst hér í þinginu að í þessari vinnslugrein hafi menn ekki hugmynd um það hvernig þeir verðleggi afurðir sínar. Líka þarna varð Sjálfstfl. að lúta í lægra haldi.

Ég get nefnt það enn að það er áformað í stjórnarsáttmála ríkisstj. að taka Framkvæmdastofnunina og sjóðakerfið til endurskoðunar. Líka í þessu máli varð Sjálfstfl. að þola niðurlægingu. Framsfl. beitti afli til þess að ekkert yrði úr þessu. Framsfl. steig þarna á Sjálfstfl. og reyndar stjórnarsáttmálann í leiðinni.

Enn má telja að það var fyrir frumkvæði sjálfstæðismanna sem inn í stjórnarsáttmálann var sett að endurskoða ætti afurðalánakerfið. Í því hefur heldur ekkert gerst. Það voru áhrifaríkir menn innan stjórnarflokkanna sem stöðvuðu það. Nú er verið að tala um að fikta eitthvað lítils háttar við prósentur, en kerfið hefur ekki hlotið neinn uppskurð, eins og stjórnarsáttmálinn segir þó fyrir um að gera eigi. Og á seinustu dögum höfum við heyrt hótanirnar ganga hér á víxl milli stjórnarflokkanna vegna húsnæðismálanna. Það er ekki nema von að varaformaður Sjálfstfl. lýsi flokki sínum þannig að hann sé buxnalaus eftir alla þessa niðurlægingu. Allar umbætur af þessu tagi lenda gjörsamlega í útideyfu. Allar tilraunir í þessa átt standa á einum vegg, á mótstöðu við þessar úrbætur og þá einkum af hálfu Framsfl. Ef á að standa við stjórnarsáttmálann þá segir Framsfl. stopp.

Og vel á minnst, landbúnaðarmálin. Varaformaður Sjálfstfl. gerði þau líka að umtalsefni. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan forsrh. gaf yfirlýsingu á Akureyri um það að nú þyrfti að draga úr útflutningsbótum. Hvað gerist þegar þetta frv. er lagt fram? Jú, útflutningsbætur eru stórauknar. Og það sér ekki fyrir neina stefnumörkun í því að draga úr í þeim efnum. Það er ekki nema von að varaformanni Sjálfstfl. lítist á stjórnarsamstarfið eins og kemur fram í ræðu hans á Seltjarnarnesi. Þessi ræða rísi nokkuð hátt. Það má kannske segja að Seltjarnarnesið sé ekki lengur lítið og lágt þegar það getur orðið stallur undir ræðu af þessu tagi.

Spurningin er vitaskuld eftir þetta hvað þetta stjórnarsamstarf muni endast lengi. En hvort sem það endist lengur eða skemur þá hefur ríkisstj. gefist upp við verkefni sitt. Varaformaður Sjálfstfl. tók þetta líka til umfjöllunar í ræðu sinni á Seltjarnarnesi í gær. Hann sagði: Það verður að fá nýjan stjórnarsáttmála og ef ekki næst samstaða með núverandi stjórnarflokki, ja, þá með öðrum. Hvað felst í því að heimta nýjan stjórnarsáttmála? Það sem í því felst í raun og sannleika er það að heimta nýja ríkisstj. vegna þess að sú ríkisstj. sem er við lýði dugi ekki. Hitt er svo annað mál, að sá stjórnarsáttmáli sem er í gildi hefur ekki dugað betur en það, að Sjálfstfl. hefur orðið að una því og látið sig hafa það að ofan á hvert ákvæðið á fætur öðru, sem hann fékk inn í stjórnarsáttmálann, væri stigið af gagnaðilanum, Framsfl.

En það eru fleiri en varaformaður Sjálfstfl. sem hafa gert þetta frv. í raun og sannleika að umtalsefni. NT tekur þetta mál til umfjöllunar í dag í leiðara og ég vænti þess að það sé ábyrgðarfullur maður sem hafi skrifað þann leiðara. Ekki ólíklegt að það hafi verið Þórarinn Þórarinsson. Hann er varkár, Þórarinn, en hann kemst ekki hjá því að segja að það sé vissulega nokkurt áhyggjuefni að enn þurfi að auka erlendu lántökurnar. Hann sagði: auka erlendu lántökurnar, og ég endurtek það vegna þess að hér er nú leikinn sá talnaleikur að telja þjóðinni og þinginu trú um það að þó að lántökur séu auknar eins og gert er í þessu frv. sé í rauninni ekki um það að ræða af því að einhverja himneska tölu, 60%, megi fá til að ganga upp með einhverri talnaleikfimi. En ritstjóri NT hefur áhyggjur af þessu. Og hann segir reyndar líka í uppgjafartón: „Einhver von mun þó til þess að þrátt fyrir þetta fari erlendu skuldirnar ekki fram yfir það mark sem stjórnin hafði sett sér.“ Einhver von um að hanga í 60%, annaðhvort með reiknikúnstum eða einhverjum öðrum hætti.

Nei, herra forseti, með þessu frv. er það staðfest að ætlunarverk ríkisstj. er runnið út í sandinn. Hún sagði: Við ættum að vera öðruvísi ríkisstjórn en aðrar ríkisstjórnir og það á ekki að velta vandanum á undan sér. En meginefni þess frv. sem hér liggur fyrir er einmitt að velta vandanum á undan sér. Nákvæmlega eins og fyrri ríkisstj. Ríkisstj. setti sér það markmið að auka ekki erlendar skuldir. Það var margyfirlýst að ekki ætti að auka erlendar skuldir. Fjmrh. sagði: Ef erlendar skuldir verða auknar þá er ég farinn úr ríkisstj. Forsrh. sagði bæði fyrr og síðar, m. a. þegar þetta „gat“ kom til umr., eða það er a. m. k. í einni af yfirlýsingum forsrh. að það ætti ekki að gera við þetta gat með erlendum skuldum. Og formaður Sjálfstfl. hafði sömu sögu að segja. Hann sagðist ekki vilja það. Allt sem þeir ætluðu ekki að gera eru þeir nú að gera. Hvar standa þessir menn í rauninni núna? Flytja sérstakt frv. um að auka erlendar skuldir um 2100 millj. kr. og ætla svo að telja fólki trú um það að þegar þeir séu að bæta 2100 millj. kr. við skuldirnar þá séu þeir í rauninni ekkert að auka erlendar skuldir og haldi við öll sín markmið. Þetta er auðvitað sýndarmennska. Það er farið á flot með furðulega sýndarmennsku í sambandi við prósentureikning og ég vek athygli á því að í fskj. með frv. þar sem Þjóðhagsstofnun er látin votta þessa 60% tölu tekur hún það fram að um afar lauslega áætlun sé að ræða.

En sannleikurinn er sá, að það var búið að auka skuldasöfnun þjóðarinnar áður en þetta kom til. Það var verið að auka skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis þegar fjárlög og lánsfjárlög voru afgreidd af þeirri einföldu ástæðu að það var fyrirhugað að taka meiri erlend lán en nemur afborgunum af lánum.

Þegar upp verður staðið mun aukningin á erlendum skuldum á þessu ári nema yfir 4 þús. millj. kr. Það er greinilegt af því að afborganir af erlendum skuldum eiga að vera samkvæmt áætlunum 3160 millj. kr. en samkvæmt þessu frv. og fskj. með því er fyrirhugað að taka að láni ekki 3160 millj. eins og afborganir af erlendum skuldum eru heldur 6679 millj. Þarna er mismunur aukning erlendra skulda upp á 3500 millj. kr. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að atvinnufyrirtækin taki einungis 1000 millj. kr. að láni. Þessi tala hefur venjulega verið áætluð allt of lág. Reynslan sýnir að hún hefur verið 50–100% of lág á undanförnum árum og það er ekkert sem bendir til þess að svo sé ekki núna, þannig að það er áreiðanlega óhætt að bæta 500 millj. kr. við þessa áætlun eins og hún liggur fyrir frá ríkisstj. A. m. k. sjást engir tilburðir til neinna aðgerða til að halda aftur af lántöku atvinnuveganna samkvæmt þessum lið. Engin merki um aðhald. Ekkert hefur gerst í langlánanefnd, sem í rauninni hefur þetta til umfjöllunar, sem bendir til þess að það verði nokkur önnur útkoma í þessu máli heldur en verið hefur á undanförnum árum. Ég tel augljóst að ríkisstj. sé með þessum málflutningi að gera sjálfa sig að viðundri, halda því fram að hún standi við markmið sitt um erlenda skuldasöfnun á sama tíma og verið er að auka erlendu skuldirnar um 4000 millj. kr.

En það er ekki einasta að ekkert sé að marka það sem ráðh. og ríkisstj. segja, það er nú margsannað og hefur margsinnis komið fram, heldur eru þeir að gera þjóðinni með þessum málflutningi þá óvirðingu að telja hana svo heimska, telja fólkið svo mikla einfeldninga að það muni glepjast af svona talnaleikfimi. En fólkið er ekki kjánar og það sér hvert barn í gegnum þann málflutning að hér sé verið að standa við markmið um að auka ekki erlendar skuldir þegar jafnframt er verið að flytja frv. um að auka þær um 4000 millj. kr. á þessu ári.

En það er annað í þessu máli sem ég kemst ekki hjá að vekja athygli á. Það er það hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskt efnahagslíf og fyrir Íslendinga yfirleitt að auka erlendu skuldirnar með þessum hætti. Það þýðir einfaldlega hærri skatta seinna, minna til ráðstöfunar í þjóðfélaginu seinna, því það verður að borga vexti og afborganir af lánum, minna sem kemur í hlut launafólks í framtíðinni, minni möguleikar til þess að bæta lífskjörin í landinu. Eftir þær yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið á undanförnum vikum og mánuðum kemst ég ekki hjá að segja að ef það hefði verið snefill af manndómi í hæstv. fjmrh. þá hefði hann neitað að láta fara svona með sig. Og ef forsrh. hæstv. hefði haft til að bera þá hreinskilni sem verður að gera kröfu til þá hefði hann sagt þetta umbúðalaust: Við erum að auka skuldir þjóðarinnar. Viðurkennt uppgjöf stjórnarinnar gagnvart þessu markmiði. Og í þriðja lagi segi ég það að ef Sjálfstfl. hefði meint eitt einasta orð af því sem hann hefur sagt um þörfina á umbótum og m. a. troðið ýmsu af því inn í stefnuskrá ríkisstj. þá hefði hann aldrei látið svona plagg frá sér fara. En það er þetta þrennt sem vantar: manndóminn, hreinskilnina og að það sé að marka það sem menn halda fram.

Það er lítið gagn að því að láta sér þykja gáman að vera ráðh. en leiðast svo bardaginn við efnahagsmálin, þykja fjárlagagatið svo leiðinlegt að menn gefist upp. Það er lítið gagn að því að láta sér þykja svo gaman að vera ráðh. en leiðast það sem menn eiga að gera svo mikið að þeir gefast upp. En það er einmitt það sem hefur gerst í þessu máli.

Þau lán sem hér er verið að gera till. um að taka, eiga þau að fara í arðbærar framkvæmdir eins og ríkisstj. hefur lýst yfir að eigi að vera? Eru þessar lántökur í samræmi við stjórnarsáttmálann sem segir að aðhalds skuli gætt í erlendum lántökum og þær skuli fyrst og fremst fara í arðbærar framkvæmdir? Nei. Þær eru að mestu leyti til að standa undir rekstri ríkissjóðs, til að greiða í útflutningsbætur og meira að segja til að standa undir vangreiddum barnsmeðlögum. Þetta er einhver hörmulegasta niðurstaða sem hægt er að hugsa sér varðandi stjórnina á ríkisbúskapnum.

Að öðru leyti en að því er varðar erlendar lántökur er megineinkenni þessa frv. að gera læknishjálp af ýmsu tagi dýrari en hún hefur verið, dýrari fyrir fólkið í landinu. Þessi ríkisstj., sem ætlaði að leggja á sjúklingaskattinn en guggnaði nú sem betur fer á því, ætlar aldrei að gefast upp á því verkefni sínu að höggva í sama knérunn í hvert einasta skipti sem henni dettur í hug að minnka útgjöld ríkissjóðs. Það er alltaf leitað í sömu áttina. Ef eitthvað er að marka þær tölur sem hér eru sýndar þá á greiðslan fyrir hvert viðtal við lækni að hækka um 200–300%. Hver röntgenmynd á að hækka um 200%. Hver rannsókn, sem gerð er á sjúklingi, kostnaðurinn sem fellur á sjúklinginn á að hækka um 200%. Meðan launafólkið í landinu er að semja um 3–5% kauphækkanir getur ríkisstj. ekki tekið ákvarðanir að því er sjálfa sig varðar öðruvísi en í hundruðum prósenta. Á sama tíma og menn eru að semja um 3–5% kauphækkanir ákveður ríkisstj. að það sem menn greiði fyrir að fara til læknis eða fá einhverja þjónustu af því tagi skuli hækka um 200–300%. Hefur eitthvað sparast fyrir þjóðina með því að gera þetta svona? Nei. Það hefur ekkert sparast. Það sem hefur gerst er bara það að þeir sem eru þurfandi fyrir læknisaðstoð eiga að borga. Að mati ríkisstj. er það samkvæmt þessu fullgott á þetta fólk, ef það álpast til læknis eða álpast til þess að verða veikt, að það taki á sig auknar byrðar. Krónurnar geta áreiðanlega orðið mörgum tilfinnanlegar að því er þetta varðar. En það er ekki það versta. Það versta er viðhorfið, að sjá helst ekkert annað í öllu bákninu, öllu kerfinu en einmitt þetta og að kunna engin raunveruleg ráð. Ég spyr: Var það þetta sem hæstv. forsrh. og formaður Sjálfstfl. áttu við þegar þeir skrifuðu sitt hugljúfa bréf til staðfestingar á samkomulagi við forseta ASÍ um að koma sérstaklega til móts við þá sem verst voru settir? Var það þetta? Er það með þessum aðgerðum að því er læknishjálpina varðar, er það svona sem menn sýna það í verki að menn séu vinir litla mannsins? Það verður ekki annað séð en að ráðh. í ríkisstj. og þeir sem hana styðja telji að svona sé allt í lagi að koma fram.

Og ríkisstj. heldur áfram á sömu braut. Hún hefur líka litið á tannviðgerðirnar. Við skulum líta á unglingana sem rétt björguðust frá því að vera stimplaðir annars flokks vinnuafl samkvæmt ósk Sjálfstæðismanna í VSÍ. Þegar þeir eru rétt sloppnir frá því ákveður ríkisstj. að nú eigi þeir að borga meira fyrir tannviðgerðir. Í grg. með frv. segir að þær séu orðnar svo dýrar að þess vegna verði að grípa til þessa ráðs. Auðvitað var ekki nokkur vegur að gera þær ódýrari því að samkvæmt mati ríkisstj. hljóta tannlæknarnir að vera rétt við sultarmörkin. Ríkisstj. gat vitaskuld ekki gert tannlæknunum að axla nokkurn hluta af byrðunum. Og þó er hún með heimild til þess samkvæmt því lagafrv. sem hér liggur fyrir, þar sem hæstv. heilbrrh. fær heimild til þess að ákveða gjaldskrá tannlæknanna. Nei, það skyldu unglingarnir gera. Rétt eftir að þeir eru sloppnir frá því að flokkast annars flokks vinnuafl og verið er að semja um 3–5% kauphækkun þeirra ákveður ríkisstj. samkvæmt þessu frv. að gjaldið fyrir tannviðgerðir, sem þeir verða að greiða, eigi ekki að hækka um 3% eða 5% heldur um 50%. Var það virkilega þetta sem unglingarnir máttu eiga von á þegar yfirlýsingar voru gefnar um að rétta hlut hinna verst settu? Var það meiningin eftir að það tókst að leiðrétta hlut þeirra í kjarasamningum að komið yrði til þeirra aftur með þessum hætti og þeir látnir borga það til baka svona?

Ríkisstj. hefur fellt sinn dóm. Sjúklingarnir eiga að borga 200–300% meira ef þeir fara til læknis eða fyrir hverja rannsókn, unglingarnir eiga að borga 50% meira. Við erum sannarlega fátækt fólk, fátæk þjóð samkvæmt þessari skilgreiningu ríkisstj. sem finnur þetta helst til úrlausnar. En við höfum efni á ýmsu öðru. Við getum tekið meiri erlend lán samkvæmt áliti ríkisstj. til að greiða útflutningsbætur, bæta við þær. Við getum gert það til að borga barnsmeðlög. Og við getum reist útvarpshús og stórar mjólkurstöðvar og stórt Seðlabankahús og verslunarhallir. Og við getum greitt með Blazerbílum til ráðh., eða einhverri annarri tegund sem þeim sýnist. Á þessu höfum við efni samkvæmt áliti ríkisstj. Þetta eru heilög vé. Á því er ekkert snert. Þetta sannar það eitt að ríkisstj. skortir siðferðisþrek til að taka á þar sem raunverulega þarf að taka á í þessu þjóðfélagi.

Með þeirri stefnu sem ríkisstj. hefur markað samkvæmt þessu frv. í efnahagsmálum erum við komin í mjög ákveðið og hættulegt far. Það er rétt að verðbólgan hefur minnkað. En hver er staða okkar að öðru leyti? Það sem felst í efnahagsstefnu ríkisstj. er að við eigum að búa við hörmulega léleg lífskjör. Það liggur fyrir að kaup, laun fyrir vinnu, er u. þ. b. 40% hærra í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það liggur fyrir að verðlag á nauðsynjum er líklega um 15% hærra hér en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það sem ríkisstj. hefur sannað er þetta: Með því að skerða lífskjör, hafa hér u. þ. b. 40% lægri laun en í grannlöndunum og dýrari nauðsynjar þá geta menn fengið hér lægri verðbólgu. En vel að merkja, eftir sem áður haft áframhaldandi erlenda skuldasöfnun, sívaxandi erlendar skuldir ár frá ári. Þetta er mikill áfellisdómur yfir þeirri stjórnarstefnu sem hér er við lýði. Skuldasöfnunin heldur áfram. Hallinn á fjárlögunum heldur áfram. Ekkert hefur breyst nema lækka kaupið, skerða lífskjörin.

Talsmenn ríkisstj. segja annað veifið að menn verði að standa vörð um það jafnvægi sem hafi náðst. Hvaða jafnvægi? Það er ekkert jafnvægi. Það er dúndrandi viðskiptahalli. Það er áframhald á erlendri skuldasöfnun. Það er dúndrandi halli á fjárlögum ríkisins. Það er ekkert jafnvægi. Það er enginn jöfnuður í þessum efnum. Við erum komin í nákvæmlega sama farið að því er þessi jafnaðarmarkmið varðar eins og verið hefur hér að undanförnu. Ríkisstj. er í rauninni að segja að við séum dæmd til lélegra lífskjara. En þetta er rangt. Og þetta má ekki vera svona. Því ef svo fer fram sem horfir, ef þessi stjórnarstefna heldur áfram, ef hér verða áfram léleg lífskjör, ef ekki verður farið í það að bæta lífskjörin í landinu, þá munu kannske fleiri Íslendingar fylgja fordæmi fjmrh. og flytjast með honum til Frakklands eða einhvers annars útlands — og sjálfsagt með sömu rökum, nefnilega þeim, að ætlunarverki þeirra sé senn lokið á Íslandi, þeir hafi ekkert að gera hér til frambúðar frekar en fólst í yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Þeir pípi sem sagt á það að búa hér áfram og til frambúðar. En það var akkúrat það sem hæstv. fjmrh. gaf yfirlýsingu um, ekki bara á Íslandi heldur kannske fyrst og fremst fyrir heimsbyggðina alla í erlendum sjónvarpsþáttum og blöðum. Ekki trúi ég því að þetta geti verið markmiðið. En hættan er fyrir hendi og fordæmið hefur svo sem verið gefið af hæstv. fjmrh. um það hvað menn geti gert. En það er rangt að við þurfum að vera dæmd til verri lífskjara. Þessi örlagadómur ríkisstj. byggist á rangri efnahagsstefnu. Það sem vantar eru kerfisbreytingar í atvinnumálum, í fjárfestingarmálunum, í ríkisbúskapnum, í byggðastefnunni og í velferðarmálum. Það sem þarf eru viðhorfsbreytingar gagnvart atvinnuvegunum, gagnvart fyrirgreiðslupólitíkinni, gagnvart stjórnkerfismálunum, gagnvart arðsemi og gagnvart fjárfestingu. Það er það sem er að. Það hafa engar kerfisbreytingar verið gerðar og engar kerfisbreytingar eru boðaðar. Það er skýringin á því að árangurinn er enginn. Það er þess vegna sem ekkert verið að byggja upp fyrir framtíðina og betri lífskjör.

Ég sagði á s. l. hausti að fólkið í landinu hefði fórnað miklu til þess að árangur næðist í baráttunni við verðbólguna. Ég varaði ríkisstj. við því að ofbjóða þolinmæði fólksins í landinu. Ég benti ríkisstj. á að hún yrði að sýna gott fordæmi og það væri óviðunandi ef lífskjörin færu ekki senn að batna. Nú verður ekki séð að varanlegum árangri sé náð. Nú verður ekki annað séð en þetta renni út í sandinn og ríkisstj. sé einmitt að ofbjóða þolinmæði fólks. Henni hafi gleymst, henni hafi láðst að sýna gott fordæmi og þar sér ekkert fyrir því að neinar þær breytingar séu gerðar sem byggja grundvöll að betri lífskjörum. Ríkisstj. hefur í raun með þessu frv. fallið á prófinu.

Ég sagði að í þessu frv. fælist fyrst og fremst tvennt: erlendar lántökur, sem ættu að heita lausn en væru það ekki þegar þær eru teknar í þessum gífurlega mæli, og niðurskurður á ýmissi þjónustu við þá sem síst mega við í heilbrigðismálum. Alþfl. hefur hins vegar bent á það að ef menn eru tilbúnir í kerfisbreytingar þá megi ná mjög verulegum árangri. Þar séu ýmsar sporslur sem geti skilað verulegum árangri. Í fjárlögum fyrir árið 1984 eru 1290 millj. sem fara til landbúnaðarins í formi niðurgreiðslna, lánakostnaðar og útflutningsbóta. Í fjárlögum er gert ráð fyrir styrkjum til ríkisstofnanna sem geta aflað eigin tekna. Þessir styrkir nema 570 millj. kr. Og í fjárlögum er gert ráð fyrir framlögum til fyrirtækjanna í landinu upp á 100 millj. kr. og utan fjárlaga upp á rúmlega 300 millj. kr., samtals um 400 millj. kr., og beinum styrkjum til atvinnuvega upp á 300 millj. kr. Hér eru 2.5 milljarðar sem ekkert hefur verið snert við.

Ég kemst ekki hjá því, herra forseti, eftir þennan almenna inngang, að fara nokkrum orðum um grg. með frv. og efnisatriði þar.

Í athugasemdum með lagafrv. segir ríkisstj.: „Hvort tekst að halda áfram að draga úr verðbólgu, er ekki síst undir því komið að girt verði fyrir alvarlegan halla á ríkisbúskapnum og fyllsta aðhalds verði gætt í stjórn peningamála.“ „Af þessum sökum er nauðsynlegt að gripið verði til aðhaldsaðgerða á sviði peningamála,“ stendur á öðrum stað. „Mikilvægasta forsenda þess að betra jafnvægi náist á lánamarkaði um þessar mundir er þó að komið verði í veg fyrir alvarlegan halla á ríkissjóði.“ En hvað felst í því frv. sem hér er til umfjöllunar? Alvarlegur halli á ríkissjóði er eftir sem áður, skv. þessu frv. Það sem þeir tala um að þurfi að gera er ekki gert, heldur þveröfugt. Það er staðfest enn einu sinni að það eigi að vera alvarlegur halli á ríkissjóði. Og ef menn kvarta undan þenslu á peningamarkaði, þenslu í peningamálum, hver hefði þá trúað því að ráðið sem yrði fundið upp til þess að bregðast við væri það að auka erlendar lántökur, auka peningamagn í umferð á sama tíma og menn segja að vandamálið felist í því að þensla sé á peningamarkaði og of mikil umsvif í þeim efnum? Þannig að athugasemdirnar rökstyðja það að gera þveröfugt við það sem ríkisstj. er að gera. Það er líka ástæða til að benda á yfirlit það sem birtist í athugasemdum varðandi gjöld ríkissjóðs skv. fjárlögum og skv. áætlun frv. Það er ástæða til að benda á það vegna þess að hér tala menn mikið um niðurskurð á útgjöldum ríkisins. En útkoman er sú, að þau gjöld sem skv. þessu voru áætluð 18 milljarðar 301 millj. á fjárlögum 1984 eru komin núna skv. frv. í 19 milljarða 570 millj. Niðurskurðurinn skv. þessu er þá fólginn í því að hækka útgjöldin um 1270 millj. kr., stendur svart á hvítu í athugasemdum með frv. ríkisstj.

Ég kemst heldur ekki hjá að vekja athygli á því að skv. 2. gr. á Lánasjóður ísl. námsmanna að hafa 658 millj. kr. til ráðstöfunar á árinu. Sagt hefur verið að þetta þýði það að lánsfjárþörfinni sé einungis mætt upp í 60% af því er varðar síðari hluta ársins. Ég vil fá grg. um það hvort þetta sé rétt. Hér er greinilega verið að höggva stórt skarð ef þessi áætlun er rétt og ég vil fá greinargóðar upplýsingar um það frá hæstv. menntmrh. hvort hér sé rétt áætlað. Þingið á kröfu á því að fá skýrslu um það frá hæstv. menntmrh. Það er líka gaman að grg. með 8. gr. frv. sem fjallar um sjúkratryggingakostnað og veikindadaga. Þar segir að í till. felist einkum að atvinnurekendur beri yfirleitt sjúkratryggingarkostnað 14 daga í stað 10 og það er sagt að þessi lenging á biðtíma muni fyrst og fremst minnka þann rétt sem atvinnurekendur eiga til sjúkradagpeninga. Og þar segir: „Í kjarasamningum er launþegum yfirleitt tryggður réttur til launa í allt að þrjár vikur verði þeir veikir.“ Hér er aldeilis verið að fara í kringum hlutina, vegna þess að það eru stórir hópar í þjóðfélaginu sem flokkast hvorki undir einkum, yfirleitt, né fyrst og fremst. Það eru stórir hópar í þjóðfélaginu sem falla ekki undir einkunnarorðin, einkum, fyrst og fremst og yfirleitt skv. þessu frv., það hefur verið gert að umræðuefni hér áður, húsmæður, fólk sem hefur verið skamman tíma í vinnu, fólk sem ekki hefur vit á því að vera nógu lengi veikt, enda á hér að ná 25 millj. kr.

Í athugasemd við 15. gr. frv. er fjallað um greiðslu fyrir tannlækningar hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Þá er niðurstaðan sú, að það sé verið með þessu að rétta hlut elli- og örorkulífeyrisþega. Þó er það svo að ef borin eru saman núgildandi ákvæði og greinin eins og hún á að verða skv. frv. þá er varla sjónarmunur á. Þá er óbreytt að greiða 50% kostnað fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, að undanteknum gullfyllingum og þess háttar, en síðan hefur verið heimilt að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega, eftir reglum sem tryggingaráð setur, í 75%. Það hefur verið heimilt. En nú eiga þeir sem njóta hálfrar tekjutryggingar að fá 75% greidd. En hvað hefur tryggingaráð gert, hvernig hefur þessi heimild verið notuð að undanförnu? Hún hefur verið notuð til þess að greiða einmitt þeim elli- og örorkulífeyrisþegum sem voru á tekjutryggingu hærri uppbót en þau 50% sem er almenna reglan. Þannig að munurinn á þessu tvennu er nánast mjög lítill, mjög lítill. Ég held að ríkisstj. ætli ekki að reyna að hrósa sér af þessu sem einhverri stórkostlegri réttarbót.

Í ræðu sinni hér áðan gerði hæstv. fjmrh, tvö atriði í efnisafstöðu sinni sérstaklega að umræðuefni. Hann sagði að það væri gegn lífssannfæringu sinni að hækka skatta. Hann sagði að vísu fyrir nokkru síðan að það væri gegn lífssannfæringu sinni að bæta við sig erlendum skuldum þegar menn væru komnir í tap. En hæstv. fjmrh. er bara búinn að hækka skattana, eins og komið hefur fram hér í umr. að því er tekjuskattinn varðar. Reyndar líður varla sá mánuður að hæstv. fjmrh. sé ekki að hækka skattinn sinn af bensíni, þannig að skattahækkanirnar höfum við fengið að sjá, launþegarnir í landinu, einstaklingarnir í landinu.

Annað atriði sem hæstv. fjmrh. gerði að umræðuefni var hvað það hefði verið klárt hjá sér, hvað það hefði verið ofsalega mikil hreinskilni að segja nú frá gatinu. Hann hefur eiginlega krafist þess allar götur síðan að þjóðin stæði á öndinni og hrópaði húrra fyrir því hvað það væri merkilegt hjá honum að segja frá þessu gati sem stjórnarandstaðan var fyrir löngu búin að benda honum á. En hvað um það, meðan hæstv. fjmrh. hefur staðið hugfanginn við þetta gat sitt og bergnuminn, og heimtað að menn klöppuðu fyrir sér fyrir það að hann væri að segja frá gatinu, hvað hefur þá gerst? Í fyrsta lagi að gatið stendur áfram óleyst að langmestu leyti og í öðru lagi að það er komið nýtt gat, gat sem stjórnarandstaðan hefur að vísu áður bent á, varðandi lánsfjárþörf vegna lánsfjárlaga og vegna þeirra áforma sem eru uppi. En stjórnarandstöðunni hefur bæst ágætur liðsmaður við að staðfesta það að með því frv. sem hér er flutt sé ekki aldeilis búið með gatverkið hjá hæstv. fjmrh. Því að varaformaður Sjálfstfl. upplýsir það á fundi á Seltjarnarnesi í gærkveldi skv. frásögn Morgunblaðsins í dag, að það sé sko aldeilis ekki búið, það séu hér nokkuð hundruð millj. til viðbótar sem verði að afla fjár til. Ef fjmrh. hefði viljað vera hreinskilinn og ganga hreint til verks þá hefði hann auðvitað strax við afgreiðslu fjárlaga sagt: Hér er gat upp á þetta, þetta er rétt hjá ykkur stjórnarandstæðingar. (Gripið fram í.) Nú ef hæstv. fjmrh. var ekki búinn að ná vopnum sínum, eins og sagt er hér gjarnan í ræðustól, þarna rétt fyrir jólin þá hefði hann þó a. m. k. getað upplýst gatið í heild sinni þegar hann hélt gatræðuna frægu. Ég held að það hefði verið nær. Eða eigum við kannske von á því að hér verði haldnir sérstakir fundir í þinginu áfram til þess að ráðh. geti komið með sérstakar yfirlýsingar um ný og ný göt sem þeir finni og hafi uppgötvað að sé rétt hjá stjórnarandstöðunni að séu fyrir hendi?

Herra forseti. Ég hef farið fáeinum orðum um þetta frv. Ég hef bent á það að í þessu felst uppgjöf ríkisstj. að því er öll stefnumið varðar, nema ef það skyldi hafa verið stefnumið ríkisstj. að það eina sem hún ætti að gera og þyrfti að ná fram væri að skerða lífskjörin í landinu. Ég hef bent á það að ríkisstj., sem þannig er komið fyrir, er í rauninni búin að vera hversu lengi sem hún hangir, og það sé ekki nema von að varaformanni sé gramt í geði, svo mikla niðurlægingu sem Sjálfstfl. hefur þurft að þola í hverju máli á fætur öðru. Og ég hef bent á það að í þessu frv. felst enn ein árásin á þá sem illa eru settir í þjóðfélaginu, varðandi kostnað fyrir heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er vegna lækna eða tannlækna. En síðast en ekki síst hef ég bent á það, og legg á það ríka áherslu, að það sem er að hjá okkur er það, að hér eru engar kerfisbreytingar á ferðinni, það séu engar kerfisbreytingar frá þessari ríkisstj. Og í því er feigðin fólgin. Það er einfalt að rýra lífskjörin um fjórðung um sinn. En meginverkefnið er að gera þær kerfisbreytingar sem eru nauðsynlegar til þess að hér verði ekki áframhaldandi verri lífskjör en í kringum okkur, að menn þurfi ekki að þola kjaraskerðingu áfram og áfram, eins og hér er boðað, heldur að verið sé að búa í haginn og breyta þannig að lífskjör geti farið hér batnandi. Annars þrýtur þolinmæðina hjá þjóðinni og menn geta ekki unað þessum lélegu lífskjörum stundinni lengur. Í því er feigðin fólgin.

Að lokum, herra forseti, vildi ég láta í ljós þá von að hv. Alþingi mætti nú auðnast að fara að skoða þá þætti í atvinnumálum, fjárfestingarmálum og kerfismálum sem raunverulega skipta máli varðandi afkomu þessarar þjóðar og bætt lífskjör en séu ekki á kafi í ómerkilegum hlutum eins og þessum hér sem einungis sökkva okkur dýpra í fenið.