04.05.1984
Neðri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5403 í B-deild Alþingistíðinda. (4676)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mér er viss vandi á höndum vegna þess að varaformaður Sjálfstfl. virðist hafa komist í ræðuna mína einhvers staðar í nótt eða í gær og hún er birt að hluta af Morgunblaðinu, aftan á Morgunblaðinu. Ég átti að vísu ekki við þetta með fyrirsögnina. Á stallinn. Ég þekki ekki aðferðir Sjálfstfl. til að heiðra leiðtoga sína. En ég mun nú taka fyrir þau atriði úr ræðu minni sem ekki birtust aftan á Morgunblaðinu í dag.

Þá vildi ég byrja á því að segja svona almennt að við getum skoðað þetta frv. frá ýmsum sjónarhólum. Við getum f. d. byrjað á því að skoða það án þess að rýna í hvað bókstafurinn einn segir. Hvaða sögu segir þetta frv.? Þetta frv. segir okkur sögu ríkisstj. sem er orðin ársgömul og hefur engu áorkað öðru en því að skerða launin í landinu. Nú er liðið eitt ár og hún hefur ekkert annað gert. Þegar hún byrjaði á því að skerða launin sögðu þeir: Þetta er bara það sem við þurfum að gera rétt fyrsta umganginn. Varanlegar aðgerðir taka tíma. Við erum búnir að setja nefnd í málið. Við setjum af stað vinnunefndir til þess að gera alls konar framtíðarendurskoðun og nýsköpun og það tekur tíma. En nú eru þessar sömu vinnunefndir að byrja að skila af sér. Nú eru að ungast út eggin sem vinnunefndir ríkisstj. settust á fyrir ári síðan. Og nú getur maður spurt: Horfir eitthvað til nýsköpunar og breytinga í ungunum sem eru að klekjast út? Hvað gerði t. d. nefndin þar sem hv. þm. Tómas Árnason var að endurskoða sjálfan sig, dómari í eigin sök? Lagði sú nefnd til gagngeran uppskurð og gagngerar endurbætur á Framkvæmdastofnun og sjóðakerfi landsins. Hafa verið stigin einhver markverð skref til endurbóta á fjárhagsgrundvelli útgerðar? Er ekki gamla meðaltalsnúllið enn á fullu og eru ekki millifærslurnar hver um aðra þvera? Ef ekki hefði verið fréttin um að setja þyrfti formanninn á þann stall sem honum ber, þá hefðu kannske fleiri lesið litla frétt sem var aftan á Mogganum í dag. Hún var um núllið. Núllstefnan er nefnilega á fullu enn þá í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur ekkert breyst í þetta eina ár sem ríkisstjórn nýsköpunarinnar hefur þar farið með völd.

Hvernig hefur þetta ár nýst til endurbóta á landbúnaðarstefnunni sem kostar okkur offjár á hverju einasta ári? Og hvernig hefur þetta ár nýst til þess að ná meiri peningum fyrir orkuna sem við seljum? Það stóð aldeilis til að taka til hendinni í orkumálum, ef ég man rétt. Ég minnist þess að hæstv. iðnrh. hafði um það einhver orð að nú skyldi hætta að fljúga með fjallahringjum og himinskautum og koma sér niður á jörðina og fara að takast á við málin. Og hvað situr eftir? Er búið að semja um hærra verð í álinu? Nei.

Hvernig hefur þetta ár nýst til þess að gera breytingar á t. d. ríkisfjölmiðlunarkerfinu? Það hefur ekki nýst vel.

Og hver er þá munurinn? Hvert hefur okkur borið á þessu eina ári sem þessi ágæta ríkisstj. hefur setið? Ég veit svarið. Verðbólgan hefur lækkað, þ. e. hitinn hefur lækkað. En spurningin er, hefur sjúklingnum eitthvað batnað? Ég held nefnilega að sjúklingnum hafi ekkert batnað. Það er enginn bati þegar menn eru að fást við lækningar á sjúklingum með hita að berja hitann niður með magnyli. Það sem gerist er að mönnum líður að vísu skár þegar hitinn lækkar en það batnar ekki neitt.

Við sjáum raunar hjá hæstv. ríkisstj. sjálfri hvert traust hennar er á bata efnahagskerfisins. Það kemur fram á ýmsan hátt. Það kemur t. d. fram ef einhver dirfist að ræða um prósentubrotshækkun í launum til einhvers fólks. Þá er um leið á baksíðunni í Morgunblaðinu sýnt fram á hvernig samsvarandi ef ekki enn þá meiri aukning verði á verðbólgu í landinu, að hækkunum er velt út í verðlagið. Þetta er nú ekki beinlínis traust á efnahagskerfi sem á einu ári hefur ekki verið fært um að nýskapast eða breytast á nokkurn hátt, þannig að alveg eins og áður fer um það sem inn er sett. Ef launahækkun kemur í ljós öðrum megin þá verður samsvarandi hækkun á framleiðsluverði hinum megin og það sem á milli er, kerfið sem á að vinna betur, hefur ekkert breyst. Það hefur ekkert batnað, svo að við tökum samlíkinguna aftur með sjúklinginn, ef við gefum örlítið minna magnyl þá rýkur hitinn upp. Honum hefur ekkert batnað.

Niðurstaðan blasir í raun og veru við okkur. Það hefur engin eðlisbreyting orðið á efnahagskerfi landsins þetta ár. Það hafa einungis orðið magnbreytingar á stærðum í sambandi við efnahagsmálin. Það er sérlega gaman að fylgjast með þegar Sjálfstfl. er núna í stjórn og er að tala um óstjórn áranna fimm, óstjórn efnahagsmálanna á árunum þegar hann var ekki í stjórn. Þeim gleymist nefnilega, þegar þeir eru að tala um óstjórn og sukk sem hafði átt að vera 1978–1983 og þeir eru að tala um Framkvæmdastofnun og allt hið illa sem hún átti að standa fyrir, þá gleymist þeim hver stjórnaði óstjórninni þar, hver var kommissar. Var sú stofnun ekki að hluta undir stjórn Sjálfstfl. sem nú veit ekkert ljótara og enga verri meinvætti í íslensku efnahagslífi?

Þetta er allt saman enn þá fyrir hendi, það hefur ekkert breyst. Það sem gerðist var að fólk var slegið svo rækilega í magann að það heldur enn þá niður í sér andanum. En eftir því sem manni heyrist, eftir því sem við heyrðum t. d. boðskapinn núna 1. maí, þá sýnist mér að nú sé fólk að ná andrými sínu og þetta hlé sem hefur verið verði kannske ekki svo miklu lengra, vegna þess að fólk unir þessu ekki lengur, það unir ekki lengur því að hafa lægra kaup og sjá um leið engar úrbætur. Þær fórnir sem sífellt er verið að bjóða því að færa, þær verða ekki til neinna nytja. Hvernig notar t. d. atvinnureksturinn þá peninga sem hann fékk með kaupskerðingunum? Er víst að sóunin sé eitthvað minni en áður í atvinnurekstrinum? Er víst að það sé fjárfest eitthvað betur en áður var? Er fjárfest í eitthvað nytsamari hlutum? Um þetta höfum við engar upplýsingar og við höfum enga ástæðu til að ætla að svo sé. Þetta er hryggileg niðurstaða eftir eins árs stjórn þegar þjóðin þarfnaðist uppbyggingar. Þegar þjóðin þarfnast uppbyggingar eins og núna þá fær hún niðurskurð. Það er það sem við sjáum. Þegar síðan þessi ágæta samhenta ríkisstj., þessi óttalegi boli, tekur sig saman og ætlar að fara að breyta hlutunum, hvað gerist? Hann sker niður og tekur lán. Það er nýsköpunin, að skera niður og taka lán. Það er enginn vandi að framfylgja þannig efnahagsstefnu. Náttúrulaus niðurskurður hefur aldrei orðið neinum til neins gagns til frambúðar. Upp úr því vex ekki neitt.

Menn ættu að spyrja sig núna: Hver er undirstaðan að framförum nú á tímum, hver er undirstaðan að framförum? Undirstaðan er þekking og tækni og menntun. Þetta er undirstaða sem er nauðsynlegt að skapa og þetta ætti ríkisstj. að vita sem er að skera niður í menntakerfinu. Það er orðið augljóst og hefur lengi verið ljóst, t. d. í Bandaríkjunum þegar John F. Kennedy forseti setti þjóð sinni það takmark að senda mann til tunglsins á árunum upp úr 1960, þá sáust ummerki þess mjög víða í þjóðlífinu. Og núna sjáum við merkin t. d. sem teflon á pönnu og tölvur sem eru undirstaða að efnahagslífi og atvinnulífi.

Það komst að vísu maður til tunglsins en það var kannske það sem skipti langsamlega minnstu máli. Það sem skiptir máli var að það átti sér stað hvatning í kennslu í skólum, í rannsóknum og af því njóta Bandaríkjamenn og allur heimurinn raunar góðs núna. Það er menntun, það er þekking og það er hugvit sem skiptir máli og ríkisstj. hefur ekkert gert í þetta eina ár sem hún hefur setið til þess að efla og styrkja þá hluti. Það er fróðlegt að velta fyrir sér og skoða hvaða kunnáttumenn um framtíðarmál telja að muni verða atvinnumál nýrrar aldrar, aldarinnar sem er rétt óbyrjuð. Það eru einmitt atvinnuvegir sem byggja á þessum hlutum, þekkingu, menntun, rannsóknum og ýmsu slíku. Og þá getum við spurt okkur: Hvað ættum við að gera í þessum efnum og hvað erum við að gera? Við erum að draga saman í skólakerfi, við erum að minnka fjárhagsaðstoð við nemendur. Það er alveg pottþétt mál að við komumst aldrei til tunglsins með þessu áframhaldi. Það sem skiptir nefnilega máli er að byrja strax. Við þurfum að byrja strax til þess að geta sagt börnunum okkar t. d. hvað við hugsum okkur um framtíðina, þannig að þau geti ákveðið viðbrögð sín, vegna þess að það tekur langan tíma, það tekur 20 ár að búa til forustumann í atvinnulífi nýrrar aldar.

Það er merkilegt og reyndar raunaleg saga að kanna viðbrögð íslenskra stjórnvalda þegar um nýsköpun í atvinnumálum er að ræða. Menn eru búnir að tala um þetta síðan ég fyrst fór að muna eftir mér í pólilík. Ég man t. d. eftir umræðum um pönnur úr áli þegar álsamningar voru á döfinni forðum. Nú á að fara að framleiða pönnur úr áli einhvers staðar fyrir austan fjall. Það tók 20 ár. Er þetta einsdæmi að það taki 20 ár? Ég held ekki. Við getum tekið nýlegra dæmi. Við skulum taka lífefnaiðnað sem allir vildu nú kveðið hafa. Árið 1974 eða 1975, fyrir 10 árum síðan, var sett á stofn sérfræðinganefnd hjá rannsóknaráði sem kannaði lífefnaiðnað og hún skilaði niðurstöðu. Hvað sagði þessi nefnd? Nefndin sagði: Þetta er hagkvæmt, út í þetta eiga Íslendingar að fara. Þeir eiga hráefni. Það vantar að vísu að koma sér upp kunnáttunni en það er ekki nokkurt vafamál að út í þetta eiga þeir að fara. Þetta var 1974. Hvað gerist? Árið 1982 samþykkir Alþingi þál., ekki um að hefjast handa í lífefnaiðnaði, nei, nei, um að athuga hvort þetta sé nú hagkvæmt. Það var búið að athuga það átta árum áður. Þegar Alþingi Íslendinga var að velta því fyrir sér 1982 hvort það væri eitthvert vit í líftækni og lífefnaiðnaði þá voru menn úti í heimi ekki í neinum vafa um það. Tveimur árum áður en Alþingi Íslendinga var að velta því fyrir sér hvort þetta væri hagkvæmt eru menn á stórri ráðstefnu úti í Hollandi, árið 1980. Og þeir voru ekki að ræða um hvort, þeir voru að ræða um hvernig. Þeir voru að ræða ýmis vandamál í sambandi við líftækni, í sambandi við fjármál, í sambandi við tæknimál, í sambandi við siðfræðileg vandamál sem kæmu upp þegar menn sköpuðu nýtt líf og annað. Þeir voru búnir að láta kanna fyrir sig hvort, þeir voru farnir að kanna hvernig.

Þingið íslenska rumskaði þarna vorið 1982. Tveimur árum áður var t. d. sænska verkfræðingafélagið búið að komast að því að þetta væri atvinnulíf framtíðarinnar og búið að reikna út umsvifin og alls konar sérfræðinganefndir voru búnar að segja að þetta væri framtíðarmálið. Og það voru nægilega mörg fyrirtæki búin að ákveða þetta sama þá þegar til þess að gera þetta að einhverri stórvirkustu atvinnugrein vestan hafs. En við þurftum að athuga hvort. Þetta nægði ekki einu sinni vegna þess að enn þá lá málið í tvö heil ár óafgreitt. Það komst ekki í umr. fyrr en í vetur og þá er það búið að liggja í Iðntæknistofnun líklega í einhverri skoðun í tvö ár. Þegar ég gerði fsp. um afdrif þessa máls í vetur þá þótti það merkilegast og fréttnæmast við lífefnaiðnað að málið hefði týnst í möppu rn. Þá var því ranglega haldið fram hér í ræðustól að málið hefði strandað uppi í iðnrn. og það þótti svo merkilegt að líklega hefur það bjargað framtíð íslensks lífefnaiðnaðar. Það var ekki það að íslenskum fjölmiðlum þætti lífefnaiðnaður neitt merkilegur heldur hitt, að þáverandi iðnrh. hefði líklega stungið þessu upp í hillu í rn. En líklega hefur það, eins og ég segi, orðið til þess að bjarga framtíð íslensks lífefnaiðnaðar vegna þess að nú vildu allir hann kveðið hafa.

Það er af dæmum sem þessum sem er fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur, af vilja og getu stjórnvalda til þess að búa í haginn fyrir nýjar greinar. Nú eru allir nýstefnumenn. Nú eru menn í þrjá daga á Akureyri og stökkva þrjár aldir fram í tímann í hugsunarhætti. En ég óttast að þeir hrökkvi til baka vegna þess að það er gamla sagan, sú er raunin.

Ef við ræðum aðeins nánar um þetta ár hæstv. stjórnar. Það er ástæða til að ræða það vegna þess að nóg guma þeir. Hér var í ræðustól um daginn talaði um 10 vini litla mannsins. Þá rifjaðist upp fyrir mér vísan um 10 litla negrastráka og leikrit Agöthu Christie. Það sem gerðist í vísunum um tíu litla negrastráka op í leikriti Agöthu Christie var að tíumenningarnir sprungu allir. Einn sprakk á limminu og einn svaf yfir sig og einn fór í bíó, ef ég man rétt, og átti einhverra hluta vegna ekki afturkvæmt. Mér sýnist það ætla að verða mjög svipað með þessa stjórn. Tíu litlir stjórnarherrar. Lítum á þann fyrsta. Iðnrh. er sprunginn á álmálinu. Hann segir núna að það sé ótrúlega þungt í vöfum. Það sé ótrúlega þungt fyrir þar hjá þeim svissnesku herrum. Það er liðið eitt ár og það hefur ekkert náðst. Það helsta sem er fréttnæmt í iðnaðarmálum á Íslandi núna er að menn deila um verðlag á rigningarvatni úr Blöndu. Og í þokkabót í öllu þessu stóriðjubralli þá vill svo til að allir menn með viti á Vesturlöndum, sem hugsa um iðnaðarmál, eru hættir að hugsa um stóriðju. Þeir eru farnir að hugsa um smáiðju og smáfyrirtækjarekstur. Um það höfum við þm. BJ raunar lagt fram þingmál hér sem menn ættu kannske að lesa. En þessi er sprunginn og þá eru eftir níu.

Sá næsti, félmrh., hann er sprunginn á húsnæðismálunum. Í allt sumar hefur fólk byggt hús sín á loforðum þessa ráðh. sem virðist ætla að verða jafninnistæðulaus og tékkar Húsnæðismálastofnunar hafa verið í vetur. Við erum ekki laus við þetta enn. Við áttum um þetta góða sennu í lánsfjárlagaumr. þar sem var margsinnis sýnt fram á að þarna vantaði stórkostlega peninga. Það fékkst engin ábyrgð á því hver ætti að skaffa þessa peninga. Menn sögðu já og nei og voru þó sammála, en það lítur út fyrir að hæstv. félmrh. verði sá næsti sem springur og það verður á húsnæðismálunum vegna þess að þar verða innistæðulausir tékkar þegar á liður. Þá eru eftir átta.

Mér sýnist hæstv. menntmrh. springa. Hvað með útvarpsmálið? Það virðist hafa gerst að þessi nýi umbótasinnaði Framsfl. í ríkisstj. hefur sest svo rækilega á útvarpsmálið að þar horfir líklega ekkert til frjálsræðisáttar enn um stund. Þessi hæstv. ráðh. ætti líka að taka til sín það sem ég hef sagt hér í sambandi við menntamál og rannsóknamál. Það eru hennar svið og þar er ekki glæsilegur ferillinn. Þá eru eftir sjö.

Hæstv. fjmrh. er reyndar margsprunginn. Hann bjó til raunhæfustu fjárlög sem hér áttu að hafa sést fyrir jól og mætti fyrir þeim. Þau voru ónýt um 10% daginn eftir. Hann bjó til lánsfjárlög. Þau eru ónýt um 2–3 milljarða. Við vitum allt um rammana. En það er með þennan að ég er ekki viss um að hann detti út úr vísunni vegna þess að hann virðist hafa níu líf og verði ekki svo auðveldlega felldur af stalli. Svona er nú afrekaskráin. Og hvers virði eru þessi gögn, hvers virði eru þessi gögn sem verið er að leggja fyrir okkur, fjárlög, lánsfjárlög? Þetta er einskis virði. Og í ofanálag segist hæstv. ráðh. reka þetta eins og fyrirtæki í einkarekstri, af ábyrgð. Það sem ég þekki til í einkarekstri er að vísu kompaní sem er vel rekið. Þar eru framkvæmdastjórar teknir á beinið ef þeir fara 2–3% fram yfir rekstraráætlanir. Framkvæmdastjóri hjá góðu einkafyrirtæki sem stæði sig eins og þessi væri löngu búinn að fá sparkið. En þá er náttúrlega spurning við hvernig fyrirtækjarekstur menn eru að miða sig. Það getur vel verið að menn séu að miða sig við einhver léleg fyrirtæki þar sem menn þurfa ekkert að vera ábyrgir og óráðsía viðgengst og lélegar áætlanir. Helst sýnist mér það. Og hver stóð að þessum fjári. með honum? Það var hv. þm. Lárus Jónsson. Hann lýsti yfir bestu og raunhæfustu fjárlögum sem hér hefðu nokkurn tímann sést. Það er nú svo að þessi bandormur er ekki beinlíns góð meðmæli fyrir þann hv. þm. í nýja starfið þó við óskum honum alls hins besta á þeirri leið.

Ef við lítum á frv. sjálft þá sjáum við 1. gr. Það er aðalsparnaðargreinin. Þar er heimill sparnaður um 370 millj. Ég hef á stuttri þingsetu rekist áður á þetta um heimild og vilja til að spara. En þar hafa efndirnar verið misjafnar. Ég man eftir að það átti að spara á launum og rekstri um 2.5 og 5% í öllum rn. Nú eru liðnir fjórir mánuðir og þar hefur ekkert gerst. Það er liðinn þriðjungur þessa árs sem átti að spara. Halda menn að það gangi betur á þessum átta mánuðum sem eftir eru? Menntmrh. ætlar t. d. að spara peninga sem hefur aldrei verið eytt. Það eru peningar í sambandi við lengingu skólaskyldu. Ég held — og það þarf ekkert að halda — menn vita að það verður ekkert sparað af þessu. Það verða kannske sparaðar 180 millj. í niðurgreiðslur en tölurnar fyrir hin rn. eru einskis virði. Þær eru bara viljayfirlýsingar og blekking.

Síðan er komið að 2. gr. Þar eru það námsmennirnir. Það er dæmi um andstæðingana sem ríkisstj. velur sér. Þar verður 100 millj. kr. gat miðað við 95% lán. Eins og hér hefur verið lýst áður þá er vandamálið það að lánasjóðurinn hefur lánað samkvæmt 95% reglunni hingað til og þá verða einungis til peningar í haust til að brúa um 60% af lágmarksframfærslukostnaði. Það verða til um 170 millj. af þeim 270 sem talið er að þyrfti fyrir 95°/ lán. Þetta eru 60% af þörfinni.

Hvað þýðir þetta? Menn sjá kannske ofsjónum yfir því hvað námsmenn fá í lán. Það getur vel verið að til séu dæmi um einhvern sem er þannig settur að hann kannske lepji ekki dauðann úr skel þó að hann sé í skóla. En hér tekur steininn úr. Hvað þýðir 60% af þessari umfram fjárþörf, af þessum lágmarksframfærslukostnaði? Þetta þýðir það að það verða einungis efnaminni nemendur sem komast ekki til náms. Og kannske er þetta lausnin á þrengslunum í íslenskum skólum. Á sama tíma og aðrar þjóðir eru að tala um að efla þekkingu, hugvit og tækni ætlum við að skera niður og koma því svo fyrir að þeir efnaminni komist hugsanlega ekki í nám. Þetta er alvarlegt. Þetta er í fyrsta lagi alvarlegt af sjálfsögðum félagslegum orsökum. Það eru réttindi og það eru réttindi sem hefur tekið mörg ár að berjast fyrir að allir eigi jafna aðstöðu til náms. Nú er þetta afnumið með makki í reykfylltum bakherbergjum í Valhöll eða Framsóknarhúsinu. Þetta er líka alvarlegt vegna þess að efnahagur foreldra er ekki mælikvarði á hæfileika námsfólks. En okkur ríður nefnilega á, ef við ætlum inn á þessa 21. öld, að fá hæfileikamesta fólkið í nám. Sumir telja t. d. að vandkvæði Breta á undanförnum árum í efnahagsmálum hafi einmitt verið vegna þess að það voru ekki hæfileikar manna sem réðu því hvernig þeir völdust í ábyrgðarstöður, t. d. í atvinnurekstri, heldur var það málhreimur þeirra, orðfæri, ætterni, skeggvöxtur á efri vör eða eitthvað sem á ekkert skylt við hæfileika. Þannig hefur margur hæfileikamaðurinn aldrei fengið að njóta sín. Ef þetta heldur svona áfram þá getur það sama gerst hér ef við skerum lánin niður í 60%. Það er vafalaust ástæða til að breyta ýmsu í sambandi við útreikning á námslánum. En það er alveg sama hvernig við reiknum. Það getur enginn lifað á helmingi þess sem hann þarf.

Það hefur komið út alveg stórkostleg skýrsla um Lánasjóð ísl. námsmanna sem manni skilst að sé núna stefnumarkandi í ríkisstj. í þessu máli. Þar stendur á einum stað: „Eftirspurn eftir lánum byggist á mati viðkomandi einstaklings á því hvort það nám sem hann hyggst stunda hefur það gildi að geta borið kostnaðinn við lánið.“ Það sem skiptir máli þarna er að við, Alþingi og þjóðin, viljum hafa svolítið að segja um það í hvernig nám fólk fer. Við viljum hafa þarna áhrif á. Við viljum meta þetta út frá öðrum sjónarhólum en þeim hvernig fólk telji hugsanlega í framtíðinni að það geti staðið við endurgreiðslur á sínum lánum. Okkur vantar fólk til þess að vísa okkur veginn. Þetta er ekki aðferðin til þess að meta það.

Áfram getum við leitað að nýsköpun í þessu ágæta frv. Hún kemur t. d. fram í 4., 5. og 6. gr. Þar er verið að tala um barnsmeðlög og þar er það þannig að Tryggingastofnun togar í Innheimtustofnun sveitarfélaga og Innheimtustofnun sveitarfélaga togar í Jöfnunarsjóð og svo togar Jöfnunarsjóður aftur í 26. gr. og hvað gerist þá? Erlend lántaka. Hvað er nú þetta ef þetta er ekki enn eitt dæmið um endalausar millifærslur? Og svo endar auðvitað allt í erlendri lántöku og það verður það sem við stöndum uppi með í haust, 3–4 milljarða lántökumál. Það verða sett brbl. í sumar á eins eða tveggja mánaða fresti þar sem verða tekin erlend lán vegna þess að það skilar sér ekkert annað. Þetta dæmi finnst mér það yndislegasta um endurreisn og nýsköpun í fjármálum íslenska ríkisins, innheimtan á barnsmeðlögunum. Svo skánar það. Svo koma greinar um sjúkra- og heilbrigðisþjónustu. Þar skutum við t. d. taka tannréttingaákvæðin. Tannréttingaákvæðin ein og sér skerða stórkostlega lífskjör barnafólksins í þessu landi. Það er fróðlegt að lesa aftur viðhorf ríkisstj. í þessum málum. Í grg. með þessu frv. stendur á bls. 11, með leyfi forseta:

„Kostnaður vegna tannréttinga hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur. Er af þeim sökum gert ráð fyrir minni þátttöku sjúkratrygginga í kostnaðinum en verið hefur.“

Já og svipuð orð hafði reyndar hæstv. forsrh. þegar hann mætti fyrir þessu hér áðan. Setjum svo að þarna hefðu ekki staðið tannréttingar. Setjum svo að þarna hefðu staðið „geðsjúkdómar“. Þá væri þetta svona:

„Kostnaður vegna geðsjúkdóma hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur.“

Eða kannske hjartasjúkdómar:

„Kostnaður vegna hjartasjúkdóma hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur.“

Það getur vel verið að það kosti heilmikla peninga að rétta tennur í börnum, en það er ekki mál sem á að velta yfir á foreldra þeirra. Tannréttingar eru ekki vegna vanhirðu eða sykuráts. Tannréttingar verða vegna þess að fólki eru meðfæddir ágallar og það er óumflýjanlegt og það hefur aldrei verið erfiðara viðfangs þetta mál en í því þjóðfélagi sem við lifum í núna, þjóðfélagi auglýsinga og brosandi fallegs fólks. Þá hefur nefnilega tannskekkja stórkostleg sálræn áhrif á börn og unglinga. Þetta er staðreynd og í augu við þetta verða menn að horfast. Í ofanálagi gengur þessi galli í gegnum heilar fjölskyldur. Þetta er meðfætt og arfbundið. Hugsið ykkur angist foreldra margra barna í sömu fjölskyldu, mörg börn með skakkar tennur. Þessi kostnaður skiptir tugum þúsunda. Þetta er alveg dæmalaus niðurstaða þriggja mánaða nýsköpunar.

Hér hafa verið tekin nokkur dæmi um það hvernig ríkisstj. ætlar að nýskapa í þessu landi. Hún krukkar í sjúklinga, hún krukkar í námsmenn, hún krukkar svolítið í barnafólk, en svo tekur hún bara lán. Það er kannske nýsköpun að þessi lán eru orðin svona há. Það er held ég eina nýmetið í þessu máli. Þeir gáfust upp við að breyta kerfinu. Þeir gáfust t. d. upp við að breyta ríkisbönkum, fengu nú sumir tækifæri til þess í gær. Þeir gáfust upp við að breyta Framkvæmdastofnun. Þeir gáfust upp við að breyta sjóðakerfi. Þeir gáfust upp við að breyta skattfrelsi milliliðanna, t. d. í landbúnaðar arminum. Þeir hafa algjörlega gefist upp á að breyta nokkru um millifærslurnar í aðalatvinnuvegunum. Þeir hafa ekki nein ráð og nýsköpunin birtist í erlendum lántökum sem munu bitna á börnunum okkar. Það verður geðslegt bú sem þessi börn okkar þurfa að taka við. Við skulum ekki eyðileggja framtíðina vegna þess að börnin okkar gætu þarfnast hennar. En það uggvænlegasta af þessu er kannske sofandahátturinn. Við erum svo lengi búin að tala um árið 2000 sem í órafjarlægð. En þetta ár er að koma. Börnin sem fæðast í dag eru rétt nýfermd um þessi margfrægu aldamót. Við byggjum framtíða þeirra í dag og þessi framtíð byggist á þekkingu, tækni menntun og þess háttar. Og þá er hér við völd ríkisstj. sem ætlar að skera niður menntun og skera niður menntafólk af því að menntun er svo dýr.

Og að lokum vil ég bara segja þetta: Ef ríkisstj. finnst menntunin dýr þá skulum við bara láta hana komast að því hvað fáfræðin kostar.