07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5421 í B-deild Alþingistíðinda. (4698)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Þegar bygging járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og samningurinn við Elkem Splegerverket voru til umr. og voru samþykkt á Alþingi 1977 beitti Alþb. sér gegn því máli. Af hálfu Alþb. var því þá m. a. haldið fram að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins væri mjög ótraustur og að því mundi koma, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, að rekstur þessa fyrirtækis yrði á þann veg sem hann lýsti, en hann sagði að hann væri mjög hæpinn og kominn í þá stöðu að vera vonlaus. Flest tákn bentu til þess að hallarekstur yrði á fyrirtækinu þrátt fyrir að orkuverð, sem verksmiðjan átti að greiða, væri undir framleiðslukostnaði. Þingflokkur Alþb. benti einnig á að ýmis atriði í samningunum við Elkem væru óhagstæð, þar hefði ekki verið nógu vel að staðið fyrir okkur. Frv., sem við fjöllum um hér og iðnrh. leggur fram, er staðfesting á að Alþb. hafði á réttu að standa. Það felur í sér heimild fyrir ríkisstj. til að gera sérstakar ráðstafanir vegna uppsafnaðs taps, sem hæstv. iðnrh. nefndi um daginn að væri um 390 millj. ísl. kr.

Alþingi stendur nú frammi fyrir því að flest sem sagt var um rekstrarhæfni þessa fyrirtækis af rekstrarsérfræðingum og stuðningsmönnum málsins á Alþingi á sínum tíma um að hér væri á ferðinni mjög arðbært fyrirtæki, sem mundi skila verulegum arði, hefur reynst haldlaust. Í þessari stöðu, sem ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. kom okkur í 1974–1978, eru flestir kostir vondir. Sýnu verst er þó að stöðva rekstur fyrirtækisins. Það verður því ekki undan því vikist að fram fari fjárhagsleg endurskipulagning á fyrirtækinu til þess að gera tilraun til að koma því á viðunandi heilbrigðan rekstursgrundvöll.

Fyrirtækið er stór þáttur í atvinnulífi fjölmenns héraðs og þjóðin er bundin miklum skuldbindingum vegna fjárfestinga í þessu fyrirtæki og í orkufyrirtækjum sem því tengjast.

Hvort sú endurskipulagning, sem nú er lagt til að gerð verði, sé sú æskilegasta má deila um. Mér virðist vera augljóst mál að með því að bæta við þriðja eignaraðilanum að fyrirtækinu verði meirihlutastaða ríkisins erfiðari á þann veg að hætt sé við að fyrirtækin Elkem og Sumitomo verði sameiginlega sterkari sem minni hluti gegn ríkinu en Elkem var eitt áður.

Það hefur reyndar komið í ljós að svo sé e. t. v. Þessir ókostir virðast hafa komið strax fram í sambandi við gerð samnings við Sumitomo. Svo virðist sem fyrirtækin tvö hafi staðið bróðurlega saman að því að skipta á milli sín þeim ágóðahlut í rekstri fyrirtækisins sem Elkem hafði náð með samningunum við stofnun fyrirtækisins.

Eins og frsm. meiri hl. nefndi áðan mættu á fundum iðnn. til viðræðna og upplýsinga þeir Jón Sigurðsson, forstjóri járnblendiverksmiðjunnar, Ragnar Árnason hagfræðingur og lektor og Jóhannes Nordal seðlabankastjóri. Í viðræðum við þá kom m. a. fram að hið svokallaða tæknigjald, sem verksmiðjan hefur greitt til Elkem, 3% af söluandvirði, skal óbreytt vera í nýju samningunum. Fram kom að gjald sem þetta væri algengt í viðskiptum óskyldra aðila 0.5–1.5%. Það hefur því alltaf verið af öðrum toga en raunverulegt tæknigjald, þ. e. aukagreiðsla til Elkem út úr rekstri fyrirtækisins. Það kom fram í ræðu iðnrh. við 1. umr. málsins hér í Ed. svo og einnig í grg. frv. að Sumitomo hefði ekki talið ástæðu til að lækka þetta gjald. Þessi afstaða Sumitomo til greiðslu þetta mikils tæknigjalds til Elkem er að mínu mati ábending um að ástæða sé til að varast tilhneigingu þessara eignaraðila til að taka sameiginlega afstöðu gegn réttmætum leiðréttingum þegar íslenska ríkið þarf að sækja sinn rétt.

Eins og iðnrh. sagði við 1. umr. málsins hefur rekstur járnblendiverksmiðjunnar gengið vel að öðru leyti en því að fyrirtækið hefur tapað allan sinn rekstrartíma. Það mundi sums staðar ekki þykja góður rekstur. Hvað er það þá sem hefur gengið vel? Það sem hefur gengið vel er tæknilegur rekstur verksmiðjunnar. Verksmiðjan getur skilað mun meiri afköstum en ráðgert var og hefur gert það þegar söluaðstæður hafa verið til staðar. Bilanatíðni í verksmiðjunni er í lágmarki. Gangsetning ofnaverksmiðjunnar tók mjög stuttan tíma. Fyrri ofninn var rekinn með fullum afköstum eftir um það bil hálfan mánuð og sá síðari á svipuðum tíma. Ekki er talið neitt óeðlilegt skv. upplýsingum forstjóra járnblendiverksmiðjunnar á fundi í iðnn. að gangsetning slíkra ofna taki allt upp í sex mánuði. Ég tel mig geta fullyrt að þessi góði tæknilegi rekstur verksmiðjunnar er fyrst og fremst því að þakka að verksmiðjan hefur á að skipa mjög góðu starfsliði sem hefur tileinkað sér þau vinnubrögð sem við eiga og kunna þarf. Það er því harla neikvætt, þegar möguleiki gefst til að endurskoða greiðslu 3% tæknigjaldsins til Elkem, að þáttur starfsliðsins, sem að ofan greinir og sem hefur forðað fyrirtækinu frá enn stórkosttegra tapi á undanförnum árum, skuli ekki koma fram í lækkuðu tæknigjaldi til Elkem. Ástæðan kann að vera að samningamenn okkar sömdu af sér 1976–1977 í sambandi við þennan þátt sem fleiri í þessu máli og Elkem býður nú Sumitomo bandalag gegn samningamönnum okkar og íslenska ríkinu svo þessu gjaldi verði ekki breytt.

Elkem hefur fengið 40 norskar krónur á tonn eða um 1% af söluandvirði í þóknun fyrir að annast sölu á framleiðslu verksmiðjunnar. Nú mun Sumitomo kaupa fyrir aðila sér tengda 20 þús. tonn af ársframleiðslunni. Skv. hinum nýja samningi mun Sumitomo fá sömu þóknun, þ. e. 40 norskar krónur, á tonn fyrir þá framleiðslu sem fyrirtækið selur í Japan þótt varla sé þar um venjulega sölustarfsemi að ræða.

Þá er þess að geta að full ársafköst verksmiðjunnar eru 54–56 þús. tonn. Með þessum samningi er ekki gefin trygging fyrir sölu á allri þeirri framleiðslu, en slíkt hefði mjög bætt líkur á því að verksmiðjan bæri sig.

Í grg. minni rek ég í framhaldi af því, sem ég hef sagt hér að framan, enn sögu þessa máls og viðskipti fyrrv. iðnrh. við Sumitomo og Elkem og bendi á að ýmislegt í sambandi við upphaf þeirra umræðna var á annan veg en úrslit málsins hafa orðið. En það ber að vona að þær ráðstafanir til endurskipulagningar á fjárhag Íslenska járnblendifélagsins hf. að Grundartanga sem þetta frv. gerir ráð fyrir nái tilætluðum árangri og fjárhagslegur rekstur fyrirtækisins á næstu árum og áratugum verði ekki með þeim hætti sem verið hefur hingað til. Sú niðurstaðan er þó engan veginn tryggð. Staða félagsins nú og nauðsyn á endurfjármögnun er staðfesting á að gagnrýni Alþb. á samningana 1976–1977 var rétt. Það endurtekur sig enn að með þeim samningum sem nú er verið að gera fleyta samstarfsaðilarnir rjómann af samningnum. Hér er það fyrst og fremst Elkem sem hefur komið ár sinni vel fyrir borð og minnkað sínar skuldbindingar án þess að missa nokkrar tekjur.

Í þessu sambandi vil ég tilfæra hér eftirfarandi nál. Ingvars Gíslasonar í Nd. 1977, er frv. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði var þar til umr., með leyfi hæstv. forseta:

„Elkem Splegerverket er myndarlegt og traust fyrirtæki, en engin góðgerðarstofnun frekar en við er að búast. Það er ekki eins og að hafa himin höndum tekið að þurfa í slíkum viðskiptum sem þessum að hrekjast frá einum auðhringnum til annars, hvort sem hann á heimilisfang í New York eða Osló.“ Nú mætti bæta hér við Tókíó.

Því verður ekki á móti borið að samningsaðstaða okkar hefur verið erfið við þessa samningsgerð. Því olli að miklu leyti að fyrri samningur var óhagstæður. Sömu flokkar báru málið fram þá og eru nú að viðurkenna eigin mistök. Aðstaðan nú var þó ekki það erfið að hún réttlætti þá eftirgjöf sem í samningunum felst.

Enda þótt í þeim samningsramma sem undirritaður hefur verið séu margir og stórir gallar, eins og sagt hefur verið, tel ég þó að í hinni fjárhagslegu endurskipulagningu felist nokkur ávinningur fyrir Íslenska járnblendifélagið. Ég mun því ekki leggjast gegn framgangi frv., heldur sitja hjá við afgreiðslu þess.