07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5427 í B-deild Alþingistíðinda. (4700)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ekki veit ég í hvaða umboði hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir telur sig geta talað hér fyrir hönd allra kvenna. Ég held að til þess skorti hana umboð. Ég vil benda hv. þm. á að að ákvörðun um járnblendiverksmiðjuna stóðu stjórnmálaflokkar þar sem konur starfa. Auðvitað áttu konur aðild að þeirri ákvörðun á sínum tíma í sínum flokkum. Það er nefnilega svo að töluvert margar konur hafa kosið að starfa í hinum eiginlegu stjórnmálaflokkum og berjast þar fyrir framgangi sinna mála án þess að þar sé um þröngt sérsvið að ræða.

En nú langar mig að beina einni spurningu til hv. síðasta ræðumanns: Hvernig vilja Samtök um kvennalista að tekið verði á þeim vanda sem við hefur blasað í sambandi við rekstur málmblendiverksmiðjunnar á Grundartanga? Hvernig vilja Samtök um kvennalista að við þessum vanda sé brugðist? Ég held að öllum sé ljóst að við svo búið gat ekki staðið óbreytt og þá sýnast helst vera þrír kostir til staðar, þ. e. halda öllu áfram óbreyttu og láta það sulla þannig áfram, sem ég tel raunar að hafi ekki verið kostur, fá nýjan aðila inn í rekstur fyrirtækisins, eins og nú er verið að gera og styrkja þannig frambúðarrekstur þess, eða í þriðja lagi að láta loka þessari verksmiðju þar sem vinna eitthvað á annað hundrað manns. Það er ekki hægt að stinga höfðinu í sandinn og segja: Við ætlum ekki að hafa neina skoðun á þessu. bara vera á móti þessu og horfa fram hjá vandanum. Einhvern veginn verður að bregðast við þessu og einhverjar ráðstafanir verður að gera. Það er alveg ljóst að Samtök um kvennalista berjast mjög hart gegn stóriðju og auðvitað má færa margvísleg rök gegn stóriðju. Það kom mér hins vegar afskaplega mikið á óvart í umr. í Sþ. í vetur þegar einn af þm. Kvennalistans í umr. um fríiðnaðarsvæðið við Keflavíkurflugvöll lýsti sig alfarið á móti þeirri till., sem þó gerði einmitt ráð fyrir, - hv. þm. getur flett upp í þingtíðindum til að skoða þetta, hún lýsti sig andvíga þeirri till., þannig skildi ég hennar mál, — ýmiss konar smáiðnaði, sem á slíku svæði væri hægt að koma á fót. Eru þá Samtök um kvennalista alfarið á móti iðju eða iðnaði? Mér heyrðist það nú ekki á hv. síðasta ræðumanni. Það er greinilegt að í þeirra hópi eru verulega skiptar skoðanir um þetta mál.

Eitt atriði til viðbótar vil ég nefna, sem raunar var beint til hæstv. iðnrh. Það var hvernig væri háttað mengunarvörnum á Grundartanga. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. hefur nokkurn tíma heimsótt þetta fyrirtæki og skoðað hvernig þar er staðið að málum og hvernig reksturinn fer fram og framleiðslan. En ég fullyrði að sá mengunarvarnabúnaður sem þarna er í notkun er hinn fullkomnasti sem til er í nokkurri slíkri verksmiðju í veröldinni. Ef hv. þm. keyrir fyrir Hvalfjörð og horfir til þessarar verksmiðju, sem raunar hefur verið hönnuð með þeim hætti að hún fellur mjög vel að landslaginu og stingur ekki í augu eins og slík mannvirki gera oft, það er óhætt að hrósa þeim arkitektum og verkfræðingum sem þar hafa að staðið, þessi mannvirki fara snoturlega í landslaginu þarna, þá sést ekki reykkorn eða rykský úr reykháfum verksmiðjunnar. Mengunarvarnir eru þarna mjög fullkomnar og það sem meira er: úr útblæstrinum frá verksmiðjunni eru hreinsuð efni sem síðan eru notuð m. a. til íblöndunar í sement til þess að koma í veg fyrir alkalískemmdir, þannig að það sem áður var til mengunar er nú notað og má sjálfsagt nota til ýmissa annarra hluta. T. d. hafa farið fram tilraunir með að blanda þessu kísilryki í íslenskan leir, Búðardalsleir, og þær munu hafa gefið nokkuð góða raun. Það er auðvitað einfalt að horfa alltaf á neikvæðu hliðarnar.

Það má tína ýmis rök til gegn stóriðju, ég get alveg fallist á það, um það eru skiptar skoðanir, en ég held, ef menn horfa svolítið lengra til baka, að enda þótt sú stóriðja sem hér hefur verið hafi verið mjög umdeild á ýmsu sviði hefur hún átt sinn þátt í að á sínum tíma var ráðist í hagfelldar virkjunarframkvæmdir. Orkusölusamningurinn til álversins á sínum tíma var forsenda Búrfellsvirkjunar og hefur sjálfsagt gert miklu betur en að borga hana upp.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri, en ég vildi gjarnan fá að heyra hvernig þm. Samtaka um kvennalista hugsa sér að bregðast við þessum vanda eða hvort það á alls ekki að bregðast við honum, hvort það eigi að loka fyrirtækinu eða hvað og hvort þær hafa þá gert sér grein fyrir hvað sú aðgerð kostar.