07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5431 í B-deild Alþingistíðinda. (4704)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég vil taka undir flest af því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér í sambandi við stóriðju og þá þróun atvinnumála sem þm. fjallaði um í ræðu sinni. Ég tek undir það að stóriðja er úreltur atvinnuvegur og ég þakka henni fyrir að hún tók undir það sem ég benti á í ræðu minni við 1. umr. þessa máls, að það væri á því sérstök skýring að Japanar væru komnir hingað, þ. e. sú að þeir væru að fjarlægjast stóriðjuna og auka léttaiðnað í sínu landi og væru að nýta okkur sem þróunarland.

Á hinn bóginn get ég ekki á móti því borið að mér þótti það nokkuð yfirlæti þegar hún lýsti því yfir að nú væru konur komnar á vettvang til að standa gegn því að þessi atvinnuþróun ætti sér stað hér á landi og að ábyrgð þeirra mála fram á þennan dag hvíldi á fjórum flokkum, hinum gömlu flokkum. Ég vil nú frábiðja Alþb. þann félagsskap og undirstrika að við Alþb. menn höfum staðið gegn þeirri atvinnuuppbyggingu sem hefur byggst á stóriðju. Við stóðum gegn þessu fyrirtæki þó að við í dag viðurkennum að það sé orðinn þáttur í atvinnurekstri okkar og undan því verði ekki skorast að standa að því að láta þann rekstur halda áfram til þess að þjóðin verði ekki fyrir enn meiri skaða af þessu fyrirtæki en orðið er.

Í því tilefni gagnrýni ég þá skoðun þm. að hún taldi að það væri farsælasti kosturinn í dag að loka þessu fyrirtæki. Ég held að hún hafi ekki gert upp dæmið til fullnustu þegar hún tók sér þá skoðun vegna þess að það er ekki aðeins sá hópur starfsmanna sem er bundinn þessu fyrirtæki sem við þurfum þá að útvega ný atvinnutækifæri heldur þurfum við einnig að greiða þær skuldir sem á fyrirtækinu hvíla og ekki aðeins á fyrirtækinu heldur á þeim orkustofnunum sem sjá fyrirtækinu fyrir orku. Það eru ekki neinir smápeningar og mundu verða teknir einnig úr vasa skattborgara ef ætti að fara að stöðva þetta fyrirtæki nú.

En hún nefndi einnig mengunarvarnir á Grundartanga. Það hafa fleiri fengist við að andæfa gegn uppbyggingu stóriðju á Íslandi og þessu fyrirtæki en þær ágætu konur sem skipa Kvennalistann og standa að þeim lista. Ég var stoltur yfir því þegar ég fór með iðnaðarnefndum Alþingis um verksmiðjuna á Grundartanga takandi eftir því, eins og hv. þm. Eiður Guðnason benti hér á áðan, að umhverfi hennar allt var mjög snyrtilegt og þar sást varla reykur úr ofni. Forstjóri verksmiðjunnar staðfesti að m. a. og kannske sérstaklega vegna þess að það hefði verið haldið uppi sérstöku andófi gegn þessari verksmiðju og skörp umræða verið um hvernig yrði búið að mengunarvörnum þarna, þá væri þessi verksmiðja nú fyrirmyndarverksmiðja. Þá voru ekki komnar til kvennalistakonur til þess að berjast fyrir þessu máli. Það gerðu fyrst og fremst Alþb.-menn með miklum stuðningi annarra íbúa þess byggðarlags sem verksmiðjan er staðsett í.

Hæstv. ráðh. sagði að hans skoðun væri sú að æskilegt væri að erlend stórfyrirtæki ættu 100% í þessu fyrirtæki. Sú skoðun breytir ekki þeirri staðreynd að uppbygging þessa fyrirtækis nú, að þarna eru komnir tveir aðilar á móti ríkismeirihlutanum, bendir til þess að þeir hafi skapað sér nokkuð sterka samningsaðstöðu gagnvart okkar eignarhluta. En það er ekki vegna þess að eignarhluturinn skiptist svona. Það er vegna þess að upphafssamningarnir við Elkem voru það slappir að út frá þeim samningum geta þessir aðilar gert bandalag og hafa gert bandalag, eins og t. d. í sambandi við tæknikostnaðinn. Á hinn bóginn benti ráðh. líka á að ég nefndi í mínu nál. að ekki væri trygging fyrir sölu á fullri framleiðslu verksmiðjunnar, en það hafi ekki verið betra í fyrri samningum. Það er alveg rétt. Við stöndum þarna einmitt frammi fyrir því að fyrri samningar gáfu okkur ekki möguleika til þess. Þá höfðum við ekki tryggingu fyrir því að selja alla framleiðslu verksmiðjunnar. Þessir gera það ekki heldur.