07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5437 í B-deild Alþingistíðinda. (4719)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það gerist nú orðið nokkuð algengt hér á hv. Alþingi að fjallað sé um sölu á ríkisjörðum. Ríkisjarðir eru auðvitað eign þjóðarinnar og það hlýtur að þurfa að athuga mjög vandlega hvort selja á slíka eign hverju sinni. Ég treysti því að landbn. geri slíkt. Ég vil hins vegar láta þess getið að ég hef iðulega látið það vera að greiða atkv. með frv. um sölu á þessum jörðum.

Hér er um að ræða miklu meira mál en menn vilja kannske vera láta, en þessi mál eru oft meðhöndluð sem smærri mál í þinginu. Um þessi mál hafa þó farið fram verulegar umr. oft. Stundum snerta þær sjálf grundvallaratriði stjórnskipunarinnar, þ. e. það ákvæði stjórnarskrárinnar sem lýtur að hinum heilaga eignarrétti sem menn kannast við. Ég dreg ekki í efa þarfir bóndans og réttmæti þess að Hafsteinn Lúðvíksson fái jörðina Ytra-Vallholt, Seyluhreppi í Skagafjarðarsýslu og ég er ekki sérstaklega að leggja til flm. þessa frv., hv. þm. Pálma Jónssonar, Páls Péturssonar og Stefáns Guðmundssonar.

Það vill svo til að þetta er í fyrsta sinn sem hér kemur á dagskrá til 2. umr. mál af þessu tagi, um að selja kristfjárjörð, um alllangan tíma. Í tilefni af því hef ég borið fram til hæstv. dóms- og kirkjumrh. fsp. um fjölda kristfjárjarða og vænti ég þess að hann svari þeirri fsp. næstu daga.

En það er óljóst að mínu mati hvar kristfjárjarðir eru vistaðar í okkar stjórnkerfi, hvort þær heyra undir dóms- og kirkjumrh. eða hvort þær heyra undir landbrh. eða jafnvel félmrh. Fyrir 30 árum fór fram mjög ítarleg umr. hér á hv. Alþingi um kristfjárjarðir og stöðu þeirra því að það voru uppi hugmyndir um það þá að ríkið eignaðist allar þessar jarðir. Í tilefni af þeirri umr. gerði félmrn. einmitt úttekt á kristfjárjörðum og birti yfirlit yfir þær, sem unnt er að finna í þingtíðindum. Það er ítarleg skýrsla upp á sennilega einar 100 síður í broti Alþingistíðinda þar sem greint er frá hverri kristfjárjörð fyrir sig og því hvaða ástæður lágu til þess að þessar jarðir voru gefnar á sínum tíma. Hæstv. ríkisstj. á þeim tíma gerði tilraun til þess að eignast þessar jarðir þá, þannig að ríkið ætti þær. Þetta mál stöðvaðist hér í þinginu. Þáv. ríkisstj. treysti sér ekki til að koma málinu hér í gegn og var það þó flutt og mjög fyrir því mælt af þáv. félmrh. og forsrh., Steingrími Steinþórssyni. Nú gerist það á nýjan leik að hér er komin upp hugmynd um sölu á kristfjárjörð. Og ég tel ástæðu til að minna af því tilefni á tvö grundvallaratriði í sambandi við kristfjárjarðir.

Í fyrsta lagi eru þær gefnar Kristi til þess að vera ævinlega kristfé, eins og segir yfirleitt í gjafabréfum þessara jarða. Gjafabréfið fyrir þessari jörð, sem birt er í Lovsamling for Island I, bls. 508–509, er birt í heild í grg. frv. Þar segir í 2. mgr. nákvæmlega þetta:

„Skal jörðin, með kúgildunum og öllu því sem henni með réttu tilheyrir, vera ævinlega kristfé héðan í frá.“ Þetta er það sem segir númer eitt. Það er ákveðið í gjafabréfinu, undirrituðu af heilögum Þorláki biskupi, að þetta skuli vera ævinlega kristfé — og ævinlega þýðir alltaf. En í öðru lagi segir í þessu gjafabréfi, sem skiptir ekki minna máli eftir þá setningu sem ég var að lesa, og nú les ég setninguna aftur:

„Skal jörðin, með kúgildunum og öllu því sem henni með réttu tilheyrir vera ævinlega kristfé héðan í frá.“ Síðan segir: „En það skil ég til, að fátækar, munaðarlausar ekkjur og föðurlaus börn, sem helst eru þurfandi í Norðlendinga fjórðungi, einkum Hegraness þingi, hafi not af jörðinni.“

M. ö. o. hér er jörðin gefin til þess að vera eins konar stofnsjóður Kristi og arðurinn af þessum stofnsjóði á að renna til fátækra ekkna og munaðarlausra í Norðlendingafjórðungi, einkum í Hegranesþingi. Af þessu tilefni væri fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig afgjöldum af þessari jörð hefur verið varið á undanförnum áratugum og öldum til ekkna og munaðarleysingja í Norðlendingafjórðungi, einkum í Hegranesþingi. Ég tel að það sé skylda stjórnvalda að grafast fyrir um hvernig þeim málum er háttað og ég vil láta hæstv. dóms- og kirkjumrh. vita af því áður en umr. um kristfjárjarðir fara hér fram, annaðhvort á þriðjudaginn kemur eða eftir viku, að ég mun spyrja hann sérstaklega um hvernig afgjöldum af kristfjárjörðum hefur verið varið. Hverjir hafa fengið tekjur af kristfjárjörðum? Hafa það verið ekkjur og munaðarlausir, eins og gjarnan er tekið fram í gjafabréfum, eða með hvaða hætti hefur þessum tek, um verið varið og hvað eru þær miklar?

Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir því að staða kristfjárjarða er allt önnur en staða ríkisjarða. Þess vegna er í rauninni algjörlega fráleitt að afgreiða þær alveg á nákvæmlega sama hátt og um venjulega ríkiseign væri að ræða. Hér er ekki um ríkiseign að ræða skv. gjafabréfum. Hins vegar hafa hv. flm. bent á það, sem er skynsamlegt, að með söluandvirði þessarar jarðar skuli farið með sérstökum hætti. Þannig hafa þeir í rauninni viðurkennt stöðu kristfjárjarðanna og að hún er allt önnur en staða ríkisjarðanna.

Í þessum efnum má minna á að fyrir nokkru var til meðferðar sala á kristfjárjörðum í tengslum við land undir kísilmálmverksmiðjuna á Reyðarfirði. Þá var á það stefnt og tekin um það ákvörðun, að ég best man, að tekjur af þeirri sölu rynnu til málefna aldraðra á Eskifirði og Reyðarfirði og í Helgustaðahreppi. Hér var sem sagt um að ræða ákveðna stefnumótun varðandi það þegar sala á kristfjárjörðum ætti sér stað. Ég held að hér hafi út af fyrir sig verið um skynsamlega stefnumótun að ræða. En ég held að það sé alveg fráleitt fyrir Alþingi að umgangast grundvallaratriði eins og þetta frv. snertir rétt eins og hér sé um að ræða mál af smæstu stúku sem ekki þurfi að eyða neinni sérstakri umr. í.

Ég held að það sé nauðsynlegt að staða kristfjárjarðanna verði skýrð. Ég er ekki kominn hér til að taka upp málflutning fyrir þá sem afgjalds áttu að njóta af jörðinni né fyrir eiganda hennar sérstaklega. Ég er kominn hérna upp til að vekja athygli á því að hér er um að ræða mál sem snertir grundvallaratriði í okkar stjórnskipun og stjórnkerfi og er útilokað að láta fara fram hjá sér eins og ekkert sé.

Ég endurtek að ég er hér ekki að leggja til hv. flm. frv. og það er kannske nánast tilviljun að það er einmitt þetta frv. en ekki eitthvað annað sem er hér á dagskrá vegna þess að iðulega eru að fara hér í gegn frv. um sölu á ýmsum jörðum. En ég taldi rétt, herra forseti, að víkja að nauðsyn þess að staða kristfjárjarðanna í stjórnkerfinu verði skýrð, þeirra allra, áður en lengra er gengið í því að selja þessar eignir.

Í umr. um málið á Alþingi 1952 var spurt: Hefur ríkið, hefur Alþingi rétt til að samþykkja sölu þessara jarða? Getur þingið samþykkt slíka jarðasölu? Það var á þessari spurningu sem sala kristfjárjarðanna til ríkisins á sínum tíma strandaði vegna þess að menn voru ekki vissir um að Alþingi gæti tekið ákvörðun um að flytja þessar kristfjárjarðir þannig yfir í beint eignarhald ríkisins.

Þetta þótti mér nauðsynlegt að nefna hér, herra forseti.