07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5441 í B-deild Alþingistíðinda. (4722)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hygg að það gæti orðið dálítið erfitt mál gagnvart framtíðinni ef það verður vafaatriði hvort lifendur hafa rétt til að ráðstafa landi á þessari jörð og í þessu landi eða hvort hinir látnu geti gengið svo frá málum að þar sé óhagganlegt.

Ég vil víkja að því að hugsanlegt er að gefa fleirum jarðir en Kristi. Það hefði alveg eins mátt gefa jörðina þeim í neðra með ákveðnum skilmálum og setja þar af leiðandi upp gjafabréf. Hitt væri spurning, hvort menn hefðu fundið umboðsmann til að taka við og sjá um afrakstur. En það hygg ég að fari ekki milli mála að menn hefðu orðið tregir til að una slíku gjafabréfi og fara eftir því, jafnvel þó að löglega væri frá gengið hvað skjalapappír og votta áhrærir.

Það er einnig vitað að við höfum talið eðlilegt að ríkið leysti til sín eignir þegar það teldi að almannaheill krefði og kæmi fullt verð fyrir. Mér sýnist að ýmis gjafabréf, sem undirrituð hafa verið og hafa ráðstafað landi, skapi veruleg vandkvæði. Ég vil nefna t. d. jörðina Skóga í Þorskafirði sem var gefin sértrúarsöfnuði. Ég hygg að tímabært sé að sett verði lög, annað hvort stjórnskipunarlög eða að það verði sett inn í stjórnarskrá landsins, um að ávallt verði annað hvort sveitarstjórnum eða ríkisvaldinu heimilt að leysa til sín land undir slíkum kringumstæðum og láta fullt verð fyrir.

Eitt er víst, að ég hefði ekki áhuga á að búa í því landi þar sem hinir látnu væru búnir að ráðstafa landssvæðinu öllu og spurning hvað ferðafrelsi og almenna starfsemi áhrærði gagnvart lifendum.