07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5443 í B-deild Alþingistíðinda. (4726)

310. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þau frv. tvö sem hér liggja fyrir til umr. og eru á dagskrá þessarar hv. deildar í dag, nr. 14 og 15, eru annars vegar um breyt. á lögum um menntaskóla og hins vegar um breyt. á lögum um heimild til að stofna fjölbrautaskóla. Ég æski leyfis hæstv. forseta til að mæla fyrir báðum frv. í einu. Frv. eru til þess flutt að lögfesta tilvist öldungadeilda við þessa skóla.

Í reglugerð þeirra sem sett var árið 1971 (nr. 12, nú reglugerð nr. 270/1974) á grundvelli nýrrar löggjafar um menntaskóla frá árinu áður (lög númer 12 frá 1970) eru ákvæði um að leyfi til að ljúka stúdentsprófi án setu í menntaskóla megi veita þeim, „er á venjulegum menntaskólaaldri hafa t. d. lagt stund á annað nám eða störf, en æskja að afla sér þeirrar menntunar eða þeirra réttinda, er fylgja prófi frá menntaskóla“ Jafnframt er kveðið á um að menntmrn. geti heimilað skóla að setja á stofn sérstök námskeið, þ. á m. kvöldskóla, í þágu þeirra sem kjósa að notfæra sér þennan möguleika.

Þetta er hinn lögformlegi grundvöllur þeirrar kennslustarfsemi er nú nefnist öldungadeildir. Í lögunum sjálfum er hvergi getið um öldungadeildir og formleg heimild til setningar reglugerðar um öldungadeildir er ekki heldur í lögum. Til þess að bæta úr því eru þessi frv. flutt.

Fyrsta öldungadeildin tók til starfa á vegum Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1972, fyrir frumkvæði Guðmundar Arnlaugssonar þáverandi rektors, og hefur hún að mörgu leyti orðið fyrirmynd svipaðra deilda sem síðan hafa komist á laggirnar í tengslum við ýmsa menntaskóla og fjölbrautaskóla. Meðal skóla sem nú starfrækja slíkar deildir á sínum vegum, auk Menntaskólans við Hamrahlíð, má nefna Menntaskólann á Akureyri, Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Flensborgarskólann í Hafnarfirði, Fjölbrautaskólann á Akranesi og Fjölbrautaskólann á Selfossi. Vísir að öldungadeildum er og á vegum fleiri framhaldsskóla, svo sem Menntaskólanna á Ísafirði og Egilsstöðum og Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki.

Starfshættir öldungadeildanna eru um margt talsvert frábrugðnir reglulegri starfsemi „móðurskólanna“. Kennslan fer að jafnaði fram eftir venjulegan skólatíma og kennslustundir sem hver nemandi sækir eru færri miðað við sama námsefni. Þetta hefur m. a. valdið því að kennsla í öldungadeildum er greidd með öðrum hætti en í dagskólum og eftir sérstökum kjarasamningum.

Frá upphafi öldungadeilda hefur nemendum þeirra verið gert að greiða innritunargjöld og hefur á seinni árum verið miðað við að þessi gjöld nálguðust að standa undir allt að þriðjungi kennslukostnaðar. Á þessari önn er t. d. innritunargjald í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð 1700 kr.

Meðan öldungadeildir voru aðeins við menntaskóla beindist kennslan eingöngu að stúdentsprófi. Eftir að öldungadeildakennsla komst á við fjölbrautaskóla hafa námsmarkmiðin orðið nokkru breytilegri, eftir því hvaða námsbrautir er um að ræða á hverjum stað.

Þótt enn hafi ekki verið settar heildarreglur um starfsemi öldungadeilda hefur nokkur síðustu ár verið leitast við að fylgja fram nokkrum grundvallarkröfum um tilhögun og markmið fullorðinsfræðslu til að hún nyti fjárhagsstuðnings af ríkisfé með þeim hætti sem tíðkast hefur um öldungadeildir. Þannig hefur heimild til starfrækslu fullorðinsfræðslu á vegum fjölbrautaskóla yfirleitt verið miðuð við eftirfarandi skilyrði:

1. Árlega verði lögð fyrir ráðuneytið til samþykktar áætlun um fyrirhugaða kennslu, námsáfanga og fjölda nemenda í hverjum hóp.

2. Náms- og prófkröfur verði hinar sömu og í hliðstæðum áföngum í reglulegu starfi skólans. Nemendur skrái sig á ákveðnar námsbrautir.

3. Afnot af skólahúsnæði og kennslutækjum verði látin í té án sérstaks gjalds.

4. Launakostnaður skiptist jafnt milli þriggja aðila: ríkissjóðs, sveitarfélags þess eða sveitarfélaga, sem að skólanum standa, og nemenda.

5. Annar rekstrarkostnaður skiptist milli ríkissjóðs og, aðildarsveitarfélags eða sveitarfélaga í sömu hlutföllum og hliðstæður kostnaður við reglulega starfsemi skólans.

Þessi skilyrði taka m. a. mið af því viðhorfi að gera verði ákveðnar kröfur um að kennsla í öldungadeildum miði markvisst að tilteknum námslokum í samræmi við reglulega starfsemi „móðurskólans“ og námið sé að öllu jafngilt í öldungadeild og dagskóla. Reynt er þannig að gera greinarmun á öldungadeildarkennslu og almennri námsflokkastarfsemi sem oft er í frjálsara formi og stefnir ekki endilega að tilteknum prófum þótt markmið hennar geti engu að síður verið góð og gild. Jafnframt er með skilyrðunum leitast við að tryggja að ekki sé efnt til öldungadeildarkennslu nema eðlilegar rekstrarforsendur séu fyrir hendi, þ. á m. að því er varðar nemendafjölda.

Þótt þannig hafi mótast ákveðnar viðmiðanir um skilyrði fyrir starfrækslu öldungadeilda er full þörf á að setja heildarreglur um þessa kennslustarfsemi. Í slíkum reglum þarf m. a. að kveða á um samband öldungadeilda við „móðurskólann“, t. d. að því er varðar samnýtingu starfsliðs, um réttindi og skyldur nemenda, kennslutilhögun og rekstrarforsendur, en einnig þarf að huga nánar að hlutverki öldungadeilda við þær aðstæður sem myndast hafa með fjölbreyttari námsleiðum á framhaldsskólastigi.

Margir munu taka undir þá staðhæfingu að öldungadeildirnar séu meðal mikilsverðustu nýjunga sem fram hafa komið í íslensku menntakerfi á síðari árum. Besta sönnunin fyrir réttmæti þeirrar fullyrðingar er að sjálfsögðu sú mikla eftirspurn sem reynst hefur vera eftir námsvist í öldungadeildum. Að sjálfsögðu hafa ekki allir náð settu marki þar fremur en í öðrum skólum, enda síður en svo um fyrirhafnarlaust starf að ræða. En líklega hafa ýmis aðdáunarverðustu námsafrekin á síðasta áratug einmitt verið unnin í öldungadeildunum. Ég vil leggja áherslu á þann verulega þátt sem öldungadeildirnar hafa átt í aukinni menntun kvenna á síðustu árum því að í þeim hópi sem útskrifast hefur úr öldungadeildum eru konur í töluverðum meiri hluta.

Það er ekki um það deilt að á tímum óðfluga breytinga í atvinnu- og lífsháttum, ekki síst vegna örrar tækniþróunar, veltur mikið á að vel sé búið í haginn fyrir hvers konar viðbótar- og endurmenntun. Slíkrar menntunaraðstöðu er þörf til að gera mönnum kleift að tileinka sér nýja tækni og laga sig að breyttum aðstæðum, en einnig og kannske ekki síður til þess að eignast hlutdeild í ýmsum þeim verðmætum sem ekki eru breytingum háð. Það vill svo vel til að sú tæknibylting sem okkur verður einna tíðræddast um í bili og ýmsum stendur jafnvel nokkur stuggur af, sem sé tölvuvæðingin og sú margvíslega fjölmiðlunar- og upplýsingatækni sem henni tengist, ætti að geta haft í för með sér ótrúlega möguleika á sviði hvers konar fræðslustarfsemi og þá ekki síður í sambandi við fullorðinsfræðslu en almennt skólastarf. Þess vegna er það vafalaust að á þessu sviði blasir við mikið verkefni og fjölbreytilegir möguleikar.

Ég vonast til þess, herra forseti, að Nd. Alþingis greiði fyrir því að þessi litlu frv. tvö, sem fjalla um sama efni, fái greiðan gang í gegnum deildina og þar með geti þau orðið að lögum á þessu vori, og ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.