07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5445 í B-deild Alþingistíðinda. (4727)

310. mál, menntaskólar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Í þeim önnum sem verið hafa í þinginu undanfarið kemur að því að maður er illa undirbúinn að taka þátt í umræðu og það skal játað að ég hafði ekki kynnt mér allt of vel þau tvö frv. sem hæstv. menntmrh. hefur nú talað fyrir. En það kemur mér sannarlega á óvart að nál. frá Ed. skuli vera einróma þó með fyrirvara hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, þar sem samþykkt er, eins og segir í grg. með 311. máli, „að launakostnaður skiptist jafnt milli þriggja aðila: ríkissjóðs, sveitarfélags þess eða sveitarfélaga, sem að skólanum standa, og nemenda.“ Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Er það nýjung eða er ég að misskilja það illilega, að nemendur skuli fara að greiða fyrir skólavist sína?

Varðandi 310. mál sé ég að það segir í frv. að setja skuli í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi þessa og um námsskeiðsgjöld, er skutu miðast við að standa undir allt að þriðjungi kennslulauna. Ég vil því leyfa mér að spyrja: Hvað er gert ráð fyrir að slíkt námskeiðs gjald verði hátt? Ég sé að hér hefur komið fram brtt. í Ed. frá hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, og mér sýnist ekki að ástæðulausu, um að þetta nám skuli vera nemendum að kostnaðarlausu.

Það er alveg ljóst að svokallaðar öldungadeildir, kvöldskólar við menntaskólana, eru fyrst og fremst sóttir af fólki sem með miklum erfiðleikum er að bæta við sig menntun. Það er tekið fram í grg. að meiri hluti þeirra sem öldungadeildir sækja sé konur. Þá sýnist mér að það sé kannske höggið í þann knérunninn er síst skyldi ef um verulega námsskeiðsgjaldahækkun er hér að ræða.

Ég áskil mér rétt til að ræða málið betur undirbúin við 2. umr. um þessi mál, en ég vildi biðja hæstv. ráðh. að skýra þær hugmyndir sem þarna eru: hvað hér er um mikla peninga að ræða fyrir þá sem sækja vilja öldungadeildir og eins að gera ofurlítið betur grein fyrir því hver kostur er á þessari þrískiptingu launagreiðslna.