07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5446 í B-deild Alþingistíðinda. (4728)

310. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt að ítreka það sem ég sagði í framsöguræðu minni um þetta mál. Þetta er ekki nýjung. Það hefur tíðkast frá því er öldungadeildastarfsemi hófst að nemendur greiddu kostnað af kennslunni. Það er öðruvísi en með aðra nemendur. Hér er um að ræða starfsemi sem er nokkuð öðruvísi hagað, og hafa hingað til verið talin full rök fyrir því að haga greiðslunum með öðrum hætti. Það er því ekki um nýjung að ræða og ekki hækkun. Gjaldið á þessari önn er 1700 kr. á nemanda.

Ef það getur veitt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur einhverja leiðbeiningu um þetta mál, þá er ljóst að þetta er ekki heldur nýtt fyrir mörgum sem um þetta hafa fjallað. M. a. mælti hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrrv. menntmrh., með þessari leið í Ed. Alþingis og gegn brtt. sem gekk út á að hafa þetta nám ókeypis fyrir nemendur.

Ég get bætt við viðbótarröksemd og raunar tveimur: Þegar um er að ræða fólk sem fer í kvöldskóla þegar það er komið yfir 21 árs aldur, þá er það oftast nær fólk sem hefur haslað sér nokkurn völl í atvinnulífi eða er farið að sjá fyrir sér sjálft fyrir alllöngu. Auk þess er starfsemi öldungadeildanna nokkuð lausara tengd „móðurskólanum“ en önnur starfsemi. Við sjáum fyrir nokkur ár fram í tímann hve margir verða í hverjum árgangi á reglulegum skólatíma. Það getum við ómögulega séð fyrir með öldungadeildirnar.

Það verður auðveldara að leysa slík mál þegar kostnaðinum er skipt eins og gert hefur verið í þessu máli og ég hygg að það greiði fyrir því að öldungadeildarstarfsemin eflist. Ég óttast að þessi starfsemi mundi öll losna úr böndum ef að því væri horfið að ákveða að nú skyldi hún verða nemendum algjörlega að kostnaðarlausu. Ég óttast að þá mundi það bitna á almennri þjónustu skólans við nemendur því að varla sér hv. þm. fremur en aðrir þm. neina nýja uppsprettu fjár til að standa undir þessu kerfi á næstunni.