08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

41. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Í maí 1975 voru afgreidd frá Alþingi lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Síðan hafa öðru hverju orðið umr. hér í þinginu um þessi lög, sérstaklega þann hluta þeirra sem varðar fóstureyðingar. Það er hins vegar I. kafli þessara laga, kaflinn um ráðgjöf og fræðslu, sem ég geri hér að umtalsefni. Í þeim kafla segir m.a. svo í 2. gr., með leyfi forseta:

„Aðstoð skal veita, eftir því sem við á, svo sem hér segir:

1. Fræðsla og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra.

2. Ráðgjöf fyrir fólk sem íhugar að fara fram á fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð.

3. Kynlífsfræðsla og ráðgjöf og fræðsla um ábyrgð foreldrahlutverks.

4. Ráðgjöf og fræðsla varðandi þá aðstoð sem konunni stendur til boða í sambandi við meðgöngu og barnsburð.“

Kaflinn er alls sjö greinar, en ég les ekki fleiri tímans vegna. Það er væntanlega flestum kunnugt, en e.t.v. misjafnlega mikið áhyggjuefni, að nú, rúmlega 8 árum eftir gildistöku þessara laga skortir verulega á að sú fræðsla, sem þau kveða á um, sé framkvæmd. Afleiðingin af þessari vanrækslu er m.a. mikill fjöldi þungana meðal stúlkna á aldrinum 15–19 ára. Það er verulegt umhugsunarefni að fjöldi barnsfæðinga meðal stúlkna á þessum aldri er miklu meiri hér á landi en meðal jafnaldra þeirra á Norðurlöndunum. Reynsla félagsráðgjafa, sem um þessi mál fjalla, bendir til þess að verulegur hluti stúlkna í þessum aldurshópi hafi mjög takmarkaða þekkingu á kynlífi og getnaðarvörnum, sem tæpast er undrunarefni í ljósi þess hve illa hefur verið staðið að upplýsingamiðlun í þessum málum. Á Norðurlöndum hafa stjórnvöld hins vegar unnið markvisst að fræðslustörfum um þessi efni og telja sig hafa náð verulegum árangri í þá átt að fækka þungunum, fóstureyðingum og fæðingum meðal stúlkna á aldrinum 15–19 ára.

57 konur úr öllum stjórnmálaflokkum og mörgum starfsstéttum tóku sig saman um það á s.l. vori að vekja athygli á þessu ófremdarástandi og gera tillögur til úrbóta. Fulltrúar þeirra gengu síðan á fund heilbrrh. og menntmrh. og afhentu þeim bréf, þar sem hvatt var til fræðsluherferðar um kynferðismál í skólum landsins og meðal almennings. Tillögur þeirra um hvernig standa mætti að slíkri fræðsluherferð eru í stuttu máli þessar:

Að gerð verði fræðsluþáttaröð fyrir sjónvarp í nokkrum hlutum, sem fjalli um æxlun, getnaðarvarnir, kynlíf, kynsjúkdóma, rétt til fóstureyðinga og foreldraábyrgð. Þessir þættir verði varðveittir á myndböndum til afnota fyrir Námsgagnastofnun, kynfræðsludeildir o. fl.

Að landlæknir beiti sér fyrir samstarfi við útvarp og sjónvarp með því markmiði að hvetja unglinga til að nota getnaðarvarnir.

Að hönnuð verði veggspjöld í sama skyni og þeim dreift sem víðast þar sem unglingar koma, í framhaldsskóla, æskulýðsmiðstöðvar, íþróttahús svo og í apótek og á læknastofur.

Að gerður verði upplýsingabæklingur til dreifingar á sömu stöðum, sem m.a. hvetji unglinga til að leita sér fræðslu hjá kynfræðsludeildum þar sem þær eru starfræktar.

Að birt sé auglýsing á áberandi stað í símaskrá með símanúmeri kynfræðsludeilda og hvatningu til almennings um að leita til þeirra.

Að aðgangur unglinga að getnaðarvörnum verði auðveldaður, t.d. með sjálfsölum á almannafæri.

Ég er sannfærð um að með stóraukinni fræðslustarfsemi má koma í veg fyrir umtalsverðan fjölda ótímabærra þungana og þar með fóstureyðinga og barnsfæðinga hjá kornungum stúlkum. Það er mikill ábyrgðarhluti að láta hjá líða að framkvæma ákvæði þessara laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Því spyr ég hæstv. heilbrrh. og menntmrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hvað líður framkvæmd I. kafla laga nr. 25 frá 1975, 1.–7. gr., um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir?

2. Hyggjast ráðherrar notfæra sér tillögur um fræðsluherferð í skólum og meðal almennings, sem samstarfshópur 57 kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum og mörgum starfsstéttum vann að og afhenti viðkomandi ráðherrum 4. júlí s. l.?