07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5447 í B-deild Alþingistíðinda. (4730)

310. mál, menntaskólar

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa efasemdum mínum um réttmæti þess að lögbinda á þennan hátt kostnaðarskiptingu á nemendur í öldungadeildum. Þannig er gefin til kynna mikil sérstaða þessa náms og bersýnilegt að þarna eiga að gilda aðrar reglur en um venjulegt nám. Ég held að þetta sé rangt. Ég held að menn verði að horfast í augu við að öldungadeildir eru ekki bara til að draga að landi fólk sem af einhverjum ástæðum hafði ekki aðstæður eða hafnaði því á yngri árum að fara í nám. Öldungadeildir og hliðstætt nám hlýtur á komandi árum að verða sífellt vaxandi þáttur í okkar skólakerfi vegna þess að tímarnir breytast og mennirnir verða að reyna að breytast með. Það standa fyrir dyrum hjá okkur verulegar breytingar á lífsháttum og þjóðfélagsgerð og það er beinlínis nauðsynlegt fyrir okkur að búa þannig í haginn að sem flestir geti notið náms og aðlögunar að breyttum háttum. Ég held að sú kostnaðarhlutdeild nemenda, sem þarna er lögð til, sé ekki skynsamleg.