07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5451 í B-deild Alþingistíðinda. (4744)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengi. Ég vil þó gjarnan láta það koma hér fram að ég fagna framgangi þessa máls og vil flytja hæstv. iðnrh. þakkir fyrir hvernig að þessu máli hefur verið staðið.

Ég átti því láni að fagna að vera viðstaddur þegar hið nýja fyrirtæki, Sigló hf., tók til starfa við formlega athöfn. Þar hafa sannarlega mikil umskipti orðið frá því sem var í fyrirtækinu Siglósíld. Endurbygging fyrirtækisins hafði gengið með skjótum hætti og verið unnið að henni af mjög miklum myndarskap. Hjá Siglfirðingum var og er mikil bjartsýni ríkjandi og ánægja með þetta mál og ég hygg að þær raddir séu fáar sem eru samhljóða því sem segir frá í umsögn frá stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði.

Ég skal ekki fara um málið miklu fleiri orðum. Ég vil þó lýsa yfir því að ég bind miklar vonir við fyrirtækið í höndum þeirra nýju eigenda sem nú eru þar við stjórnvölinn og vænti þess að það verði til mikilla heilla fyrir atvinnulíf Siglufjarðar.

Ég tók eftir því að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir taldi að heimamenn hefðu lítið haft með málið að gera. Ég fullvissa hv. þm. um að haft var náið samráð við heimamenn um þetta mál. Heimamenn eru sjálfir 50% hluthafar í fyrirtækinu. Það hefur verið farið þannig að í þessu máli að heimamenn, a. m. k. flestir hverjir, eru mjög svo ánægðir með þá framvindu sem orðið hefur.

Forsaga hins fyrra fyrirtækis, Siglósíldar, skal ekki rakin að öðru leyti en því, að eins og hér hefur komið fram var vissulega oft um verulega aðstoð ríkisins að ræða við það fyrirtæki, sem ber að þakka. Sú aðstoð gekk þó eftir venju til þess aðallega að halda fyrirtækinu á floti, greiða upp rekstrartap og veita fyrirgreiðslu í sambandi við hráefnisöflun, en sú aðstoð dugði ekki til að endurbyggja fyrirtækið. Var það auðvitað miður. Taprekstur fyrirtækisins hélt því sífellt áfram. Nú hefur skipt um svip.

Ég vil endurtaka þakklæti mitt og lýsa yfir því að ég treysti því að hér hafi verið gerð ráðstöfun, sem verði Siglufjarðarkaupstað til heilla og því fólki sem þar býr og jafnframt okkar þjóð.