07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5453 í B-deild Alþingistíðinda. (4747)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um frv. um ríkismat sjávarafurða. Ég stend að áliti sjútvn. og þeim brtt. sem þar hafa verið gerðar, en undirritaði álitið með fyrirvara. Ég mun gera nánar grein fyrir því hér á eftir hvað því ræður.

Það sem ég held að skipti höfuðmáli í sambandi við það sem við erum að fjalla um hérna, þ. e. meðferð á afurðum í sjávarútvegi, er þrennt: Í fyrsta lagi er það fræðsla um meðferð þessara afurða, og þá er það fræðsla á öllum stigum framleiðslunnar, allt frá þeim sem draga fiskinn úr sjó og til þeirra sem á endanum selja hann á mörkuðum. Í öðru lagi hlýtur að skipta þarna höfuðmáli að hver aðili, sjómaðurinn, verkandinn, seljandinn, beri ábyrgð á gerðum sínum, þannig að hann standi og falli með því sem hann hefur upp á að bjóða, með því sem hann lætur frá sér. Það leiðir hugann að þriðja atriðinu, sem ég tel að skipti kannske mestu máli af öllu í sambandi við gæðamál í sjávarútvegi, en það er verðmyndunarkerfið. Verðmyndunarkerfi í sjávarútvegi hlýtur að verða að vera á þann hátt að sú ábyrgð, sem ég talaði um áðan, skili sér og kannske á endanum á þann hátt að sá sem ekki skilar frá sér fullnægjandi vöru gjaldi þess í gjaldeyri eða verðlagningu.

Þessi mál hafa talsvert verið til umr. hér á landi undanfarin misseri. Þau hafa verið ti! umr. m. a. vegna lýsinga sem við höfum heyrt og séð í fjölmiðlum á stórgölluðum vörum sem hafa verið sendar á erlenda markaði. Þar er augsýnilega víða pottur brotinn og þá vantar eitthvað á það þrennt sem ég talaði um í byrjun, þ. e. að fræðslan, ábyrgðin og verðmyndunarkerfið verki til þess að skila þarna góðum afurðum.

Í öðru lagi hafa talsverðar umræður orðið um þetta mál að undanförnu vegna áhrifa kvótakerfis á meðferð afla. Eitt af því sem var rætt um að réttlætti og styddi það að menn tækju hérna upp kvótakerfi var að það var talið að í kjölfar þess mundi stórbatna meðferð afla og það mundu stóraukast verðmætin sem greinin gæfi af sér. Þó það væri í sjálfu sér jákvæð umræða og eðlilegt að hefja hana, þ. e. að kvótakerfið mundi auka gæði og verðmæti svona mikið, var hún á vissan hátt líka vitnisburður um óskaplegt ástand í þessari grein. Það var sagt að bætt meðferð í kjölfar kvóta mundi jafnvel auka aflaverðmæti um 10–15%. Það er, eins og ég segi, vísbending og vitnisburður um að menn hafi staðið mjög illa að sínum málum undanfarin ár.

Í grg. með frv. þessu er vikið að umræðunum um léleg gæði og vísað til skýrslu um þessi atriði. Hún kom frá nefnd sem skilaði áliti í janúar 1980. Þar er nokkuð harkalega að orði komist. Það er kannske nokkuð dæmigert fyrir það hvað þessi mál hafa verið mikið til umræðu og hvað menn hafa kveðið þar fast að orði að í þessari skýrslu, sem var gefin út af nefnd hagsmunaaðila þann 23. janúar 1980, stendur, með leyfi forseta:

„Allhörð gagnrýni hefur verið höfð í frammi gagnvart starfsemi stofnunarinnar og má segja að sú gagnrýni sé þríhliða: frá hagsmunaaðilum, frá hinu opinbera og frá starfsmönnum. Frá hagsmunaaðilum hefur fiskmatið verið gagnrýnt fyrir ófagleg vinnubrögð, stífni og stirðleika og jafnvel hlutdrægni, enn fremur misræmi í mati á milli landshluta og á milli manna á sama stað.“

Þetta eru býsna stór orð. Það er augljóst að einhvers staðar er þarna pottur brotinn og þess vegna vafalaust full ástæða til að taka á þessum málum. Svo getur mönnum sýnst sitt hverjum um hvort þetta frv., sem hér er á ferðinni, gerir það.

Þá ættu menn kannske að athuga hvort þetta frv. tekur á einhverjum þeim atriðum sem ég sagði hérna í byrjun að væru grundvöllurinn að því að gæði yrði viðunandi, þ. e. fræðsla, ábyrgð og verðmyndunarkerfi. Ég ætla í sambandi við þetta að lesa upp úr einni umsögn sem barst um frv., með leyfi forseta. Þessi umsögn er frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hún er skrifuð af þeim Geir Arnesen og Grími Valdimarssyni, starfsmönnum rannsóknastofnunarinnar. Þar segir m. a.:

„Frv. stefnir að einföldun matsmála og víðtækari skyldum framleiðenda sjálfra en áður hefur verið og teljum við það til bóta. Mikið veltur á því hvernig reglugerðir um framkvæmd gæðaeftirlitsins verða úr garði gerðar. Eðlilegt er að ætla að gæðaeftirlit með matvælaframleiðslu gangi í gegnum ákveðin þróunarskeið. Almennt er talið að hástigi í þeirri þróun sé náð þegar fyrirtækin og samtök þeirra geta sjálf haft á höndum gæðaeftirlitið. Hlutverk ríkismatsins færist þá yfir á það svið að hafa eftirlit með eftirlitskerfi þessara aðila og vinna að samræmingu á matsaðferðum. Að okkar dómi leikur enginn vafi á því að nái frv. fram að ganga yrði flýtt mjög fyrir þróun þessara mála hér á landi og gæti það haft í för með sér verulega aukin gæði sjávarafurða.“

Það kemur fleira fram í þessu áliti, en ég ætla ekki að lesa það upp.

Í þessu koma fram hlutir sem ég tel að séu mjög umhugsunarverðir. Ég ætla að lesa aftur það sem ég tel athyglisverðast, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er að ætla að gæðaeftirlit með matvælaframleiðslu gangi í gegnum ákveðin þróunarskeið. Almennt er talið að hástigi í þeirri þróun sé náð þegar fyrirtækin og samtök þeirra geta sjálf haft á höndum gæðaeftirlitið. Hlutverk ríkismatsins færist þá yfir á það svið að hafa eftirlit með eftirlitskerfi þessara aðila og vinna að samræmingu á matsaðferðum.“

Ég er mjög sammála þessum orðum og þau eru á vissan hátt efnislega samhljóða skoðunum sem ég lýsti við 1. umr. málsins, þ. e. að það eina sem gæti á endanum tryggt viðunandi meðferð afurða væri full ábyrgð þeirra sem afurðirnar framleiða á hverjum tíma. Það er vegna þessara atriða sem ég skrifa undir nál. með fyrirvara. Ég tel að það verði að vinna ötullega að því að verðlagningu og ábyrgð sé þannig háttað að trassaskapur í þessum efnum hitti þá sem meðhöndla vöruna á öllum stigum og hitti þá þar sem þeir eru aumastir fyrir, í pyngjunni. En það var mér ljóst við umfjöllun þessa máls í n., af því að lesa umsagnir og að ræða við þá sem komu til að spjalla við okkur, að þess er ekki að vænta um sinn að því stigi sé náð, og því tók ég þátt í að gera lagfæringar á þessu frv. og búa það þannig úr garði að við það megi vel una um sinn, þangað til því stigi sem þeir Grímur Valdimarsson og Geir Arnesen hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins nefna í sinni umsögn „hástig“ í þróun gæðaeftirlitsins er náð.

Svo ég snúi mér með nokkrum orðum að frv. sjálfu, þá er fyrst að segja að frumgerð frv. var að ýmsu leyti gölluð. Til viðbótar tekur frv. t. d. ekki til almennrar fræðslu í sambandi við þessi mál. Þar hefur þó verið unnið talsvert verk á undanförnum misserum og var hafið af síðustu ríkisstjórn. Það er líka stórt atriði og er kannske af einstökum atriðum eitt það mikilvægasta að fjárskortur stofnunarinnar, þ. e. aðstöðuleysi matsins, hefur verið verulega mikið á undanförnum árum og frv. tekur eðlilega ekki til þeirra þátta. Þetta eru hlutir sem ríkjandi aðilar þurfa að hafa í huga á hverjum tíma. Það má t. d. nefna að hjá matinu er engin tölva. Það eru engar aðstæður til að vinna þannig úr matsgögnum að viðunandi sé. Samkv. upplýsingum sem við fengum hrúgast upp matsgögn í pappakössum og það tekur kannske marga mánuði að vinna úr gögnunum. Það getur hver metið það fyrir sjálfan sig hvort það eru skynsamleg vinnubrögð og hversu fljótlegt það er fyrir umsjónarmenn matsins að gera sér grein fyrir hvert við erum að fara í þessum gæðamálum, hverjar tilhneigingar eru í þessum efnum, annaðhvort hjá einstökum fyrirtækjum eða landshlutum.

Eins og frsm. kom að áðan var fjölda umsagna aflað og þær vísuðu til ýmissa átta. Það voru t. d. gerðar athugasemdir við svonefnt fiskmatsráð, stöðu þess, skipanir í það o. s. frv. Í frv. var hlutverk þess og völd heldur óljóst orðið. Einnig gerðu umsagnir svokallað framleiðsluleyfi að umtalsefni. Það voru gerðar athugasemdir við reglur um aðferðir við að kveða upp úrskurð um ágreiningsefni o. fl. o fl.

Þær brtt. sem n. stendur að skýra ýmsa þessa hluti. Þær afmarka stöðu fiskmatsráðs sem ráðgefandi aðila, þær styrkja valdsvið hreinlætisfulltrúa frá því sem er í upphaflegri gerð frv. og þær ítreka úrskurðarvald yfirfiskmatsmanna, svo nokkur dæmi séu nefnd. Að auki eru í till. ýmis atriði úr umsögnum og tillögum sem n. bárust og við teljum að horfi til betri vegar.

Það er trú mín að þessar brtt. séu til mikilla bóta og að þær geri það að verkum að unað verði við þetta fyrirkomulag þar til sú framtíðarskipan kemst á sem ég gerði að umtalsefni í upphafi máls míns.