07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5455 í B-deild Alþingistíðinda. (4748)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Áður en ég sný mér að því frv. sem búið er að umturna hér vildi ég fara nokkrum orðum um það sem síðasti ræðumaður var að tala um, gildi menntunar og upplýsingar í sambandi við meðferð hráefnis. Ég er ekki frá því að firringin, eins og það heitir á fínu máli, sé orðin mikil frá framleiðsluatvinnugreinum, a. m. k. hér í Reykjavík. Það sagði mér einu sinni góður kunningi minn, menntaskólakennari, að hann hefði haft elskulegan nemanda og þessi nemandi hans, sem var ung og greind stúlka, var að skrifa ritgerð um íslenska nytjafiska, sem var prófverkefni. Hún gerði þetta ákaflega skilmerkilega og vel og aflaði sér mikilla heimilda, en hún sagði efnislega í upphafi prófritgerðar að helsti nytjafiskur Íslendinga væri þorskurinn. Síðan kom lýsing á þorskinum, að hann væri gulur með hvítri rönd og hvítur á kviðnum, en maki þorsksins heitir ýsa. Við skulum vona að þetta tilheyri þéttbýlinu við Faxaflóa.

En ég held að það sem vanti á sé ekki einungis í fiskmatinu, sjálfsagt þar líka, heldur vanti í skólakerfinu öllu fyllri upplýsingar um framleiðsluafurðir Íslendinga svo að unglingur sem kemur út úr grunnskólanámi hafi nokkurn veginn sæmilega gott vald á því og það sé sá áróður fyrir vörugæðum og hvað það gildir fyrir íslenskt þjóðarbú. Í þessum efnum eru atvinnurekendur ákaflega skammsýnir margir hverjir. Ég undanskil þarna heildarsamtök eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og sjávarafurðardeild SÍS. Áður en flatningsvélar voru teknar upp og voru orðinn almennur þáttur í saltfiskvinnslu man ég eftir að við gerðum ítrekaðar tilraunir til að hver sá sem væri þjálfaður í flatningu á saltfiski væri á eitthvað hærri taxta. Þekking í þessum efnum var einskis metin og þetta náðist ekki fram. Sá sem var þrautþjálfaður og kunni vel til verka var á sama kaupi og maður sem ekki kunni til verka.

Ég held að þarna þurfi að koma til fleira en eitt, skólakerfið allt og þjóðfélagið. Það þarf betri upplýsingar um hvað það er sem þjóðin framleiðir og hvað það gildir að sú framleiðsla sé í lagi. Þetta held ég að sé eitt grunnatriði. Að vísu er þetta í sjávarþorpum, þar sem 80% af vinnandi fólki vinna í frystihúsi eða fiskverkunarstöðvum á staðnum, sjálfsagt í mun betra lagi. En í ýmsum frystihúsum eru sennilega milli 400 og 600 mismunandi pakkningar. Þetta er ákaflega flókið og vandasamt verk og ótrúlega mikið í húfi að starfsfólk viti hvaða kröfur markaðurinn gerir í þessum efnum. Þetta er algerlega vanrækt. Þarna þýðir ekkert að taka einhvern einn aðila, einhverja tvo aðila. Þjóðfélagið í heild hefur hlaupið frá gildi framleiðsluatvinnuvega okkar og vanrækt með öllu hlut upplýsingastarfsemi. Hins ber að geta að ýmsir aðilar, sölusamtökin og fleiri, hafa verið með upplýsingar í þessum efnum og er það vel. Og þetta er að aukast. Hæstv. sjútvrh. hefur átt viðræður við stjórn Verkamannasambandsins um að aðilar ræðist við um einhvers konar námskeið eða viðurkenningu — þetta er nú á algjöru frumstigi — sem þjálfað fiskverkunarfólk fengi. Ég held að slík námskeið og slík menntun gætu átt þátt í að færa þjóðarbúinu milljónatugi. Svona mætti lengi tala, en ég ætlaði að gera örfáar aths. sem teygjast þó kannske eitthvað.

Hér er á dagskrá í virðulegri deild frv. til l. um ríkismat sjávarafurða. Þetta er 82. mál á þskj. 87 og lagt fram af hæstv. sjútvrh. í okt. eða nóv. Málið var tekið til 1. umr. í nóv. og olli þá strax harðvítugum deilum hér í hv. deild. Síðan er því vísað til sjútvn., sem skilaði áliti í síðustu viku. Það er hér á þskj. 734 og 16 brtt. á þskj. 735.

Mál þetta á sér nokkuð sérstæða sögu. Þingnefndin mun að venju hafa kallað fulltrúa margra aðila á sinn fund og jafnframt sent frv. til umsagnar og fengið um 16 umsagnir, að vísu ærið mismunandi eins og gengur. Skömmu fyrir páska var kallaður saman fundur í sjútvn. þótt fyrir lægi að fjórir nm. af sjö væru fjarstaddir og að minni hl. n. hafði óskað eftir því að nefndarfundi yrði frestað þar til aðalmenn gætu mætt. Þeirri till. var algerlega hafnað af formanni n., hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, og málið hespað í gegn þótt aðeins þrír af aðalmönnum nefndanna væru viðstaddir og varamenn látnir mynda meiri hl. Álit þessa meiri hl. var að samþykkja frv. nær óbreytt með þremur atkv. gegn tveimur atkv. minni hl., 4. þm. Suðurl., Garðars Sigurðssonar, og Guðmundar Einarssonar, hv. þm. Þetta meirihlutaálit var lagt hér fram sem þskj. 662. En viti menn! Þegar aðalmenn í sjútvn. koma til þings á nýjan leik sjá þeir umrætt nál., sem er í engu samræmi við þeirra skoðanir, enda knúið í gegn að þeim fjarstöddum og án þess að þeir hefðu hugmynd um að málið yrði afgreitt úr nefnd meðan þeir voru fjarverandi í opinberum erindagerðum. Þarna eiga í hlut t. d. virðulegur þm. Halldór Blöndal, sem býr yfir býsna mikilli þekkingu í sjávarútvegsmálum, og virðulegur þm. Gunnar Schram, sem jafnframt er lagaprófessor og ég hef nokkurn grun um að hafi verið lítt hrifinn af þeim lagalega texta sem í frv. var. Þá er formaður n., hv. þm. Stefán Guðmundsson, kominn í minni hl. í n. Nú voru góð ráð dýr. Þm. Stefán Guðmundsson, formaður n., afturkallar þá nál. á þskj. 662, kallaður er saman fundur í nefndinni að nýju, sem formaður nefndarinnar hafði margneitað að gera áður, og á nokkrum fundum eru samþykktar 16 brtt., — tillögur sem formaður nefndarinnar hafði margneitað að samþykkja áður frá minni hl. nefndarinnar. — Nú gerir hann þessar tillögur að sínum og helstu efnisbreytingarnar á frv. frá núgildandi lögum eru felldar í burtu. Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig sem svo: Ef helstu breytingar frá gildandi lögum eru felldar í burtu til hvers er þá verið að semja ný lög? Því ekki að bæta við eldri lög ef ástæða var til? Að þessari spurningu mun ég koma síðar.

Afgreiðsla n. á þessu frv. er ærið skrautleg. Frv. eins og það er lagt fram í upphafi er áberandi illa samið, fullt af mótsögnum og hroðvirknislega unnið. Og ég vil því ekki trúa að hæstv. sjútvrh., sem er vel verki farinn, hafi lagt þarna hönd að verki þó að hann hafi lagt nafn sitt við, enda mun þetta frv. hafa verið tilbúið áður. En þetta frv. var þannig úr garði gert að það nálgast hneyksli að ráðh. skuli leggja jafnilla unnið frv. fyrir hv. Alþingi.

En áður en lengra er haldið er rétt að víkja að gæðum íslensks sjávarafla og þýðingu gæðamats fyrir íslenskt þjóðarbú.

Opinbert fiskmat á Íslandi hófst upp úr síðustu aldamótum, nánar tiltekið árið 1904. Þarna var í upphafi að vísu aðeins um mat á saltfiski að ræða. Hins vegar var saltfiskur aðalútflutningsafurð Íslendinga á þeim tíma. Árangur af starfi fiskmatsins var góður þegar í stað og kom það fram í því að íslenskur saltfiskur varð eftirsóttari í markaðslöndum við Miðjarðarhaf en saltfiskur frá öðrum þjóðum. Aðalsamkeppnisland okkar á þeim tíma var Noregur. Um þetta hafa verið birtar margar skýrslur frá norskum ræðismönnum þar sem þeir vara norsk stjórnvöld og framleiðendur við því að gæði íslensks saltfisks hafi aukist svo mjög að hætta steðjaði að norskum fiskmörkuðum í viðkomandi löndum. Einnig skrifaði Tryggvi Gunnarsson bankastjóri mjög fróðlega og athyglisverða grein sem m. a. birtist í almanaki Þjóðvinafélagsins.

Þessi góði árangur Íslendinga á þessum tíma varð til þess að Norðmenn töldu óhjákvæmilegt að fara að dæmi okkar og taka upp óháð ríkismat þar sem íslenska fiskmatið var tekið til fyrirmyndar í öllum meginatriðum. Allt frá upphafi var það grundvallaratriði að fiskmatið væri óháð hagsmunaaðilum. „Spænsku kaupmennirnir sem hrekkjaðir höfðu verið keyptu nú fiskinn óséðan“, segir Tryggvi Gunnarsson í grein sinni.

Íslenskar sjávarafurðir hafa yfirleitt verið í háum gæðaflokki miðað við fiskafurðir helstu samkeppnislanda okkar. Eitt af því sem stuðlað hefur mjög að þessu — það eru margar samverkandi ástæður að vísu — er að íslenska fiskmatið hefur verið mun virkara en fiskmatið hjá helstu samkeppnisþjóðunum í gegnum tíðina.

Nokkrum sinnum frá árinu 1904 hafa verið gerðar breytingar á lögum um fiskmat, en alltaf og alla tíð hefur það verið meginstefna að hafa það óháð ríkismat, þ. e. sjálfstætt gagnvart hagsmunaaðilum. Dæmi eru um að einstaklingar hafi viljað breyta skipulagi fiskmatsins í þá átt að hagsmunaaðilar sjávarútvegsins gætu haft þar áhrif. Slíkar tillögur hafa aldrei náð fram að ganga.

Minna má á til fróðleiks að einn harðasti talsmaður óháðs ríkismats á Alþingi og víðar var Ólafur heitinn Thors, fyrrum forsætisráðherra. Hann beitti sér gegn öllum tillögum í þá átt að afnema sjálfstæði fiskmatsins. Hann byggði skoðun sína á þeirri reynslu sem hann hafði öðlast sem einn af forstjórum Kveldúlfs og mjög víðtækri þekkingu sinni á íslenskum sjávarútvegi. Það hvarflaði aldrei að Ólafi Thors að setja fiskmatið undir stjórn Kveldúlfs. Sjónarmið Ólafs er andstætt skoðunum hæstv. núv. sjútvrh., sem manni skilst á frv. að vilji afhenda hagsmunaaðilum, tögl og hagldir í íslensku fiskmati.

Á 4. og 5. áratugnum verða miklar breytingar í íslenskum sjávarútvegi. Nýjar vinnslugreinar koma til, og skal þar einkum bent á freðfiskframleiðslu og skreiðarverkun. Einn stærstan þátt í þeirri þróun í upphafi átti fiskimálanefnd, en framlag þeirrar nefndar í íslenskum atvinnumálum er afar merkilegt þótt ekki sé tími til að rekja hér þá sögu. Við þessar breytingar á framleiðsluháttum var tekið upp mat á þessum nýju afurðum. Þróunin hefur orðið sú að fiskmatið hefur tekið upp mat á nær öllum vinnslugreinum er upp hafa komið. Það hefur ævinlega gilt sama meginreglan og gilti við upphaf fiskmats á Íslandi, að matið skyldi vera óháð ríkismat, óháð framleiðsluaðilum.

Þessar nýju framleiðslugreinar voru raunverulega háðar eftirliti mismunandi matsstofnana. Í stríðslokin starfa raunverulega fjórar matsstofnanir á Íslandi; saltfiskmat, skreiðarmat, freðfiskmat og síldarmat. Árið 1948 eru þrjár þessara stofnana settar undir eina stofnun, Fiskmat ríkisins. Það tók við saltfiskmati, skreiðarmati og freðfiskmati, en síldarmatið var rekið áfram sem óháð stofnun.

Árið 1961 hefst mat á ferskum fiski og var það framkvæmt af sérstakri matsstofnun, þ. e. Ferskfiskeftirlitinu. Ástæðan fyrir þessu var sú, að þarna var að nokkru leyti um tilraunastarfsemi að ræða og þótti ekki heppilegt að hún færi fram á vegum Fiskmatsins á því stigi. Ferskfiskeftirlitið var hins vegar sett undir Fiskmat ríkisins árið 1968. Var það gert bæði vegna þess að það var komið af tilraunastigi og svo þess að illa þótti gefast að þessi starfsemi færi fram á vegum tveggja stofnana, sameiningin stuðlaði að hagkvæmni og sparnaði í rekstri.

Þarna störfuðu þá tvær stofnanir, Fiskmat ríkisins og Síldarmat ríkisins, en þær voru sameinaðar 1975 með sérstökum lögum. Var sú stofnun nefnd Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Meginatriði þessarar þróunar var að nær allt fiskmat á Íslandi var sett undir eina stofnun.

Þegar ein stofnun tók upp svo fjölbreytta starfsemi var óhjákvæmilegt að henni yrði skipt í deildir. Framleiðslueftirlit sjávarafurða starfar þannig í fjórum deildum, hreinlætis- og búnaðardeild, ferskfiskdeild, freðfiskdeild, saltfisk- og skreiðardeildum. Stjórnendur þessara deilda eru sérhæfðir og fylgjast með mati og eftirliti hver á sínu sviði. Hins vegar er í gildandi lögum ákvæði þess efnis að hægt er að flytja matsmenn á milli deilda eftir starfsálagi hverju sinni og getur það verið mjög breytilegt eftir afla og árstíðum.

Frá því freðfiskframleiðsla hófst á 4. áratugnum hefur hún aukist jafnt og þétt og er orðin helsta útflutningsafurð Íslendinga. Fyrsta stökkið kom á stríðsárunum. Þá lokuðust flestir saltfiskmarkaðir okkar Íslendinga. Megnið af þeim fiski sem ekki var fluttur ísvarinn til Bretlands var fryst og þá var Bretland okkar stærsti markaður. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna var stofnuð 1942 og hefur þróast upp í að verða stærstu sölusamtök Íslendinga.

Eins og áður segir var Bretland okkar stærsti markaður fyrir frystan fisk. Síðan bættust Sovétríkin við og urðu um nokkurt skeið stærsti kaupandinn. Sovétríkin eru enn stór kaupandi á frystum fiski. Einnig seljum við mikið til Efnahagsbandalagslanda, annarra en Bretlands, og mun Þýskaland vera þar stærst næst á eftir Bretlandi. Langstærsti markaður okkar undanfarin ár hins vegar hafa verið Bandaríkin. Þar höfum við byggt upp stórar verksmiðjur og dreifingarkerfi og þar er okkar langmikilvægasti markaður í dag.

Það er ástæða til að geta þess að sú framsýni og sá stórhugur sem kemur fram hjá forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Bandaríkjunum er einsdæmi og spá mín er sú að hans þáttar eigi eftir að verða getið mjög rækilega í íslenskri atvinnusögu því að hann lyfti íslenskum fiskiðnaði upp á hærra stig. Ég veit satt að segja ekki hvar við værum staddir í dag ef þetta stóra átak, þessi stórhugur og bjartsýni Sölumiðstöðvarinnar undir stjórn Jóns Gunnarssonar, hefði ekki komið til. Þarna erum við komnir inn á kröfuharðasta og viðkvæmasta matvælamarkað í heiminum, en jafnframt inn á þann markað sem hæst verð greiðir.

Á Bandaríkjamarkaði hefur okkur gengið undravel þó að þar gildi hið gamla lögmál að alltaf megi betur gera. Íslenskur fiskur hefur yfirleitt verið talinn þar í hæsta gæðaflokki. Norðmönnum hefur ekki tekist að ná þar jafnöflugri fótfestu og okkur og þó hafa þeir öflugt sölukerfi í Bandaríkjunum. Þetta er m. a. byggt á framsýni Sölumiðstöðvarinnar og forstjóra hennar, Jóns Gunnarssonar, á sínum tíma, sem ég ítreka að er ákaflega merkur þáttur í íslenskri atvinnusögu.

Kanada er að verða það ríki sem er hvað öflugast í fiskveiðum og hefur háð við okkur harða samkeppni. Kanadamenn hafa verið með lægra verð en við á þessum markaði, en fram á síðustu ár hefur gæðaeftirlit þeirra ekki verið nógu tryggt. Þeir hafa sett mikið af góðum fiski á markaðinn, en þar sem fiskmat í Kanada hefur ekki náð þeirri fótfestu sem það hefur náð á Íslandi hefur mikið borið á gallaðri vöru.

Á síðustu árum hafa Kanadamenn gert stórátak í þessum efnum. Yfirlýst markmið Kanadamanna er að koma sínum afurðum í sömu gæðaflokka og íslenskar sjávarafurðir eru í og jafnvel betri. Meginatriðið í þessari viðleitni þeirra er að efla ríkismat. Fyrirmynd þeirra í þessum efnum er íslenska og norska fiskmatið, öllu meira þó það íslenska.

Um síðustu áramót hófst í Kanada á vegum fiskmatsins eftirlit með búnaði fiskiskipa og verða öll fiskiskip að fá hæfnisvottorð frá fiskmatinu til að stunda veiðar. Gefnar hafa verið út mjög strangar reglur um hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja með tilliti til fiskmeðferðar og geymslu til að fá slíkt vottorð. Unnið hefur verið að því undanfarin ár að breyta stórum hlutum kanadíska fiskiskipaflotans til þess að hann fullnægi ítrustu kröfum. Kanadíska ríkið veitir fjárhagsaðstoð vegna þessara nauðsynlegu breytinga og í sumum tilfellum allt að helming. Þá eru settar strangar reglur um meðferð fisks um borð í fiskiskipum, við löndun, flutninga og geymslu í landi. Einn helsti gallinn á kanadíska fiskinum hefur verið sá að t. d. blóðgun hefur verið mjög áfátt. Um þetta hafa nú verið settar mjög strangar reglur.

Þá var um síðustu áramót tekið upp ferskfiskmat í Kanada og verður að taka sýnishorn úr hverjum farmi til mats. Gæðaflokkar eru þrír.

Fram að þessu hefur verð á fiski í Kanada verið óháð gæðum. Eitt umsamið verð hefur verið greitt fyrir allan fisk án tillits til gæða. Á þessu verður nú breyting þannig að fiskurinn verður framvegis verðlagður eftir gæðum. Áformað er að verðhlutfall milli flokkanna verði 100 fyrir 1. flokk, 70 fyrir 2. flokk og 50 fyrir 3. flokk. Komið hefur til tals að ríkið greiði í byrjun verulega uppbót á hæsta flokkinn.

Þetta álíta Kanadamenn mikilvægustu atriðin í þeirri viðleitni að auka gæði fiskaflans. Og allt er þetta stílað á samkeppni við Íslendinga á verðmætasta fiskmarkaði í veröldinni. Þá verður öllum fiskvinnslustöðvum gert skylt að hafa í þjónustu sinni eftirlitsmenn sem viðurkenndir eru af fiskmatinu og þeir verða að vinna eftir reglum kanadíska fiskmatsins. Það er skilyrði fyrir því að viðkomandi fyrirtæki fái leyfi til vinnslu. Einnig verður tekið upp mat og flokkun á öllum helstu fiskafurðum skv. opinberum reglugerðum svo og eftirlit með umbúðum og merkingum. Þetta er gert til að ráða bót á þeim megingalla sem hefur verið á kanadískum afurðum, en það eru misjöfn gæði í sams konar pakkningum, sem er meira vandamál en meðalgæði afurðanna.

Þá er kanadíska fiskmatið að stórauka hvers konar leiðbeiningar og fræðslustarfsemi. Vegna þessara auknu verkefna var ákveðið að fjölga yfirfiskmatsmönnum kanadíska fiskmatsins um 150 fyrir næstu áramót. Flestir þessara starfsmanna hafa þegar verið ráðnir og eru teknir til starfa.

Af þessari upptalningu ætti að vera ljóst hvert fyrirmyndirnar eru sóttar. Takist Kanadamönnum sæmilega upp með þessar nýjungar sínar í mati og eftirliti gæti stór hluti kanadískra fiskafurða orðið fyllilega sambærilegur, ef ekki betri, að gæðum við íslenskar afurðir innan skamms tíma.

Kanadamenn hafa auglýst þessar nýjungar sínar óspart í markaðslöndum, þ. e. að þeir séu að taka upp öflugt óháð ríkismat. Á sama tíma leggur hæstv. sjútvrh. á Íslandi fram á Alþingi frv. sem felur það í sér að framleiðendur skuli stjórna ríkisfiskmati á Íslandi. Og fróðlegt væri að vita hvort sjútvrh. Íslands ætlar að auglýsa það í markaðslöndum okkar að æðsti dómstóll í fiskmati á Íslandi væri í höndum framleiðenda. Fróðlegt væri að gera allítarlega úttekt á sjávarafurðum Íslendinga á mörkuðum. Það skal þó ekki gert hér, en rétt er að minnast á nokkur atriði til að menn átti sig betur á stöðu og starfi íslensks fiskmats og þætti þess í gæðum íslenskra sjávarafurða.

Síldveiðar festu hér rætur upp úr 1880 og voru fyrst í stað einkum á vegum Norðmanna. Þetta verður umtalsverður atvinnuvegur fljótlega upp úr aldamótum þegar tekið var að veiða síldina í reknet og herpinót. Fram á annan áratug aldarinnar var öll síld söltuð, en úr því er einnig farið að byggja bræðslur. Hráefnið sem við notuðum, þ. e. Norðurlandssíldin, var án efa besta hráefnið sem hægt var að fá til söltunar í veröldinni. Þrátt fyrir þetta náðum við ekki fyllilega góðum tökum á verkuninni fyrr en á fjórða áratugnum og urðum oft fyrir verulegum áföllum af þeim sökum. Einnig var skiputagi á framleiðslu og sölu ábótavant. Betra skipulag komst á við verkun og sölu við stofnun síldareinkasölunnar og síðar síldarútvegsnefndar. Þetta er löng saga. En hún beitti sér strax fyrir aukinni vöruvöndun. Hins vegar olli það miklum erfiðleikum hve markaðurinn var sveiflukenndur og varð atvinnugreinin oft fyrir miklum áföllum af þeim sökum. Engu að síður voru síldveiðar og vinnsla síldar verulegur þáttur í atvinnumálum og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar.

Bygging síldarbræðslnanna stuðlaði mjög að auknum gæðum saltsíldar og olli því að hægt var að velja besta hráefnið til söltunar, en áður þurfti að salta megnið af þeirri síld sem að landi barst, en henda hinu. Fyrsta síldarbræðslan á Íslandi var byggð á Siglufirði 1911, en uppbygging verksmiðjunnar hófst ekki að marki fyrr en eftir tilkomu Síldarverksmiðja ríkisins upp úr árunum 1930. Þar er hiklaust um að ræða fyrstu stóriðjuna á Íslandi.

Síldarmat ríkisins var stofnað 1938 en fram til þess höfðu erlendir kaupendur eða fulltrúar þeirra skoðað síldina hérlendis til að ganga úr skugga um að gæði hennar væru fullnægjandi. Það gæðamat var mjög sveiflukennt og háð framboði og eftirspurn hverju sinni, þannig að erfitt var að halda uppi ákveðnum gæðastaðli. Þó býst ég nú við að engir hafi verið flinkari en Siglfirðingar við verkun síldar þó leitað hafi verið vítt um veröld alla.

Starfsemi síldarmatsins skilaði strax árangri, en síldarsöltun dróst verulega saman á stríðsárunum, en jókst aftur er markaðir opnuðust að styrjöldinni lokinni. Þá opnuðust miklir saltsíldarmarkaðir í Sovétríkjunum, en Sovétmenn og aðrar Austur-Evrópuþjóðir hafa ætíð sett það sem skilyrði fyrir kaupum að saltsíld og aðrar fiskafurðir væru metnar af ríkismati í framleiðslulandinu. Enn fremur gerðu ýmis vestræn lönd og fyrirtæki í vestrænum löndum sömu kröfur.

Gæði íslenskrar saltsíldar hafa verið mikil og hefur síldarmatið átt umtalsverðan þátt í því. Í dag metur Framleiðslueftirlitið alla saltsíld sem flutt er úr landi. Þrátt fyrir það er öllum erlendum kaupendum heimilt að senda eftirlitsmenn til að skoða síldina og fylgjast með matinu. Reynslan er hins vegar sú frá stofnun Framleiðslueftirlitsins að erlendir kaupendur hafa aldrei notað sér þetta, gagnstætt því sem áður var, þegar sænskir síldarmatsmenn stjórnuðu bæði mati og magni hverrar síldartunnu. Þetta er staðfesting á því að erlendir síldarkaupendur treysta síldarmati Framleiðslueftirlitsins.

Kröfuharðasti kaupandinn, hinar heimsfrægu Abba niðurlagningarverksmiðjur í Svíþjóð, láta íslenska matsmenn algjörlega annast sitt síldarmat.

Langsamlega stærsti kaupandi íslenskrar saltsíldar eru Sovétríkin. Þau kaupa um 3/4 af allri framleiðslunni. Framleiðendur í öðrum löndum hafa gert ítrekaðar tilraunir til að komast inn á sovéska markaðinn síðustu árin en án árangurs þrátt fyrir að þeir byðu síldina á allt að 40% lægra verði en Íslendingar.

Verðið sem Íslendingar fá á öðrum mörkuðum er oft um 15–30% hærra en hjá keppinautunum. Þetta skeður þrátt fyrir að við höfum ekki lengur Norðurlandssíldina sem var ákjósanlegasta hráefni sem hægt var að fá til söltunar. Suðurlandssíldin er ekki jafnákjósanlegt hráefni og aðrar þjóðir hafa hráefni sem er lítið eða ekkert lakara. Það háa verð sem við fáum fyrir framleiðslu okkar byggist á góðri verkun og hörðu mati sem erlendir kaupendur vita að þeir geta treyst. Ég held að hollt væri að hafa þetta í huga þegar sá þykist mestur sem mest getur rægt og nítt íslenska fiskmatsmenn.

Freistandi væri að rekja fleiri vinnslugreinar, markaði þeirra, verkun og mat. Það skal ekki gert að sinni, en ef menn óska frekar umr. um það skal ekki standa á mér.

Í gildi eru lög um Framleiðslueftirlit sjávarafurða frá 31. des. 1974. Þessi lög eru sett að tilhlutan Matthíasar Bjarnasonar, hæstv samgrh., sem þá var sjútvrh. Lög þessi, sem enn eru í gildi, eru ákaflega skýr og afdráttarlaus og mér vitanlega hafa aldrei komið upp deilur um túlkun þeirra. Sá er og kostur þessara laga að ráðh. fær víðtæka heimild til útgáfu reglugerða um framkvæmd laganna. Mér er ekki kunnugt um að bent hafi verið á neina galla eða vankanta á þessum lögum. Vissulega þarf öðru hvoru að huga að því hvort þörf sé á breytingum eða endurskoðun á lögum og áður en endurskoðun fer fram verður að gera sér grein fyrir því í hverju gallar gildandi laga séu fólgnir og að hvaða leyti þeim sé áfátt. Ég hef spurt ýmsa menn, sem gleggst þekkja til þessara mála, hvort gildandi lögum sé að einhverju leyti áfátt eða þarfnist breytinga. Mér hefur enginn bent á galla á gildandi lögum þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Hins vegar hafa nokkrir sagt að ráðh. undanfarinna ára hefðu gjarnan mátt gefa út fleiri reglugerðir um hina ýmsu þætti matsins sem upp hafa komið vandamál um hverju sinni og reynslan hefur sýnt að breyta þyrfti. Slíkt er heimilt skv. lögum, en kallar ekki á neinar lagabreytingar. Benda má einnig á að í grg. með frv. er ekki bent á nema galla á þessum lögum.

Hver er þá tilgangur frv. og að hvaða leyti var það frábrugðið gildandi lögum þegar það var lagt fram á hv. Alþingi í nóv.? Helstu breytingar voru þær að stofnað skyldi fiskmatsráð sjö manna. Þar af áttu fjórir að vera úr röðum helstu hagsmunasamtaka sjávarútvegsins. Þó áttu þessi ótilgreindu hagsmunasamtök ekki sjálf að tilnefna fulltrúa í ráðið, heldur skyldi ráðh. skipa fulltrúana sjálfur án tilnefningar og ákveða sjálfur hvaða samtök þarna skyldi vera um að ræða. Þetta eru nokkuð óvenjuleg vinnubrögð. Síðan er verkefni fiskmatsráðs skilgreint, eins og frv. var lagt fram af ráðh., í ýmsum greinum frv., en það er furðulegur hrærigrautur sem sjútvn. hefur nú að verulegu leyti lagað.

Skv. 3. gr. frv., eins og það var lagt fram af ráðh., á fiskmatsráð að vera umsagnaraðili og verður greinin ekki túlkuð á annan veg en þann að hér sé um ráðagjafa að ræða.

Í 4. gr. bregður svo við að þessi ráðgjafarnefnd á að ráða sér sérstakan framkvæmdastjóra. Í greininni er skilgreint hvert er starf framkvæmdastjóra fiskmatsráðs sem er ráðgefandi aðili skv. 3. gr., hvaða starf þetta skuli vera. Hann á að hafa með hendi yfirumsjón með allri starfsemi Ríkismatsins. Þar með er ráðgjafarnefndin bara orðin stjórn í næstu grein — í 3. gr. umsagnaraðili, í 4. gr. stjórn. 4. gr. stangast þarna algjörlega á við

3. gr. Og ekki nóg með það. Í 23. gr., eins og frv. var lagt fram, er gengið svo langt að fiskmatsráði er gert að úrskurða ef ágreiningur rís vegna fiskmats. Þá er það orðið æðsti dómstóll í fiskmati Íslendinga. Það er ráðgefandi aðili í 3. gr., stjórn í 4. gr., æðsti dómstóll í mati í 23. gr. Er nokkur undrandi á því þó að ég vilji sýkna virðulegan sjútvrh. af samningu svona lagauppkasts?

Skilgreining á störfum fiskmatsráðs virðist því vera eftirfarandi: I 3. gr. umsagnaraðili, í 4. gr, stjórn sem ræður framkvæmdastjóra og í 23. gr. er það orðið æðsti dómstóll á öllu fiskmati í landinu. Skýri nú hver sem betur getur.

Í ráðherrafrv. er sama ráðið umsagnaraðili, stjórn og dómstóll og allt eftir því í hvaða lagagrein er vitnað. Var einhver að tala um að lög þyrftu að vera skýr og augljós? Það eru m. a. þessi atriði sem hv. formaður sjútvn. harðneitaði að taka til greina, en var knúinn til af fulltrúum úr samstarfsflokki sínum að breyta. Það er von að hann sé reistur þegar hann skýrir frá afrekum sínum í nefndarstörfum.

Í brtt. n. er þessi óskapnaður að mestu felldur niður. Mér er sagt að sú fimm manna nefnd sem samdi þetta frv. hafi haldið 50 fundi. Mér varð að orði: Ja, það var eins gott að þeir voru ekki 150. Hvað hefði komið út úr því?

Sem dæmi um vinnubrögð nefndarinnar, sem semur frv., má benda á að frv. felur í sér algjöra kollsteypu varðandi stöðu fiskmats. Eins og áður hefur verið tekið fram í upphafi hefur frá upphafi fiskmats verið gengið út frá þeirri grundvallarforsendu að fiskmati, sem er í starfi sínu úrskurðaraðili milli innlendra seljenda og erlendra kaupenda, væri óháð hagsmunaaðilum. Skv. frv., eins og það var lagt fram af ráðh., er stofnunin sett undir stjórn fiskmatsráðs þar sem hagsmunaaðilar hafa meiri hluta og svo langt er gengið að fiskmatsráð — og þar með hagsmunaaðilar — er hæstiréttur í deilum og ágreiningi er upp kann að koma varðandi fiskmat. Þetta er gjörbreyting á stöðu fiskmats, algjör kollsteypa. Maður skyldi ætla að þetta væri rækilega skilgreint og rökstutt í grg. með frv. Ég fletti upp í grg. og leitaði skýringa fyrir þessari breytingu. Og í grg. þessarar virðulegu n. segir:

„Þessar greinar frv. þykja ekki gefa tilefni til sérstakra aths.“

Gjörbreyting á stöðu og stjórn fiskmats á Íslandi frá 19041 50 fundir fimm manna gera þarna breytingar! „Þessar greinar frv. þykja ekki gefa tilefni til sérstakra aths.“! Ja, þegar svona er um hin grænu tré.

Í brtt. sjútvn. er 3. gr. nokkuð breytt frá frv., en fiskmatsráð á skv. greininni að vera ráðgefandi. Síðan er fiskmatsráði í þessari sömu grein falið að kynna sér erlend ákvæði og reglur. Þetta kemur fram í till. sjútvn. Alþingis þegar hún er að lappa upp á þetta hörmungarfrv. Þar segir, með leyfi forseta, að fiskmatsráð skuli kynna sér erlend ákvæði og reglur um lágmarksákvæði. Ekki er tekið fram hvaða erlend ákvæði eða reglur eða lágmarksákvæði hér sé átt við. Manni verður á að spyrja: Erlend ákvæði um hvað? Ég geri nú ráð fyrir að þarna sé átt við ákvæði um fiskmat. Ef svo er, sem ábyggilega er, þá er mun eðlilegra að stofnuninni sé falið að gera slíka könnun, enda krefst hún sérhæfðrar þekkingar.

Í upphaflega frv. var ákvæði um að leita skyldi umsagna fiskmatsráðs við ráðningar helstu yfirmanna stofnunarinnar, 4., 6. og 8. gr. Slík ákvæði eru mjög óheppileg þar sem yfirmenn hafa orðið mjög háðir hagsmunaaðilum um starf hjá stofnuninni og hætt við að nokkurs konar kosningabarátta yrði þar fjórða hvert ár. Þessi ákvæði, þ. e. að hagsmunaaðilar, sem starfsmenn fiskmats þurfa oft að meta vörur hjá og lækka verðlag á, þyrftu að vera háðir umsögn fiskmatsráðs, hafa verið felld niður af sjútvn., en þess í stað sagt í 3. gr. að ráðh. geti óskað umsagnar fiskmatsráðs um ráðningar í helstu stöður. Slíkt þarf ekki að taka fram. Ég veit að það vakti ekki annað en gott fyrir sjútvn. Nd. Ráðh. getur óskað umsagnar og leitað upplýsinga um umsækjendur hvar sem honum sýnist. Til þess þarf engin lagaákvæði. Það verður því að líta á þessa nýju till. sem tilmæli til ráðh. um að óska umsagnar fiskmatsráðs þó það sé ekki lengur skylda skv. lögum. Slíkt er óeðlilegt.

4. gr. hefur verið breytt þannig af sjútvn. að starf fiskmatsstjóra er ekki lengur skilgreint þannig að hann sé framkvæmdastjóri fiskmatsráðs, heldur forstöðumaður stofnunarinnar. Í frv. eins og það var upphaflega lagt fram voru engin ákvæði um menntun eða reynslu fiskmatsstjóra. Í frv. eins og ráðh. lagði það fram frá nefndinni var fiskmatsstjóri eini starfsmaður fiskmatsins, sem engar kröfur voru gerðar til, hvorki um menntun né reynslu, nákvæmlega sá eini af öllum starfsmönnum. Í gildandi lögum eru hins vegar skýr ákvæði um að forstöðumaður skuli hafa lokið háskólaprófi í matvælafræðum eða skyldum greinum. N. hefur lagað þessi ákvæði frv. og segir: „Við skipun í starfið skal tekið tillit til menntunar og starfsreynslu.“ Spurning er hvort þetta sé ekki of almenns eðlis og hvort það tryggi nægilega að í starfið sé ráðinn maður með bestu faglegu þekkingu. Þetta ákvæði held ég að hefði verið heppilegra að hafa afdráttarlausara.

Í 5. gr. frv. voru ákvæði um að bókhald stofnunarinnar skyldi tekið úr höndum Ríkisbókhaldsins og fært inn á skrifstofu fiskmatsstjóra. N. hefur greinilega ekki haft hugmynd um hvar bókhaldið var. Þarna hefur þingnefndin haft vit fyrir ráðh. því hún fellir ákvæðið niður. Hins vegar er það óeðlilegt orðalag að nefna skrifstofu Ríkismats sjávarafurða skrifstofu fiskmatsstjóra. Ég hélt að það væri skrifstofa Ríkismats sjávarafurða. En það skiptir í sjálfu sér ekki svo miklu máli hvað þetta heitir.

Í frv. er gert ráð fyrir að Ríkismatið starfi í tveim deildum, en Framleiðslueftirlitið starfar nú í fjórum deildum. Engin haldbær rök eru færð fram fyrir því — og þarna breytir sjútvn. Nd. ekki — hvaða kostir fylgja því að fækka deildunum. Aðeins er í grg. sagt að þetta sé gert vegna þess að breyting hafi orðið á mikilvægi einstakra deilda. Þessi rök eru haldlaus þar sem starfsmenn, aðrir en deildarstjórar, eru ekki ráðnir sem starfsmenn einstakra deilda, heldur sem starfsmenn stofnunarinnar og er hægt að skipa þeim niður á deildir, fela þeim verkefni hjá fleiri en einni deild eða færa þá milli deilda og jafnvel umdæmi eftir þörfum, afla og árstíðum hverju sinni. Um þetta eru skýr ákvæði í 8. gr. gildandi laga. Þannig er í rauninni engin grein gerð fyrir hvaða kostir fylgja þessu breytta skipulagi og ekki er hægt að koma auga á að þessar breytingar leysi neinn vanda.

Þarna er raunverulega verið að taka upp nánast sama skipulag og var á árunum 1961–1968. Þá starfaði á vegum Ferskfiskeftirlitsins sérstök stofnun og annaðist aðeins ferskfiskmat. Fiskmat ríkisins annaðist afurðamat og því var ekki skipt í deildir. Yfir Ferskfiskeftirlitinu var ráð sem nefnt var fiskmatsráð og átti það að gera tillögur og semja lagafrv. um framtíðarskipulag fiskmats á Íslandi. Fiskmatsráð lagði til að þessar tvær matsstofnanir yrðu sameinaðar í eina, henni yrði skipt í þær deildir sem nú starfa vegna nauðsynlegrar sérhæfingar og enn fremur lagði fiskmatsráð til að það yrði sjálft lagt niður.

Það lýsir nú ekki miklu hugmyndaflugi að taka upp aftur gamalt skipulag sem lagt var niður 1968 vegna þess að menn voru sammála um að það hefði gefist illa.

Þó er sýnu alvarlegra að lagt er til í frv. að hreinlætis- og búnaðardeild verði lögð niður og verkefni hennar felld undir aðrar deildir, eins og var á árunum 1961–1968, og ráðinn sérstakur fulltrúi á skrifstofu til að vera ráðgefandi um þau mál. Þingnefndin hefur gert þarna á nokkrar lagfæringar og breytingar, þannig að hreinlætisfulltrúinn skal titlaður hreinlætissérfræðingur og skal hann að till. n. hafa á hendi faglegt hreinlætiseftirlit ferskfiskdeildar og afurðadeildar o. s. frv. Þarna er um að ræða skipulagslegan vanskapning því starfsmenn deildanna eru undir stjórn forstöðumanna þeirra og fráleitt að maður utan deildanna stjórni þeim fram hjá forstöðumönnum.

Hreinlætis- og búnaðardeild var stofnuð vegna þeirrar stórauknu áherslu sem á seinni árum hefur alls staðar verið lögð á heilnæmis- og hollustuhætti við framleiðslu matvæla. Hefur starfsemi deildarinnar skilað mjög góðum árangri, enda hefur á síðustu árum orðið stórfelld framför á þessum sviðum . Sífelld þróun á sér stað á þessu sviði og kröfur fara sífellt vaxandi. Þessi deild, sem fjallar um hreinlæti, búnað og hollustuhætti, á hiklaust að vera forgangsdeild, en ekki að leggja hana niður. Það er ekki framför í fiskmati á Íslandi.

Forstöðumaður þessarar deildar er háskólamenntaður. líffræðingur og við hana starfa nokkrir vel menntaðir og sérhæfðir starfsmenn. Það er stór afturför í fiskverkun á Íslandi að leggja þessa deild niður og ég býst við að það sé samhljóða álit kunnugra að starf þessarar deildar hafi skilað hvað bestum árangri af deildum Framleiðslueftirlitsins.

Þá eru það 11. og 13. gr. Verkefni ferskfiskdeildar er óbreytt frá núverandi mynd, nema hún á að taka að sér eftirlit með hráefnageymslu. Þetta þýðir tvöföldun á starfsliðinu, mundi einhver segja. Breytingin er sú, að ferskfiskeftirlitsmenn taka að sér eftirlit með hráefnisgeymslum fiskvinnslustöðva, aðallega frystihúsa. Ég er ekki í minnsta vafa um að þarna hefur verið einn veikasti hlekkurinn í starfi Framleiðslueftirlitsins. Að vísu hefur þorri frystihúsa komið sér upp kæligeymslum og þarna er orðið mun betra ástand en var, en þarna eru eftirlitsmenn löggiltir matsmenn sem eru á launum hjá viðkomandi atvinnurekanda eða frystihúsi. Margir þessara manna geta starfað algjörlega sjálfstætt og verða ekki fyrir neinum þrýstingi frá frystihúseigendum og ég held ég megi segja að þeir séu almennt studdir mjög vel af sölusambandinu. Aftur á móti eru aðrir sem liggja undir nokkrum þrýstingi og það er ekki vafi á því að þetta ósjálfstæði hefur verkað þannig á suma verkstjóra, sem eru löggiltir fiskmatsmenn, að þeir eru ekki nógu harðir í þessu eftirliti. Að vísu kemur oft fyrir að það hefur verið mokað út úr þessum hráefnisgeymslum. En að fela þetta ferskfiskdeild — ja, það eru tveir ferskfiskmatsmenn í Keflavík, Suðurnesjum. Að þeir taki að sér til viðbótar eftirlit með hráefnisgeymslum í 11 frystihúsum, það dreg ég mjög í efa. Að vísu er þetta býsna þokukennt í frv. og grg., en það mætti segja mér að ef þessu ætti að fylgja eftir kostaði þetta svona 30–60 nýja starfsmenn, nema þá að viðkomandi matsmenn og eftirlitsmenn í frystihúsum væru á launum hjá fiskmatinu eða Framleiðslueftirlitinu og það legði ákveðinn toll eða skatt á frystihúsin til að kosta þessa starfsemi og tryggja að þarna væru sjálfstæðari aðilar. Um það er þegar heimild í lögum. Það er ekki um neitt nýmæli að ræða. Þessi heimild er fyrir í lögum. Það er bara ráðh. að ákveða það. Stífara eftirlit með hráefnisgeymslum held ég að sé til mikilla bóta, en ef þetta eiga að vera starfsmenn fiskmatsins og launaðir af því hygg ég að þarna væri a. m. k. um 50 nýja starfsmenn að ræða. Ég held að það sem vantaði þarna, ef farið væri eitthvað ákveðið millistig, væri að fá eins og tvo til þrjá menn sem ferðuðust á milli húsa — að vísu gera yfirmatsmenn þetta, en það þarf örugglega að gera þarna betur, — og væru eingöngu í þessum störfum. Það má deila um hversu menn eigi að vera margir.

Það er til bóta að svipta menn réttindum skilyrðislaust og gefa þeim ekki áminningar. Það eru alltaf, á hverju ári, einhverjir menn sem missa matsréttindi vegna kæruleysis eða af því að þeir hafa látið undan þrýstingi. En ég vil taka það fram að þarna er ekki við sölusamtökin að eiga. Sölusamtökin hafa verið ákaflega ötul í þessu. Það eru eigendur einstakra frystihúsa. Við skulum segja að 80% af þeim séu mjög góðir, en ef 20% beita sína starfsmenn beinum og óbeinum þrýstingi kemur upp sama vandamálið og ég var að skýra frá áður í Kanada: mismunandi gæði í sömu pakkningunum. Ég held að þetta sé ekki grundað og það er nánast ekki gerð grein fyrir framkvæmd þessa þýðingarmikla liðar.

Afurðadeild er fjallað um í 14.–16. gr. I grg. með 14. gr. segir að sú nýjung felist í þessari grein að aðalreglan verði sú að afurðadeild annist aðeins yfirmat. Ja, um hvað er verið að tala hér? Saltfisk- og skreiðardeild og freðfiskdeild annast aðeins yfirmat? Þetta er búið að vera svo um árabil. Það kemur hér hvert atriðið á fætur öðru þar sem kastað er svo höndunum til lagasetningar að ákvæði sem eru búin að vera um árabil, eins og þessar deildir annist aðeins yfirmat, eru lögð hér fram sem nýmæli. — Þetta er gagnmerk ræða og á eftir að verða enn merkari. (Gripið fram í: Er þetta ekki búið enn?) Nei, það er svona 1/3 af henni búinn, en ég skal fara að draga mál mitt saman.

Ég ætla að lesa 16. gr. Hún er gott dæmi. „Ríkismat sjávarafurða hefur heimild til að stöðva vinnslu fisks og enn fremur pökkun og útflutning, ef þrif og búnaður vinnslustöðva eða flutningatækja, gæði afurða, merking þeirra, umbúðir og frágangur er ekki í samræmi við reglur sem settar eru samkvæmt lögum þessum. Starfsmönnum Ríkismats sjávarafurða ber þegar í stað að tilkynna yfirmönnum sínum um stöðvun samkvæmt þessari grein.

Reynist nauðsynlegt að stöðva vinnslu eða pökkun á fiskafurðum ber Ríkismati sjávarafurða að úrskurða á hvern hátt hagnýta megi afurðirnar, og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að vinnsla, pökkun og útflutningur megi hefjast að nýju.“

Svo mörg voru þau orð. Við skulum lesa 16. gr. í núgildandi lögum. Það segir nefnilega í greinargerð að greinin í frv. sé skýrari og afdráttarlausari og orðalagið sé óljóst í lögum Matthíasar Bjarnasonar. Ég skal lesa þessa óljósu grein í núgildandi lögum, sem Matthías Bjarnason fyrrum sjútvrh. setti:

„Forstjóri Framleiðslueftirlits sjávarafurða, deildarstjórar, yfirmatsmenn og matsmenn hafa vald til að stöðva móttöku fisks, krabbadýra og skeldýra svo og vinnslu, pökkun og útflutning fisks og sjávarafurða, ef þrif, búnaður fiskiskips, vinnslustöðvar eða flutningatækis eða meðferð afla, gæði hráefnis eða afurða, merking þeirra, umbúðir eða annar frágangur er ekki í samræmi við reglur, sem settar eru samkvæmt lögum þessum. Starfsmönnum Framleiðslueftirlitsins ber þegar í stað að tilkynna yfirmanni sínum um stöðvun samkvæmt þessari mgr.

Nú hefur móttaka, vinnsla, pökkun eða útflutningur fisks eða sjávarafurða verið stöðvaður samkvæmt heimild í 1. málsgr., og ber þá Framleiðslueftirlitinu að leyfa, að fiskur sá eða afurðir, sem um er að ræða, verði hagnýttur til hverra þeirra nota sem að þess dómi eru hæfileg. Því er einnig skylt að leyfa, að ráðin sé bót á vörugöllum, ef unnt er, og skal banni aflétt, er lagfæring hefur farið fram.

Forstjóri Framleiðslueftirlitsins úrskurðar, ef ágreiningur rís vegna fiskmats eða eftirlits, en skjóta má úrskurði hans um skilning á lögum þessum og reglum settum samkv. þeim til sjútvrn.

Nefndin er svo smekkleg að hún segist koma með nýja grein vegna þess að lögin séu óljós. 16.,gr. laganna er mörgum sinnum afdráttarlausari en frv. Ég spyr enn: Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða? Til hvers þessa lagasmíði? Það væri fróðlegt að heyra hæstv. sjútvrh. skýra hvað er svona óljóst í skýrari ákvæðum sem eru fyrir í núgildandi lögum.

17. gr. frv., eins og það kom frá ráðh., gerði ráð fyrir sérstöku framleiðsluleyfi frá sjútvrn. Grein þessi hefur mætt mikilli andstöðu þar sem hún færir sjútvrh. eitt það mesta vald sem nokkur ráðh. hefur haft fyrr eða síðar, en það er að það má enginn verka fisk á Íslandi nema með sérstöku leyfi sjútvrh. Þingnefndin leggur til að þetta ákvæði í 17. gr. verði fellt niður. En ákvæðið er eftir sem áður í frv. þótt þessi brtt. nefndarinnar verði samþykkt. Nefndin leggur nefnilega jafnframt til að við 16. gr. komi eftirfarandi viðbót:

„Ráðuneytinu er heimilt að svipta framleiðanda vinnsluleyfi sýni hann vítaverða meðferð á hráefni eða komi alvarlegir gallar í ljós á afurðum hans.“ Þetta er allt í besta lagi. En síðan kemur næsta: „Ráðuneytið setur nánari reglur um skilyrði fyrir sviptingu og veitingu vinnsluleyfis.“

Ef við lítum á 17. gr. frv. og strikum út 1. mgr. skiptir það ekki svo miklu um innihald greinarinnar, en ef við breytum framleiðsluleyfi í vinnsluleyfi er 17. gr., um vald ráðh., komin afturgengin aftan við 16. gr. undir dulnefni. Leyfið er það sama, það er aðeins kallað vinnsluleyfi í stað framleiðsluleyfis.

Nú skyldi einhver halda að þarna væri eitthvert sérstakt leyfi í sambandi við hreinlæti. Þetta var í 16. gr. Í 14. gr. frv. stendur:

„Afurðadeild annast útgáfu vinnsluleyfa til vinnslustöðva, en þau staðfesta að viðkomandi vinnslustöð fullnægi settum reglum um hreinlæti og búnað. Óheimilt er að verka eða vinna sjávarafurðir til útflutnings án slíks vinnsluleyfis.“

Þetta er mjög samhljóða þeim lögum sem í gildi eru, en hvaða leyfi er verið að smeygja þarna inn í 16. gr.? Það er bara allt annað vinnsluleyfi en það þurfi að uppfylla hreinlæti og búnað.

Af þessu leiðir samkv. 14. gr. að fullnægi vinnslustöð ákvæðum um hreinlæti og búnað er ekki hægt að neita henni um vinnsluleyfi. Ríkismatið á að veita þetta vinnsluleyfi samkv. 14. gr. og sá aðili sem veitir leyfið verður einnig sá aðilinn, sem sviptir vinnslustöðvar leyfinu. Það vinnsluleyfi sem fjallað er um í viðbótartill. nefndarinnar við 16. gr. er annars konar vinnsluleyfi en það sem fjallað er um í 14. gr. frv., sem er efnislega samhljóða 14. gr. laga. Vinnsluleyfið samkv. viðbótartill. sjútvn. við 16. gr. frv. er ekkert annað en framleiðsluleyfið afturgengið úr 17. gr. frv. þrátt fyrir góðan ásetning nefndarinnar. Ráðh. á að setja reglur um skilyrði fyrir veitingu þessa vinnsluleyfis — og nú spyr ég: Hvað segir flokkur hins frjálsa framtaks við slíku ráðherravaldi? Það er tvöfalt vinnsluleyfi: annars vegar eðlilegar kröfur um hreinlæti og búnað og svo dularfullt leyfi sem ráðh. getur sett samkv. reglugerð. Ja, frelsið fer nú að vera lítið hjá flokki frelsisins þegar þeir þurfa nú að fara að sækja um sérstakt leyfi til að fá að verka fisk. Það er á valdi ráðh. að leyfa það.

Sem dæmi um vinnubrögð skal ég lesa 18. gr. frv. Í 18. gr. frv. segir:

„Framleiðendur skulu hafa í sinni þjónustu til matsstarfa löggilta matsmenn, sem samþykktir eru af afurðadeild.“ Allt í lagi. Síðan kemur dálítið dularfull setning: „eða fá til þess matsmenn sem Ríkismatið samþykkir.“ Af hverju eru aðrir löggiltir, en hinir ekki?

Gott og vel, segjum að þetta sé í lagi. En hvernig hljóðar 10. gr. frv.?

„Matsmenn framkvæma undir stjórn yfirmatsmanna eftirlit það og mat, sem lög þessi og reglugerðir settar samkv. þeim gera ráð fyrir.

Sjútvrn. löggildir matsmenn að fenginni umsögn fiskmatsstjóra. Þeir skulu hafa sótt námskeið fyrir fiskmatsmenn“ o. s. frv.

Þetta á að vera gagnmerk nýjung. Í 9. gr. gildandi laga segir:

„Matsmenn, er starfa á vegum Framleiðslueftirlits sjávarafurða, framkvæma undir umsjón yfirmatsmanna eftirlit það og mat, sem lög þessi gera ráð fyrir.

Sjútvrn. löggildir matsmenn samkv. tilnefningu forstjóra Framleiðslueftirlitsins og sér um að þeir riti undir eiðstaf um að þeir vilji rækja með alúð og kostgæfni skyldur þær, sem á þeim hvíla í starfi þeirra. Nemendur, sem lokið hafa prófi frá Fiskvinnsluskólanum, skulu njóta forgangs við ráðningu matsmanna.“

Hvað er þetta? Útvötnuð 9. gr. núgildandi laga. Það er verið að ræða um þetta sem nýjung. Ég er svo aldeilis hissa.

Að vísu er óskiljanleg síðasta setningin í 18. gr., að fá til þess matsmenn sem Ríkismatið samþykkir. Hvað þýðir þetta? Er þetta undanþáguheimild frá þeirri löggildingu sem er í fyrri hluta greinarinnar og í 10. gr. og afgerandi er að allir matsmenn skuli hafa? Vill ekki hæstv. sjútvrh. skýra út fyrir þm. hvað er átt við með þessu? Og við skulum menntast örlítið betur. Við skulum lesa grg. við 18. gr. Hvað skyldi nú standa þar?

„Samkv. gildandi reglugerð er skylt að hafa fiskmatsmenn í hverju hraðfrystihúsi. Hér er gert ráð fyrir að ákvæði þetta verði lögbundið“, — það er þegar lögbundið — „matsmenn verða löggiltir og jafnframt öllum framleiðendum sjávarafurða til útflutnings verði skylt að hafa löggilta matsmenn í þjónustu sinni, enda órökrétt að mismuna vinnslugreinum á þennan hátt.

Með þessu ákvæði er stigið stórt skref til aukinnar verkaskiptingar milli fiskverkenda og Ríkismatsins og ábyrgð framleiðenda aukin.“

Skerðing á ákvæðum um löggilta matsmenn. Ja, þeir voru ekki til neins þessir 50 fundir. Ég er að segja að þessi grg. er hreint rugl.

Í 19. gr. er það nýmæli frá gildandi lögum að útflytjendum er gert skylt að hafa í þjónustu sinni eftirlitsmenn, sem jafnframt séu löggiltir matsmenn, er taki þátt í yfirmati og samræmingu ásamt yfirmatsmönnum Ríkismatsins. Eigi Ríkismatið að staðfesta gæði afurða, eins og til er ætlast, og verði starfsmenn þess að skoða þær til þess að ganga úr skugga um að gæðin séu fullnægjandi er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem opinberir starfsmenn staðfesti gæði og ástand afurða eftir upplýsingum frá starfsmönnum útflytjenda eingöngu. Verkefni yfirmatsmanna yrði því óbreytt frá því sem nú gerist. Yfirlýsingar um að kostnaður muni minnka standast ekki. Kostnaður verður óbreyttur.

Yfirmat og samræming eru þess eðlis að óheppilegt er að margir aðilar annist það. Í greinum þar sem útflytjendur og þar með eftirlitsaðilar yrðu margir og flytja út fyrir framleiðendur sitt á hvað, eins og t. d. tíðkast með skreið, þá á ég við smærri verslunarfyrirtæki, ferskan fisk, rækju, grásleppuhrogn, gæti þetta valdið hreinum glundroða. Þá mundi þetta verka sem hömlur á smærri útflytjendur, er einungis flytja út einstakar sendingar, þar sem þeir gætu eðli málsins samkv. ekki haft í þjónustu sinni fastráðna eftirlitsmenn. Sagt er að heimilt sé að kaupa þessa þjónustu af aðilum sem Ríkismatið samþykkir. Þetta hljómar út af fyrir sig vel, en gallinn er bara sá að það eru engir aðilar til sem selja út þjónustu löggiltra matsmanna.

20. gr. frv. er síst fullkomnari eða betri en 13. gr. núgildandi laga. Þess vegna gæti ég lesið 20. gr. frv. og 13. gr. laganna. Þar er sama sagan: Gildandi lög eru skýrari og afdráttarlausari.

Ég skal nú fara að draga saman mál mitt. Formaður verkalýðsfélags Bolungarvíkur og hv. þm. hefur gott af að hlusta á þessa tölu.

Í 21. gr. segir:

„Hverjum þeim, sem annast sölu og útflutning sjávarafurða, sem lög þessi ná til, er skylt, sé þess óskað að láta fiskmatsráði í té upplýsingar um kvartanir, sem berast frá erlendum aðilum vegna gallaðrar vöru.“

Við skulum nú sjá hvort nefndin hefur gert hér breytingar á. Já, nefndin hefur bætt þarna úr: „Hverjum þeim, sem annast sölu og útflutning sjávarafurða, sem lög þessi ná til, ber, sé þess óskað, að láta fiskmatsráði í té upplýsingar um kvartanir sem berast frá erlendum kaupendum vegna gallaðrar vöru eða vegna þess að umbúnaði hennar er áfátt. Þá ber þeim, sé þess óskað, að veita Ríkismati sjávarafurða upplýsingar um greiddar skaðabótakröfur.

Þó er skylt að láta Ríkismati sjávarafurða í té upplýsingar um kvartanir sem berast frá erlendum kaupendum vegna alvarlegra galla eða skemmda á vörum.“

Nú við skulum sjá hvaða endurbætur eru hér á ferðinni. Í 15. gr. gildandi laga segir:

„Hverjum þeim, sem veiðir, verkar eða verslar með fisk eða sjávarafurðir, sem lög þessi ná til er skylt að gefa starfsmönnum Framleiðslueftirlits sjávarafurða allar þær upplýsingar og veita þeim þá aðstoð, sem þeim er nauðsynlegt við framkvæmd eftirlits og mats. Gildir þetta jafnt um upplýsingar um verkun, geymslu“ o. s. frv.

Það er ekkert „sé þess óskað“. Þetta er afgerandi og bindandi.

„Starfsmönnum Framleiðslueftirlits sjávarafurða er heimill aðgangur að hverjum þeim stað, þar sem fiskur eða sjávarafurðir, sem lög þessi taka til, eru unnar eða geymdar. Þeim er einnig heimilt að taka án endurgjalds hæfilegt magn sýnishorna af fiski og sjávarafurðum til rannsókna, enda verði eigendum fisksins eða afurðanna skilað skriflegri skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar.“

Menn átta sig kannske ekki á þessu þegar þetta er lesið snarlega, en ég held það taki af öll tvímæli að gildandi lög eru skýrari. Þar er skýlaus skylda um upplýsingar ef gallar eru á vöru, umbúðum eða öðru, en hér stendur „sé þess óskað“. Þetta er nú allt gæðamatið. Þetta eru nú allar framfarirnar!

Það var líka fjallað í þessari grein um þagmælsku starfsmanna. Hvað segir um þagmælsku starfsmanna í lögunum?

„Starfsmönnum Framleiðslueftirlits sjávarafurða er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá nokkru því, sem leynt á að fara og þeir hafa fengið vitneskju um í starfi sínu.“

Þetta er sama sagan: skýrari, afdráttarlausari ákvæði. Um 23. gr. held ég sé nú best að fjalla sem minnst. Þetta átti að vera dómstóll. Sjútvn. hefur endursamið þessa grein. Hún hefur bætt hana að því leyti að þar stendur: „Ef ágreiningur rís vegna fiskmats eða eftirlits úrskurða yfirfiskmatsmenn í samráði við fiskmatsstjóra og fiskmatsráð. Skjóta má úrskurði um skilning á lögum þessum og reglum settum samkv. þeim til ráðh.“

Þetta átti nú fiskmatsráð eitt að gera áður, en samkv. till. n. eiga yfirfiskmatsmenn að úrskurða í samráði við fiskmatsstjóra og fiskmatsráð, samtals níu menn. Ágreiningur um mat getur komið upp hvar sem er á landinu við sjávarsíðuna. Úrskurð verður yfirleitt að kveða upp mjög fljótt. Í flestum tilfellum verður að fara á staðinn til að geta kveðið upp úrskurð. Hvernig skyldi ganga að kveðja þessa sjö fiskmatsráðsmenn nær fyrirvaralaust út á land til að kveða upp úrskurð og hvað um kostnaðinn? Þá mætti vekja athygli á því að úrskurður í fiskmati verður aðeins kveðinn upp af mönnum með staðgóða þekkingu á fiskmati, en í frv. eru engin ákvæði um þekkingu fiskmatsmanna á fiskmati. Ákvæðið held ég að sé í flestum tilfellum óframkvæmanlegt — a. m. k. í mörgum tilfellum illframkvæmanlegt. En er þá gripið á helstu vandamálum framleiðslueftirlitsins? Ég held að svo sé ekki. Það hefur aukist framleiðsla um eitthvað 60% á tíu árum. Aukning starfsliðs hefur ekki fylgt. Ég býst ekki við að það verði þægilegt að fjölga því, en á sama tíma og fiskmagn hefur aukist um 60% er aukning starfsliðs innan við 8%. Þarna má því segja að hafi átt sér stað stórfelldur niðurskurður og matið sé að ýmsu leyti verra.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson kom inn á það hér áðan í sambandi við skýrslugerð að tölvumál væru ákaflega brýn nauðsyn. Það hefur ekki gengið að fá fjárveitingar fyrir þessu. Það er ákaflega nauðsynlegt, ef t. d. kæmi upp á Sauðarkróki mjög lélegur fiskur slag í slag eða einhverjum öðrum höfnum eða svæðum, að fá sem allra best skýrslur um það, geta unnið það snarlega í tölvu og hafa við hendina menn, þeir þurfa ekki að vera margir, sem fara þegar í stað á staðinn, kynna sér hvort þarna sé eitthvert ósamræmi, hvort þarna séu einhver mistök, hvað er að ske, af hverju detta allt í einu niður gæðin þarna. Þarna hefði þurft að koma á einhverri betri tryggingu fyrir fjárveitingar til tölvuvæðingar, sem er óhjákvæmilegt í nútímafiskmati.

Það hefur oft verið deilt um það, ekki síst í ferskfiskmati, hvort ekki sé ósamræmi á milli. Í sumum tilfellum getur þetta verið, í öðrum tilfellum er fiskverð mismunandi. Þarna gætir ákaflega mikillar tortryggni milli sjávarplássa. Þarna hefði nauðsynlega þurft að hafa matsmenn sem ferðuðust á milli staða og kynntu sér samræmingu í mati. Til þess hefur skort mannafla. Matsmenn hafa verið kallaðir saman um árabil á fundi og reynt að samræma og gefa ákveðnar grunnreglur, en ábyggilega þarf þá starfsemi að auka.

1973 var gefin út ákaflega hæpin reglugerð á saltfiskmat. Framleiðendur fengu að ráða matsmenn sjálfir, en áður hafði fiskmat sent þeim menn, sem það valdi, og ráðning á einstökum matsmönnum, hvar þeir voru að meta hverju sinni, var eingöngu í höndum yfirfiskmatsmanna og létu matsmenn meta hjá framleiðendum sitt á hvað. Nú ráða framleiðendur sjálfir hverjir meta. Þetta hafði mjög slæm áhrif. Því var lofað 1973 að það skyldu fengnir eins og fjórir, fimm samræmingarmenn. Þeir hafa aldrei fengist né að þessir samræmingarmenn gætu ferðast á milli stöðva. Matsmennirnir ferðuðust mikið á milli stöðva meðan þeir voru undir stjórn yfirfiskmatsmanna. Nú eru það fiskeigendur sem ráða hverjir meta hjá þeim. Þarna held ég að sé að finna afturför og í afturför á þessu skipulagi sé að finna ýmis þau mistök sem upp hafa komið í saltfisk- og skreiðarmati.

Það hefur að vísu ekki skort tröllasögur um þetta blessað fiskmat. Það var t. d. gífurlegt öskur rekið upp yfir því að við hefðum sent skemmdan fisk til Portúgals. Portúgalar kaupa af okkur 3. og 4. fl. saltfisk á dollaraverði. Spánverjar og Ítalir kaupa 1. fl. og eitthvað af 2. fl. Þeir keyptu á meðalgengi, Evrópugengi og dollarans, einhvers staðar mitt á milli. Það var komið svo hjá Portúgölum að þeirra 3. og 4. fl. voru orðnir dýrari en 1. fl. hjá hinum. Gott og vei. Segjum að þarna hafi verið mistök hjá matinu. En þessi mistök komu í sama mánuði upp hjá Norðmönnum líka. Það gerðist bæði hjá Íslendingum og Norðmönnum. Þetta var aldrei skýrt. Norðmenn lentu í nákvæmlega því sama. Það var ágreiningur hjá Portúgölum að þurfa að greiða hærra verð fyrir 3. og 4. fl. en aðrir þurftu að gera fyrir 1. og 2.

Ég hef bent á að það vantaði reglugerðir um ferskan fisk, t. d. í sambandi við kassanotkun. Það er ákaflega mikið vandamál, magn í kassa, ís í kassa og ákveðin ný vandamál ef fiskur liggur lengi í kössum. Þarna hefði mátt gera betri reglugerðir sem ekki hafa fengist. það hefur að vísu ekki verið hjá núv. sjútvrh., en aðalerfiðleikarnir í þessu eru náttúrlega með netafiskinn. Meðan fjöldi neta í sjó er nær ótakmarkaður verður alltaf mikið af 3. og 4. fl. fiski og úrkasti. Og það segja fiskverkendur, að meðan verð á skreið sé hátt sé erfitt að fá góðan fisk í frystingu.

Herra forseti. Ég hef farið yfir frv. eins stuttlega og mér er unnt og ég hef farið yfir breytingar sjútvn. Nd. Flestar þeirra eru til bóta, en þó skortir á að breytingar á frv. séu viðunandi. Það er einlæg skoðun mín að gildandi lög séu betri en frv. þetta þrátt fyrir brtt. sjútvn. Sjútvn. hefur á örstuttum tíma verið að reyna að lappa upp á forkastanlega illa unnið frv. Ég álít að að jafnstóru og veigamiklu máli og fiskmat á vegum ríkisins er eigi ekki að vinna á stuttum og stopulum fundum þn. Þegar viðkomandi þn., þrátt fyrir tilraunir formanns til að hindra það, hafði kastað frá ýmsum veigamiklum stefnuatriðum frv., þá var full ástæða til að stöðva og hinkra við. Við þurfum að útbúa vandaðri og betri lög en hér liggja fyrir og allra síst ný lög sem eru verri en þau sem eru í gildi nú. Ég tel því æskilegt að Alþingi afgreiði ekki þetta frv. Miklu frekar var að athuga þetta mál en gera ekki einhverjar skóbætur á óhæfu frv.

Ég vil taka fram að ég virði eftirlitsstarf Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og sjávarafurðadeildar SÍS, enda kemur það mjög skýrt fram í umsögn Fiskmatsmannafélags Íslands að samvinna þar á milli hafi ætíð verið góð. Sama er að segja um gæðaeftirlitsmenn á vegum SÍF. Það er mjög nauðsynlegt að þessir aðilar vinni sem best saman og ég legg áherslu á það, sem fram kemur í umsögn Fiskmatsmannafélagsins, að óháð ríkismat er skilyrði til góðs fiskmats í landinu, en jafnframt góð samvinna við sölusamtökin. Hvergi er gripið á þeim vanda sem Framleiðslueftirlitið á við að stríða og samþykkt frv. mundi ekki bæta fiskmatið í landinu.

Ég hef tínt fram nokkrar mótsagnir og óskiljanleg atriði sem í frv. felast, og hægt væri að tína mun fleiri til. Ég held að það kapp sem hæstv. sjútvrh. leggur á að fá þetta frv. afgreitt sé ekki nema að takmörkuðu leyti af þeim hvötum runnið að hann vilji bæta fiskmatið í landinu, þó að ég efist ekkert um að til þess hafi hann vilja. Ég held að það sé til þess að fá nýja stofnun þar sem hann getur sjálfur ráðið nýtt starfsfólk að geðþótta, og ég held að SÍS verði þar ekki út undan.

Þetta frv. held ég að sé öðru fremur lagt fram til að Framleiðslueftirlitið líkist Framleiðsluráði landbúnaðarins og lúti sömu lögmálum.

Herra forseti. Ég hef lokið mínum stuttu athugasemdum, en ég er fús til að veita miklu frekari og nákvæmari upplýsingar ef óskað er.