07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5483 í B-deild Alþingistíðinda. (4751)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að ég byrji þar sem síðasti ræðumaður hvarf frá, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Ég vil aðeins segja honum það, þar sem hann minntist á 17. gr. frv. og þær brtt. sem við höfum gert við hana bæði í fyrra nál. og því nál. sem við setjum nú frá okkur óskipt nefndin, að það er rangt sem fram kom hjá hv. þm. 17. gr. frv. er ekki felld niður heldur er felld niður 1. mgr. 17. gr. sem hér urðu hvað mestar deilur um þegar frv. var lagt fram. Fyrra nál. er svo tekið óbreytt upp í seinna nál. að öðru leyti en því að 16. og 17. gr. frv. eru settar saman.

Einnig minntist hv. þm. á að það væri ekki traustvekjandi hvernig að málinu hefði verið staðið í þessari nefnd. Ég hef ekki setið mjög lengi á þingi en þó hef ég verið í nefnd sem vann að ýmsum málum, m. a. málum sem þessi ágæti þm. setti þá fram sem ráðh., og þau voru hreint ekki smá sum þeirra. Og þó að ég hafi ekki talið saman dagana þá held ég að ég geti fullyrt það að þeim nefndum var ætlaður skemmri tími til að fjalla um þau frv. en hér var gefinn. (Gripið fram í.) Betur undirbúin mál? Ætli það sýnist nú ekki sitt hverjum um það. Hins vegar er það rétt að mönnum sýnist sinn fugl býsna fagur. Ég get líka tekið undir það með þessum ágæta þm.nál. er ekki langt. Ég hef yfirleitt ekki teygt tíma um of hér í þinginu og ekki tamið mér það, eins og sumir aðrir, að gefa út nál. í bókarformi.

Þá minntist hv. þm. á að það þyrfti að vera þokkalegur friður um þessi mál ef þau ættu að ná fram. (HG: Skila árangri.) Skila árangri, já. Er það ekki einmitt það sem nefndin var að seilast eftir? Er það ekki sæmilegur friður í einni nefnd, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, ef nefndarmenn sameinast um eitt nál. og skrifa allir undir? Er það ekki einmitt að ná friði um mál? Hvað er friður um mál?

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson talaði hér ekki ýkja langt mál en kom samt nokkuð víða við. Ég vil taka mjög undir upphafsorð Guðmundar J. Guðmundssonar þar sem hann minntist á fræðslu í sambandi við sjávarútvegsmál. Ég held ég geti tekið undir allt sem hann sagði um það og er honum algjörlega sammála í þeim efnum. En ég er ekki sammála hv. þm. um annað sem hann sagði. Hann segir að minni hl. hafi beðið um frest á fundum til afgreiðslu á þessu máli en ekki fengið. Það er rangt, þm. góður, Guðmundur J. Guðmundsson. Það er rangt og ég veit að Garðar Sigurðsson er ekki heimildarmaður að því. Ég hef ekki reynt Garðar Sigurðsson að slíku. Guðmundur J. Guðmundsson sagði einnig: Stefán Guðmundsson neitaði að kalla nefndina saman á fund. — Það er líka rangt, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Guðmundur J. Guðmundsson sagði enn fremur: Stefán Guðmundsson kom inn í minni hl. í n. — Það er sömuleiðis rangt. Ég var ekki í minni hl. í n. og hef aldrei verið. Þá sagði hv. þm. einnig að frv. væri illa samið og hroðvirknislega unnið. Það er hans mál og hann má hafa þá skoðun fyrir mér.

Ég sagði í mínum upphafsorðum að að þessu máli væri búið að vinna frá árinu 1979 og þar hefðu ýmsir lagt hönd á plóginn. Ég held nú að menn hafi þar reynt að leggja sig fram, en það sýnist sitt hvorum um það efni og ég held að Guðmundur verði bara að hafa sína skoðun á því og ætla ég ekki að fara frekar út í það.

Hv. þm. vék að þeim yfirgangi sem ég hafði beitt nm. Það er nú enginn þeirra hér innl núna svo að ég er víst einn til frásagnar. En ég kannast ekki við það harðræði nema þá að átt sé við hvað n. hafi haldið tíða fundi um málið. En enginn nm. kvartaði við mig um mikið harðræði og vinnuþrælkun í sambandi við þetta mál. Við reyndum að vinna þetta eins samviskulega og við gátum. Það rétta í málinu hins vegar er það, og það er best að það komi alveg skýrt fram, ég held að það skilji allir og viti sem vilja vita og vilja hafa það sem sannast reynist, að það var ekki samstaða í sjútvn. á þessari stundu til að afgreiða málið. Því myndaðist minni og meiri hl. og það geta menn séð í fundargerðarbók. Nefndin hreinlega klofnaði. Og það lá ljóst fyrir á næsta fundi áður en gengið var frá málinu að ég tilkynnti nm. það öllum að málið yrði afgreitt út úr n. á næsta fundi.

Ég vona að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson heyri hvað ég er að segja, að ég tilkynnti nm. það áður en gengið var til afgreiðslu í n. að málið yrði afgreitt út úr n. á næsta fundi. En eins og ég segi, n. klofnaði og meiri hl. lagði fram sérstakt nál. á þskj. 662. Við gerðum það strax að afloknum nefndarfundi og ég hélt satt að segja að þetta mál næði e. t. v. fram þá fyrir páskana og þess vegna voru menn að ljúka málinu. En áður en minni hl. n. lagði fram sitt nál. kom hann að tali við mig og sýndi mér drög að breytingu og spurði mig hvort það væri möguleiki að menn gætu mæst í þessu máli. Þetta er nú það sanna og rétta í málinu og allur glæpurinn. Ég skoðaði þessar tillögur og eftir að hafa farið yfir þær sýndist mér vissulega grundvöllur til þess að menn gætu náð saman í þessu máli og boðaði því fund í sjútvn. Og nm., allir sem einn, náðu saman í þessu máli, að vísu eftir að hafa gert nokkrar breytingar á þeim frumdrögum sem fyrir lágu, og skiluðu samhljóða nál. Ég sé ekki að þarna sé neinn skaði skeður. Ég sé það ekki.

Ég vil taka það fram að ég fagna því að það tókst að ná samstöðu um þetta mál í sjútvn. Ég fagna því.

Ég held ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um aðdraganda málsins. Ég held að hann sé öllum ljós, a. m. k. þeim sem vilja vita hið sanna og rétta í málinu og vilja að það komi fram. Hinir verða auðvitað að skemmta sjálfum sér og halda við sinni iðju.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson vék aðeins að fiskmatsráðinu í sambandi við 3. gr. og las upp eina línu þar sem því er falið að kynna sér erlend ákvæði og reglur um lágmarksákvæði. Það er mín meining og mér fannst það koma fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að okkur er það lífsnauðsyn að fylgjast með því sem er að gerast erlendis. Það er ekki nóg að fylgjast með því sem er að gerast hér hjá okkur. Við þurfum líka að fylgjast með því hvað er að gerast erlendis, hvað þær þjóðir sem við verslum við vilja og þurfa. Við verðum einmitt að reyna að sækja þekkingu til þeirra manna sem þarna best þekkja til. Við verðum að sækja hana. Ég sé ekki að það sé nem minnkun að því. Og ég trúi því a. m. k. ekki að það sé svo hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni.

Og vegna þess að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson kom inn á það hér áðan ásamt nafna sínum Guðmundi J. að eitthvað illa hefði verið staðið að þessu máli ætla ég að bæta því við að ég lét alla nm. hafa ljósrit af öllum umsögnum sem n. bárust, til þess að þessir ágætu nm. hefðu möguleika á því að leggja þetta fram og kynna og ræða í sínum þingflokkum. Ég veit ekki hvernig á að vinna að málum ef ekki á þennan hátt.

Ég vil einnig minnast á það sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að sá smái verði einnig að vera í fiskmatsráðinu og var nú að reyna að útlista það. Það er auðvitað spurning hvort við erum að leita að sama manninum eins og þeir fóstbræður, Guðmundur H. Garðarsson og fjmrh. En í nál. segir: „Nefndin tekur fram að nauðsynlegt sé að bæði fulltrúar kaupenda og seljenda séu í hópi þeirra er ráðherra skipar frá hagsmunasamtökum sjávarútvegsins í fiskmatsráð.“ Þarna er n. vissulega að reyna að teygja sig til að tryggja það að þessir aðilar eigi þarna sína fulltrúa. Eftir að hafa fjallað um þetta mjög ítarlega í n. fannst okkur að við tryggðum þetta með þessum orðum.

Einnig minntist hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson á það, að mig minnir, a. m. k. kom það fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Guðmundi H. Garðarssyni, að rétt væri að láta þetta mál liggja í sumar og skoða það aftur í haust. Ég má til að hnykkja aðeins á því aftur, svo það sé alveg öruggt að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson heyri það, að þetta mál kom til sjútvn. Nd. í nóvembermánuði á síðasta ári. Hafa nú mál ekki verið skemur hér áður en þau hafa hlotið afgreiðslu? Ég held nefnilega að þetta sé mikill misskilningur. Ég held það sé búið að leggja mikla vinnu í þetta mál og miklu meiri vinnu en menn vilja vera láta. Nm. hafa fengið, eins og ég sagði, ljósrit af öllum umsögnum og kynnt þær í þingflokkunum.

Svo standa hér upp einstaka menn og þykjast koma af fjöllum í þessu. Hvar hafa þeir verið? Ég held að þeir ættu að leita til þeirra manna sem hafa skrifað undir nál. og fjallað um þau í n. (Gripið fram í.) Ég er með umsagnirnar. Mér þykir það skrýtið ef hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur ekki heyrt þessar umsagnir. Ég er viss um að félagi hans Garðar Sigurðsson hefur lesið þær fyrir hann. Ég er viss um það, svo náin er þeirra vinskapur. Það fer ekki á milli mála.

Ég ætla ekki að vera eins langorður hér og sumir aðrir. Ég hef það yfirleitt ekki fyrir sið að tala mjög langt mál að kveldi og koma svo að morgni og telja dálksentimetrana í þingtíðindum eins og sumir gera hér. Það er nóg um það og væri betur ef menn legðu af þann sið og tækju upp málefnalegri og skynsamlegri vinnubrögð.

Ég get aðeins stungið á nokkrum umsögnum, læt ekki hafa mig í það að lesa upp umsagnirnar, eins og ég gaf í skyn, ruddist inn á ræðutíma þm. Guðmundar H. Garðarssonar og gat þess að ein umsögnin væri upp á 28 vélritaðar síður. Ég ætla ekki að lesa þær upp allar, alls ekki. En ég get stiklað á stóru. Það kemur t. d. fram hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu að það var yfirleitt á móti þessu máli og vildi fresta því, svipað og Guðmundur H. Garðarsson og fleiri. Síðan kemur umsögn frá Sjómannasambandinu. Hvað segir Sjómannasambandið? „Á sambandsstjórnarfundinum var samþykkt að mæla með frv. eins og það liggur fyrir.“

(Gripið fram í.) Ég kem að því rétt strax. Frá félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda: „Við höfum engar athugasemdir við frv.,“ segir þar. Að vísu les ég ekki allt, en stikla á stóru. Sölustofnun lagmetis: „Að mati Sölustofnunar lagmetis er hér um athyglisvert mál að ræða sem æskilegt er að nái fram að ganga.“ Samband fiskvinnslustöðva: „Með vísan til framansagðs mælir samband fiskvinnslustöðvanna með samþykkt frv. þessa, enda sé það lagað betur að þeirri meginstefnu sem fram kemur í greinargerð.“ Og hvað skyldi vera í greinargerðinni? Það er einmitt ákvæðið um 17. gr. (Gripið fram í: Hvenær er þetta dagsett?) Þetta er dagsett 18. jan. 1984. Það er nú ekki nákvæmari dagsetningin, en ég vona að hún dugi. Ef fyrirspyrjandi vill fá undirskriftina þá er það Skúli Jónsson.

Það var einnig leitað til fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Hún reiknar frekar með því, ég held ég orði það nokkurn veginn rétt, að þarna sé um sparnað að ræða. Ég get nú lesið þessa umsögn, mér liggur ekkert á:

„Að því er getur varðað kostnað eru eftirfarandi breytingar sem frv. gerir ráð fyrir á gildandi lögum um Framleiðslueftirlit sjávarafurða:

1. Deildum er fækkað úr fjórum í tvær, ferskfiskdeild og afurðadeild.,

2. Stofnað er sjö manna fiskmatsráð sem verður ráðherra til aðstoðar varðandi starfsemi og verkefni Ríkismats sjávarafurða.

3. Framkvæmdastjóri ráðsins og deildarstjóri verða skipaðir til fjögurra ára í senn í stað ótiltekins tíma eins og er í núgildandi lögum.

4. Lögfest eru ákvæði um stöðu sérmenntaðs hreinlætisfulltrúa (7. gr.).

Af þessari upptalningu sést að lögfestum stöðum við eftirlitið fækkar um eina og ætti að sparast á því nokkurt fé, væntanlega u. þ. b. 260 þús. kr. Fækkun deilda ætti þó að gefa möguleika á meiri lækkun tilkostnaðar þar sem ætla má að eftirlitsmenn sinni eftir breytinguna fjölþættari verkefnum sem e. t. v. gæti leitt til fækkunar starfsliðs og lækkaðs ferðakostnaðar.

Hins vegar gæti ákvæði til bráðabirgða um niðurlagningu nokkurra núverandi staða hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða leitt til nokkurrar tímabundinnar kostnaðaraukningar, verði þeir sem gegna þessum stöðum ekki ráðnir til starfa hjá væntanlegu Ríkismati sjávarafurða.

Í athugasemdum við frv. segir m. a. að líklegt sé að kostnaður við ferskfiskmat og ferskfiskeftirlit vaxi frá því sem nú er og kostnaður vegna afurðadeildar lækki.

Það sem mestu máli skipti í sambandi við rekstrarkostnað stofnunarinnar er skiputag og stjórnun stofnunarinnar, en frv. fjallar ekki nema að litlu leyti um það.

Nú mun hagræðingarfyrirtæki vera að fjalla sérstaklega um þá hluti og hefur skilað áfangaskýrslu en athuguninni er ekki að fullu lokið. Þegar þessu starfi lýkur og tillögur liggja fyrir er fyrst hægt að meta breytingu á rekstrarkostnaði.“

Svo mörg voru þau orð frá fjárlaga- og hagsýslustofnun.

Framleiðslueftirlit sjávarafurða fjallar um þetta í nokkuð löngu máli. Ég hugsa að menn vilji nú kannske ekki taka mikið mark á því sem þar er sagt, þar sem svo vill til að þeir sem gegna störfum núna í Framleiðslueftirliti sjávarafurða og undirrita þetta eru þeir sem unnu að samningu þessa máls, bæði Einar M. Jóhannsson og Jónas Bjarnason. Ég held því að menn geti nokkurn veginn áttað sig á því hvaða álit þeir hafi haftá þessu frv.

Svo eru hér frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins nokkrar athugasemdir, ekki stórvægilegar. Þeir taka þarna t. d. 17. gr. og 8. gr. og 21. gr. (Gripið fram í.) Nei, hún gerir það ekki. Það er rétt að ég lesi hér þrjár línur úr umsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins: „Að okkar dómi leikur enginn vafi á því að nái frv. fram að ganga, þá yrði flýtt mjög fyrir þróun þessara mála hér á landi, og gæti það haft í för með sér verulega aukin gæði sjávarafurða.“ (Gripið fram í: Hvað segir hv. þm. Björn Dagbjartsson um þetta?) Björn Dagbjartsson skrifar nú ekki undir þetta. Undir þetta álit skrifa Geir Arnesen og Grímur Valdimarsson.

Samband skreiðarframleiðenda sendir umsögn undirritaða af Ólafi Björnssyni.

Sölusamband ísl. fiskframleiðenda segir hér: „SÍF telur að stefnt sé í rétta átt með þessu frv. en hvetur sjútvn. Alþingis til þess að breyta einstökum greinum í samræmi við þá yfirlýstu stefnu sem fram kemur í greinargerð frv.“

Fiskiðn gerir hér athugasemdir og Fiskmatsmannafélagið er andvígt þessu og sendir langa greinargerð. Einnig er hér löng greinargerð frá Jóhanni Guðmundssyni, hún er 28 vélritaðar síður. Jóhann Guðmundsson er þessu andvígur. Við kölluðum hann fyrir okkur. Hann kom til okkar á nefndarfund og var lengi hjá okkur, 11/2–2 klst. líklega, og við eyddum löngum tíma með honum til að fara yfir frv.

Ég ætla að láta þetta nægja, forseti góður. Ég vona að ég hafi komið því allra nauðsynlegasta til skila.