07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5487 í B-deild Alþingistíðinda. (4752)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeirri n. sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar fyrir þeirra störf og aðeins víkja að undirbúningi þessa máls og því, sem hér hefur verið haldið fram, að það sé alls ekki nauðsynlegt að afgreiða mál þetta, það þurfi miklu meiri umfjöllunar við og að því hafi verið staðið með óeðlilegum hætti, eins og hér hefur komið fram nokkuð oft í máli ræðumanna.

Þótt það sé út af fyrir sig ekki mitt mál vil ég fyrst víkja að því sem hér hefur komið fram varðandi almenn vinnubrögð hér á Alþingi. Mér hefur fundist þess gæta í máli manna að öll röksemdafærsla og allt sem varðar mál ætti að koma fram hér í ræðustól á Alþingi. Ég get upplýst hv. þm. um það að til eru margar möppur um mál þessi í sjútvrn. því mikið hefur verið í þessum málum starfað. En ég er þeirrar skoðunar að það geti ekki átt sér stað með þeim hætti og þau störf verði að fara fram í n.

Nú er það vitað mál að allar umsagnir sem berast þinginu liggja frammi í nefndarherbergjum og allir þeir þm. sem áhuga hafa fyrir viðkomandi málum geta að sjálfsögðu kynnt sér þessi nál. hvenær sem er. Mér finnst því það vera fullmiklar kröfur að halda því fram að allt sem varðar mál komi fram í þingsölum, enda eru almennt fremur fáir til að hlusta á það. Ég held það væri betri vinnubrögð að þeir, sem vilja sökkva sér niður í þessi mál, geri það með öðrum hætti. Út af fyrir sig ætla ég ekki að gerast dómari um það, en ég held að það séu betri vinnubrögð sem mundu oft greiða betur fyrir málum hér.

Því hefur verið haldið fram eins og ég vék að áðan, að staðið hafi verið með óeðlilegum hætti að þessu máli.

Það kemur fram í greinargerð 6. sept. 1979 að þáv. sjútvrh., Kjartan Jóhannsson, skipaði fimm manna nefnd til að endurskoða lög um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Það kemur einnig fram í þessari sömu greinargerð að 23. jan. 1980 skilaði nefndin áfangaskýrslu. Þessi áfangaskýrsla er send hagsmunasamtökum, 20 aðilum í sjávarútvegi, til umsagnar. Síðan berast umsagnir frá 13 aðilum. Á grundvelli þessa er unnið og lokaskýrsla berst frá nefndinni í októbermánuði. Nokkru síðar skipaði sjútvrh. 5 manna nefnd sem kallaðist fiskmatsráð sér til ráðgjafar um þessi mál. Það er samið frv., 13 umsagnir bárust um þetta frv. og flestar veigamiklar brtt., sem komu frá hagsmunaaðilum varðandi þetta frv., voru teknar til greina við samningu frv.

Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls tók ég þá ákvörðun að leggja þetta frv. fram óbreytt eins og það lá fyrir. Vænti ég þess að hv. nefnd mundi senda mál þetta til umsagnar og taka tillit til þeirra ábendinga sem nefndin taldi mikilvægar, þ. á m. um 17. gr. Ég lýsti því yfir þegar við 1. umr. að fyrir mitt leyti mætti gjarnan breyta þeirri grein. Það hefur nefndin nú gert.

Í þessu máli hefur verið unnið um margra ára skeið. Hér er um mjög mikilvægan málaflokk að ræða fyrir okkar þjóð og það er alger óhæfa að mál sem þetta sé í einhverri óvissu árum saman. Ég tek undir það að það ber að vinna að því af fyllstu kostgæfni og samviskusemi og ég tel að það hafi verið gert. En það er alger óhæfa að stofnun sem þessi sé í óvissu með sín mál árum saman. Á grundvelli þess legg ég á það mikla áherslu að þessari óvissu sé eytt og fyrir liggi alveg skýr ákvæði um það hver sé framtíðarstefna varðandi þessa stofnun.

Hér hefur komið fram nokkur efnisleg gagnrýni. Það eru þrjú atriði sem mér hefur fundist bera mest á. Í fyrsta lagi það atriði að hér sé ekki um óháða stofnun að ræða, hér eigi ekki að framkvæma óháð mat en það sé grundvallarskilyrði fyrir því að við Íslendingar framleiðum góða vöru til sölu á erlendum mörkuðum að óháð mat eigi sér stað. Ég get út af fyrir sig fyllilega tekið undir það að það er grundvallaratriði að það starfi óháð matsstofnun í landinu sem ræki þetta hlutverk. Hins vegar vil ég einnig taka það fram að ég tel það enga tryggingu fyrir því að seld sé fullnægjandi vara á okkar erlendu mörkuðum. Þeir aðilar, sem stunda þessa útflutningsstarfsemi, stunda sölustarfsemina á erlendum mörkuðum, þurfa eigi að síður að vera fullkomlega ábyrgir og þeir geta ekki treyst eingöngu á þetta óháða mat, enda hefur komið í ljós að svo hefur verið. Á vegum stærstu útflutningssamtakanna, Sölumiðstöðvarinnar og SÍS, starfa nálægt 40 eftirlitsmenn í landinu ef ég man rétt. Ekki voru starfandi eftirlitsmenn á vegum saltfiskútflytjenda, þeir treystu nær eingöngu á óháða eftirlitsmenn Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Það gaf enga tryggingu fyrir því, sem ekki er heldur eðlilegt, að ekki kæmist gölluð vara á markaðinn. Þau sölusamtök tóku upp sama kerfi og hinir stóru aðilarnir að hjá þeim væru starfandi eftirlitsmenn sem skyldu tryggja þetta og væru í beinum tengslum við markaðinn eins og eftirlitsmenn sölusamtaka.

Í þessu frv. er verið að reyna að skilja þarna á milli eins og hér kemur fram. Komið er á ákveðinni verkaskiptingu milli framleiðenda og útflytjenda annars vegar og ríkismatsins hins vegar. Ríkismatið verður að geta sett á það ákveðinn stimpil að það sé trygging fyrir því fyrir þá neytendur sem fá þessa vöru að hún sé framleidd undir besta gæðaeftirliti, ekki eingöngu þessa ríkismats heldur einnig eftirlitskerfis þeirra sölusamtaka sem þarna starfa.

Ég fel að þessi stofnun sé fullkomlega óháð og það hafi verið rangtúlkað að með því að setja á stofn fiskmatsráð sé verið að setja þessa stofnun undir stjórn þeirra manna. Hér kemur skýrt fram að fiskmatsráð er ekki skipað skv. tilnefningu þessara hagsmunasamtaka, enda væri mjög erfitt að telja upp hagsmunasamtök í sjávarútvegi vegna þess hve mörg þau eru. Hins vegar kemur skýrt fram í frv., eins og fram kemur í grg. með málinu, að varðandi val manna í fiskmatsráð væri æskilegt að ráðh. hefði svigrúm til að velja samstæðan hóp sem getur starfað saman að fagmálum. Ekki var talið æskilegt að binda í lögum nöfn þeirra samtaka í sjávarútvegi sem tilnefna skulu fulltrúa í fiskmatsráð. Í fyrsta lagi eru samtökin orðin mörg og í öðru lagi er æskilegt að meðlimir fiskmatsráðs líti á sig sem fagmenn og einstaklinga fyrst og fremst sem séu í góðum tengslum við helstu hagsmunasamtök sjávarútvegsins. Með þessu er fyllilega lögð á það áhersla að hér er gert ráð fyrir því að viðkomandi aðilar geti í flestum atriðum verið óháðir. Verið er að leggja á það áherslu að þessi stofnun á ekki að vera embættismanna- og sérfræðingastofnun eingöngu heldur stofnun sem hefur lifandi tengsl við það umhverfi sem hún vinnur í.

Þá hefur einnig komið fram að það væri galli við þetta frv. að það hefði of mikil pólitísk áhrif í för með sér, eins og það er nefnt, sem ég því miður skil ekki. Að sjálfsögðu er þessi stofnun eins og allar aðrar stofnanir ríkisins undir pólitískri ábyrgð þeirra ráðh. og ríkisstjórna sem starfa á hverjum tíma. Og mér er ekki kunnugt um að hægt sé að viðhafa neitt annað kerfi í þjóðfélaginu varðandi okkar stofnanir. Það er afskaplega undarlegt að heyra það hér á Alþingi að það hættulegasta í þessu þjóðfélagi sé að einhverjir stjórnmálamenn komi nálægt viðkomandi stofnun. Þá fer nú fyrst að verða hætta á ferðum. Mér finnst afskaplega miður að heyra þessa rödd hér vegna þess að þetta er nú einu sinni undirstaða okkar lýðræðiskerfis. Við kjósum þm. sem síðan mynda meiri hl. sem stendur að baki ríkisstj. og sú ríkisstj. ber lýðræðislega, pólitíska ábyrgð í landinu. Þetta er grundvallaratriði í okkar þjóðskipulagi. Ég hélt að það væri nóg að þurfa að hlusta á það víða í þjóðfélaginu að verið sé að úthúða alla tíð þessu pólitíska valdi þó maður þurfi ekki að hlusta á þessa tortryggni hér inni á Alþingi Íslendinga líka. (Gripið fram í.) Það er þá eins gott að hv. þm. tali alveg skýrt svo að ég viti nákvæmlega hvað hann er að tala um því að mér er það afskaplega mikið í húfi, eins og ég vona að flestum þm. sé, að staðið sé vörð um okkar lýðræðisskipulag sem ég held að sé vel uppbyggt.

Þá hefur verið gagnrýnt að það sé ekki nægilega skýrt með hvaða hætti reglur verði settar fyrir veitingu vinnsluleyfa. Ég skal taka það fram nú þegar að það sem a. m. k. ég hef í huga í því sambandi og tel afar mikilvægt er að það sé gert á faglegum grundvelli. Því miður er ekki nægilega vel frá þeim faglega grundvelli gengið. T. d. hefur mér komið það afskaplega mikið á óvart nú að undanförnu þegar ég hef heyrt af því að ýmsir aðilar hafi hug á því að setja upp frystiaðstöðu í alls konar saltfiskverkunarhúsum víða um land og nánast að skella niður gámum á bryggjusporða. Hvað er eiginlega um að vera í landinu? Ég hef spurt þessa ágætu stofnun, Framleiðslueftirlit sjávarafurða: Hvar er ykkar faglegi grundvöllur og hvað er það sem heimilar það að slíkt viðgangist, jafnvel hæg frysting? Það er ekki einu sinni nægilega skýrt að óheimilt sé að stunda hraðfrystingu sem er undirstaða allra gæða í sjávarútvegi. Manni verður á að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum höfum við verið að byggja allar þessar fullkomnu vinnslustöðvar í landinu. Voru það bara mistök? Af hverju settum við ekki inn einhverja frystiskápa í allar saltfiskverkunarstöðvar sem til eru í landinu og reyndum að finna alla þá skúra og byggingar sem er hægt að koma slíkri aðstöðu inn í?

Komið hefur berlega í ljós að hinn faglegi grundvöllur til þess að byggja á varðandi veitingu slíkra leyfa er ekki nægilega traustur. Við höfum ákveðið að nú á næstunni verði ekki veitt frekari vinnsluleyfi fyrr en þessar faglegu reglur liggja skýrt fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að ef aðilum í frystiiðnaði okkar ætti að fjölga um jafnvel 100–200, sem gæti vel gerst við ófullkomna aðstöðu víða um land, gæti það orðið til þess að þau slys gerðust á mörkuðum okkar sem aldrei yrðu bætt.

Það er ekkert einkamál manna að selja gallaða vöru á erlendum mörkuðum. Ef aðili selur gallaða vöru, t. d. rækju þar sem frysting hefur mistekist um borð í skipi, sem íslensk afurða á erlendum mörkuðum getur hann gersamlega eyðilagt allan okkar markað, ekki bara fyrir sjálfum sér heldur fyrir öllum öðrum sem eru að vinna á þessum mörkuðum. Það er því ekki að ástæðulausu að full aðgát sé höfð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara frekar út í efnislega umr. um þetta mál. Ég vildi aðeins leggja á það áherslu að ég tel nauðsynlegt að þeirri óvissu, sem hefur ríkt um þessi mál, sé eytt. Ég vildi einnig leggja á það áherslu að hér er um óháða stofnun að ræða sem er undir stjórn sjútvrn. Þannig tel ég að þessum málum verði að vera fyrir komið og ég er þess fullviss að sú skýrari verkaskipting milli þessa óháða mats annars vegar og útflutningsaðila og vinnsluaðila hins vegar er verulega til bóta. Enda veit ég ekki betur en að nær allir þeir, sem hafa unnið að þessum málum á undanförnum árum af hálfu hinna svokölluðu hagsmunaaðila og lagt sig mjög fram í málinu, þ. á m. fulltrúar frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sambandi fiskvinnslustöðva, en ég veit ekki betur en öll frystihús sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna séu innan þeirra vébanda, mæli mjög með því að þetta mál nái fram að ganga og leggi á það mikla áherslu. Þess vegna kom mér það nokkuð á óvart þegar hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson dró það í efa að þessir aðilar mæltu með málinu. Ég er þó ekki með því að blanda saman þeirri afstöðu hans og vinnu hans fyrir þá ágætu aðila. Að sjálfsögðu tekur hann afstöðu hér sem óháður þm. en ekki sem aðili sem hefur unnið fyrir þá hagsmunaaðila.