07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5496 í B-deild Alþingistíðinda. (4755)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mun gera tvær örstuttar aths.

Í fyrsta lagi varðandi það að það séu litlar líkur til þess að fiskmatsráð verði óháður aðili. Það vill nú svo til að tveir hæfir og reyndir menn í fiskvinnslu eiga sæti í þessu fiskmatsráði og hafa unnið þar ágætt starf að mínu mati. Annar er Halldór Þorsteinsson forstöðumaður fiskeftirlitsdeildar Sambands ísl. samvinnufélaga, sem er formaður þess, hinn er Hjalti Einarsson framkvæmdastjóri sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Ef það er rétt, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson heldur hér fram og ég dreg mjög í efa, að viðkomandi samtök séu bæði á móti því að þetta frv. nái fram að ganga, þá styrkir það mig mjög í þeirri trú að hjá þessum samtökum séu menn sem leggja faglegan dóm á málið og taka afstöðu skv. því og hlíta ekki því sem ýmsir aðilar í þessum samtökum segja og fari eftir sannfæringu sinni. Það styrkir mig í þeirri trú að þessir menn starfi mjög hlutlægt og óháð.

Í öðru lagi vildi ég aðeins gera örstutta aths. við það sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði varðandi það að að skilja á milli annars vegar eftirlitsstarfa framleiðenda og hins vegar Ríkismatsins sé aðeins fróm ósk í grg. Fjallað er um þessi mál í 18. og 19. gr. frv. og í skýringum við þær greinar kemur þessi vilji mjög skýrt fram. Það hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að á vegum framleiðendanna starfi eftirlitsnefnd. Hins vegar hefur það verið fyrst og fremst í frystiiðnaðinum fram að þessu, en ekki annars staðar. Þykir rétt að ákveða með lögum að svo skuli vera. Ég bendi á að í 18. og 19. gr. er m. a. fjallað um þessi mál einnig í grg. um IV. kafla þar sem kemur fram að ákveðin verkaskipting verði milli framleiðenda og útflytjenda annars vegar og Ríkismatsins hins vegar.

Hins vegar vil ég einnig taka fram að það sem þeir aðilar sem starfa í frystingu hafa lagt sérstaka áherslu á er samræming á mati að því er ferskan fisk varðar. Sú samræming hefur ekki verið nægileg. Það hefur verið unnið að því að undanförnu að samræma þá hluti. Komið hefur berlega í ljós að það er ekki trygging fyrir því, ef metið er t. d. upp úr togara og 90–95% eru fyrsta flokks fiskur, að á öðrum stað, þar sem landað er sambærilegum fiski af sömu miðum eftir jafnlanga útiveru, fari fram sambærilegt mat. Hafa þeir aðilar sem starfa í hraðfrystiiðnaðinum lagt höfuðáherslu á að þarna ætti sér stað betrumbót. Þeir hafa lagt áherslu á þennan þátt fyrst og fremst vegna þess að þeir telja að þeir geti sjálfir betur tryggt en nokkur annar að eftirlitið innan frystihúsanna sé nægilega fullkomið. En ég er samt þeirrar skoðunar, jafnvel þó að þeir telji svo vera, að nauðsynlegt sé og skylt að hafa ríkismat sem fylgist með þeirra vinnubrögðum og sé trygging neytenda á erlendum mörkuðum fyrir því að þar eigi sér stað faglegt mat sem hægt er að treysta á.