07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5497 í B-deild Alþingistíðinda. (4756)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Mig langar til að gera örstutta aths. og það er að gefnu tilefni.

Það er þá fyrst í sambandi við afgreiðslu á nál. sjútvn. Nd. Ég hélt að ég hefði talað nógu skýrt áðan, en ég vil hnykkja betur á því sem mér finnst gæta misskilnings. Það var 13. apríl sem nál. er prentað, á föstudegi. Þá var það meining okkar og trú að hugsanlegt væri að við gætum afgreitt málið frá þessari ágætu deild til Ed. fyrir páskaleyfi þm. Þannig stóð á allri þeirri pressu sem menn tala hér um og ég viðurkenni að var. Og ég hafði tilkynnt nm. um að ég mundi afgreiða málið á þessum degi. Ég vil að það sé alveg ljóst. (Gripið fram í: Þá er það skýlaust.) Já.

Ég vil, vegna þess sem hér hefur komið fram í sambandi við frv. og nál., taka fram hvað stendur í títt nefndri 17. gr. sem hvað fjörugastar umræðurnar urðu um hér þegar hæstv. sjútvrh. talaði fyrir þessu frv. sínu í nóvembermánuði. Ég held ég muni það rétt að þá sat hér í þingi, og ég held í sæti Guðmundar J. Guðmundssonar, Ólafur Ragnar Grímsson. Hann talaði nokkuð oft í þessu máli þá og brýndi sjálfstæðismennina sérstaklega á 1. mgr. 17. gr. sem hljóðar svo:

„Framleiðsla á sjávarafurðum til útflutnings er óheimil án sérstaks leyfis sjútvrn.

Menn vildu sem sé ekki binda það að það gæti enginn farið út í slíkan rekstur nema með leyfi ráðh. Þetta er fellt niður í n. N. fellir niður 1. mgr. 17. gr. og þá hljóðar greinin svo og verður 16. gr., og ég vil lesa hana þannig að menn séu alveg klárir á því hvað við erum að tala um:

„Ríkismat sjávarafurða hefur heimild til að stöðva vinnslu fisks og enn fremur pökkun og útflutning, ef þrif og búnaður vinnslustöðva eða flutningatækja, gæði afurða, merking þeirra, umbúðir og frágangur er ekki í samræmi við reglur, sem settar eru skv. lögum þessum. Starfsmönnum Ríkismats sjávarafurða ber þegar í stað að tilkynna yfirmönnum sínum um stöðvun skv. þessari grein.

Reynist nauðsynlegt að stöðva vinnslu eða pökkun á fiskafurðum ber Ríkismati sjávarafurða að úrskurða á hvern hátt hagnýta megi afurðirnar og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að vinnsla, pökkun og útflutningur megi hefjast að nýju.

Rn. er heimilt að svipta framleiðanda vinnsluleyfi sýni hann vítaverða meðferð á hráefni eða komi alvarlegir gallar í ljós í afurðum hans.

Rn. setur nánari reglur um skilyrði fyrir sviptingu og veitingu vinnsluleyfis.“

Hér er verulega miklu breytt. Ég vona að menn átti sig á því að hér er verulega miklu breytt. Ég vil að þetta komi rækilega og ljóst fram.