08.05.1984
Sameinað þing: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5506 í B-deild Alþingistíðinda. (4767)

442. mál, Suðurlína

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er fsp. í fimm liðum. Sá fyrsti er um þann kostnað sem nú er áfallinn við lagningu Suðurtínu frá Höfn í Hornafirði og vestur um. Áfallinn kostnaður um s. l. áramót við suðurlínu frá aðveitustöð við Höfn í Hornafirði að sigölduvirkjun var 423 millj. kr. umreiknað á verðlag miðað við byggingarvísitölu 166 stig.

Í öðru lagi er spurt: Hvert var tilboðsverð einstakra verkþátta við lagningu hennar? Hér er um fimm verkþætti að ræða, þ. e. jarðvinnu-, slóðagerð, niðurrekstur á rekstaurum, forsteyptar einingar og smíði stálfestihluta. Það sem felst í þessum verkþáttum er eftirfarandi:

1. Jarðvinna. Hún felst í flutningi forsteyptra eininga o. fl. frá birgðastöðvum innan verksvæða, jarðvinnu fyrir undirstöður, hornstaura og stagfestur og lagningu vegslóða. Tekur einnig til byggingar grjótvarðra eyja fyrir háspennumöstur á vatnasvæðum, staðsteypu undirstaða þvermastra við Tungnaá og annarra sérlausna.

2. Slóðagerðin. Hún felst í lagningu vegstóða með tilheyrandi ræsagerð innan verksvæða. Verkþátturinn var að jafnaði innifalinn í jarðvinnuútboðum sbr. hér að framan.

3. Niðurrekstur á rekstaurum. Felst í flutningi tréstaura og stálfestihluta frá birgðastöðum innan verksvæðis, niðurrekstri sömu staura sem undirstöður ásamt reisingu staura fyrir svonefnd BR-möstur, það eru möstrin í Hornafjarðarfljóti, Skeiðará, Núpsvötnum og Gígjukvísl.

4. Þá eru forsteyptar einingar. Það felst í framleiðslu á forsteyptum undirstöðum og stagfestum ásamt flutningi frá framleiðslustað til birgðastöðva á svæði Suðurlínu. Einingarnar eru af ýmsum stærðum, þyngd hverrar 800–2200 kg.

5. Smíði stálfestihluta felst í smíði stagbúnaðar og annarra stálhluta til samsetningar mastra, zinkhúðun stálhlutanna og flutningi frá framleiðslustað til birgðastöðva á svæði Suðurlínu eða í Reykjavík. Smíðaefni er ýmist lagt til af verkkaupa eða verktaka.

Framangreindum verkþáttum var síðan skipt upp á allmörg svæði þannig að hér er um mjög mörg útboð að ræða, líklega nálægt 20, eins og hér segir í upplýsingum frá Rafmagnsveitum ríkisins. Frá Rafmagnsveitum ríkisins hef ég fengið skrá yfir öll þessi útboð þar sem greint er frá hvaða svæði um er að ræða, hvenær útboð fór fram, kostnaðaráætlun hönnuða, fjöldi tilboða sem bárust, frá hverjum lægsta tilboð kom, við hvern samningur var gerður, samningsuppgjör með verðbótum og magnbreytingum og síðan uppgjörsupphæð framreiknuð til vísitölu byggingarkostnaðar 166 stig.

Síðan er spurt: Hvert var endanlegt verð þegar uppgjör fór fram? Þar sem hér er um mjög langa lesningu að ræða og tíminn takmarkaður mun ég taka þann kostinn að láta fjölfalda þessar upplýsingar til útbýtingar. Vænti ég þess að hv. fyrirspyrjandi fallist á þá málsmeðferð, enda slík runa af tölum að það kæmu að engu gagni að ég hæfi þá þulu hér. Mun það verða þegar að lokinni þessari umr.hv. þm. fái þetta í hendur, þar sem allir þessir fimm þættir útboða og sundurgreining á þeim eru tilfærðir, samningsverð, tilboðssamningsverð, lægsta tilboð, magnbreytingar, uppgjörsupphæðin o. s. frv.

Síðan er spurt: Hver var hönnunar- og eftirlitskostnaður við hvern einstakan verkþátt? Áfallinn heildarkostnaður við eftirlitið eru 60 millj. kr. á verðlagi miðað við byggingarvísitölu 166 og má hlutfallslega skipta svo á einstök verksvæði suðurlínu með tilliti til km-lengdar svæðanna. Þetta eru upplýsingar sem eru gefnar af Rafmagnsveitum ríkisins. Þá tel ég upp svæðin: frá Hólum að Stemmu er þessi kostnaður talinn 14.3 millj. kr. En Stemma er á nokkru austar en Jökuldalsá á Breiðamerkursandi. Frá Stemmu að Skeiðará er eftirlitskostnaðurinn talinn 12.1 millj. Frá Skeiðará að Prestsbakka er eftirlitskostnaðurinn talinn 14.8 millj. kr. Frá Prestsbakka að Skaftá 6.4 millj., frá Skaftá að Tindafjöllum 4 millj., Tindafjöll-Blautaver 3.9 millj. og Blautaver á Fjallabaksleið-Sigalda 4.9 millj. eða samtals 60 millj. kr. eftirlitskostnaðurinn.

Kostnaður við sérfræðiþjónustu aðra en eftirlit skiptist í nokkra meginþætti:

a. Kostnað við hönnun og aðra ráðgjöf.

b. Kostnað við val á línustæði, sniðmælingu þess og loks kostnað við eftirhælun og útstikun.

c. Kostnað við stjórnun og umsjón framkvæmda.

Í lið a er einkum um aðkeypta þjónustu ráðgjafarverkfræðinga að ræða, en liðir b og c falla á tæknideildir RARIK og Landsvirkjunar.

Kostnaður við eftirlit, sem að mestu leyti er aðkeypt, skiptist í:

a) Kostnað við eftirlit með jarðvinnu.

b) Með niðurrekstri á rekstaurum.

c) Með framleiðslu stálfestihluta.

d) Með framleiðslu forsteyptra eininga.

e) Með reisingu mastra.

f) Með strengingu leiðara.

g) Kostnað við úttekt á efni.

Ofangreindur kostnaður tekur ekki aðeins til launakostnaðar heldur og til uppihalds og ferðakostnaður sem er verulegur vegna þess hve Suðurlína spannar yfir stórt svæði fjarri byggð.

Í 5. lið er spurt: Hvað er áætlað að kosti að ljúka línunni að fullu? Áætlaður kostnaður 1984 við að ljúka sjálfri línunni er um 114 millj. kr. þar sem reiknað er með byggingarvísitölunni 166 stig, en um 20 millj. kr. við aðveitustöðvar henni tengdar. Vaxtakostnaður 1984 af áföllnum kostnaði og framkvæmdum ársins er áætlaður 49 millj. kr. Þetta þýðir, ef leggja á saman 114 millj. kr. við byggingu sjálfrar línunnar, 20 millj. við aðveitustöðvarnar, frágang við Hóla og byggingu við Prestsbakka og 49 millj. vaxtakostnað, að kostnaðurinn er 183 millj. kr. Og þótt ekki væri spurt hér um aðveitustöðina við Prestsbakka, þá er framkvæmd við hana tekin inn í þessa tölu. Lausafréttir höfðu borist um að hún væri ekki með í þessari áætlun en svo er samt.

Ég vænti þess að hv. fyrirspyrjandi finni það ekki að sök að ég með engu móti hef tök á að þylja upp upplýsingarnar um öll tilboð og útboð allra þessara fimm verkþátta og niðurstöður þeirra. En ég fékk í hendur þetta plagg rétt áður en ég sté hér í stól þannig að ég hafði ekki ráðrúm til að láta fjölfalda það, en því verður útbýtt meðal hv. þm. og vík ég því nú til hæstv. forseta, ef mönnum sýnist svo, að hann gæfi aðeins hlé á þessari umr. Ég kynni því betur að menn gætu fengið þetta í hendur, ef hann sæi sér fært að fresta umr. um eins og hálftíma eða þrjú korter, og þá gætu menn aðeins verið búnir að líta ofan í þessar upplýsingar, sem mönnum kunna að þykja forvitnilegar, en ég hygg þó að þurfi lengri tíma til að átta sig á en að menn geti það sér að gagni í sjónhendingu.