08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

41. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka greinargóð svör og þann skilning og áhuga sem viðkomandi ráðherrar og þm. sýna þessum málum. Ég vil ítreka nauðsyn þess að margnefndum lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir sé framfylgt út í æsar. Reynslan af ráðgjöf og fræðslu sýnir að slík fræðsla ber góðan árangur og ég er sannfærð um að stóraukin fræðsla á þessu sviði er það eina sem dugar til þess að fækka ótímabærum þungunum hjá kornungum stúlkum.