08.05.1984
Sameinað þing: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5509 í B-deild Alþingistíðinda. (4770)

443. mál, almenningsbókasöfn

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Hinn 13. febr. 1980 skipaði þáv. hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason nefnd til að vinna að heildaráætlun um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna. Í nefndinni áttu sæti Kristín H. Pétursdóttir bókafulltrúi ríkisins, Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri, Elfa Björk Guðmundsdóttir borgarbókavörður, Ölvir Karlsson oddviti og sigrún Magnúsdóttir bókavörður.

Nefndin skilaði áliti í okt. 1983 og leggur til gagngera breytingu á heildarskipulagi bókasafnsþjónustu í landinu og telur að endurskoða verði lög um almenningsbókasöfn. Eru þær niðurstöður í fullu samræmi við álit Sambands ísl. sveitarfélaga og hinna ýmsu landshlutasamtaka en nefndin hélt fjölmarga fundi með þeim. Í lögum um almenningsbókasöfn nr. 50/1976 segir svo um markmið þeirra með leyfi forseta:

„Allar byggðir landsins skutu njóta þjónustu almenningsbókasafna svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Almenningsbókasöfn eru mennta-, upplýsinga- og tómstundastofnanir fyrir almenning. Þau skulu gefa fólki sem bestan kost á að lesa og færa sér í nyt bækur og veita afnot af nýsigögnum, svo sem hljómplötum, segulböndum og öðrum miðlunargögnum til fræðstu og dægradvalar.“

Sú stefnumörkun sem hér kemur fram er í fullu samræmi við yfirlýsingu UNESCO um hlutverk almenningsbókasafna þar sem segir að það sé að gefa fullorðnum jafnt sem börnum möguleika á að fræðast um samtíð sína, halda áfram að afla sér menntunar og fylgjast með framförum í vísindum og listum. Hið þríþætta hlutverk almenningsbókasafna er því almennt viðurkennt, þ. e. að bókasafnið skuli vera menntastofnun, upplýsingastofnun og menningar- og tómstundastofnun. Hitt er jafnljóst að því fer fjarri að íslensk almenningsbókasöfn geti þjónað þessu hlutverki eins og staða þeirra er nú og þess vegna var áðurnefnd nefnd skipuð til þess að finna leiðir til úrbóta.

Um langt skeið hefur verið um það rætt að svonefnd aðalsöfn séu of mörg og sveitarfélögin vanmáttug til að veita til þeirra því fé sem til þarf til þess að þau nálgist það markmið sem þeim er sett. Með núgildandi lögum var sveitarfélögunum gert að kosta algerlega stofnun og rekstur almenningsbókasafna í samræmi við þá meginstefnu sem mörkuð var varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en augljóst er að hin smærri sveitarfélög ráða á engan hátt við þau staðbundnu verkefni sem þeim er gert að fjármagna. Jafnljóst er að réttur allra landsmanna til þjónustu bókasafna hlýtur að vera sá sami svo að álitamál er hvort hún getur talist til staðbundinna verkefna sem sveitarfélögunum er ætlað að bera kostnað af fremur en t. d. dagvistarþjónusta, en ríkið fjármagnar sem kunnugt er helming af byggingum dagvistarstofnana.

En hvað sem líður breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga má einnig hugsa sér nánara samstarf landshlutasamtakanna um byggingu og rekstur aðalsafna en síðan yrði komið á fót útibúum í hinum ýmsu byggðum sem sæktu þjónustu til aðalsafnanna. Nefndin hefur reyndar lagt til að landinu yrði skipt í 7 bókasafnsumdæmi er fylgi svæðisskiptingu þeirri er sveitarfélögin hafa markað sér og sýnist flestum að sú lausn yrði farsælust. Þannig myndaðist heildarkerfi bókasafnsþjónustu í landinu þar sem söfnin hefðu stuðning hvert af öðru í stað þeirra mjög svo vanbúnu sjálfstæðu eininga sem nú eru reknar og þar með yrði öllum landsmönnum tryggð betri þjónusta án tillits til búsetu. Í strjálbýlu landi eins og hér sýnist þetta góður kostur og það er ekki tilviljun að Norðmenn hafa farið þessa leið.

Á það má benda til gamans að þessi hugmynd er síður en svo ný af nálinni því að amtsbókasöfnin áttu í raun að gegna þessu hlutverki aðal- og miðsafna og vera hluti af heildarkerfi í landinu. Fyrsta amtbókasafnið var stofnað á Akureyri árið 1827. Þegar ömtin voru lögð niður 1904 voru stofnuð sýslusöfn en þau urðu aldrei öflug landshlutasöfn.

Um gildi atmenningsbókasafna mætti halda langa ræðu, virðulegi forseti, en það er ekki við hæfi í almennri fsp. til hæstv. ráðh. En geta verður þess að með auknum fjölda menntaðra bókasafnsfræðinga í landinu, sem komið hefur til liðs við það fólk sem fyrir var og hafði rekið bókasöfn landsins af elju og áhuga á menntun og menningu, hefur orðið bylting í þjónustu bókasafna hér á landi. Sú bylting verður að njóta stuðnings stjórnvalda og sá stuðningur kallar á nýja löggjöf.

Menn hafa lýst þeim ótta sínum um langt skeið að bókin sem slík hljóti að fara halloka í baráttunni við nýja fjölmiðla, að börnin hætti að lesa en verði þess í stað algerlega háð hinu myndræna efni, að vídeótæknin og sjónvarpið taki við hlutverki bókarinnar. Auðvitað óttast menn hugsanlegar afleiðingar þeirrar þróunar og víst yrði sú þróun afdrifarík fyrir íslenska málþróun og menningu. En einmitt hér hafa almenningsbókasöfnin því mikilvæga hlutverki að gegna að standa vörð um þá miðlun þekkingar sem til menningar má verða og því má hið háa Alþingi ekki gleyma að styðja þau við það verkefni. Ég hef því reynt að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. sem hér liggur frammi á þskj. nr. 567 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hyggst menntmrh. leggja fram frv. til nýrra laga um almenningsbókasöfn á því þingi sem nú situr?“