08.05.1984
Sameinað þing: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5514 í B-deild Alþingistíðinda. (4774)

303. mál, verðbætur í útboðum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Það var þörf og góð kennslustund sem hv. Alþingi fékk frá fyrirspyrjanda svo við skulum ekki sjá eftir þeim tíma sem hann eyddi í það.

En ég vil leyfa mér að svara þeim fsp. sem til mín er beint á þskj. 589. Fsp. er frá Kristínu S. Kvaran, virðulegum þm., sem er fjarverandi, og fyrsta spurningin er svohljóðandi:

„Hver hefur heimilað stofnunum ríkisins og stofnunum, sem ríkissjóður er eignaraðill að, að bæta „línulegri“ verðlagshækkun ofan á opinbera gildandi verðvísitölu á hverju vísitölutímabili til greiðslu verðbóta á útboðsverk.“

Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins hefur látið mér í té eftirfarandi svar við spurningunni: „Línuleg“ breyting vísitölu milli útreikningsdaga er tekin upp í verksamninga, sem gerðir voru af Innkaupastofnun ríkisins, rétt fyrir eða um 1970 og var það gert vegna tilhneigingar verktaka til að draga reikninga á seinni hluta gildistíma vísitalna til þess að fá hærri verðbætur en svaraði til þess tíma er verkið var framkvæmt á. Síðan „línuleg“ breyting var tekin upp hefur alveg eða svo til alveg tekið fyrir slíkar tilraunir verktaka um drátt á reikningsgerð. Áður hafði verið í samningum setning sem var eitthvað á þessa leið: Verði um snögga verðbreytingu að ræða á samningstímabilinu, sem að dómi beggja aðila komi of seint fram í þessari vísitölu, er heimilt að endurskoða þessa aðferð við reikning verðbreytinga til að réttari útkoma fáist. Þetta er tekið úr útboðslýsingu frá 1964. Slíkt ákvæði gat reynst allerfitt þegar um miklar verðbreytingar var að ræða á gildistíma vísitölunnar, svo sem með kaupgjalds- eða gengisbreytingar. Er framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins tók til starfa var hin „línulega“ breyting vísitölunnar rædd náið við fjmrn. og var þessi aðferð samþykkt af rn.

2. spurningin: „Er það réttlætanlegt að mati ráðh. að bæta kostnaðarhækkunum ofan á opinbera gildandi verðvísitölu til greiðslu á breytilegu samningsverði í útboðssamningum þar sem breytilegt samningsverð er innt af hendi á samningstíma (framkvæmdatíma)?“

Hér mun vera um það spurt hvort eðlilegt sé að verðbæta þegar verðbætta upphæð. Þessari spurningu svara ég játandi. Verksamningar, sem ríkissjóður á aðild að, eru hliðstæðir því sem almennt tíðkast um verksamninga í landinu. Verðbótatímabil eru yfirleitt þau sömu og mörkuð eru með tilkynningum Hagstofu Íslands um vísitölu byggingarkostnaðar og upphæðir verksamninga breytast í samræmi við breytingu á vísitölunni.

„3. Á hvern hátt er breytilegt samningsverð í útboðssamningum ríkisstofnana endurmetið til núvirðis þegar greiddar verðlagshækkanir eru hærri en gildandi verðvísitala?“

Svarið er: Reikningur fyrir verðbætur er yfirleitt við það miðaður hvenær ákveðnum verkþáttum var lokið. Verklok geta að sjálfsögðu verið á öðrum tíma en á gildistökudegi opinberrar vísitölu. Hér á landi hefur sú regla fest í sessi að nota „línulega“ breytilega vísitölu milli útreikningsdaga. Greiddar verðlagshækkanir geta því verið hærri en svarar til hinnar opinberu vísitölu eins og hún er skráð á degi verkloka. Núvirði á degi verkloka er samningsverð að viðbættum verðbótum. Þessi tilraun til verðbótaútreiknings hefur verið í samningum Innkaupastofnunar ríkisins allt frá 1970 og vísa ég í því sambandi til svars við 1. tölul. fsp.

4. spurning hljóðar svo: „Hver er hagnaður ríkissjóðs af verðbótahækkun samningsverðs þegar útboðssamningar eru greiddir á samningstíma (framkvæmdatíma) og hvernig er hann skilgreindur, eða, ef hann hefur fallið óskertur til verksala, á hvern hátt er hann þá skattlagður?“

Verðbætur eru ekki hagnaður í eðli sínu. Tilgangur með verðbótum er að gera verktaka og verkkaupa jafnsetta og þeir hefðu orðið ef engar verðbreytingar hefðu orðið á samningstímanum. Verðbætur eru hins vegar skattlagðar eins og tekjur almennt, enda er forsenda verðbótanna sú að gjöld verktakans séu orsök verðbótanna og þykir því ljóst að á gjaldareikningi verktaka verði svipaðar breytingar og nemur verðbótum.

5. og síðasta spurningin hljóðar svo: „Hvernig hefur gengisviðmiðun í útboðssamningum með breytilegu samningsverði við erlenda samningsaðila á einstökum verkþáttum verið skilgreind?“

Og svarið er — og þetta er svar sem ég hef fengið frá Innkaupastofnun ríkisins — svohljóðandi: Samningar gerðir af Innkaupastofnun ríkisins í erlendri mynt eru greiddir á gengi greiðsludags.