08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5520 í B-deild Alþingistíðinda. (4788)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrn. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði svohljóðandi:

„Með vísun til laga nr. 70 frá 17. maí 1982, um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, ályktar Alþingi að veita ríkisstj. heimild til að taka ákvörðun um að reisa og reka kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð og leita samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild.“

Hinn 5. apríl s. l. barst iðnrh. svohljóðandi bréf frá stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf.:

„Stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. sendi iðnrh. í jan. 1983 skýrslu um starfsemi félagsins og þær athuganir sem hún hafði þá gert skv. fyrirmælum í lögum nr. 70/1982 um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.

Niðurstöður þeirrar skýrslu voru eftirfarandi: „Stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. telur á grundvelli þessarar skýrslu að

— Kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði geti verið vænlegur kostur í innlendri orkunýtingu,

— stefna eigi að gangsetningu verksmiðjunnar á árunum 1986–1988, en allan undirbúning á næstunni beri að miða við það að fyrsti ofn hennar taki til starfa 1986,“ — ég vek athygli á því að þetta bréf er með skýrslu sem send var í janúar 1983,

—„ákvörðun um tímasetningu innan framangreindra marka skuli tekin af stjórn félagsins á grundvelli upplýsinga um þróun markaðsmála og með hliðsjón af almennri þróun efnahagsmála í heiminum,

— auka þurfi hlutafé félagsins,

— verð raforku til Kísilmálmvinnslunnar hf. skuli vera sambærilegt og til hliðstæðra fyrirtækja.

— vinna eigi markvisst að því á næstunni að fá til samstarfs við íslenska ríkið aðra eignaraðila, innlenda og erlenda.“

Eins og rn. er kunnugt um“ — segir áfram í bréfi stjórnar Kísilmálmvinnslunnar frá 5. apríl — „hefur stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. unnið að frekari undirbúningi og athugunum vegna þessa máls og vísast í því efni m. a. til bréfa og greinargerða, dags. 24. maí, 1. júní og 25. nóv. 1983.

Forhönnun verksmiðjunnar er nú lokið og nýir stofnkostnaðarútreikningar liggja fyrir, sbr. meðfylgjandi skýrslu. Einnig liggja fyrir nýjar verðspár og hefur stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. því gert nýja arðsemisútreikninga sem sendir eru rn. með bréfi þessu.

Á grundvelli fyrirliggjandi verðspár staðfesta hinir nýju útreikningar að kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði geti verið vænlegur orkunýtingarkostur. Reiknuð arðsemi verksmiðjunnar er nú meiri en áður var talið og er meginskýringin þess sú að áætlaður stofnkostnaður hefur lækkað sem og ýmsir rekstrarliðir.

Stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. telur eðlilegt að yfirstandandi eignaraðildarkönnun og pólitískum ákvörðunum um framtíð fyrirtækisins verði hraðað eftir föngum, enda er áframhaldandi óvissa um málið kostnaðarsöm og getur haft óheppileg áhrif á atvinnulíf á Austurlandi.“

Undir bréf þetta rita f. h. stjórnar Kísilmálmvinnslunnar Geir H. Haarde formaður og Geir A. Gunnlaugsson framkvæmdastjóri.

Á vegum stóriðjunefndar og með þátttöku fulltrúa úr stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. hefur málið verið kynnt undir forustu Birgis Ísi. Gunnarssonar hv. þm., formanns nefndarinnar, fyrir erlendum stóriðjufyrirtækjum.

Án þess að nokkuð teljist öruggt á þessu stigi máls má fullyrða að vaxandi áhugi er fyrir aðild að slíku fyrirtæki.

Það er og mat þeirra sem að þeirri kynningu hafa staðið að ákvörðun eins og sú sem felst í þessari þáltill. muni auka líkur þess að árangur náist í viðræðum við hugsanlega sameignaraðila.

Með vísun til þessa og álits stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. þykir nú rétt að óska eftir heimild Alþingis til handa ríkisstj. að taka ákvörðun um að reisa og reka slíka verksmiðju og leita samvinnu út fyrir landsteina.

Hinn 2. maí s. l. barst mér grg. frá stóriðjunefnd um stöðu könnunar á eignaraðild að Kísilmálmvinnslunni hf. Einnig fékk í ég hendur sem trúnaðarmál lista yfir fyrirtæki sem haft hefur verið samband við og svör þeirra. Í bréfi stóriðjunefndar segir svo m. a.:

„Ljóst er að viðræður við a. m. k. einn aðila eru nú að færast af könnunarstigi yfir í raunverulegar samningaviðræður og er því nauðsynlegt að undirbúinn verði af hálfu íslenskra stjórnvalda samningsgrundvöllur og efnisleg afstaða tekin til m. a. eftirfarandi atriða: Raforkuverðs og annarra atriða raforkusamnings, fyrirkomulags skattgreiðslna fyrirtækisins og eignarhlutdeildar Íslendinga.“

Ég mun nú, með leyfi hæstv. forseta, vitna áfram í grg. stóriðjunefndar:

„Fyrstu störf nefndarinnar voru að undirbúa kynningu á áætlun um byggingu og rekstur kísilmálmverksmiðju á Íslandi og safna upplýsingum um fyrirtæki sem talið væri að gæti haft áhuga á eignaraðild að verksmiðjunni.

Samið var við Chase Econometrics að gera í samvinnu við Kísilmálmvinnsluna hf. kynningarbækling um framleiðslu kísilmálms á Íslandi. Gerð hans var lokið í nóv. s. l. og nefndist hann Fjárfestingarkostir í kísilmálmi á Íslandi. Í bæklingnum er lýst möguleikum á framleiðslu kísilmálms á Íslandi, horfum um þróun markaðar fyrir kísilmálm og gerð grein fyrir meginþáttum íslensks efnahagslífs.

Jafnframt þessu var unnið að gerð lista yfir þau erlendu fyrirtæki sem talið var líklegt að gætu haft áhuga á aðild að byggingu og rekstri kísilmálmverksmiðju á Íslandi. Var þar að verulegu leyti stuðst við upplýsingar Kísilmálmvinnslunnar hf. en Chase Econometrics aðstoða nefndina hvað varðar fyrirtæki í Bandaríkjunum og Kanada.

Í desember og janúar s. l. var kynningarbæklingurinn ásamt bréfi sendur um 25 fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Japan. Síðan hefur bæklingnum verið dreift til fjölmargra annarra aðila, bæði innlendra og erlendra.

Þá hefur Kísilmálmvinnslan hf. gert tvö viðbótarkynningarrit um verksmiðjuna sem afhent hafa verið nokkrum þeim aðilum sem rætt hefur verið við. Fyrra ritið, Icelandic Silicon Metal Project Basic Information, inniheldur ýmsar tölulegar upplýsingar, en hið síðara, Icelandic Silieon Metal Project Description lýsir nánar verksmiðjunni á Reyðarfirði. Þá er í undirbúningi grg. á ensku um arðsemisreikninga þá er gerðir hafa verið fyrir verksmiðjuna.

Nefndin hefur átt viðræður við ýmsa aðila í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan til að kynna þeim nánar áætlanir um byggingu og rekstur verksmiðjunnar, stefnu ríkisstj. í því máli og til þess að kanna nánar afstöðu þeirra aðila sem sýnt hafa málinu áhuga. Í viðræðum við fulltrúa hinna ýmsu aðila hefur verið lögð áhersla á að um væru að ræða kynningarviðræður. Greint hefur verið frá áhuga íslensku ríkisstj. að fá til samstarfs um byggingu og rekstur verksmiðjunnar erlenda aðila, einn eða fleiri. Leitað væri eftir virkum aðila sem gegn óverulegri þátttöku hefði einkarétt á sölu afurða verksmiðjunnar. Á þessu stigi væri afstaða til meiri- eða minnihlutaaðildar, eða hve stór þátttaka íslenska ríkisins gæti orðið, ekki mörkuð.

Greint hefur verið frá því að framleiðslukostnaður raforku frá nýjum virkjunum á Íslandi væri 18–20 millj. á kwst. og væri það grundvöllur raforkuverðs til verksmiðjunnar. Í öllum áætlunum og arðsemisreikningum væri miðað við 18 millj. Endanlegt raforkuverð ákvarðaðist þó af ýmsum atriðum svo sem kaupskylduákvæðum hluta afgangs- og forgangsorku og hvernig gangsetning verksmiðjunnar félli að byggingu virkjana. Gera yrði ráð fyrir því að raforkuverðið yrði verðtryggt. Til greina kæmi að tengja raforkuverðið að einhverju leyti markaðsverði kísilmálms og taka tillit til erfiðari greiðslustöðu verksmiðjunnar fyrstu árin meðan afborganir lána væru hvað mestar.

Kynnt hefur verið núverandi skattgreiðslufyrirkomulag Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf. en tekið fram að skattgreiðslur kísilmálmverksmiðjunnar yrðu eitt af þeim atriðum sem nánar yrðu rædd við eignaraðila. Auk þess hefur verið skýrt frá fjölmörgum tæknilegum og fjárhagslegum atriðum varðandi verksmiðjuna.

Af hálfu flestra viðmælenda hefur verið lögð áhersla á að raforkuverðið og verðhækkunarákvæði væru mjög ákvarðandi um hagkvæmni verksmiðjunnar. Einnig væri mikilvægt hvaða tryggingar væru gefnar fyrir því að samningurinn um raforkusöluna yrði haldinn af hálfu Íslendinga.

Þeim fyrirtækjum, sem haft hefur verið samband við, má skipta í þrjá meginflokka, notendur, framleiðendur og seljendur. Svör fjölmargra þessara aðila liggja nú fyrir en nokkrir hafa málið enn þá til athugunar.

Með hliðsjón að því á hvaða stigi þetta mál er telur nefndin ekki rétt að greina frá því nú við hvaða aðila haft hefur verið samband eða er verið að ræða við um hugsanlega eignaraðild en vill þó koma eftirfarandi á framfæri:

Öll fyrirtæki í frumáliðnaði, sem haft hefur verið samband við, hafa svarað því til að þau hefðu ekki áhuga á því að fjárfesta í kísilmálmverksmiðju.

Fyrirtæki, sem starfrækir verulega úrvinnslu úr áli, notar verulegt magn af kísilmálmi og er jafnframt söluaðili, hefur málið til ítarlegrar athugunar og er svara þess að vænta á næstunni.

Framleiðandi á silikonefnum og stórnotandi á kísilmálmi hefur lýst sig reiðubúinn til viðræðna um þátttöku í verksmiðjunni með það í huga að leggja fram bæði tækniþekkingu og hlutafé.

Samsteypa fyrirtækja, sem framleiðir kísilmálm og önnur skyld efni, er tilbúin til frekari viðræðna um eignaraðild þegar skilmálar samnings um raforkuverð liggja fyrir.

Á næstunni verða kynningarviðræður við annan framleiðanda sem sýnt hefur málinu áhuga.

Fyrirtæki í Japan, sem bæði eru notendur og seljendur, hafa haft málið til nánari athugunar.

Þá hafa nokkur verslunarfyrirtæki lýst áhuga á minni háttar þátttöku gegn einkasölu eða einkaumboðsrétti á afurðum verksmiðjunnar.

Af framangreindu er ljóst að könnun á erlendri eignaraðild að Kísilmálmvinnslunni hf. er ekki lokið, en nú þegar liggur fyrir svar frá fyrirtæki sem er reiðubúið til viðræðna um þátttöku í byggingu og rekstri verksmiðjunnar. Annað fyrirtæki er tilbúið til frekari viðræðna þegar ákvæði álsamnings liggja fyrir. Nokkur fyrirtæki eru með málið til ítarlegrar athugunar og er svara þeirra að vænta á næstunni. Nefndin telur að áframhaldandi viðræður við ofangreind fyrirtæki leiði í ljós hverjir verði heppilegustu viðsemjendur um byggingu og rekstur verksmiðjunnar. Nefndin telur rétt að fram komi það álit hennar að samningsstaða í viðræðum við mögulega eignaraðila muni styrkjast ef Alþingi veiti ríkisstj. með þál. ákvörðunarvald um framgang málsins, sbr. lög um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði nr. 70/ 1982.“

Eins og fram hefur komið hafa verið gerðir arðsemisreikningar fyrir kísilmálmverksmiðjuna. Í inngangi fyrir grg arðsemisreikninga segir svo:

„Í skýrslu um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, sem stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. sendi iðnrh. í janúar 1983, hefur verið gerð grein fyrir athugunum og niðurstöðum stjórnarinnar. Á vegum Kísilmálmvinnslunnar hefur síðan verið unnið að frekari undirbúningi og athugun vegna byggingar verksmiðjunnar. Í maí 1983 var gerður samningur við vestur-þýska fyrirtækið Mannesman Demag sem tryggir verksmiðjunni allan helsta vél- og rafbúnað á hagstæðu verði. Með samningi þessum var veruleg lækkun á áætluðum stofnkostnaði verksmiðjunnar.

Forhönnun verksmiðjunnar var lokið í mars s. l. Á grundvelli hennar og aðstæðna á fyrirhuguðu verksmiðjusvæði hefur stofnkostnaðaráætlun verið endurskoðuð. Hvort tveggja liggur fyrir í sérstakri skýrslu, Silicon Metal Plant Reyðarfjörður/Iceland, Basic Engineering Report.

Frá ársbyrjun 1983 hefur verð á kísilmálmi farið hækkandi. Fylgst hefur verið með markaðsþróuninni, aflað frekari upplýsinga um kísilmálmmarkaðinn og fengin ný markaðsspá frá Chase Econometrics. Á framangreindum grundvelli hafa verið gerðir nýir arðsemisreikningar fyrir kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og er forsendum þeirra og niðurstöðum nánar lýst í skýrslu þessari.“

Ég vík því næst að arðsemisreikningunum sjálfum en um þá segir svo m. a. í grg. stjórnar Kísilmálmvinnslunnar: „Skv. rekstraráætlun er framleiðslukostnaður verksmiðjunnar fyrsta rekstrarár hennar 36 655 kr. á tonn eða 1261 Bandaríkjadalur á tonn og skiptist á eftirfarandi hátt og er þá miðað við kísilmálm til áliðnaðar:

Hráefni 13 426 kr. á tonn, raforka 7057 kr. á tonn, laun 3254, annar kostnaður 2822. Breytilegur kostnaður alls 26 559 kr. á tonn. Fjármagnskostnaður er reiknaður 3463 kr., afskriftir 6633 og framleiðslukostnaður alls fyrstu rekstrarár kr. 36 655 eins og fyrr segir.

Þegar lokið er greiðslu stofnlána og vélbúnaður hefur verið afskrifaður lækkar framleiðslukostnaður og verður hinn síðari hluta tímabils 26 963 á tonnið. Flutningskostnaður, sölulaun og tollar eru skv. áætluninni 2956 á tonn, eða 102 Bandaríkjadalir. Meðalsöluverð á afurðum verksmiðjunnar þarf því að vera um 1363 dollarar á tonn í upphafi rekstrartíma en 1098 Bandaríkjadalir á tonn í lok hans til þess að um hallalausan rekstur verði að ræða.

Það má geta þess að reiknað er með að heildarskattgreiðslur yfir rekstrartímabilið að fasteignaskatti undanskildum nemi 2326 millj. kr. Framlegð upp í afskriftir og fjármagnskostnað er að jafnaði 15 400 kr. á tonn eða 530 Bandaríkjadalir og framlegð að jafnaði um 34% af heildarveltu.

Á grundvelli þeirra forsendna sem að framan greinir um .markað, fjármögnun og reksturskostnað hafa athuganir á hagkvæmni kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði verið endurskoðaðar. Niðurstöður þeirrar endurskoðunar sýna að arðsemi heildarfjárfestingar í verksmiðjunni er í megintilviki 15.8% fyrir skömmtun, 12.6% eftir skömmtun og 18.5% af eigið fé. Arðsemi þessi er verulega betri en skv. skýrslu stjórnar Kísilmálmverksmiðjunnar hf. frá janúar 1983, en þá eru sambærilegar tölur 11.2% fyrir skömmtun, 15.8 nú, 8.2% eftir skömmtum, 12.6 nú og 10.2% af eigin fé en 18.5% nú. Meginorsakir þessarar auknu arðsemi eru einkum lægri stofnkostnaður, eða 65 millj. Bandaríkjadala í stað 70.5 millj. Bandaríkjadala, og lækkun á hráefniskostnaði, launum, flutningskostnaði og tekjuskatti.

Skv. rekstrarreikningum verður um tap að ræða á fyrsta starfsári verksmiðjunnar. Stafar þetta fyrst og fremst af því að á fyrstu tveimur árunum er gert ráð fyrir því að veittur verði viðbótarafsláttur frá markaðsverði. Afsláttur þessi er veittur til þess að kynna framleiðslu verksmiðjunnar og einnig er rétt að gera ráð fyrir því að ekki verði framleitt á fullum afköstum fyrstu tvö rekstrarárin og tekur afslátturinn að hluta tillit til þess.

Í þessu sambandi ber að hafa í huga að gangsetning verksmiðjunnar í lok ársins 1987 er hagstæð miðað við fyrirliggjandi markaðsspár. Í markaðsspánni er gert ráð fyrir markaðssamdrætti árið 1987 en að verð fari hækkandi aftur árið 1988. Þegar sjóðstreymi skv. rekstraráætluninni er athugað ber að hafa eftirfarandi í huga:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að tveggja ára greiðslufrestur verði á hluta fjárfestingarlánanna. Slíkt greiðslufyrirkomulag lána er forsenda viðunandi greiðsluafkomu fyrstu árin.

Í öðru lagi er reiknað með að rekstrarfjárþörf verði fjármögnuð með láni sem áætlað er 225 millj. kr. á fyrsta ári og hækkar síðan í um 350 millj. kr. Útreikningar á rekstrarafkomu og arðsemi eru gerðir á föstu verðlagi og þar af leiðandi eru vextir sem reiknað er með áætlaðir raunvextir. Þegar um árlegar verðhækkanir er að ræða verður arðsemi lakari vegna aukinnar rekstrarfjárþarfar þó að gert sé ráð fyrir að tekju- og rekstrarliðir hækki jafnmikið. Skattar sem greiðast eftir á svo sem eins og aðstöðugjald, eignarskattur og tekjuskattur bæta þetta þó upp að einhverju leyti.“

Ég legg mikla áherslu á að þáltill. þessi hljóti samþykkt hins háa Alþingis nú og hef reyndar ríka ástæðu til að ætla að um hana náist mjög víðtæk samstaða. Ef stjórnarandstæðingar líta svo á að með samþykki till. sé verið að gefa ríkisstj. víðtækt vald í stórmáli er rétt að minna á þá augljósu staðreynd að áður en framkvæmdir við verksmiðjuna hefjast mun ríkisstj. að sjálfsögðu leita til hins háa Alþingis um leyfi til lántöku og annarrar fjármagnsútvegunar.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði vísað til atvmn. þegar og umr. þessari verði frestað.