08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

46. mál, móttökuskilyrði sjónvarps í N-Þingeyjarsýslu

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Um fyrri fsp. er það að segja, að miklar athuganir hafa farið fram á því hvað vænlegast sé til að bæta móttöku útvarps og sjónvarps á Norðurlandi eystra. Tvær leiðir hafa helst verið kannaðar.

Önnur leiðin er sú að fara inn á örbylgjukerfið á Viðarfjalli í Þistilfirði, setja þar upp 1000 watta sendi og mundi hann sjá endurvarpsstöðinni á Auðbjargarstaðabrekku og á Heiðarfjalli fyrir sjónvarpsmerki. Þessi leið mundi útiloka erlendar truflanir, sem hafa verið hvimleiðar á þjónustusvæðum áðurnefndra endurvarpsstöðva. Lauslega áætlaður kostnaður er um 3 millj. kr.

Hin leiðin er sú að tengja áðurnefndar stöðvar við örbylgjukerfið og má þá sendir á Viðarfjalli vera mun orkuminni en í fyrri hugmyndinni. Kostnaður við þá lausn er áætlaður nokkru meiri, en tölur um kostnað liggja ekki fyrir enn þá.

Nú liggur fyrir, að nauðsynlegt er að endurnýja gamlan sendi á Heiðarfjalli, enda hafa orðið í honum tíðar bilanir að undanförnu. Endurnýjunarkostnaður er áætlaður um 1680 þús. kr.

Samkvæmt mælingum radíódeildar Landssímans er dreifing yfirleitt góð á þessu svæði og sendar nógu stórir. Truflanir verða þó stundum af tveimur utanaðkomandi ástæðum: Í fyrsta lagi valda erlendar stöðvar truflunum sem áður er getið og í öðru lagi leikur grunur á að truflanir frá rafmagni valdi tíðum lélegri móttöku á Kópaskeri.

Um síðari lið fsp. er þetta að segja, að ólíklegt er að ráðist verði í uppbyggingu sjónvarpsstöðva í landi til að dreifa um miðin umhverfis landið vegna þess að slík framkvæmd yrði gífurlega kostnaðarsöm. Skal bent í því sambandi á mikla skýrslu sem gefin var út í menntmrn. 1974. Í þessu sambandi má benda á, að Norðmenn kostuðu miklu fé í tilraunir til að koma sjónvarpi frá landi út á olíusvæðin, en urðu að hætta við vegna truflana. Sennilegasta lausnin og sú skynsamlegasta að öllum líkindum, en er því miður ekki algerlega á næsta leiti, er að fjarskiptahnettir verði notaðir til þessarar dreifingar í framtíðinni.