08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5529 í B-deild Alþingistíðinda. (4790)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá stórmál þar sem er till. til þál. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Ég vil lýsa ánægju minni með að hreyfing er komin á þetta mál hér í þinginu. Þess er að vænta að í kjölfar þessarar till. styttist sá tími þar til ákvarðanir verða teknar um þetta fyrirtæki sem undirbúið hefur verið á undanförnum árum. Þetta þýðir ekki að ég sé með þessum orðum mínum að skrifa upp á eitt og annað sem fram kom hér í ræðu hæstv. iðnrh., sem ég mun gera nokkrar aths. við, en ég tel að enn sem komið er liggi a. m. k. ekkert það fyrir sem gerir mig öndverðan því að styðja af fullum hug uppbyggingu þessa fyrirtækis sem unnið var að undirbúningi að á þeim tíma sem ég gegndi starfi iðnrh.

Það er ánægjulegt til að vita að ítrekuð athugun mála varðandi þetta fyrirtæki, þar sem fleiri hafa komið við sögu eftir því sem tími hefur liðið, benda til þess að áætlanir um þessa verksmiðju, eins og þær voru lagðar fyrir þegar hér var lagt fram frv. til l. um kísilmálmverksmiðjuna seinni hluta vetrar 1982, þær áætlanir hafa fengið staðfestingu við frekari athugun. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan þá benda líkurnar fremur til þess að grunnur þessa fyrirtækis sé traustari en menn gerðu sér vonir um þegar lög voru samþykkt um verksmiðjuna og einnig þegar óskað var staðfestingar Alþingis á þessari framkvæmd með þáltill., sem ég mælti fyrir hér í hv. Sþ. 4. mars 1983 að ég hygg að hafi verið, en sem ekki varð útrædd vegna þingrofs sem kom fljótlega þá í kjölfarið.

Nú er það vissulega svo að spásagnir um afkomu fyrirtækja fram í tímann eru alltaf óvissu háðar. Það skulum við hafa í huga. En það gildir ekki aðeins um stórfyrirtæki. Það á einnig við um minni rekstur og annan rekstur, ekki síst í sambandi við fyrirtæki sem keppa á útflutningsmarkaði og þurfa að sætta sig við sveiflur sem þar eru gjarnan. Ég minni á það, að þegar þetta fyrirtæki var undirbúið og frv. flutt um það hér á þinginu var af ásettu ráði af iðnrn. hálfu á þeim tíma leitast við að hafa forsagnir um afkomuhorfur og rekstrarhorfur þessa fyrirtækis varfærnar, til þess að vera ekki að gylla þá möguleika sem fyrir gætu legið í sambandi við fyrirtæki sem þetta. Ég tel að það sé skynsamlegur háttur að hafa vaðið þannig fyrir neðan sig og ég vona sannarlega að miðað við að þetta fyrirtæki verði reist, svo sem vonir standa til, þá reynist þær hugmyndir sem menn hafa gert sér um afkomumöguleika þess á rökum reistar.

Þegar hæstv. núv. ríkisstj. tók við þessu máli hafði það gerst rétt í þann mund að stjórn fyrirtækisins hafði gengið frá samningum um ofna og aðalvélbúnað verksmiðjunnar og tekist að semja um verulega lækkun á þeim búnaði frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í stofnkostnaðaráætlunum um verksmiðjuna. Ég tel það miður að það skuli hafa dregist til þessa dags að ákvarðanir væru teknar um að hefja framkvæmdir við fyrirtækið á grundvelli gildandi laga, m, a. vegna þess að nú er hagstæður tími til fjárfestinga, eins og þessir samningar um vélbúnað verksmiðjunnar bera vott um, og líkur á að hinn innlendi kostnaður, sem er um helmingur af áætluðum stofnkostnaði verksmiðjunnar, fáist einnig með hagstæðari kjörum, m. a. í sambandi við útboð, en líklegt er og vonandi er að eftir eigi að standa til frambúðar. Við skulum vænta þess að sú láglaunastefna sem kemur inn í þessa reikninga og ýmislegt sem henni tengist í íslensku þjóðlífi sé ekki til frambúðar.

Ég vil nefna það hér, m. a. vegna ræðu hv. 11. þm. Reykv. hér áðan, að það er verulegur misskilningur þegar menn eru að draga samasemmerki á milli þessa fyrirtækis og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Það er kannske ekki nema eðlilegt að menn rugli reytum nokkuð saman í umræðu um þessi fyrirtæki, það fyrirtæki og þessa fyrirhuguðu verksmiðju, vegna þess að hér er um tæknilega skylda framleiðslu að ræða. Vélbúnaður og uppbygging svona fyrirtækis tæknilega séð er ekki ósvipuð og einnig hvað stærð snertir, en ég vil fullyrða að það hefði engum dottið í hug, a. m. k. ekki mér á sínum tíma, að bera fram till. um fyrirtæki af því tagi sem hefði ekki skárri rekstrarhorfur og framtíðarmöguleika en járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, sem Alþb. var andvígt að reist yrði á sínum tíma, ekki síst vegna afkomumöguleika og þess hvernig horfði með rekstrarafkomu að mati þm. Alþb.

Eins og auðvelt er fyrir menn að kynna sér af gögnum sem fyrir liggja um kísilmálmverksmiðjuna þá er hér um allt annan markað að ræða og allt annað markaðsverð í sambandi við afurðir, og það er það sem skiptir að sjálfsögðu meginmáli, svo og hvað menn halda um þróun markaðar á þessu sviði. Og þó að hér sé um þungaiðnað að ræða, sem kallar á mikla fjárfestingu að baki hverju starfi, þá er það svo að miðað við veltu, annars vegar járnblendiverksmiðju á Grundartanga og hins vegar þessarar fyrirhuguðu verksmiðju, hygg ég að muni a. m. k. helmingi, sé raunar tvöfaldur munur á fjárfestingu á bak við hvert atvinnutækifæri miðað við veltu fyrirtækisins, þannig að hér er engan veginn réttmætt að draga samasemmerki á milli þessara fyrirtækja.

Ég skil hins vegar fyllilega áhyggjur þeirra sem líta yfir reynslu Íslendinga af stóriðjubúskap og stóriðjufyrirtækjum til þessa og þá sérstaklega álversins í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, einnig varðandi þau viðskipti sem snúa að orkuverðinu hjá þessum fyrirtækjum. Því var það að undirbúningur að þessari verksmiðju, þar sem Alþb. réði ferðinni í ríkisstj. Gunnars Thoroddsens á sínum tíma, var með allt öðrum hætti en verið hafði í sambandi við undirbúning hinna fyrirtækjanna. Á þetta legg ég áherslu, og án þess að fara langt út í þá sálma minni ég á það, að gert var ráð fyrir því að hér yrði um íslenskt fyrirtæki að ræða, fyrirtæki sem ekki væri talin þörf á að útlendingar tengdust með eignaraðild, þó svo að í lögum um verksmiðjuna sé slíkt ekki útilokað varðandi minnihlutaeignaraðild annarra en íslenska ríkisins. Þá var að þessu verkefni unnið þannig, að Íslendingar væru læsir á forsendur þessa fyrirtækis, tæknilega og markaðslega. Það er að mínu mati forsenda fyrir því að við getum náð árangri í þessum þætti atvinnuuppbyggingar í landinu, stóriðjurekstri, að við vitum hvað hér er á ferðinni, að við þekkjum sem best og höfum full tök á þeim forsendum sem ráða rekstrarafkomu slíkra fyrirtækja.

Það hefur sýnt sig að Íslendingar eru vel færir um að reka slíkt fyrirtæki, byggt á aðfluttri tækni eins og var í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og raunar í álverinu í Straumsvík, og standa þar síst að baki því besta sem er að finna í sambandi við getu vinnuafls, enda er það ekki í frásögur færandi svo vel menntir sem Íslendingar almennt eru og vel verki farnir. Miðað við það að við náum tökum á hinum þáttunum, sem okkur er engin ofætlan ef menn ætla sér það, hafa til þess vilja og stilla þannig saman kraftana að hægt sé að taka á þessum málum út frá íslenskum forsendum, og við beitum okkar hugviti til þess bæði að ná tökum á tækni og markaði, þá óttast ég það ekki þó að við að vissu marki bætum hér við stóriðju, en með allt öðrum formerkjum en verið hefur til þessa í landinu. Og til að ljúka þessu með forsendurnar, eins og þær voru lagðar þegar leitað var lögfestingar á þessu fyrirtæki, minni ég á það, að gert var ráð fyrir því að orkuverðið stæði hið minnsta undir framleiðslukostnaði. Ég heyrði ekki annað í ræðu hæstv. iðnrh. hér áðan en að fyrir því væri enn ráð gert, enda tel ég það algera forsendu fyrir því að skynsamlegt sé að leggja út í slíka uppbyggingu, að við þurfum ekki að greiða þar með orkunni. Af því höfum við dýrkeypta reynslu. Á því á ekki að vera framhald.

Hv. þm. sigríður Dúna Kristmundsdóttir virðist aðhyllast stefnuna annaðhvort-eða ef marka má hennar orð hér áðan. Annaðhvort er að láta útlendingana hirða þetta, sem hún þó í hinu orðinu er mótfallin, eða að við eigum alls ekki að fara út í stóriðju. Hún virðist ekki vilja taka undir þá stefnu sem Alþb. mælir með í þessum efnum, að við tökum á nýtingu orkunnar til iðnaðaruppbyggingar með sama hætti og gert hefur verið og gera ber í sambandi við annan atvinnurekstur í landinu.

Ég hef stundum líkt orkusölustefnunni við þau sjónarmið sem heyra mátti um aldamótin þegar því var haldið fram að Íslendingar ættu ekki sjálfir og hefðu ekki bolmagn til að fara út í togaraútgerð í landinu. Reynslan hefur sýnt hvers við höfum verið megnugir á því sviði. Ég tel að málflutningur þeirra, sem ekki hafa trú á því að Íslendingar ráði við orkunýtingu hér með skynsamlegum hætti og þannig að arðbært verði fyrir þjóðina, sé af svipuðum toga og raddirnar sem heyrðust varðandi sjávarútveginn um aldamótin síðustu.

Um leið og ég lýsi yfir þeirri von minni að samstaða megi takast um afgreiðslu þessarar þáltill. hér á Alþingi fyrir lok þingsins hlýt ég að ítreka þann fyrirvara sem við Alþb.-menn höfum við eignaraðild erlendra fyrirtækja að stóriðjurekstri hér í landinu og það grundvallarskilyrði sem við höfum sett í þeim efnum sem lágmarksskilyrði, að íslenska ríkið eigi a. m. k. meiri hluta í slíkum fyrirtækjum og Íslendingar eigi að stefna að því að ráða þar algerlega ferðinni. Þar verði ekki um sýndarforræði að ræða, heldur forræði í reynd eins og frekast er kostur, einnig varðandi markaðinn.

Ég vil minna á það, að 2. gr. laga nr. 70/1982, um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Til samvinnu um stofnun eða starfsemi hlutafélags skv. 1. gr. skal ríkisstj. heimilt að kveðja aðra aðila sem áhuga hafa á málinu. Þó skal ekki minna en 51% af hlutafé félagsins jafnan vera í eigu ríkisins og stjórn þess skipuð fulltrúum ríkisins að meiri hluta. Verði gerðir samstarfssamningar milli ríkissjóðs og annarra hluthafa skal leggja slíka samninga fyrir Alþingi til staðfestingar.“

Þetta eru ákvæði laga um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, þeirra laga sem vísað er til í þeirri till. sem hér er til umr. Af þessum lagaákvæðum leiðir það, að þarflaust er, fyllilega þarflaust, að taka inn í þáltill. sem þessa eða óska sérstakrar heimildar til að leita samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild á meðan slíkar áþreifingar eru aðeins á byrjunarstigi, og þær geta ekki verið annað á meðan Alþingi tekur ekki til þeirra afstöðu skv. gildandi lögum. Ríkisstj. þarf enga sérstaka heimild Alþingis til að kanna slíka möguleika, ef hún hefur trú á því að það sé skynsamlegt, eins og er ríkjandi viðhorf á þeim bæ.

Það kemur mér einnig nokkuð kynlega fyrir sjónir að sérstaklega skuli vera talað um samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild. Vísa ég þá til þess sem segir í ályktun stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf., sem verið er í raun að taka afstöðu til, niðurstaðna hennar frá því í janúar 1983, þar sem hvatt er til þess að kanna um eignaraðild innlendra aðila fleiri en ríkisins. En mér er ekki kunnugt um að eftir slíku hafi verið leitað eða könnun verið gerð á slíku, sem full ástæða væri þó til að gert verði.

Ég tel auðsætt að sú stefna núv. hæstv. ríkisstj. að leita samstarfs við útlendinga um rekstur þessa fyrirtækis hefur orðið til þess að tefja fyrir framgangi málsins til þessa. Ríkisstj. hefur ekki verið í stakk búin til að taka ákvarðandi á málinu vegna þess að hún hefur ekki leitt neitt til lykta í sambandi við þær áþreifingar sem hún stendur fyrir í sambandi við erlenda eignaraðild. Þannig er það í raun undir viðhorfum útlendinga komið, enn sem komið er, hvenær ákvörðun er tekin um framkvæmdir við þetta fyrirtæki, fyrirtæki sem að mínu mati og okkar Alþb.-manna er fyllilega á færi okkar Íslendinga að standa að óstuddir með eignaraðild og rekstur.

Ég vænti þess að sú viðleitni, sem hæstv. ríkisstj. hefur uppi í sambandi við þessi efni, leiði ekki til þess að gerðir verði samningar um eignaraðild erlendra fyrirtækja á borð við það sem við höfum reynsluna af í sambandi við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Það er skýrt dæmi um samninga sem ekki fullnægja þeim kröfum og skilyrðum sem við Alþb.-menn setjum í þessum efnum, því að þótt íslenska ríkið hafi þar meiri hluta þá hafa hinir erlendu aðilar vildarkjör og eru ráðandi um markaðsfræðslu fyrirtækisins. Sem dæmi um þau vildarkjör sem þar var samið um við samstarfsaðilann Elkem nægir að benda á, fyrir utan raforkuverðið, svo afleitur sem sá samningur er varðandi það og augljóslega á verulegu undirverði, nefni ég tæknisamninginn um það fyrirtæki, sem færir samstarfsaðilanum 3% af veltu fyrirtækisins fyrir þætti sem Íslendingar með auðveldum hætti geta komist yfir án þess að semja um það með svo fráleitum hætti eins og þessi tæknisamningur ber vott um. Ég nefni það aftur vegna þess að hér er um ekki ósvipuð fyrirtæki að umfangi að ræða og tæknin er á marga lund hin sama, þegar hefur verið tryggt með samningum um kaup á búnaði til verksmiðjunnar að við getum fengið þá tækni sem þarf, og höfum reyndar tryggt okkur aðgang að henni með þessum kaupum og þjónustu framleiðanda, og þurfum ekki á neinum slíkum tæknisamningi að halda, sérsamningi um tæknimálin. Ég tel að Íslendingar og þeir aðilar sem að Kísilmálmvinnslunni hf. hafa unnið séu þegar fullfærir og fulllæsir á þá þætti sem máli skipta um rekstur þessa fyrirtækis. Og ég vil vara við því að við falbjóðum þá þekkingu sem við nú þegar höfum öðlast við undirbúning þessa fyrirtækis þeim aðilum sem hæstv. iðnrh. er nú að láta ræða við. Ég vara við því að við gefum upp í slíkum áþreifingum vitneskju og þekkingu og áform sem geta orðið þessu fyrirtæki til skaða í framtíðinni. Við þurfum að gæta vel að okkar hagsmunum í þeim efnum.

Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja mál mitt nú þó að margt mætti um þetta segja. Ég minni á það, að bygging kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði er ekki aðeins vænlegur kostur í orkunýtingu að mati okkar Alþb.-manna, ef rétt er á málum haldið, og ég tek þar undir með stjórn fyrirtækisins, sem hefur tekið undir það mat í sínum ályktunum, heldur hefur þannig verið staðið að þessu máli að það geti verið vænlegur liður í byggðaþróun í landinu með því að velja þessu fyrirtæki stað á Austurlandi, í landsfjórðungi sem býr yfir um þriðjungi af hagkvæmasta virkjanlegu vatnsafli landsins. Eins og ég mun hafa orðað það, þegar ég mælti fyrir frv. til l. á sínum tíma um þetta fyrirtæki, þá er tími til þess kominn að nýting orkunnar hefjist í þeim landsfjórðungi þar sem svo mikla virkjanlega orku er að finna og skynsamlegt að byrja þar ekki með stóru stökki heldur með viðráðanlegu fyrirtæki einnig út frá félagslegum forsendum.

Ég vil svo að endingu hvetja núv. stjórnvöld til að reyna að ná áttum í sambandi við eignaraðildarmál þessarar verksmiðju og reyna að læra af reynslunni í þeim efnum. Ég hvet til þess að áþreifingar um aðild erlendra aðila að þessu fyrirtæki verði ekki til þess að tefja fyrir ákvörðunum um framkvæmdir við verksmiðjuna frekar en orðið er, því að hér er um fyrirtæki að ræða sem er fyllilega viðráðanlegt fyrir Íslendinga og hæfilegt viðfangsefni til að spreyta sig á sem íslenskt fyrirtæki og ástæða til þess, miðað við aðstæður og allar forsendur, að hafist verði handa fyrr en seinna.