08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5534 í B-deild Alþingistíðinda. (4792)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að virða það að stytta mál mitt. Hins vegar get ég ekki orða bundist og finn mig knúinn til að koma í ræðustól eftir að hafa heyrt ræðu hv. 11. þm. Reykv. Fullyrðingar hennar um þetta mál svo og fullyrðingar um stóriðjumál almennt gera það að verkum að ekki er hægt að láta því ómótmælt hér. Sannleikurinn er sá, að sú ræða var svo full af misskilningi, mistúlkunum og rangfærslum að ekki verður látið ómótmælt. Ég ætla að drepa á örfá atriði sem gefa tilefni til athugasemda.

Við skulum átta okkur á því fyrst hvernig stendur á að að því hefur verið stefnt í alllangan tíma hér á Íslandi að efna til orkufreks iðnaðar, að stofna iðnfyrirtæki hér á landi sem nýta mikla orku. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú, að við Íslendingar búum við mjög einhæft atvinnulíf. Við erum gríðarlega háðir innflutningi. Við Íslendingar erum sennilega háðari innflutningi en nokkur önnur þjóð á vesturhveli jarðar og til þess að geta staðið undir þeim innflutningi þurfum við að geta framleitt vörur í stórum stíl til útflutnings. Það hefur okkur tekist hingað til með fiskframleiðslu. Okkar sjávarútvegur hefur verið sú stoð sem við höfum byggt okkar útflutning á. Hins vegar er alveg ljóst að það eru miklar sveiflur í sjávarafla frá ári til árs, bæði í aflamagni og markaðir sveiflast upp og niður. Við höfum gamalt íslenskt máltæki: svipull er sjávarafli. Við Íslendingar verðum mjög áþreifanlega varir við það með vissu árabili, nokkuð reglulega. Menn hafa því verið að leita að öðrum leiðum til að geta framleitt vörur til útflutnings í stórum stíl.

Við Íslendingar erum ekki ríkir af náttúruauðæfum. Við höfum fiskinn í sjónum, en að öðru leyti eigum við ekki mikil náttúruauðæfi. Við höfum hvorki málma né hráefni eins og margar þjóðir. Við höfum að vísu mikið af góðu fólki. Við höfum mikla þekkingu innanlands, sem við eigum að sjálfsögðu að nota okkur í sem ríkustum mæli. Hins vegar eigum við eina náttúruauðlind, Íslendingar, sem við höfum verið að leitast við að nýta okkur í vaxandi mæli á undanförnum árum, og það er sú mikla orka sem felst í fallvötnum okkar og reyndar einnig í gufunni í iðrum jarðar og hinu heita vatni. Við eigum þar gríðarlega mikil auðæfi ónotuð, Íslendingar.

Það hefur verið rannsakað af okkar færustu sérfræðingum hversu mikið við getum virkjað af hagkvæmu vatnsafli og hagkvæmu gufuafli og það borið saman við hversu mikið við höfum þegar nýtt af þessu afli. Íslenskir vísindamenn telja að mjög hagkvæmt sé að virkja um 30 terawattstundir hér á landi, en ein terawattstund er um 1000 gígawattstundir. Blönduvirkjun er ca. 725 gwst., svo að ég nefni tölu til samanburðar. Við getum sem sagt með hagkvæmum hætti virkjað 30 terawattstundir eða 30 þús. gwst. í vatnsafli og við

getum með hagkvæmum hætti virkjað 20 þús. gwst. eða 20 terawattstundir í gufuafli. Það eru samtals um 50 terawattstundir sem auðvelt ætti að vera að virkja. Þá er um að ræða fjárhagslega hagkvæmar virkjanir og búið að taka fullt tillit til náttúruverndarsjónarmiða. Þá er ekki reiknað með að fara í neinar þær virkjanir sem deilur hafa staðið um undanfarin ár vegna náttúruverndarsjónarmiða. Nú þegar höfum við virkjað 4.2 terawattstundir eða um 8% af því afli sem nú rennur óbeislað og ónýtt engum til gagns til sjávar eða rýkur upp í loftið. Við höfum gert áætlanir um virkjanir, sem við teljum að sé allstór biti í háls, fram til næstu aldamóta og ætlum við að virkja nokkuð hratt og virkja stórt. Þá á ég við t. d. Fljótsdalsvirkjun, Blönduvirkjun, Sultartangavirkjun og allar þær virkjanir sem við höfum haft á teikniborðinu að undanförnu. Sú viðbót er einungis 4.3 terawattstundir. Um næstu aldamót eða þegar líður að næstu aldamótum værum við einungis búin að virkja um 15% af hagstæðu virkjanlegu afli hér á Íslandi ef þessi djarflega spá rætist.

Af þessum tölum má sjá að við höfum gríðarlega mikla möguleika fólgna í orku landsins og af þessum tölum má einnig sjá að það er fráleit staðhæfing, sem hér er haldið fram, að sala orku til stóriðju taki frá öðrum möguleikum í atvinnulífi okkar.

Þegar við erum að tala um að vera búnir að virkja 15% af vatnsafli okkar um næstu aldamót gerum við ekki ráð fyrir öðru en að hluti af því fari til stóriðju. Þvert á móti gefur stóriðjan okkur möguleika til þess að virkja í stærri skrefum, reisa tiltölulega ódýrari virkjanir en við mundum reisa einungis fyrir heimamarkað, hvort sem það er hinn almenni heimilismarkaður eða almennur iðnaður. Sannleikurinn er sá, að þó að við höldum mjög vel á spöðunum að byggja upp almennan iðnað hér á landi, sem við auðvitað eigum að gera, er ljóst að aukning orkunotkunar fyrir hvers konar almennan iðnað yrði mjög lítil samanborið við þetta og við mundum að sjálfsögðu ekki virkja nema lítið brot af því sem hér er talað um ef við ætluðum eingöngu að hugsa um heimamarkað og hinn svokallaða almenna iðnað. Þá á ég við bæði lífefnaiðnað, rafeindaiðnað og hvað annað sem tilgreint hefur verið. Ég held því að sú fullyrðing sé alveg fráleit að við séum að taka eitthvað frá öðrum hugsanlegum atvinnumöguleikum okkar með því að huga að virkjunum til stóriðju.

Það er líka röng fullyrðing, sem sett var fram, að framsæknar iðnaðarþjóðir flytji nú stóriðjuna úr landi og komi henni fyrir hjá þróunarríkjum. Ég heyri þessu stundum haldið fram og þessu var slegið fram í ræðu áðan, en þessi fullyrðing er alröng. Það þarf ekki annað en kafa örlítið ofan í þessi mál til að sjá hvað er að gerast.

Það er rétt að Japanir hafa lokað hverju stóriðjufyrirtækinu á fætur öðru hjá sér. En hvers vegna hafa Japanir gert það? Þeir hafa þraukað alveg fram á síðustu stundu og reynt að halda opnum stóriðjufyrirtækjum, eins og t. d. kísilmálmverksmiðju, en urðu að gefast upp haustið 1983. Ástæðan er gríðarlega hátt orkuverð. Þeir búa ekki að vatnsorku eins og við, heldur framleiða þeir raforku fyrst og fremst með olíu og að einhverju leyti með kolum. Fyrir liggur að rafmagnsverðið þar hefur hækkað svo gífurlega að sú vara sem þeir framleiða úr þessum verksmiðjum stenst ekki samkeppni á alþjóðamarkaði.

Svipað er að gerast í Evrópu. Að vísu er allmikið af stóriðjufyrirtækjum í Evrópu og þeim sem þar eru fyrir er haldið gangandi. Hins vegar eru ekki líkur á að í Evrópu verði byggt mikið af slíkum fyrirtækjum til viðbótar. Hugsanlega þó eitthvað í Noregi. Það er eina landið sem hefur einhverja möguleika enn.

Í Bandaríkjunum er svipaða sögu að segja, en ástæðan er sú, að þar er framleiðsla raforku orðin svo kostnaðarsöm að það er ekki hægt að reka stóriðjufyrirtæki með þeim kostum. Aukningin í Bandaríkjunum byggist fyrst og fremst á kjarnorkuknúnum raforkuverum, og reyndar að hluta til í Evrópu einnig, þar sem verðið á raforkunni er einhvers staðar upp undir 40 mill á kwst. Það er að sjálfsögðu ljóst að stóriðjan getur ekki notað sér það miðað við aðra kosti sem slík fyrirtæki eiga varðandi raforkuöflun.

Hins vegar keppa ýmsar framsæknar iðnaðarþjóðir að því að fá orkufrekan iðnað til sín. Ég vil t. d. nefna Kanadamenn. Við teljum til nokkurs skyldleika við Kanadamenn, höfum við þá tengsl eins og allir þekkja, og ég vil ekki telja Kanada þróunarríki. Þar býr rótgróin menningarþjóð með fjölþættan iðnað. En sannleikurinn er að Kanadamenn eru núna, eins og í fiskinum reyndar, okkar hörðustu keppninautar um að laða til sín fyrirtæki sem þurfa að nota mikla orku. Þeir eru mjög grimmir á þeim markaði, bjóða gull og græna skóga ef fyrirtæki vilji komi til Kanada. Það sýnir náttúrlega hversu röng sú fullyrðing er að framsæknar iðnaðarþjóðir séu að stugga orkufrekum iðnaði frá sér.

Sama gildir um Ástralíu. Ástralía er framsækin iðnaðarþjóð. Ástralíumenn gera mikið af því að reyna að laða til sín orkufrekan iðnað og eiga þeir þó ekki möguleika á jafnöruggri og jafnódýrri orku og við Íslendingar, svo að dæmi sé nefnt. Þessi fullyrðing hv. þm. er því alröng.

Ástæðan fyrir því að stóriðja er á undanhaldi í Japan, Bandaríkjunum og Evrópu er hið gríðarlega háa orkuverð og að þjóðirnar þar eru búnar að nýta upp möguleika sína til að framleiða nýja raforku með vatnsafli. Þær eru nú háðar fyrst og fremst olíurafstöðvum, kjarnorkurafstöðvum eða kolarafstöðvum sem eru miklu, miklu dýrari í rekstri. Þess vegna er þróunin nokkuð að breytast. Þetta gerir m. a. að verkum að við Íslendingar stöndum betur að vígi, að mínu mati, nú en oft áður til þess að gera hagstæða samninga um stóriðju.

Við Íslendingar eigum að hætta þeim leik að láta þau atvinnutækifæri, sem við höfum hér á landi, vinna hvert gegn öðru, eins og allt of mikið er ríkjandi í öllum málflutningi um atvinnumál hér á landi. Menn stilla því gjarnan þannig upp að þeir vilja annaðhvort landbúnað eða sjávarútveg, annaðhvort iðnað eða sjávarútveg, annaðhvort iðnað eða landbúnað, almennan iðnað eða stóriðju. Við eigum að nýta alla þessa möguleika okkar út í ystu æsar ef við ætlum okkur að búa á Íslandi við sambærileg lífskjör og nágrannaþjóðir okkar njóta. Ef við gerum það ekki er hætta á að fólksflótti bresti á hér á landi. Við verðum að nýta okkur alla þá möguleika sem við höfum, hvort sem það heitir orkufrekur iðnaður, almennur iðnaður, sjávarútvegur eða landbúnaður. En við eigum ekki að stilla upp þeim kostum sem við höfum, sem eru því miður ekki of margir, alltaf hverjum gegn öðrum.

Ég er áhugamaður um orkufrekan iðnað, en ég tel mig ekki síður vera áhugamann um að efla lífefnaiðnað á Íslandi eða efla hér rafeindaiðnað. Mér dettur ekki í hug eitt augnablik að fara að stilla þessum möguleikum upp hverjum gegn öðrum.

Það er margt sem gæti gefið tilefni til frekari aths., en ég skal verða við tilmælum forseta að stytta mál mitt. Það var spurt um það, hver væru þau fyrirtæki sem rætt hefði verið við í sambandi við kísilmálmvinnsluna á Reyðarfirði. Ég vil skýra örlítið betur hvers vegna við höfum talið að ekki væri æskilegt að gefa upp þau nöfn á þessu stigi.

Um 7–8 fyrirtæki lýstu áhuga á því að ræða frekar við þá sem að þessu starfa á vegum iðnrn. Þessi fyrirtæki voru í Bandaríkjunum, Japan og Evrópu. Sum þessara fyrirtækja hafa sjálf óskað eftir því að ekki sé upplýst að slíkar viðræður eigi sér stað. Það er einnig okkar mat, sem í þessum viðræðum stöndum að það geti skaðað viðskiptahagsmuni okkar og samningamöguleika að leggja öll spilin á borðið og upplýsa hvaða fyrirtæki það eru sem viðræður hafa átt sér stað við.

Við höfum átt um það góða samvinnu við fjölmiðla. Ég skal geta þess að ýmsir fjölmiðlar hafa óskað eftir upplýsingum. Við höfum þá skýrt fyrir þeim að við teljum það ekki heppilegt á þessu stigi að upplýsa það opinberlega. Auðvitað kemur að því fyrr en síðar að upplýsa verður hver þessi fyrirtæki séu. Ég tek það jafnframt fram að sjálfsagt er að afhenda fulltrúum þingflokka upplýsingar þessar sem trúnaðarmál og sjálfsagt er að fara ofan í það rækilega í þingnefnd, þar sem þetta mál kemur til umfjöllunar, hvaða fyrirtæki þetta eru. En ég óska þess mjög eindregið, og vænti slíks að þessum skýringum fengnum, að þm., sem auðvitað hljóta að hafa íslenska hagsmuni í huga öðru fremur, knýi okkur ekki til að gefa upplýsingar sem að okkar mati geta skaðað samningsstöðu okkar og aðstöðu alla í þessum málum.