08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5546 í B-deild Alþingistíðinda. (4798)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef hér af tilviljun undir höndum handrit að skýrslu minni um stöðu og starfsemi ríkisfyrirtækja og hlutafélaga á árinu 1983, sem tilheyra starfssviði iðnrn. og ég mun útbýta á hinu háa Alþingi innan fárra daga. Í sambandi við orð hv. 3. þm. Norðurl. e. vil ég taka fram um járnblendiverksmiðjuna að meðaltalsstarfsmannafjöldi árið 1983 var 167 manns í verksmiðjunni. Það er stór vinnustaður og það er glæsilegur vinnustaður og fyrir þá sem hafa komið þangað hlýtur það að vekja mikla athygli hversu hreinsibúnaðurinn er mikilvirkur. Þessi vinnustaður — menn sáu varla handa sinna skil ef þeir komu inn í slíka verksmiðju til að mynda í Noregi hér á árum áður — er nú með þeim hætti að allir ljúka hinu mesta lofsorði á fráganginn.

Þegar menn hafa uppi varnaðarorð vegna mengunarhættunnar eru þau orð ævinlega í tíma töluð, en miðað við þær stórstígu framfarir sem hafa orðið á því sviði held ég að menn geti látið mjög huggast. En við megum einskis láta ófreistað í því að ganga úr skugga um að við hættum engu til, að við verjum og gætum náttúru landsins og þess mikla auðs sem í henni er fólginn. Þetta á að vera mögulegt, að sigla fyrir öll sker og boða í þessu sambandi. En við þurfum að grandgæfa málin og fá allar upplýsingar sem treysta má í því efni.

Sá bati sem varð á rekstri járnblendiverksmiðjunnar árið 1983 hefur haldið áfram á árinu 1984. Fjárhagsáætlun, sem gerð var í nóv. 1983, gerði ráð fyrir tapi á árinu 1984 sem næmi um 36 millj. kr., en nú er sýnt að afkoman verður mun betri. (Gripið fram í: Norskar?) 36 millj. ísl. kr. eins og það var í nóv. — Fari svo sem nú horfir verður afkoma félagsins jákvæð nú þegar á þessum ársfjórðungi.

Þegar ég tala um birtu fram undan í rekstri þessa félags er það auðvitað afstætt þegar við höfum í huga hvernig þessi ósköp hafa gengið til allt frá upphafi reksturs verksmiðjunnar þar sem hefur legið við borð að snaraðist alveg um á fyrirtækinu og það hætti rekstri, enda hafa fyrirsvarsmenn þjóðfélagsins haft á orði að það væri næsta við að stöðva og loka.

En þannig standa sakir ekki í dag. Það hafa tekist samningar við erlenda aðila, Sumitomo í Japan, um aðild að félaginu og við höfum tryggt rekstur um ófyrirsjáanlega framtíð. Þegar menn minnast þess að fyrir þremur árum var heildarársframleiðsla þessarar nýjustu verksmiðju í heiminum 32000 tonn af kísiljárni, en nú stefnir í 58 þús. tonn hljóta menn að hafa leyfi til að kalla það glæsilegar framtíðarhorfur. Þegar menn hafa í huga að þetta fyrirtæki skilar nettó 430 millj. kr. í erlendum gjaldeyri hljóta menn að sjá að hér er verðmætt fyrirtæki á ferðinni. Það er úr sögunni allur bölmóðssöngur varðandi þetta fyrirtæki. Þess vegna er það að ég vík að þessu nú af þessu gefna tilefni frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni.

En ég vil svo ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið undir tillögugerð mína og ríkisstj. um að við fáum auknar heimildir til að hraða undirbúningi til þess að taka ákvörðun um byggingu þessarar verksmiðju á Reyðarfirði. Það er byggðajafnvægismál líka. Og það er alveg áreiðanlegt að nú þurfum við að taka til höndum í þeim efnum, ég og hv. 3. þm. Norðurl. e., því að það eru vissar blikur á lofti í byggðajafnvægismálunum okkar. Þetta er einn þáttur þess.

Ég legg líka áherslu á að ég hef ekki stórbrotnar hugmyndir um að girða þetta land hringinn í kringum með járngrýtis- eða málmgrýtisverksmiðjum. Þær eru ekki að mínum dómi stórbrotnar þær hugmyndir sem ég hef á þessari öld. Það væri kannske í hæsta lagi tvöföldun álversins í Straumsvík, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði og álverksmiðja við Eyjafjörð — að segja ef við verðum 100% vissir um að sú verksmiðja kæmi aldrei til með að spilla því dýrðarumhverfi sem við þekkjum norður þar. Það verðum við að vera ella gerum við það ekki. Við göngum úr skugga um þetta. (HG: Sagði ráðh. 100%?) Ó já, ég nefndi þá tölu — eða hefur hv. þm. aldrei heyrt minnst á það í matematík?

Ég ítreka að sú staða er nú orðin í könnunum okkar um eignaraðild og rekstur þessa fyrirtækis að nú er ástæða til þess að greikka sporið. En enn er ýmislegt ógert, enn er ýmislegt óathugað. Og Alþingi þarf ekki að kvíða því að það muni ekki geta fylgst með málum og einnegin getur það tekið í taumana ef því svo sýnist að ríkisstj. ætli að fara öðruvísi með þetta umboð sem nú er óskað eftir en því sjálfu líst.