08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5547 í B-deild Alþingistíðinda. (4800)

257. mál, fræðslukerfi og atvinnulíf

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég ásamt hv. þm. Ólafi Jóhannessyni, Jóni Sveinssyni, Ólafi Þ. Þórðarsyni, Stefáni Guðmundssyni, Guðmundi Bjarnasyni og Þórarni Sigurjónssyni flutt svohljóðandi till. til þál. um tengsl fræðslukerfis og atvinnulífs:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga hvernig unnt er að tengja fræðslukerfið, einkum Háskóla Íslands, við atvinnulíf landsmanna framar því sem nú er.“

Á fjárlögum árið 1984 er varið 2.6 milljörðum kr. til fræðslumála af 18.2 milljarða niðurstöðutölum fjárlaga. Það er því varið um 14.3% af heildarútgjöldum fjárlaga til fræðslumála á yfirstandandi ári. Þetta sýnir hve geysistór útgjaldaliður fræðslumálin eru á fjárlögunum, hve útgjöld þjóðarinnar til fræðslumála eru stór þáttur sem verður að nýta sem best, m. a. á hagnýtan hátt.

Það mætti e. t. v. orða það þannig að byltingunni í vélvæðingu sem náði hámarki eftir s. l. heimsstyrjöld sé nánast lokið og framhaldið sé öllu heldur þróun. Á síðustu áratugum hafa helstu atvinnuvegir þjóðarinnar, svo sem sjávarútvegur, landbúnaður, iðnaður, verslun og þjónusta, tekið flókna véltækni í þjónustu sína, þ. á m. margbrotnar og vandmeðfarnar tölvur, og ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun. Því er augljóst að atvinnulífið kallar í sífellt vaxandi mæli á aukna starfskunnáttu og þekkingu á því er varðar meðferð, gæslu og viðhald hinna flóknustu véla og vélbúnaðar af ýmsu tagi. Það er því eðlilegt að spurt sé: Er þjóðin nægilega vel að sér í þessum greinum? Hefur fræðslukerfið fylgt þróuninni nægilega vel eftir eða er ástæða til að endurskoða nánar tengslin milli fræðslukerfisins og þarfa atvinnulífsins? Er fræðslukerfið nægilega aðlagað brýnustu þjóðfélagsþörfum? Þessum spurningum og raunar mörgum fleirum þarf að svara.

Ef við lítum í kringum okkur og athugum helstu atvinnutæki íslensku þjóðarinnar blasir við hin flóknasta og margþættasta tækni af ýmsum gerðum. En verðmætustu atvinnutækin eru áreiðanlega fiskiskipastóllinn sem er mjög nýtískulegur þótt skipin eldist með ári hverju. Deilt er um stærð hans og mætti margt um það segja og hefur margt verið um það sagt, kannske helst til margt. Ég álít hann ekki of stóran til að hagnýta það hráefni sem hægt er að afla hér við landið ef aflinn væri fluttur í vinnslu ferskur og í fyrsta flokks standi. Það eru verulega ónýtt tækifæri í fiskveiðum og alltaf of mikil brögð að því að komið sé með lélegt hráefni að landi. En það þarf stóran og vel útbúinn fiskiskipaflota til þess að flytja hráefnið að landi þannig að hægt sé að segja að það sé í fyrsta flokks ástandi. Það ætti raunverulega ekki lengur að tengja nafnið aflakóngur við þá sem fiska flestu tonnin heldur við þá sem skila verðmætustu hráefni að landi með sem minnstum tilkostnaði.

Ákaflega mikil breyting hefur orðið á rekstri útgerðar á tiltölulega stuttum tíma. Nægir þar að nefna olíuverðshækkanirnar árin 1973 og 1979 sem hafa í raun og veru valdið nýjum viðhorfum í rekstri útgerðarinnar. Með hliðsjón af því og sífellt bættri tækni bæði til að finna fiskinn, til allra verka um borð og til að vinna hráefnið og nýta það þarf æ meiri þekkingu á meðferð hinna flóknustu tækja. Sífellt er verið að vinna að ýmsum þáttum útgerðar. Tæknideild Fiskifélags Íslands er t. d. þátttakandi í norrænu rannsóknarverkefni á sviði orkusparnaðar í fiskveiðum á vegum Norfolk sem tæknideildin er aðili að. En tæknideildin hefur ásamt Fiskveiðasjóði allar götur frá 1975 unnið að útvegun búnaðar til mælinga á olíunotkun fiskiskipa.

Á miðju ári 1976 hófust mælingar um borð í ýmsum fiskiskipum. Um seinustu áramót voru orkunotkunarmælar um borð í 268 skipum en mælarnir eru nær allir íslenskir. Talið er að notkun þessara mæla hafi sparað 3.5% af heildarnotkun almennt. Erfiðara er að segja beint til um sparnað við sjálfar veiðarnar. En til mikils er að vinna því að 1% olíusparnaður á íslenska fiskiskipaflotanum jafngildir 16 millj. kr. Margir eru þeirrar skoðunar að flest skip okkar séu mjög óhagkvæm með tilliti til orkusparnaðar. Það eru mörg atriði í gerð skipanna sem hér skipta verulegu máli. Mætti þar nefna atriði eins og t. d. perustefni, skrúfugerð og margt og margt fleira.

Hver er hlutur Háskóla Íslands og vísindamanna okkar í þessum málum um það hvernig á að gera fiskiskip nútímans? Það væri t. d. verðugt verkefni fyrir vísindamenn og fræðslukerfi að standa að hönnun fiskiskipa og vélbúnaðar sem gæti mætt kröfum nýrra tíma og nýrrar tækni þannig að hægt sé að halda úti skipum með góðum árangri.

Ef litið er til fiskvinnslunnar, sem er ein af stærstu atvinnugreinum þjóðarinnar, þá hefur tækninni fleygt fram með ótrúlegum hraða. Komnar eru til sögunnar hinar flóknustu vélar og tæki og nú seinast tölvan í öllu sínu veldi. Eins og ég sagði áður hefur verið rætt mikið um fiskiskipaflotann, stærð hans og fiskistofnanna, og að sjálfsögðu er rétt að ræða þau mál. Ég held þó að ef málin eru skoðuð af réttsýni komi í ljós að hlutur fiskiskipaflotans ásamt þeim stórstígu framförum í fiskvinnslu, sem hafa orðið á seinasta áratug, í okkar þjóðarframleiðslu, okkar þjóðartekjum, sé gífurlega stór og verulega mikill þáttur í því að á seinasta áratug, áratugnum 1970–80, jukust þjóðartekjur Íslendinga verulega umfram það sem var meðaltal efnuðustu þjóða heimsins, þ. e. þeirra þjóða sem ern aðilar að OECD eða Efnahags- og framfarastofnuninni.

Svo haldið sé áfram og komið að stjórnuninni þá hefur tæknin og tölvan leyst af hendi á fljótvirkan hátt hin ýmsu störf og skapað ný viðhorf í stjórnunarmálum. Sama má segja um landbúnaðinn eins og fiskveiðar og fiskvinnslu. Flóknar og stórvirkar vélar eru þar sífellt að koma til sögunnar og hafa margfaldað afköstin. Það þarf býsna mikla þekkingu og kunnáttu í meðferð tækja og véla til þess að búa vel nú á dögum. Ekki þarf í þessu sambandi að ræða háþróað iðntækniþjóðfélag nútímans með hinum flóknustu og fíngerðustu tækjum og tilfæringum. Það sama hefur skeð í verslun og raunar hvers konar þjónustu. Má t. d. nefna samgöngutæki, vegagerð, byggingartækni o. s. frv.

Auðvitað fer fram margþætt tilraunastarfsemi sem snertir atvinnulífið. En það er einnig þörf á að efla verkmenntun og starfskunnáttu á fleiri sviðum en þeim sem sérstaklega snerta vélabúnað og tækni. Margs konar önnur menntun og starfsþjálfun getur komið atvinnulífinu að gagni. Þ. á m. er brýnt að efla hönnunarmenningu þjóðarinnar, þjálfun sölumanna, stjórnunarfræði og fleiri greinar hagnýtrar verkmenningar og síst er að vanmeta nauðsyn skipulegrar þjálfunar starfsmanna í fyrirtækjum, enda nauðsynlegt að efla verkmennt þjóðarinnar á öllum stigum starfsskiptingar atvinnulífsins en ekki í hinum hærri þrepum einum saman. Slík rækt við almenna verkmenntun mun leiða af sér trausta verkmenningu þjóðarinnar og gera hana hæfari til stórra átaka í arðbærri framleiðslu af ýmsu tagi.

Ég tók eftir því fyrir einum 30 árum síðan þegar ég var við framhaldsnám við bandaríska háskóla að háskótarnir í Bandaríkjunum gera mjög mikið að því að hafa samvinnu við hin ýmsu fyrirtæki í atvinnulífinu um þjálfun og menntun starfsmanna. Ungir menn á uppleið í hinum ýmsu stóru fyrirtækjum eiga kost á því að sækja námskeið við háskólana til þess að fylgjast með öllum nýjungum í sínum greinum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að ein af ástæðunum fyrir því að Bandaríkin eru langsterkasta framleiðsluþjóðfélag heimsins er að þau hafa tengt fræðslukerfið, háskólana, tilraunastarfsemina o. s. frv. nánum tengslum við atvinnulífið. Sama er auðvitað að segja um margar stórþjóðir aðrar. Ég nefni þjóðir eins og t. d. Breta, Vestur-Þjóðverja og Frakka.

Þrátt fyrir þörfina á sérhæfðu námi í nútímaþjóðfétagi má ekki missa sjónar á því hlutverki skólanna að koma nemendum almennt til nokkurs þroska. Ég greindi frá því áður að kostnaður ríkisins við fræðslumálin næði 14.3% af fjárlögum. En lítum svolítið nánar á framhaldsskólastigið og reynum að gera okkur grein fyrir því hvernig það hefur þróast á undanförnum árum. Í ljós kemur að á 7. áratugnum voru útskrifaðir milli 500–600 stúdentar á hverju ári. Árið 1981 munu þeir hafa verið nálægt 1300. Stúdentar Háskóla Íslands eru nú að því er mér hefur verið tjáð 4140 talsins og stúdentar við erlenda háskóla um 2200. Það eru því nær 6500 stúdentar sem eru við nám í háskólum innanlands og utan eins og sakir standa. Árið 1983 útskrifuðust 409 kandídatar úr Háskóla Íslands.

Fyrir 1970 munu líklega hafa verið 6 skólar sem útskrifuðu stúdenta, 4 menntaskólar, Verslunarskólinn og Kennaraskólinn. Nú eru stúdentsprófsskólar taldir a. m. k. 20, líklega 9 fjölbrautaskólar, 8 menntaskólar, tveir verslunarskólar og einn einsbrautarskóli, þ. e. Kvennaskólinn í Reykjavík. En til viðbótar hafa fjölmargar skólabrautir sem liggja áleiðis upp í framhaldsstigið og eru síðan tengdar brautum stúdentsprófsskóla.

Þá hefur námið tekið miklum breytingum, t. d. stúdentsprófsnám. Í stað tveggja deilda menntaskóla liggja nú a. m. k. 25 námsbrautir til stúdentsprófs. Þá hefur bekkjakerfið verið lagt niður í mörgum skólum og áfangakerfi komið á í staðinn.

Það er dálítið athyglisvert að framhaldsskólanám er ekki samræmt í landinu og ekki liggur fyrir hvaða námsbrautir með t. d. sama nafni í tveimur skólum eru að miklu leyti með sama námsefni. Það eru á ferðinni mörg kerfi og vil ég nefna nokkur: Framhaldsskólakerfið á Norðurlandi sem er nokkuð vel samræmt og mikið og stöðugt samráð og samstarf á milli skólanna, kerfi fjölbrautaskólanna á Suðvesturlandi utan Reykjavíkur, framhaldsskólanna á Austurlandi og Menntaskólans í Hamrahlíð, kerfi Fjölbrautaskólans í Breiðholti, kerfi Menntaskólans í Reykjavík, kerfi Menntaskólans við sund og kerfi Verslunarskóla Íslands. Til viðbótar við þessi ýmsu kerfi starfa svo nokkrir litlir skólar, hver með sínu kerfi. Þar má nefna Menntaskólann í Kópavogi, á Laugarvatni, Ísafirði og fleiri.

Nú er ég ekki að tala fyrir því að allir skólar eigi að vera í sama farinu og með sama kerfi, en það gæti verið spurning hvort þetta er ekki of laust í reipunum og væri ástæða til þess að taka þessi mál til endurskoðunar. Ég hef ekki séð neins staðar á neinum stað upplýsingar um þessi skólakerfi eða námsleiðir eða hvaða efni er kennt í hverju skólakerfi. Full ástæða væri til þess að fyrir lægju upplýsingar, helst nákvæmar upplýsingar um hvernig þessi mismunandi skótakerfi eru í raun og veru. Það gæti verið, eins og ég sagði áður, þörf á því að samræma þessi kerfi að einhverju leyti frá því sem nú er.

Vegna þessara mismunandi skólakerfa er dálítið erfitt fyrir Háskólann að fylgjast með undirbúningi þeirra nemenda sem koma til náms. Framhaldsskólarnir kvarta undan lélegum undirbúningi grunnskólans. Háskólinn kvartar undan lélegum undirbúningi sumra stúdenta. Margir skólamenn álíta að auka ætti sambandið milli hinna ýmsu skólastiga þannig að t, d. Háskólinn þekkti betur til þekkingar væntanlegra nemenda.

Hinn merki skólamaður Guðmundur Arnlaugsson, fyrsti rektor Menntaskólans í Hamrahlíð, sagði efnislega í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu BHM 26. nóv. s. l. að við upphaf kennaraferils síns fyrir stríð hefðu nemendur oft brotist áfram af dugnaði og elju við erfiðar aðstæður. Hann sagði að þegar hann bæri þessa gömlu vini sína saman við slakasta hluta nemenda í seinni tíð, sem létu berast með straumnum án verulegs áhuga eða hugsunar, gæti hann ekki varist þeirri hugsun að víst væri þessu fólki hollt að ögn erfiðara væri að komast hjalla af hjalla í skólakerfinu. Hann sagði og orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held að framhaldsskólinn verði að sætta sig við að vera víður inngöngu og reyna að gera sem best við alla sem í hann koma. En ég held jafnframt að hann ætti að vera þröngur útgöngu, hann ætti að gera talsverðar kröfur til nemenda sinna og ekki hika við að láta þá hverfa úr skólanum sem ekki sinna þeim kröfum.“

Þetta er almennt um skólakerfið, engin tæmandi úttekt, það er langt frá því, en á þetta er minnst til að skýra nauðsyn á rækilegri úttekt þessara mála.

Sjálfsagt og rétt er að viðurkenna það að fræðslukerfið hefur um margt leitast við að fylgjast með tímanum og ýmislegt hefur verið og er vel gert í þessum efnum. Margir sérskólar starfa á tæknisviðum og búa nemendur undir vandasöm störf í þágu atvinnuveganna. Má þar nefna t. d. Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólann, Tækniskólann, búnaðarskólana og þar með Búnaðarháskólann á Hvanneyri, iðnskólana, Fiskvinnsluskólann og ýmsa fjölbrautaskóla með brautir á véla- og tæknisviði. Ýmiss konar námskeið fara einnig í vöxt. Útgerðartækni hefur verið kennd við Tækniskólann síðustu 6–7 árin, en annars hefur kennslu í sjávarútvegsgreinum lítið verið sinnt til þessa á æðsta stigi fræðslumála. Þó er þetta okkar þýðingarmesti atvinnuvegur.

Sama má raunar segja um iðnaðinn. Þó er ástæða til þess að geta um að verkmenntaskóli tekur til starfa á Akureyri núna í haust, en þessum skóla er ætlað að verða annar meginskólinn á framhaldsskólastigi á Akureyri auk Menntaskólans á Akureyri og taka við hlutverki Iðnskólans á Akureyri, Hússtjórnarskólans og framhaldsdeildar gagnfræðaskólans. Það mun hafa verið í lok ágústmánaðar 1981 sem þáv. menntmrh., Ingvar Gíslason, tók fyrstu skóflustunguna við fyrsta áfanga þessa skóla sem tekur til starfa núna í haust. Þessi skóli verður framhaldsskóli sem tekur við nemendum að loknu grunnskólaprófi og verður starfræktur skv. námsskrá um framhaldsskóla á Norðurlandi.

Þær námsbrautir sem helstar verða kenndar við skólann verða: heilsugæslusvið sem útskrifar sjúkraliða í samvinnu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, hússtjórnarsvið, einkum í formi námskeiða auk matvælabrauta, tæknisvið, þ. e. almennt samningsbundið iðnnám, verklegt nám í málm-, raf- og tréiðnum, framhaldsnám í vélsmíði og húsasmíði, tvö fyrstu stig vélstjóranáms, auk framangreindra deilda Tækniskóla og tækniteikningar, uppeldissvið og viðskiptasvið. Þessi skóli er hugsaður þannig að hann eigi fyrst og fremst að veita fólki starfsréttindi í atvinnulífinu. Ætlunin er að taka upp fleiri námsbrautir þegar meira húsnæði verður til staðar í skólanum. Núv. hæstv. menntmrh. gaf út heimild í nóv. s. l. til skólans um að hann mætti útskrifa þegar á fyrsta starfsári sínu stúdenta á viðskiptasviði og síðar á uppeldis- og heilbrigðissviði.

Þá er rétt að geta þess að fyrrv. menntmrh., Ingvar Gíslason, skipaði nefnd undir forustu Valdimars K. Jónssonar, prófessors, á grundvelli þáltill., sem Guðmundur Karlsson fyrrv. alþm. flutti og fékk samþykkta hér á Alþingi, um að koma á fót kennslu í sjávarútvegsgreinum við Háskóla Íslands. Þessi nefnd hefur skilað áliti og er það til umfjöllunar hjá rn., samtökum sjávarútvegsins og fleiri aðilum. Þá er rétt að geta þess einnig, að á síðasta ári var ráðinn endurmenntunarstjóri við Háskóla Íslands og hefur hann staðið fyrir endurmenntunarnámskeiðum fyrir verkfræðinga og tæknifræðinga. Iðntæknistofnun hefur einnig í undirbúningi námskeið fyrir unga menn sem gegna vandasömum störfum í iðnaði.

Það sem ég hef nú minnst á er engin tæmandi upptalning á skólastarfinu heldur er hér aðeins drepið á nokkra þætti til að skýra það mál sem ég er að tala fyrir. Núv. hæstv. menntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, lýsti því yfir þegar hún tók á s. l. ári við ráðherrastörfum að hún hefði áhuga á tengslum milli fræðslumála og atvinnulífs. Þegar í júlímánuði s. l. skipaði hún fjölmenna nefnd um tengsl atvinnulífs og skóla. Þessi till. til þál. er því ekki flutt sem gagnrýni á menntmrh. seinustu ára, sem ég hygg að allir hafi haft áhuga á þessu máli, heldur í þeim tilgangi að freista þess að Alþingi lýsi yfir vilja sínum í þessum mikilvægu málum.

Ýmsar skoðanir eru á lofti um það hvernig Alþingi skuli haga vinnubrögðum sínum. Sumir vilja að Alþingi starfi allt árið með tiltölulega stuttum hléum. Ég er í þeim hópi sem tel farsælt að Alþingi starfi frá byrjun okt. fram í byrjun maímánaðar, að sjálfsögðu með jóla- og páskaleyfum. Hins vegar vildi ég gjarnan sjá fleiri nefndir þm. starfa milli þinga, eða svokallaðar milliþinganefndir sem tíðkuðust meira hér áður fyrr. Mjög lítið hefur verið um það að settar hafi verið á fót milliþinganefndir til þess að starfa að þýðingarmiklum málum, a. m. k. nú á seinni árum. Ég er þeirrar skoðunar að þetta verkefni sé svo viðamikið og svo brýnt að vel takist til um löggjafarstarf í því að tengja saman fræðslukerfið og atvinnulífið að æskilegt væri að sett yrði á fót mþn. í þessu máli. Það er spurning hvort ætti að gera það strax eða hvort það ætti að gera t. d. á næsta þingi, t. d. í haust og nefndin starfaði svo áfram því að ekki hvarflar að mér að hægt sé að ljúka starfi af þessu tagi á stuttum tíma. Það tekur langan tíma og þarf að vanda vel til þess.

Ef nefnd yrði skipuð í málið í haust og hún starfaði svo á milli þinga eftir þingið næsta vetur gæti hún áreiðanlega hagnýtt sér það starf sem nefndin, sem er að starfa að þessum málum, skilar frá sér og gæti stuðst við þá starfsemi, en það eru fyrst og fremst sérfræðingar í skólamálum sem starfa í þeirri nefnd. Þm. gætu stuðst við það starf varðandi upplýsingaöflun og fleira sem að gagni gæti komið í sambandi við þessi mál. Ég vildi gjarnan beina því til þeirrar hv. nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi í samráði við menntmrh. hvort skynsamlegt væri að setja milliþinganefnd í þetta mál.

Ég er í dálitlum vafa um það en ég legg til að málinu verði vísað til hv. atvmn. Mér finnst það eðlilegt þar sem hér er í raun og veru um að ræða öðrum þræði mál sem mjög snertir atvinnulífið og legg til að henni verði vísað þangað.

Ég vil svo ljúka máli mínu, herra forseti, með því að ítreka og undirstrika það að ég álít að Íslendingar hafi ekki enn þá náð nándar nærri nægilegum tökum á því að tengja skóla- og fræðslukerfið við atvinnulíf landsmanna. Mér er sagt að þessarar þróunar gæti einnig talsvert víða í Evrópu. Hins vegar held ég að Ameríkumenn hafi í þessum efnum náð meiri og sterkari tökum á sínum fræðslumálum en flestar aðrar þjóðir. Það er svo allt annað mál að deila má um fræðslukerfi þeirra Ameríkumanna að ýmsu öðru leyti því að þetta er aðeins einn þáttur fræðslumálanna.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að eftir umr. verði málinu vísað til hv. atvmn.