09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5561 í B-deild Alþingistíðinda. (4816)

153. mál, höfundalög

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Það er rétt sem fram hefur komið að a. m. k. hv. 5. landsk. þm. hafði sinn fyrirvara að vissu leyti við stuðning við þetta frv. í því sambandi að þessi nýja gjaldtaka mundi ekki hækka þann varning sem um er rætt í 1. gr. frv.

Hæstv. fjmrh. hefur tjáð sín viðhorf til frv. Ég skil það afskaplega vel að e. t. v. á hann erfitt með að gefa afdráttarlausar yfirlýsingar í þessu sambandi. Þó vil ég vitna til þess bréfs sem n. barst frá fjmrn. sem er undirritað af Sigurgeiri Jónssyni og Höskuldi Jónssyni. Þar stendur á einum stað, með leyfi forseta:

„Þær till. sem nú er unnið að varðandi tollskrá o. fl. ganga í þá átt að lækka gjöld en ekki hækka á ofsköttuðum vörum. Í þriðja lagi gengur endurskoðunarstarfið út á að fækka gjaldstofnum en ekki að fjölga þeim.“ Er þá vitnað í þetta frv. og talið að verið sé að fjölga gjaldstofnum og setja þetta gjald undir sama hatt og almenna skatta. Fer ég ekki nánar út í það.

En ég vil hiklaust draga þá ályktun af þessum orðum í þessu bréfi að stefnan verði sú að lækka gjöld á þessum hátollavarningi.