09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5561 í B-deild Alþingistíðinda. (4817)

153. mál, höfundalög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður en ég held að hæstv. fjmrh. hafi misskilið það sem ég sagði og þá kannske vegna þess að ég hafi ekki talað nægilega skýrt. En ef hæstv. fjmrh. gæfi sér aðeins tíma til að hlýða á þau orð sem ég ætlaði til hans að beina þá var það meginatriði míns máls að hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir því við þá endurskoðun tollskrár, sem nú er yfirstandandi og hann hefur margoft vikið að hér í þessum ræðustóli, að tollar á þessum varningi yrðu lækkaðir. Það má vera að ég hafi ekki verið nægilega skýrmæltur en ég var ekki að krefjast þess að hann lýsti því yfir hér og nú að hann lækkaði tolla sem þessu nýja gjaldi næmi. É ýjaði hins vegar að því hvort það væri hið æskilega. Ég veit að yfir stendur endurskoðun á tollskrá og ég veit að vilji hæstv. fjmrh. stendur til þess að lækka tolla þar sem misræmi er jafnmikið og í þessu tilviki. Ég vil bara að þetta komi skýrt fram að það var eiginlega mitt meginmál að við þessa endurskoðun, sem væntanlega lýkur áður en langt um líður, verði þess gætt að tollar á þessum varningi verði lækkaðir þannig að ekki komi til þess að hann hækki í útsöluverði.