09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5564 í B-deild Alþingistíðinda. (4820)

153. mál, höfundalög

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki fara að orðlengja þessar umr. frekar, a. m. k. ekki mikið meira, en málið er að teygja anga sína út fyrir kjarnann eins og oft vill verða í umr. En það var ákveðin spurning frá hæstv. 5. landsk. þm. sem ég tel mig hafa svarað. En síðast þegar hv. þm. stóð upp fór hann að tala um tollskrá almennt og það er alveg rétt sem þar kom fram og ég hef margoft sagt hér og vil ítreka með því að lesa til hlítar það sem hér var lesið upp úr grg. eða réttara sagt minnisblaði til ráðuneytisstjóra í fjmrn. og hljóðar svo:

„Þær till. sem nú er unnið að varðandi tollskrá o. fl. ganga í þá átt að lækka gjöld en ekki hækka á ofsköttuðum vörum. Í þriðja lagi gengur endurskoðunarstarfið út á það að fækka gjaldstofnum en ekki fjölga þeim eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Af þeirri ástæðu m. a. mæli ég með því að lagst verði gegn því í núverandi mynd.“

Ég les þetta til að klára það sem á vantaði í upplestrinum áðan. Þetta er álit ráðuneytisstjóra og forstöðumanns tolladeildar í fjmrn. Ég hef ekki tekið afstöðu gegn frv. sem slíku, ég hef látið það afskiptalaust fram að þessu. En ég vil benda á að ég hef fulla heimild til þess að hafa frjálsa skoðun hvaða embætti sem ég gegni og hvort sem ég styð frv. í heild eða ekki, burtséð frá því hvort hér er um eitthvert sérstakt réttlætismál að ræða eða ekki. Það eru margir aðrir í þjóðfélaginu sem gætu kallað á sams konar réttlæti. Mér liggur við að segja það sem hvíslað var að mér áðan og mér þótti svo ágæt setning: Við konur erum ekkert að heimta jafnrétti við erum að heimta hefnd. — Þetta er í svipuðum dúr.

Fram kemur hér í 1. gr. að „greiða skal gjald af tækjum til upptöku verka á hljóð- eða myndbönd til einkanota, svo og af auðum hljóð- og myndböndum og öðrum böndum sem telja má að ætluð séu til slíkra nota“. Þetta er hugvit annarra manna en þeirra sem eiga þau verk sem tekin eru upp. Það er það sem ég er að gera athugasemd við. Þá er ég líka að gera athugasemd við það, ég er að benda á það og þá óháður hvaða embætti sem ég gegni að ég tel þetta óeðlilegt og ég er satt að segja alveg steinhissa á að það skuli koma svona út úr n. vegna þess að mér datt ekki annað í hug en að n. mundi breyta því. Það kemur fram hér:

Menntmrn. setur nánari reglur um gjaldið, þ. á m. um viðmiðun þess og fjárhæð, að höfðu samráði við heildarsamtök rétthafa svo og innflytjendur og framleiðendur.“

Það eru þessir aðilar sem eiga í samráði við menntmrn. að ákveða hvaða gjald þeir skuli fá innheimt af opinberum aðilum.